Bréfin til Boggu

Arnbjörg Guðmundsdóttir

Bréfin til Arnbjargar Guðmundsdóttur, systur Pálma og Frímanns, fundust á Fremri-Kotum í Norðurárdal þar sem hún bjó fyrst eftir að hún flutti frá Efri-Rauðalæk ásamt Valdemar H. Guðmundssyni bónda sínum. Með henni vestur fluttist Kristfinnur Guðjónsson sem hafði verið í fóstri, fyrst hjá foreldrum Arnbjargar, Steinunni Önnu og Guðmundi, en síðan hjá Arnbjörgu.

Bréfin voru skrifuð á árunum 1911-1935 og eru flest frá skyldfólki Boggu í Garðshorni, Hamri og Efstalandi. Þau eru skrifuð upp eftir ljósritum af upphaflegu bréfunum. Að sjálfsögðu eru þau misjafnlega læsileg og stafsetning með ýmsum hætti, eins og gengur á bréfum sem ekki eru öðrum ætluð en viðtakandanum. Hér hefur verið valið að nota þá stafsetningu sem nú tíðkast en að öðru leyti er málfar og setningaskipan yfirleitt látin halda sér. Á einstaka stað hefur löngum málsgreinum verið skipt upp enda voru bréfritarar ekki alltaf nákvæmir með að setja punkta og stóra stafi á eftir. Neðan­máls­greinar eru hugsaðar sem skýringar til að auðvelda þeim lesturinn sem hefur ekki lagt framanritað söguágrip og ættrakningu á minnið í smáatriðum. Þá eru í neðan­málsgreinunum einnig athugasemdir og spurningar til þeirra sem síðar meir gætu átt eftir að leggjast dýpra í grúskið en enn hefur gefist tími til. Á fáeinum stöðum hefur öðru efni verið skotið inn á milli bréfa ef það stendur í beinu samhengi við texta bréfanna.