Búrkistan hennar langömmu
Áður en Steindór föðurbróðir minn dó gaf hann mér úr búi sínu volduga búrkistu sem Steinunn langamma átti á sínum tíma. Þessi kista var lengi vel nánast það eina sem ég tengdi við nafn þessarar langömmu minnar. Ég vissi að kistan er talin vera smíðuð á árunum 1860 til 1870. Ég vissi að Steinunn langamma hafði verið gift Guðmundi Sigfússyni af Flöguselsætt og um hann vissi ég nánast ekkert. Um börn þeirra vissi ég heldur meira, einkum um afa minn Pálma. Ég vissi ekki að þau hefðu átt tvo fóstursyni, hvað þá að ég vissi nokkuð um þá.
Á þorranum 2001 gaukaði Brynja Björk Pálsdóttir, samstarfskona mín á bæjarskrifstofunum á Akureyri, að mér ljósritum af nokkrum sendibréfum sem Arnbjörg í Bólu í Blönduhlíð hafði haldið til haga og hafa varðveist hjá afkomendum hennar vestur á Fremri-Kotum. Smám saman bættust við fleiri bréf og önnur gögn úr sömu hirslum, sannkallaður fjársjóður fyrir þá sem langar til að grafast fyrir um rætur sínar. Þegar ég las þessi bréf fyrst áttaði ég mig á því að ég vissi sáralítið um líf þessa fólks og aðstæður allar. Ég tók mér það þess vegna fyrir hendur að skrifa bréfin upp og byrjaði að krota við þau skýringar sem ætlaðar eru afkomendum þessa fólks sem fluttist frá Grjótgarði á Þelamörk í Garðshorn í sömu sveit 1899 og dreifðist þaðan. Ýmsir hafa lagt mér lið með skýringar og aðrir eiga það vonandi eftir til að varpa ljósi á forfeður og frændfólk.
Bréfin til Boggu eru skrifuð á árunum 1911 til 1936 en sagan hefst auðvitað ekki þá. Sögusviðið liggur nokkuð ljóst fyrir á fremstu bæjunum á Þelamörk í Hörgárdal, þar sem Pálmi, Frímann og Arnbjörg Guðmundarbörn og Steinunnar bjuggu í Garðshorni, Hamri og Efri-Rauðalæk. Þaðan dreifðist hópurinn vestur í Fremri-Kot í Norðurárdal og Bólu í Blönduhlíð, fram í Efstaland í Öxnadal og út í Laugaland og Bryta.
Tíminn fram til 1899 þegar Guðmundur Sigfússon og Steinunn Anna Sigurðardóttir fluttu frá Grjótgarði í Garðshorn ásamt börnum sínum hafði verið í mikilli þoku fyrir okkur flestum afkomendunum af minni kynslóð fram til þessa dags. Þess vegna byrja ég á því að grafast fyrir um tildrög þess atburðar. Megináherslan er lögð á forsögu Guðmundar og Steinunnar en einnig er hugað að systkinum þeirra og afkomendum þeirra, fjölskyldum tengdabarna þeirra og fósturbarna. Óneitanlega hefur ennþá verið lögð mun meiri vinna í sumar hliðarættir en aðrar og áberandi mest í forsögu Helgu Sigríðar Gunnarsdóttur, ömmu minnar, en um föðurætt hennar og æsku vissi ég nánast ekkert áður. Minna er fjallað um líf og framættir Margrétar Egedíu Jónsdóttur, konu Frímanns, og Valdemars Guðmundssonar, manns Arnbjargar. Til eru talsverðar heimildir um ættir þeirra, annars vegar í ættarmótsriti Laugalandsættarinnar og hins vegar hafa Eiður á Þúfnavöllum og Guðmundur L. Friðfinnsson á Egilsá skrifað eitt og annað um aðstandendur Valdimars auk þess sem hér er tekið upp úr Skagfirskum æviskrám. Þá hefur Árni J. Haraldsson skrifað ágæta grein um Jón Júlíus Árnason, föður Margrétar og Kristjáns Steinstrups, sem giftust syni og sonardóttur Guðmundar og Steinunnar. Áherslan í þessari samantekt liggur hins vegar alls ekki á ættfræðinni heldur hef ég reynt að rekja sögu helstu sögupersónanna og þá hefur verið óhjákvæmilegt að horfa bæði á foreldra og afkomendur. Fyrir þá sem hafa áhuga á að sökkva sér niður í ættfræðina hef ég tekið saman drög að niðjatali Sigurðar Bárðarsonar og Arnbjargar Jónsdóttur, foreldra Steinunnar og Sigfúsar Benediktssonar og Guðrúnar Friðfinnsdóttur foreldra Guðmundar.
Gramsað hefur verið í kirkjubókum og manntölum en einnig gluggað í Vestur-íslenskar æviskrár, rit Eiðs á Þúfnavöllum, Byggðir Eyjafjarðar, Skagfirskar æviskrár, Niðjatal Jóns Einarssonar og Guðrúnar Hallgrímsdóttur frá Laugalandi og Eyfirðingabók Stefáns Aðalsteinssonar svo eitthvað sé talið. Ennfremur hefur verið leitað til fólks sem veit og man, t.d. Kristjáns Sigfússonar á Ytra-Hóli í Eyjafjarðarsveit, Steindórs Kristfinnssonar, Örlygs Kristfinnssonar, Árna J. Haraldssonar svo og til ættingjanna. Sérstaklega ber þar að nefna Hólmfríði Sigfúsdóttur í Villingadal sem fræddi mig um margt. Niðjaskrárnar eru að miklu leyti gerðar með því að hringja í ókunnugt fólk og spyrja og full ástæða er til að geta þess að mér hefur undantekningarlaust verið vel tekið og allir hafa verið boðnir og búnir til að gefa upplýsingar. Sumir eru sjálfir mikilvirkir í upplýsingaöflun eins og Valdemar S. Gunnarsson í Keflavík sem á orðið óhemjumikið efni um Kjarnaættina. Þá má ekki gleyma að geta starfsfólks Héraðsskjalasafnsins á Akureyri, Aðalbjargar Sigmarsdóttur og Láru Ágústu Ólafsdóttur sem margoft hafa fundið fyrir mig týnda þræði. En síðast og ekki síst ber að nefna aftur Brynju Björk Pálsdóttur sem kom í mínar hendur ljósritum af öllum bréfunum sem urðu tilefnið til þess að þetta hefti varð til.
Myndefni er héðan og þaðan og auðvitað einkum frá þessum ættingjum. Val og staðsetning mynda er handahófskennt og betri meðferð á því efni bíður seinni útgáfu eins og fleira. Heimildatilvísanir eru yfirleitt ónákvæmar og standast ekki ströngustu kröfur fræðanna. Ég vona hins vegar að þær dugi þeim sem vilja síðar taka upp þráðinn og halda áfram og safna í þessa búrkistu. Þar er nóg rými fyrir seinni tíma rannsóknir.
Bréfin til Boggu – Arnbjargar Guðmundsdóttur á Fremri-Kotum og Bólu – og kaflarnir um norðlensk ættmenni og aðstandendur Garðshyrninganna á fyrstu átta áratugum tuttugustu aldarinnar komu fyrst út í ljósriti vorið 2001 en í nóvember 2003 kom þetta efni út í litlu upplagi í offsetprentuðu hefti. Einhverjum árum seinna var þetta efni sett á vefinn gunnarf.is og þar hafa smám saman verið gerðar lagfæringar og leiðréttingar auk þess sem við hafa bæst kaflar um móðurætt mína á Vestfjörðum. Vefurinn var frekar frumstæður og þar var aðeins hægt að geyma efnið í pdf-skrám sem margir áttu erfitt með að opna. Nú er þetta efni allt flutt yfir á nýjan vef og hér er efnið vonandi aðgengilegra.
Í köflunum hér á eftir er sagt frá Sigfúsi Benediktssyni og Guðrúnu Friðfinnsdóttur, foreldrum Guðmundar langafa, og börnum þeirra sem þau áttu saman og hvort fyrir sig. Sagt er frá foreldrum Steinunnar langömmu, systkinum hennar og afkomendum þeirra. Steinunn og Guðmundur eignuðust þrjú börn, Pálma, Frímann og Arnbjörgu, sem öll komust upp og eignuðust afkomendur. Sagt er fá hverju þeirra systkinanna, mökum og börnum, en auk þess eru sérstakir kaflar um fóstursyni þeirra, Stefán V. Sigurjónsson og Kristfinn Guðjónsson. Dálitlu púðri er eytt á búskapinn í Garðshorni á 20. öldinni. Bréfin til Boggu eru birt í aldursröð með skýringum þar sem reynt er að gera grein fyrir fólki sem nefnt er á nafn en ekki hægt að búast við að nútímafólk átti sig á. Köflum úr heimildum héðan og þaðan, sem tengjast frásögninni, er skeytt inn á milli í samhengi við atburðarásina. Sumt er útgefið en annað verður líklega aldrei gefið út nema í þessum samtíningi.
Í nóvember 2020,
Gunnar Frímannsson
Heimildaskrá
Árni J. Haraldsson: Óvenjulegur hagleiksmaður. Súlur 1978, fyrra hefti.
Beyond the Marsh. Rit gefið út af kvenfélaginu Ísafold í Árborg, Manitoba.
Byggðir Eyjafjarðar, 1990. Ritnefnd: Guðmundur Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason og Kristján Sigfússon. Búnaðarsamband Eyjafjarðar, Akureyri.
Eiður Guðmundsson, 1983: Búskaparsaga í Skriðuhreppi forna, Ritsafn II og III. Skjaldborg, Akureyri.
Eiður Guðmundsson, 1982: Mannfellirinn mikli, Ritsafn I. Skjaldborg, Akureyri.
Gísli Ágúst Gunnarsson, 1982: Ómagar og utangarðsfólk. Sögufélag, Reykjavík.
Guðmundur G. Hagalín, 1954: Konan í dalnum og dæturnar sjö. Norðri, Akureyri.
Guðmundur L. Friðfinnsson, 1961. Sagan af bóndanum í Hrauni. Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík.
Guðmundur L. Friðfinnsson, 1884: Örlög og ævintýri I – II. Skjaldborg, Akureyri.
Hagstofa Íslands: Þjóðskrá.
Hallgrímur Hallgrímsson, 1968. Þættir úr sögu Eyjafjarðar á fyrri hluta nítjándu aldar. Eyfirðingarit I. Amtsbókasafnið á Akureyri.
Hallgrímur Jónasson: Heimur dals og heiða. Reykjavík 1973.
Hólmgeir Þorsteinsson, 1984. Eyfirskar ættir I. Sögusteinn - Bókaforlag, Reykjavík.
Hreppsbækur Glæsibæjarhrepps, Hálshrepps og Saurbæjarhrepps
Íslendingabók, www.islendingabok.is
Jón Guðmundur Hjálmarsson: Viðtal við Gunnlaug Haraldsson og Svanfríði Jakobsdóttur, tekið 1. júlí 1966.
Jón Kr. Kristjánsson, Súlur f.h. 1979.
Jón Pétursson og ??, 2001. Niðjatal Jóns Einarssonar og Guðrúnar Hallgrímsdóttur frá Laugalandi. Fjölrit, Akureyri.
Jónas Jónasson frá Hrafnagili, 1961: Íslenzkir þjóðhættir. Reykjavík, Ísafoldarprentsmiðja.
Jörgen Kröyer, 1972: Sóknarlýsing Hólssóknar í Eyjafirði. Eyfirsk fræði II. Sýslu- og sóknarlýsingar Hins íslenska bókmenntafélags. Sögufélag Eyfirðinga, Akureyri.
Kirkjubækur og sóknarmannatöl.
Kristín Sigfúsdóttir, 1949: Rit I. Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík.
Oddur Sigurðsson, 2002: Variations of termini of glaciers in Iceland in recent centuries and their connection with climate. Óbirt grein.
Skagfirskar æviskrár 1850 – 1890, 1890 – 1910 og 1910 – 1950.
Snorri Sigfússon 1968: Ferðin frá Brekku. Iðunn, Reykjavík.
Stefán Aðalsteinsson: Eyfirðingar framan Glerár og Varðgjár. Sögufélag Eyfirðinga 2019.
Steindór Pálmason: Garðshornsbærinn um og eftir 1900. Ljósrit frá Steinari Frímannssyni, einnig til í Súlum.
Valdemar S. Gunnarsson: Kjarnaætt (óprentað efni).
Vestur-íslenskar æviskrár I, II, V, 1961 - 1981. Bókaforlag Odds Björnssonar, Akureyri.
Vigfús Björnsson. 1997. Huldulandið. Kornið, Akureyri.