Sigfús Benediktsson

Sigfús Benediktsson fæddist árið 1805 á Ásgerðarstöðum en þangað fluttu Benedikt og Rósa árið 1802 úr Dúnhagakoti. Ásgerðarstaðir eru skammt norðan við Flögusel og aðeins Ásgerðarstaðasel á milli bæjanna. Sigfús var í heimahúsum til fullorðinsára en var síðan í vinnumennsku á ýmsum bæjum þar í sveit og nærsveitum. Eins og að framan segir taldi Eiður á Þúfnavöllum hann vera „þokkalega vitiborinn“ en hann fermdist þó ekki fyrr en hann var tvítugur að aldri og þá skráði sr. Gamalíel í kirkjubókina: „Ekki óskikkanlegur, málhaltur, daufur og fáfróður.“ Víðar í kirkjubókum Myrkárprestakalls fær hann ekki háar einkunnir, „fávís og líttlæs“ og annað eftir því. Fáfræði Sigfúsar og annarra, sem slíka einkunn fengu í kirkjubók, þýddi að hann kunni lítið fyrir sér í biblíusögum sem skýrist ekki síst af því að hann var illa læs eins og foreldrar hans og þau systkini hans sem ólust upp í Flöguseli. Enginn veit lengur hvernig Sigfús leit út og var í hátt og eru skrif Eiðs á Þúfnavöllum einu vísbendingarnar um það. Hann hefur sjálfsagt verið lágvaxinn og ljótur. Hitt er þó víst að kvenhylli hefur Sigfús haft í góðu meðallagi eins og eftirfarandi lýsing á æviferli hans ber með sér.

Skammt utan við Flögusel voru Ásgerðarstaðir þar sem Skáld-Rósa hafði fæðst og alist upp fyrstu árin í lok 18. aldar. Þar bjó á 3. áratug 19. aldar prestsekkjan Maddamma Rósa Þorsteinsdóttir, áður húsfreyja á Myrká, föðursystir Jónasar Hallgrímssonar skálds. Sigfús var gerðist vinnumaður hjá ekkjunni 1828, fávís en frómur en þó ekki heimskari en svo að ári síðar eignaðist hann þar fyrsta barn sitt, Jónatan Sigurjón, með Salvöru Gísladóttur (1801-1837) frá Bási sem þá var vinnukona á sama bæ. Gísli Gunnarsson, faðir Salvarar, bjó m.a. í Bási í Hörgárdal og var litlu meiri bógur en Bensi í Flöguseli að mati sr. Gamalíels á Myrká og fékk svipaðar einkunnir í kirkjubókinni. Gunnar faðir Gísla var hins vegar virtur póstur á Norðurlandi. Páll bróðir Salvarar á eftir að koma við þessa sögu síðar sem bóndi í Möðrufelli í Eyjafirði. En barn Sigfúsar og Salvarar dó mánaðargamalt og ekki varð meira úr sambandi foreldranna. Salvör, sem var allvel siðuð og gáfuð, tók síðar saman við Jón bróður hans og átti með honum þrjú börn, Jónatan f. 1833, Pál f. 1834 og Rósu f. 1835. Páll og Rósa dóu ung og Salvör lést af barnsförum 1837.

Sigfús hélt áfram í vinnumennskunni og fór frá Ásgerðarstöðum í Auðbrekku 1831 og var þar hjá sr. Árna Halldórssyni sem þjónaði þá Möðruvöllum en það var komið fram á 20. öldina þegar Möðruvallaprestar fóru að búa á staðnum. Séra Árni flutti sig út að Tjörn í Svarfaðardal 1834 og þá fór Sigfús til Odds Thorarensen læknis að Hofi í Arnarneshreppi. Sigfús hefur verið höfðingjadjarfur á þessum árum enda sagður „nokkuð lesandi“, hefur getað lært eitthvað að stauta hjá menntafólkinu. Tveimur árum eftir að hann fór í Hof var hann aftur kominn í Auðbrekku enda var þangað kominn annar Möðruvallaprestur, Vigfús Eiríksson Reykdahl, og þar eignaðist Sigfús annað barn í lausaleik og nú með Ingveldi Benjamíns­dóttur (1800-1846) en þau voru þá bæði vinnuhjú í Auðbrekku. Verður nú gerð nokkur grein fyrir foreldrum hennar og öðrum börnum þeirra því að meðal þeirra eiga afkomendur Ingveldar skyldmenni.

Ingveldur var dóttir hjónanna Benjamíns Brynjólfssonar (1766-1827) og Sigurlaugar Sigfús­dóttur (1772-1839) sem bjuggu fyrst í Miðgerði í Grýtubakkahreppi en fluttu í Ystuvík þar í sveit skömmu áður en Ingveldur fæddist 1801. Fjölskyldan fluttist inn á Djúpárbakka á Þelamörk 1814 og þaðan í Svíra í Hörgárdal 1821.

Elsta dóttir þeirra Sigurlaugar og Benjamíns, Guðrún, hafði tekið saman við Jón bónda Jónsson og flutt inn í Kræklingahlíð, bjó fyrst í Syðri-Skjaldarvík, síðan í Bandagerði 1829–1833, í Sílistaðakoti 1833–1841 og síðan aftur í Bandagerði en Guðrún dó 1842. Árið 1824 fluttu Benjamín og Sigurlaug á eftir Guðrúnu inn í Blómsturvelli í Kræklingahlíð ásamt börnum sínum Ingveldi, Jóni og Gísla en Rósa var þá flutt að heiman. Benjamín lést 1827 og árið 1833 fluttist Sigurlaug frá Blómstur­völlum vestur að Völlum á Vallhólmum í Skagafirði ásamt Jóni, Gísla og Ingveldi.

Og nú mætti ætla að út af þessu fólki hefði komið álitlegur leggur í Skagafirðinum en sú varð þó ekki raunin. Ingveldur kom aftur strax árið eftir og gerðist vinnukona í Auðbrekku og Fornhaga með fyrrgreindum afleiðingum. Jón lést 1836, vinnumaður á Völlum. Gísli náði sér í konu, Ingibjörgu Ingimundardóttur, sem var búandi á Löngumýri og þar bjuggu þau. Þau eignuðust andvana sveinbarn 1843 og 1845 dó Ingibjörg af barnsförum. Árið eftir dó Gísli, þá vinnumaður á Völlum. Sigurlaug gamla flæktist milli bæja, var á Vatnsskarði, Syðra-Skörðugili, Vind­heimum í Tungusveit, Daufá í sömu sveit og Ytra-Vallholti í Víðimýrarsókn og þar dó hún árið 1839. Ættin dó þó alls ekki út því Ingveldur eignaðist fyrrgreinda dóttur með Sigfúsi Benediktssyni en auk þess eignaðist Rósa Benjamínsdóttir 5 börn með 2 mönnum og er mikill niðjahópur frá henni kominn.

Barneign Ingveldar og Sigfúsar Benediktssonar var fyrsta og eina lausaleiks­brot hennar en annað brot Sigfúsar, eins og tíundað er í kirkjubók Möðruvalla­klausturs­prestakalls, og ekki það síðasta. Dóttirin Sigurlaug (1837-1890) (oft skrifað Sigurlög á þessum árum), alnafna ömmu sinnar, fæddist í Auðbrekku eins og áður segir. Fátækt vinnufólk hafði ekki tök á að sjá um börn sín sjálft og síst af öllu ef þau voru óskilgetin og foreldrarnir ekki í sambúð. Eftir fæðingu barnsins réði Ingveldur sig sem vinnukonu að Bryta á Þelamörk og þar var hún til ársins 1844 en það kom í hlut Sigfúsar að koma Sigurlaugu á fyrsta ári í fóstur hjá foreldrum sínum í Flöguseli, gamla Benedikt og Rósu og bræðrunum Jóni, Oddi og Friðfinni og systurinni barngóðu, Stuttu-Siggu. Oddur og Jón voru þá komnir með fjölskyldur en ekki Friðfinnur, sem þótti ekki reiða vitið í þverpokum. Hjá þessu fólki ólst Sigurlaug upp og virðist hafa dafnað vel, var jafnvel farin að stauta á sjöunda árinu þótt bóklestur hafi aldrei verið hátt skrifaður í Flöguseli og bókakostur lítill. Jóhanna, kona Odds, var þó sögð prýðilega læs og hefur getað kennt Sigurlaugu að þekkja stafina og jafnvel kveða að.

Ingveldur fór frá Bryta 1844, eins og áður segir, og giftist Ólafi Bjarnasyni, ekkjumanni og bónda á hjáleigu frá Miðlandi í Öxnadal, og tók þá Sigurlaugu til sín. Ólafur var þá nýbúinn að missa konu sína þegar hann giftist Ingveldi. Sigurlaug fékk þó ekki að vera lengi með móður sinni því að Ingveldur lést 1846. Ólafur náði sér í nýja konu strax árið eftir og eignaðist með henni stúlkubarn sem hann lét heita Sigríði Ingveldi eftir fyrri konum sínum tveimur. Ólafur hefði þó e.t.v. átt að fara hægar í sakirnar því að hann dó sjálfur ári seinna. Þegar Ingveldur dó segir kirkjubókin að Sigurlaug hafi „kveðið vel að“ en er sögð aumingi, líklega í þeirri merkingu að hún átti bágt. Vikið verður að þessum aumingjaskap hennar síðar.