Ytribúðafólkið

Ytribúðafólkið

Við nefnum fyrst til sögunnar foreldra Jónu langömmu, hjónin Jón Jónsson[1] og Margréti Jónsdóttur[2], og tölum síðan um börn þeirra, barnabörn og tengdafólk með útúrdúrum. Foreldrar Jóns, þau Jón Jónsson[3] eldri og Sesselja Kjartansdóttir[4], höfðu hafið búskap á uppeldisheimili Jóns eldra í Minnihlíð í Bolungarvík en þau fluttu úr Minnihlíð í Búðarkot eða Kot um 1855 ásamt hyski sínu. Býlið var áður hjáleiga í landi Meirihlíðar. Árið 1862 varð Búðarkot lögbýli og þá fékk jörðin nafnið Ytribúðir en á svipuðum slóðum hafði frá alda öðli verið býli með sama nafni og með sjóbúðum í túnjaðrinum en nafnið greindi sjóbúðaþyrpinguna frá annarri minni sem nefndist Heimaribúðir og en þær voru innan við Hólsána í landi höfuðbólsins Hóls. Í landi Ytribúða spruttu upp á ný í lok 19. aldar sjóbúðir, sem hétu ýmsum nöfnum, en íbúar kotanna lifðu af sjósókn en höfðu yfirleitt einhvern búfénað, t.d. geitur. Jörðin afmarkaðist af Hólsánni að innanverðu og af Holtunum að ofan- og utanverðu, reyndar var lítið kot, Árbær, á milli Hólsár og Ytribúða. Sjálfur bærinn, Ytribúðir, mun hafa staðið þar sem nú er Aðalstræti 20, næsta hús utan við elliheimilið. 

Bolungarvík séð úr Ósvör í júlí 2016. Lengst til vinstri er fjallið Tunguhorn, sem skilur milli Tungudals og Hlíðardals. Fyrir miðri mynd er Lambamúli fyrir botni Hlíðardals en hægra megin gnæfir Traðarhyrna framan í Flatafjalli – Bolafjall fjær – yfir Stigahlíð sjávarmegin. Fram úr Hlíðardal að norðanverðu (hægra megin) liggur vegurinn út í Skálavík um Heiðarskarð. Úr Tungudal (lengst til vinstri) og Syðridal (enn lengra til vinstri og sést ekki á myndinni) eru gönguleiðir yfir í Skutulsfjörð, Hnífsdal og Súgandafjörð.

Niður undir sjó voru kallaðar Malir en Malirnar hafa líklega ekki tilheyrt Ytribúðum heldur Meirihlíð sem hirti lendingargjöld af þeim sem nýttu fjöruna framundan Mölunum. Innan við Hólsá voru Grundir, þar sem Heimaribúðir voru áður, og síðan var Sandur á milli Grunda og Óssins. Þessi síðastnefndu örnefni koma lítið við þessa sögu.

Það getur valdið misskilningi að nafnið Ytribúðir er í heimildum ýmist notað um upphaflega býlið, sem áður hét Kot, eða um sjóbúðirnar sem urðu til á jörðinni. Í manntalinu 1880 hefur Jón Jónsson yngri titilinn „húsbóndi, bóndi“ en þrír aðrir karlar til heimilis á Ytribúðum eru titlaðir húsbændur. Í manntali 1890 er Jón einn bóndi á Ytribúðum en þar eru þá tveir húsmenn. En í manntali 1901 er aðeins einn húsbóndi á Ytribúðum en ljóst er að í landi Ytribúða eru þá margar sjóbúðir, sem eru nefndar svo, en íbúarnir eru gjarnan skráðir „Guðmundur Steinsson Ytribúðum“ o.s.frv. en heimilið „Sjóbúð“.

Í Ytribúðir kom Margrét Jónsdóttir norðan úr Jökulfjörðum sem vinnukona til Jóns og Sesselju og Jón yngri var aðeins 17 ára þegar fyrsta barn þeirra Margrétar fæddist, hún þá 31 árs. Jón og Margrét eignuðust 5 börn sem öll komust upp, Ingimund[5], Sigurð[6], Jónu[7], Vigdísi Steinunni[8] og Kristínu Guðríði[9] en auk þess eignaðist Jón soninn Ágúst Guðbjörn[10] með Elísabetu Guðmundsdóttur[11] frá Meira­hrauni í Skálavík eftir lát Margrétar. Jón og Margrét bjuggu lengst af í Ytribúðum en fluttu út í Breiðaból í Skálavík fljótt upp úr 1890. Þá var farið að þrengjast um þau í Ytribúðum og farið að leggja túnið undir sjóbúðir. Jón var bóndi en ekki sjó­maður og þurfti tún og engi til heyskapar en það fékk hann á Breiðabóli. Þar bjuggu þau í Neðribæ, einu af 5 býlum sem þá voru á Breiðabóls­jörðinni. Um tíma voru kotin á Breiðabóli sjö.

Bolungarvík séð af Bolafjalli. Nokkur örnefni sem koma við sögu hafa verið merkt inn á myndina. Bæirnir Meirihlíð og Minnihlíð eru utan myndar, framar í hlíðinni. Býlin Tröð og Ytribúðir eru ekki lengur til.

Þess má geta hér að Ingibjörg, amma Jóns, og Árni, langafi hans, bjuggu á Breiðabóli þegar manntalið var tekið 1816 en forfeður þeirra höfðu áður átt Breiðaból og öll byggð ból í Skálavík og Bolungarvík nema Hrappstaði í Skálavík og Gil í Syðridal í Bolungarvík, báðar jarðirnar landlitlar.

Á Breiðabóli lést Margrét árið 1900 en Jón lifði lengur, síðustu árin orðinn blindur af gláku. Undir lokin bjó hann hjá Ingimundi syni sínum, fyrst í Bolungarvík en síðan tók Ingimundur við jarðarparti föður síns á Breiðabóli en bjó þar aðeins skamman tíma (1913-1917). Kirkjubókum ber ekki saman um síðustu daga Jóns, ein segir hann hafa verið niðursetningur á Hóli í Bolungarvík, þegar hann lést 1914, en önnur að hann hafi það ár verið hjá Ingimundi á Breiðabóli.

Sigurður, næstelsti sonur Jóns á Breiðabóli, drukknaði 17. nóvember 1894, 26 ára gamall. Sigurður var þá formaður á bát sem fórst með 5 manna áhöfn úti á víkinni. Tvö skip höfðu róið frá Bolungarvík kvöldið áður. Um nóttina skall á norðaustan stórhríð með miklum sjógangi. Öðru skipinu stjórnaði Sumarliði Magnússon. Hann fór frá miklu af lóðum sínum ódregnum og tókst að lenda í Ósvör, heilu og höldnu. Talið var að skip Sigurðar hefði farist á víkinni. 

Þegar birti um morguninn fannst skipið, sem var fimm manna far, í ósi Hólsár, mölbrotið. Lík tveggja skipverja sáust í brimgarðinum en ekki tókst að ná þeim.

Skömmu eftir þetta slys voru settar reglur um róðrartíma frá Bolungarvík. Þá var bannað að hefja róður fyrr en kl. 3 að nóttu að vetrarlagi. Sigurður mun hafa farið á sjóinn óvenju snemma í þetta sinn, kallaði menn til að beita kl. 23.30. Sannanir voru taldar fyrir því að hann hefði lagt og dregið lóðirnar[12].

Á bátnum með Sigurði fórst Bjarni Þorláksson[13] mágur hans, 33ja ára, sem var giftur Jónu dóttur Jóns á Breiðabóli og systur Sigurðar. Þau Bjarni og Jóna voru húshjón hjá Kristjáni Halldórssyni formanni á Ytribúðum í Bolungarvík þegar Bjarni drukknaði. Íslendingabók segir hann hafa verið bónda á Ytribúðum en varla hefur það verið nema að nafninu til. Hugsanlega hafa Bjarni og Jóna tekið við búskap gamla Jóns og Margrétar, þegar þau fluttu út í Skálavík, en Bjarni hefur þurft að stunda sjósókn til að afla þeim tekna, svo landlítil sem Ytribúðajörðin hefur þá verið orðin, en þau hafa síðan séð sér hag í því að eftirláta öðrum búskapinn og búa sjálf í einni sjóbúðinni. Líklegra er þó að hér sé einfaldlega um missögn að ræða í Íslendingabók, Bjarni hafi verið húsmaður og húsbóndi í einni sjóbúðinni á Ytribúðum.

 

[1] Jón Jónsson f. 17. 8. 1849, d. 13. 12. 1914
[2] Margrét Jónsdóttir f. 21. 3. 1835 í Hlöðuvík, d. 29. 3. 1900
[3] Jón Jónsson f. 18. 4. 1813 á Breiðabóli, d. 9. 3. 1874
[4] Sesselja Kjartansdóttir f. 24. 7. 1820, d. 12. 1. 1891
[5] Ingimundur Jónsson f. 12. 9. 1866, d. 13. 1. 1936
[6] Sigurður Jónsson f. 6. 7. 1868, d. 17. 11. 1894
[7] Jóna Jónsdóttir f. 13. 7. 1870, d. 14. 4. 1905
[8] Vigdís Steinunn Jónsdóttir f. 24. 12. 1875, d. 27. 2. 1935
[9] Kristín Guðríður Jónsdóttir f. 30. 11. 1878, d. 26. 12. 1966
[10] Ágúst Guðbjörn Jónsson f. 28. 9. 1901, d. 21. 7. 1983
[11] Elísabet Guðmundsdóttir 20. 8. 1872, d. 23. 5. 1963
[12] Eyjólfur Jónsson: Vestfirskir slysadagar 1880 – 1940, fyrra bindi bls. 200 - 201
[13] Bjarni Þorláksson f. 16. 6. 1861, d. 17. 11. 1894