Um Kanasjónvarpið
Nú birtir yfir landi og bráðum vetur flýr
með bættum þjóðarhögum er risinn siður nýr
nú hættum við við bíóferð og búða- og göturáp
og björgum okkar menningu við imbakassagláp.
Við eigum hér svo dásamlegan amerískan her
(sem ýmsir eru reyndar á móti, því er ver)
og því getum við allar stundir unað við það glöð
að öðlast nýja menningu frá þeirra sjónvarpsstöð.
Og skítt með þessar sögur um Skarphéðin og Njál
og Skarðsbók sem er rituð á úrelt tungumál
og af því að hann Leibbi, sem Ameríku fann,
og aftur týndi henni, þá líka skítt með hann.
Já, góðir Íslendingar, við eigum gæði flest,
everybody come on and let us go to west.
Við þurfum ekki að óttast um íslenskt þjóðerni
við eigum bara að fóðra það á dátasjónvarpi.
(Febrúar 1966)