Margrét Þorláksdóttir[1]
var næstelst barna Þorláks og Þórunnar. Hún var með foreldrum sínum fyrstu árin en þau voru þó ekki alltaf saman á heimili til að byrja með eins og fyrr segir. Þannig var Þórunn t.d. með Margréti á Ísafirði árið 1870 á meðan Þorlákur var með Bjarna í Svalvogum. Árið 1880 voru þau Bjarni bæði hjá foreldrum sínum á Ísafirði en Mikael, Ólafi og Þorbjörgu hafði öllum verið komið í fóstur. Á fullorðinsárum mun Margrét hafa verið vinnukona á ýmsum heimilum á Ísafirði og í nágrannabyggðum. Hún eignaðist dóttur með Kristjáni Hjálmarssyni[2] sem nefnd var Júlíana[3]. Kristján var einn þeirra sem komu sunnan úr Dölum í atvinnuleit norður að Djúpi á þessum tíma, hann var ógiftur og lést fáum árum eftir að barnið fæddist.
Júlíana ólst upp sem niðursetningur hjá Andrési Jóhannessyni og seinni konu hans, Þorbjörgu Ólafsdóttur, sem bjuggu á Blámýrum og síðar Ögurnesi inni í Ögursveit en Andrés var sonur Guðfinnu systur Jóhannesar Andréssonar á Hjöllum sem Friðgerður Hafliðadóttir, systir Þórunnar, giftist fyrst. Guðfinna bjó áratugum saman á Blámýrum á seinni hluta 19. aldar. Júlíana giftist Kristni Sigurðssyni[4] sem hafði alist upp hjá vandalausum í Stykkishólmi. Elsta dóttir þeirra var Kristín Hólmfríður[5], kona Guðlaugs Þorvaldssonar háskólarektors, forsetaframbjóðanda og ríkissáttasemjara.
Önnur dóttir þeirra var Ólöf Erla[6], kona Jóhannesar Arnar Óskarssonar, sonar Óskars og Laufeyjar í Garðastræti 43 sem Jóna B. Bjarnadóttir var hjá lengst af eftir að hún flutti til Reykjavíkur. Jóna og Ólöf voru því þremenningar. Auk þessara dætra áttu Júlíana og Kristinn dóttur[7] og son[8].
[1] Margrét Bárðlína Þorláksdóttir f. 7. 4. 1866, d. 20. 6. 1930
[2] Kristján Hjálmarsson f. 23. 5. 1864, d. 14. 3. 1905
[3] Júlíana Kristjánsdóttir f. 1. 7. 1900, d. 14. 9. 1989
[4] Kristinn Ágúst Sigurðsson f. 20. 8. 1898, d. 1. 1. 1964
[5] Kristín Hólmfríður Kristinsdóttir f. 28. 5. 1928, d. 10. 11. 2002
[6] Ólöf Erla Kristinsdóttir f. 27. 8. 1935, d. 9. 1. 2009
[7] Ester Matthildur Kristinsdóttir f. 22. 2. 1932, d. 1. 1. 1964
[8] Kristinn Bernhard Kristinsson f. 26. 3. 1938