Húsið í skóginum 2017

Húsið í skóginum 2017

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Það voraði snemma, hýr og hlý
Hörgárdal augum barði
maísólin gul og gegnum ský
og glugga í undrun starði
á hugsuði þungum þönkum í,
þeir mundu fyrr en varði
talsvert rökfastir taka á því
hvar tól yrðu hirt í Garði

því þeim sem um ljóra leit þar inn
var ljóst eitthvað þyrfti að gera,
fann ei pláss fyrir fótinn sinn,
freistaðist úti að vera.
Vélsög, loftpressa, langborð stinn
um lerkikubbana svera,
um gólfskák var allur andskotinn
endilanga og þvera.

Mörg fór hugsun í kolli á kreik
og kunnátta, allur skalinn.
Hver lausn var skoðuð, blá og bleik,
sú besta nú skyldi valin.
Ungir sem gamlir áttu leik,
atkvæði síðan talin.
Tillaga samþykkt, telgd í eik,
um tækjageymslu í dalinn.

Mjög skyldi vandað til mála nú
að mörgu þurfti að hyggja.
Fjárhagsáætlun firnatrú
fyrir varð öllu að liggja.
Í hönnun skyldi sjá heila brú,
hún mátti engan styggja,
af öllum hluthöfum samþykkt sú.
Svo mátti fara að byggja.

Staðarvalsnefndin stofnuð var
stað fyrir hús að finna.
Starf hennar engan ávöxt bar,
ákvörðun varð því hinna
sem einhvern morgun mættu þar
og merktu í rjóður pinna,
útlínur niður njörvaðar.
Nú mátti fara að vinna.

Efni var keypt og út í sveit
í úrhellisregni dregið.
Síðar það vermdi sólin heit
svo það varð þurrt sem heyið,
unaður þeim sem á það leit
olíuborið og þvegið.
Áhugasöm var Garðshornsgeit,
gat að þeim kúnstum hlegið.

Margt heljarmenni með haka og pál
holum á einu bretti
fjórum talsins sem fjaðurstál
af fósturjörð vorri létti.
Eins og handléki nunna nál
nautsterkur gróðursetti
rafvirkinn staura er stóðust mál,
með steinum svo af þá rétti.

Um hásumardaga hlé var gert
en hliðgrindarband var slitið
ellegar það var illa hert,
eins hvernig það er litið:
Fimmhundruð kinda fjárbú sterkt
fékk því í hólfi bitið,
gat þó lúpínu lítið skert
en legið, troðið og skitið.

Ekki gekk berjavertíð vel,
vonbrigðum miklum olli,
vantaði ærleg vetrarél,
varla fékkst hálfur bolli
en lerkið skreið áfram yfir mel,
upp skaut ný fura kolli
og spörfuglsungarnir skriðu úr skel,
skemmtu sér börn í polli.

Körlum sem þurftu hvíld að fá
kannski fannst súrt í brotið
eftir mánuðinn engan sjá
árangurs hafa notið.
Fegnir hvíldinni fóru á stjá,
fram á Mörk var nú þotið.
Hornstaurar fjórir höfðu þá
herlegir rótum skotið.

Óðar en varði upp reis hús
á þeim stólpunum vænu.
Var margur smiður vinnufús
und verkastjórninni kænu.
Tæknigarði var bætt til bús,
brúnum, fer vel með grænu,
hýst getur núna mann og mús,
þar má jafnvel ala hænu.

Í Garði var lagað gólf og bætt,
grábrúnar flísar settar
á álagsfleti svo á þeim stætt
yrði ef meyjar þéttar
og feitir karlar þar færu um gætt,
fúgaðar vel og sléttar,
þola að gjörvöll Garðshornsætt
gangi sem naut um stéttar.

Parket á gólf var lagt af list,
listar þó ennþá bíða.
Nú er þeim inni vænleg vist
sem vilja í ból þar skríða.
Á dýnum uppi fólk getur gist,
gikt látið úr sér líða.
Garðshornsættin þar getur hist,
glaðst yfir svipnum fríða.

Stiginn loks uppreist æru fékk
og nú til himins bendir.
Engum til gagns hann áður hékk,
nú upp til náttstaðar sendir
gest sem leitar að svefni í sekk
sínum og þar í lendir.
Allir þar vilja upp á dekk
ófullir jafnt sem kenndir.

Svefnloftið virkar, vel á minnt,
víst má þar ríkja friður,
en heitt er uppi ef af kappi er kynt
kamínan, því er miður.
Slysavörnum þar vel er sinnt,
velti svo enginn niður.
Handriðið trausta, hart og stinnt,
hannaði Óli smiður.

Nú er þagnaður hamra her,
heyrist ei rafstöð gella.
Tómlegt í Horni orðið er,
aspirnar laufið fella.
Fáa gesti að Garði ber,
grautur ei heyrist vella.
Sumri hallar og hausta fer,
hurðum í lás má skella.