Um Skarphéðin og Pálínu

Um Skarphéðin og Pálínu

Skarphéðinn og Pálína eignuðust fimm börn en eitt þeirra, Magnús Skarp­héðinn (1903-1904), lést í frumbernsku og Sigmundur Viktor (1898-1918) varð aðeins tvítugur. Hin börnin voru Petrína Sigrún, sem fyrr er nefnd, Sigurjón (1901-1972), tók síðar nafnið Sigurjón Svanberg, og Bergþóra (1910-1992). Skarphéðinn og Pálína voru fyrst í hús­mennsku í Hagakoti þar sem fyrsta barnið fæddist og á Laugabóli voru þau 1893-1898. 

Tveir afkomendur Skarphéðins og Petrínu í bæjartóttunum í Efstadal, Jón Ólafur Skarphéðinsson og Gunnar Frímannsson (sá þriðji á myndinni er blendingur af öðrum ættum). Í baksýn er fjallið sem Skarphéðinn fylgdi Önnu yfir þegar hún heimsótti Friðgerði systur sína í Botni.

Þar höfðu Skarphéðinn og Pálína Petrínu dóttur sína hjá sér en auk þess Karítas dóttur Skarphéðins og Petrínu, fyrri konu hans. Sóknarmannatal Ögurkirkju segir reyndar að Friðgerður Skarphéðinsdóttir hafi verið hjá þeim líka á Laugabóli en það getur varla staðist því að sóknarmannatal Vatnsfjarðarsóknar segir Friðgerði hafa verið á Látrum hjá afa sínum 1891 til 1896 og síðan í Botni í Mjóafirði til 1903.

Árið 1898 fluttu Skarphéðinn og Pálína með stúlkurnar tvær í Efstadal í Laugardal, afdal á heiðinni milli Mjóa­fjarðar og Skötu­fjarðar, „fremsta bæ í Laugar­dal, að vestan, örlitlu framar en Eiríksstaðir, [sem eru] austanvert í dalnum. Efstidalur liggur hæst yfir sjávarmál allra bæja á Vestfjarða­kjálkanum. Þar bjó lengi fyrir aldamótin Guðmundur Egilsson. ... Kona hans var Margrét Jónsdóttir. ... Þau eignuðust 19 börn og komust flest eða öll þeirra á legg. ... Elstur þeirra systkina var Magnús, lengi bóndi að Kleifum í Skötufirði“. Þessa Magnúsar (1869-1934) er getið hér sérstak­lega því að Bjarna Bjarnasyni, síðar eiginmanni Friðgerðar Skarphéðinsdóttur, var komið í fóstur til hans og Kristínar Þóru Einarsdóttur (1872-1959) konu hans þegar móðir hans féll frá og hjá þeim á Gili í Bolungar­­vík var Bjarni í a.m.k. 6 ár en vildi sem minnst um vistina þar tala, sagði þó að Kristín hefði verið góð við sig.

Á Garðstöðum þar sem Skarphéðinn ólst upp hafði verið tvíbýlt um tíma þegar hér var komið sögu og bjó Jón sonur Garðstaðahjónanna Einars og Karítasar á móti eldri hjón­unum. Eigendur Garð­staða áttu einnig hálfa jörðina Efsta­dal í Laugardal og ekki er vafi á því að í því skjóli fékk Skarp­héðinn þá jörð til ábúðar þegar hún losnaði úr ábúð 1898 og þar bjuggu þau Pálína í 6 ár. Bóndinn á Garð­stöðum nytjaði hluta af Efsta­dal, heyjaði þar og setti hey í hlöðu. Voru lömb frá Garðstöðum alin þar en Efstdælingar hirtu sem skýrir furðu­margar og nokkuð stórar útihúsatóttir í Efstadal. Hluti heyjanna var fluttur á hestum í Garðstaði, þriggja til fjögurra tíma lestaferð, og voru farnar tvær ferðir yfir daginn með lánshesta úr Laugar­dal og víðar. Baðstofa var og betri í Efstadal en annar­staðar í Laugar­­dal um þessar mundir. Hafði Guðmundur forveri Skarphéðins bætt bæjar­hús þar vel „í samlögum við Garð­staða­­bónda“.

Skömmu eftir að Skarphéðinn og Pálína fluttu í Efstadal veiktist hún, hugsan­lega í tengslum við fæðingu Sigmundar Viktors í maí. Talað hefur verið um að Pálína hafi veikst á geði og þá er nærtækt fyrir leikmann að giska á fæðingarþunglyndi því að geðveiki virðist ekki hafa hrjáð Pálínu þegar frá leið. En sumarið sem þau Skarphéðinn fluttu í Efstadal sótti Skarphéðinn Önnu 10 ára í Laugaland því að þá vantaði húshjálp og barn­fóstru fyrir börn þeirra Pálínu en Karítas var aðeins 8 ára. Þarna í Efstadal bjuggu þau þegar þær tvíbura­systurnar, Anna og Friðgerður, hittust í fyrsta skipti 12 ára gamlar. Þá gekk Skarp­héðinn með Önnu áleiðist yfir í Botn og á fjalls­brúninni yfir Mjóafirði benti hann henni á leiðina ofan að bænum, sagði henni að fara í Heydal og biðja um fylgd yfir ána en síðan gat hún gengið inn í Botn. Þegar þær systur höfðu hist – og fer ekki sögum af þeim fundi – fylgdi Guðmundur bóndi í Botni Önnu áleiðist til Efstadals aftur. Síðan sáust þær systur líklega ekki aftur fyrr en þær voru báðar komnar til Bolungar­víkur árið 1912. Þær gætu þó vel hafa hist þegar Friðgerður var í Bolungarvík 1908 og 1909 en Anna hjá föður sínum í Skötufirði og á Ísafirði.

„Fyrstu búskaparár Skarphéðins í Efstadal voru vetur fannasamir og voraði seint. Galt Skarphéðinn þess sem ýmsir aðrir. Skarphéðinn var verkmaður góður bæði við landbúnaðarstörf og sjósókn, fjörmaður, léttur í lund og skrafhreyfinn. Hafði jafnan sögur á reiðum höndum um framferði náungans í ýmsum efnum og fréttir úr öllum áttum. Ekki voru sögur hans allar teknar sem ábyggi­legar heim­ildir en skemmtu kunn­ingjum hans oft vel enda fylgdi þeim einatt léttur hlátur“ (Kristján Jónsson frá Garðstöðum: „Svip­myndir af búendum í Ögursveit um aldamótin 1900“ í Árbók Sögu­félags Ísfirðinga, 1956. Aðrar beinar tilvitnanir í þessum kafla eru fengnar úr þessari grein).

Veggir úr gömlu hlöðnu bátaskýli á Gunnarseyri þar sem Skarphéðinn og Pálína stofnuðu nýbýli úr landi Eyrar. Á myndinni eru Philippe Ricart og Jóhanna Hálfdánsdóttir dótturdóttir Önnu Skarphéðinsdóttur. Vatnsfallið í hlíðinni handan Skötufjarðar heitir einfaldlega Fossar.

Skarphéðinn og Pálína bjuggu víða eftir að þau fluttu úr Efstadal 1904. Það ár voru þau á Eyri í Skötufirði, í Garði 1905 en næstu ár í Hvítanesi eða til 1909. Þá tóku þau sér bólfestu á Gunnars­eyri, spölkorn fyrir utan túnið á Eyri, og þar byggði Magnús Guð­munds­son (1869-1959) (ekki frá Efstadal) handa honum lítið timburhús. Sagan segir að það hafi hann gert að launum fyrir Karítas dóttur Skarp­héðins, trúi hver sem vill. Eflaust gerði Magnús þetta af greiðasemi við tengdaföður sinn, hvernig svo sem greiðslum fyrir verkið hefur verið háttað. Á Gunnars­eyri standa eftir veggir af bátaskýli niðri við sjóinn en stæði íbúðarhússins er horfið undir þjóðveginn. Þarna bjó Skarphéðinn til 1914 en þá fluttu Karítas og Magnús í kofann á Gunnars­eyri en Skarphéðinn flutti í Hnífsdal.

Karítas var hjá föður sínum nánast samfellt til 14 ára aldurs en þá hófust ótrúlegir búferlaflutningar hennar sem stóðu meirihluta ævinnar. Hún var hjá föður sínum og stjúpu í Efstadal 1904 og á Eyri ásamt þeim það ár en fór síðan að Markeyri 1905, þaðan í Kleifar 1906 og þvínæst í Skarð þar sem þau Magnús hófu sambúð í húsmennsku 1907, Karítas tæpra 18 ára þegar þau giftust. 

Árið eftir voru þau á Eyri, aftur á Skarði 1909-1910 og 1911 í Hvítanesi. Árið 1913 voru þau komin í Kálfavík og loks á Gunnarseyri 1914 eins og áður segir. Þar voru þau aðeins 1 eða 2 ár og árið 1916 var húsið var rifið og endurbyggt á Hrafna­björgum í Laugardal og Gunnarseyri ekki lengur til í sóknarmannatali.

Skarphéðinn og Pálína fluttu hinsvegar í Fell í Hnífsdal 1914 þar sem Skarp­héðinn stundaði sjómennsku og á þeim árum setti hann saman einu vísuna sem hann sagðist hafa ort um ævina, sjálfsagt á landleið úr róðri á árabát:

Skarfa- fyrir -skerið nú við skundum hraðir.
Örvalundar allir glaðir,
einn er margra barna faðir.

Frá Hnífsdal fluttu Skarphéðinn og Pálína til Reykjavíkur þar sem hann vann „á Eyrinni“ en líklega eitthvað líka hjá Jóni beyki, hálfbróður sínum, sem þau Pálína bjuggu hjá ásamt börnum sínum, Sigurjóni og Bergþóru og líklega Sigmundi þangað til hann féll frá. Skarphéðinn fór aftur vestur eftir að Pálína lést á gamlársdag 1924 og var hjá Petrínu, dóttur sinni og seinni manni hennar, Magnúsi Péturs­syni, sem bjuggu á Kleifum í Seyðisfirði 1926-1931. Eftir það var hann að mestu hjá elstu dætrum sínum, nokkra mánuði hjá Friðgerði í Meirahrauni í Skála­vík og síðan hjá Önnu í Bolungarvík en fór suður á milli á vegum Sigurjóns sonar síns. Hann var hjá Friðgerði í Bolungarvík þegar hún lést 1943 en dó sjálfur hjá Karítas dóttur sinni á Brunna­stöðum á Vatnsleysu­strönd 1947. Hann var jarð­settur í Hólavallagarði við Suðurgötu (L-0415) við hlið Sigmundar sonar síns sem lést úr spönsku veikinni 1918 og í þeim garði, en alveg hinum megin í garðinum, var Pálína einnig grafin (D-4-0005).