Hafliði Sæmundur Bjarnason

Hafliði Sæmundur Bjarnason[1]

var skírður eftir tveimur ungum mönnum sem fórust á bát frá Skálavík er þeir ætluðu inn á Langadalsströnd að sækja fé. Hét annar Hafliði Ingimundur Ólafsson frá Meirahrauni í Skálavík en hinn Sæmundur Jóhannsson úr Fljótum í Skagafirði[2]. Hafliði ólst upp hjá Jóni afa sínum á Breiðabóli eftir að faðir hans fórst eins og sagt er frá í kaflanum um Ytribúða­fólkið.

 

Skálavík séð að norðan 2016 frá Minnibakka. Neyðarskýlið Ásgerðarbúð er tiltölulega nýlegt fyrirbæri, byggt af slysavarnarkonum en viðhaldið af Hálfdan Einarssyni, sonum hans og fjölskyldum þeirra. Skýlið er kennt við Ásgerði S. Hauksdóttur í Bolungarvík, konu Jóns Friðgeirs Einarssonar, en hún beitti sér fyrir byggingu skýlisins. Bjarni Bjarnason fékk ásamt tveimur öðrum viðurkenningu fyrir björgun úr þýskum togara sem strandaði þarna í fjörunni 9. október 1924. Þá bjuggu Bjarni og Friðgerður í Grundarbænum.

Á öndverðri 19. öldinni voru tvö bú á Breiðabóli en þegar leið á öldina fjölgaði býlunum og um 1890 voru þau fimm. Árið 1910 voru 7 býli á Breiða­bóli: Blómsturvellir, Neðribær þar sem Jón og Hafliði áttu heima og líklega einnig Kristín dóttir Jóns, Skemmubær, Hólbær, Móhús, Hærri­bær og Arahús en þau síðast­nefndu stóðu fremst, fjarst sjónum. Í Hærri­bæ bjuggu hjónin Sig­urður Guð­munds­­son og Jóhanna Hálf­danar­dóttir ásamt fimm börn­um sínum, hún dóttir sveitarhöfðingjans Hálfdanar Örnólfssonar í Meiri­­hlíð í Bolungar­vík, en í Arahúsi bjuggu gömul hjón.

Veturinn 1909-1910 var með snjó­þyngstu vetrum þar ytra og 1. mars féll snjóflóð á fremstu þrjá bæina. Hafliði Bjarna­son var staddur í Skemmubænum kvöldið sem snjóflóðið féll, 17 ára gamall, því að hann leitaði eftir félagsskap sona Guðmundar Þorgilssonar og Sigurlaugar Hjaltadóttur þótt þeir væru yngri, þeirra á meðal var Þorgils sem kemur síðar lítillega við sögu í kaflanum um Sigurð Jónsson, son Jóns á Breiðabóli. En Hafliði fór ásamt Guðmundi bónda í Skemmubæ og bjargaði fjölskyldunni í Móhúsum úr rústunum sem voru í jaðri flóðsins. 

Hafliði fór síðan að athuga um Hærribæ og Arahús en sá að bæirnir voru horfnir en vegna veðurs var beðið til morguns með að huga betur að þeim. Morguninn eftir var enn vonskuveður og þá fór Hafliði ásamt þeim fáu mönnum, sem færir voru um það á staðnum, að reyna að grafa í rústum húsanna en flestir verkfærir menn í Skálavík voru á þessum tíma við róðra inni í Bolungarvík. 

Þegar jafnóðum skefldi í þær geilar sem grafnar voru í rústirnar ákvað Hafliði að brjótast inn í Bolungarvík og sækja hjálp þó að litlar líkur væru taldar til að nokkur leyndist á lífi í rústunum. Þangað fór Hafliði við annan mann, fáum árum eldri, Kristján Árnason, og náði þangað seint um kvöldið eftir 7 tíma ferð sem venjulega er aðeins tveggja tíma gangur. Þeir börðu að dyrum í Meirihlíð. Hálfdan hreppstjóri, faðir Jóhönnu í Hærribæ, atyrti Hafliða fyrir að vera að flækjast í þessu veðri en Hafliði á að hafa svarað: „Við erum ekkert að flækjast en hún dóttir þín er dauð með börnin undir snjóflóði úti í Skálavík.“ Hafliði og félagi hans sváfu þar í Bolungarvík yfir blánóttina en í býti morguninn eftir fóru þeir ásamt flokki manna út í Skálavík og grófu þar úr rústunum Jóhönnu Hálfdanardóttur, sem var lifandi ásamt fjórum börnum sínum, en bóndi hennar og yngsta barnið fórust. Þar höfðu þau verið í 40 klukkustundir. Í Arabæ létust bæði gömlu hjónin.

 

Skálavík séð sunnan frá í júlí 2016. Handan Stigans, lengst til vinstri, er Stigahlíð sem nær innundir Bolungarvík. Snjóflóðið kom úr gilinu fram úr Breiðabólsskálinni ofan við Breiðaból en klofnaði um hól sem er ofan við húsið.

Hafliða og Kristjáni voru veitt verðlaun fyrir björgunina, gullúr og 50 krónur í peningum. Frá þessum atburðum segir nánar í grein eftir Halldór Kristjánsson frá Kirkjubóli sem birtist í Sunnudagsblaði Tímans 1966 á bls. 300-306.

Hafliði var nokkur ár í Bolungarvík eftir að afi hans dó og áður en hann hóf að læra sútaraiðn en til þess fór hann til Reykjavíkur þar sem hann ílentist og stundaði iðn sína sem sútunarmeistari. Hann var einnig lengi dyravörður í Iðnó en kona hans og hennar fólk kom mjög við sögu Leikfélags Reykjavíkur. Hann var kjörinn heiðursfélagi Leikfélagsins árið 1967. Brynjólfur Jóhannesson leikari skrifaði minningargrein um Hafliða í leikskrá Leikfélagsins þar sem hann segir m.a.:

„Þann 24. október 1924 byrjaði Hafliði að vinna hjá Leikfélagi Reykjavíkur sem leiksviðs- og leiktjaldamaður og vann þau störf í fjöldamörg ár. Sama dag lék ég mitt fyrsta hlutverk hjá L.R. og vorum við Hafliði því samferða í starfi á vegum félagsins í 45 ár á liðnu hausti.

 

Ég á aðeins góðar minningar frá því samstarfi, aldrei bar skugga þar á því Hafliði átti einstaklega ljúfa og glaða lund, var framúrskarandi samviskusamur við sitt verk, hvort sem það var í sal eða á senu. Aldrei lét hann sig vanta til vinnu og alltaf var hann mættur á vinnustað hálftíma eða jafnvel klukkutíma áður en nauðsyn krafði. – Hann lét aldrei hjá líða að koma í búningsherbergi leikara áður en sýning hófst til að spjalla við þá um daginn og veginn. – Öllum þótti vænt um Hafliða, hann var vinur okkar allra og heiðursfélagi í Leikfélagi Reykjavíkur.

Hafliði Bjarnason

Hafliði var hraustmenni mikið, kjarkmaður og dugmikill til allra verka. Ungur stundaði hann sveitavinnu en síðar sjómennsku, fyrst á árabátum, var nokkur ár í siglingum með Norðmönnum víða um heim og kunni því frá mörgu og skemmtilegu að segja.“[3]

Hafliði kvæntist Sigríði Bachmann Jónsdóttur[4] frá Steinsholti í Leirársókn, inn af Leirárvogi norðan við Akrafjall, en Jón Bachmann Jósefsson faðir hennar var einn þeirra sem kom sunnan úr Borgarfirði á þessum árum í atvinnuleit, bjó á öðrum áratug aldarinnar með konu sinni og dóttur í Bolungarvík en flutti svo til Reykjavíkur. Hallfríður, móðir Sigríðar, var lærð ljósmóðir og kenndi dóttur sinni handbrögðin en Sigríður hafði ekki heilsu til að leggja á sig þær vökur sem fylgdu ljósmóðurstarfinu þannig að hún sinnti því ekki mikið. Sigríður starfaði mikið fyrir Leikfélag Reykjavíkur eins og Hafliði og fleira af hennar fólki en hún var föðursystir Helgu Bachmann leikkonu og leikstjóra.

Hafliði og Sigríður eign­uðust tvo syni, Egil og Halldór, en fyrir hjónaband hafði Sigríður eignast Lilju Sigríði[5] sem Hafliði ættleiddi. Lilja giftist Ragnari Kærnested Magnús­syni stýrimanni sem fórst með Goðafossi 1944. Lilja var þá ófrísk og eignaðist Ragnar, síðar flugvirkja, fimm mánuðum eftir að Ragnar fórst.

 

Við fráfall Ragnars flutti Lilja með drenginn inn á heimili foreldra sinna á Grettisgötu þannig að Ragnar yngri var alinn upp hjá afa sínum og ömmu. Eftir að Lilja giftist Jóni S. Elíassyni verslunarstjóra og stofnaði eigið heimili í Eskihlíð fengu Hafliði og Sigríður herbergi á heimili þeirra og bjuggu þar. Eftir lát Jóns bjó Lilja með Óttari Októssyni verslunarmanni.

Hafliði Bjarnason 75 ára

Lilja vann mestan hluta starfsævi sinnar við verslunar­störf en starfaði einnig sem hönnuður. Hún var mjög listræn og vann árum saman við að sauma út í flíkur fyrir fyrirtæki í Reykjavík, vann m.a. fyrir fyrirtæki sem hét Feldurinn.

Egill Bachmann[6] hóf nám í rafvirkjun en lauk því ekki. Hann var stundum titlaður skreytingameistari og þótti listrænn þúsund­þjalasmiður. Hann var vínhneygður sem spillti mjög samskiptum hans við hans nánustu eins og oft vill verða um slíka menn. Hann eignaðist fyrst dótturina Ástríði Johnsen[7] danskennara sem var ættleidd og er skráð þannig í Íslendingabók. Ástríður var gift Sigvalda danskennara Þorgilssyni en býr nú á Akureyri. Egill giftist Guðrúnu Ragnarsdóttur[8] og átti með henni Sigríði Bachmann[9] ljósmyndara, Rögnu Bachmann[10] líkamsræktarþjálfara, hómópata (nálastungur) og leiðsögumann og Einar Bachmann[11] sem hefur starfað við bílaviðgerðir. Einar eignaðist Rán Bachmann með Rut Bergsteinsdóttur.

Sigríður eignaðist dótturina Guðrúnu Lindu með Valbirni Þorlákssyni frjálsíþrótta­manni. Sigríður og Ragna bjuggu báðar um tíma í Afríku, báðar í Zimbabwe og Ragna einnig um árabil í Suður-Afríku. 

Eins og fram kemur í inngangi áttu bæði Barna-Beta og Jóna Jónsdóttir börn með mörgum mönnum. Þrjátíu og sjö ára gömul hafði Ragna að eigin sögn „slitið sex samböndum, þar af þremur hjónaböndum“ og hafði þá engan veginn bitið úr nálinni. Börn hennar eru Ingifríður Ragna Skúladóttir, Egill Anton Gústafsson og Hrund Ósk Árnadóttir.

Árið 2000 kom út bókin Úr sól og eldi – leiðin frá Kamp Knox – saga Rögnu Bachmann eftir Oddnýju Jónsdóttur Sen um viðburðaríkt líf hennar.

Hinn sonur Hafliða, Halldór Jón Bachmann[12], var vélvirki sem lærði hjá Vélsmiðjunni Héðni og starfaði þar í tólf ár að loknu námi 1952. Frá 1964 vann hann hjá Ljósvirki hf við Bolholt þar til hann stofnaði fyrirtækið Töflur sf 1975 með Hannesi Sigurðssyni rafvirkja, vini sínum sem var einn eigenda Ljósvirkis, og starfaði við það til haustsins 1986 er fyrirtækið var selt. Þá réðst hann til starfa sem húsvörður hjá Landsbanka Íslands að Laugavegi 7 og vann þar í nokkra mánuði þar til heilsan brast upp úr áramótum 1987. Hann lést úr krabbameini 6. mars það ár.

Hafliði S. Bjarnason, Egill, Lilja, Halldór og Sigríður Bachmann

„Halldór var mikill hagleiksmaður og lék allt í höndum hans. Hann var greiðvikinn og bóngóður og vildi leysa allra vanda sem til hans leituðu. Hann var mikill áhugamaður um íþróttir og á yngri árum stundaði hann knattspyrnu, sund og sundknattleik. Einnig var hann um langt skeið dómari í knattspyrnu. Á seinni árum kynnist hann golfíþróttinni sem tók hug hans allan. Alls staðar sýndi hann sama brennandi áhugann og eljuna. Halldór vann mikið og fórnfúst starf að æskulýðs- og félagsmálum hjá sundfélaginu Ægi, var lengi í stjórn þess og formaður um árabil. Hann var þannig skapi farinn að öllum leið vel í návist hans og sóttust eftir félagsskap við hann. Hann var mjög fundvís á hinar jákvæðu og broslegu hliðar lífsins og setti sig aldrei úr færi að lífga upp á samferðamenn sína með lífsgleði og léttum húmor.“[13].

Lilja Bachmann Hafliðadóttir

Halldór giftist Auði Einarsdóttur[14] sem var heimavinnandi meðan börnin voru ung en starfaði frá 1970 hjá Pöntunarfélagi lögreglumanna sem Þórunn systir hennar rak ásamt manni sínum. Síðan vann hún sem deildarstjóri hjá Rauða krossinum í Reykjavík á áttunda áratugnum en 1980 stofnaði hún barnafata- og garnverslunina Snotru í Álfheimunum ásamt Þórunni systur sinni og ráku þær verslunina fram til 1990. Þá seldu þær verslunina en hún vann síðan í Virku í u.þ.b. tvö ár þar til starfsævi hennar lauk.

Halldór og Auður áttu Huldu, Lilju og Hafliða.

Hulda[15] er tækniteiknari og starfaði sem slíkur um tíma en vann síðan við ýmis skrifstofustörf á Verkfræðistofu Jóhanns Indriðasonar ehf, Iðntæknistofnun og í Straumi-Burðarási til starfsloka 2010. Hún er gift Eiríki Þorsteinssyni trétækni, sem er fasteigna- og gæðastjóri hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, en þau reka einnig eigið fyrirtæki, Trétækniráðgjöf slf., sem er ráðgjafarfyrirtæki um allt sem viðkemur timbri og timburvinnslu. Þau eiga tvö börn, Halldór og Elsu, og fjögur barnabörn.

Lilja[16] er textílhönnuður og gift Hartmut Veigele verkfræðingi. Þau búa í Þýskalandi og hafa einnig búið í Argentínu og Guatemala. Þau eiga tvo syni, Peter Hartmut og Felix Halldór.

Halldór Hafliðason

Hafliði[17] er íþróttafræðingur, lærði í Bandaríkjunum og er forstöðumaður Vestur­bæjar­laugar. Kona hans er Guðfinna Hauksdóttir sem starfar hjá Wise í Borgartúni. Þau eiga tvær dætur, Auði Guðríði og Eygló Hildi.

 

[1] Hafliði Sæmundur Bjarnason f. 9. 10. 1892, d. 11. 3. 1970
[2] Eyjólfur Jónsson: Vestfirskir slysadagar 1880 – 1940, fyrsta bindi bls. 173
[3] 6. leikskrá Leikfélags Reykjavíkur 1969 – 1970, Það er kominn gestur.
[4] Sigríður Bachmann Jónsdóttir f. 23. 8. 1891, d. 9. 12. 1972.
[5] Lilja Sigríður (Guttormsdóttir) Hafliðadóttir Kærnested f. 6. 12. 1917, d. 9. 11. 2006
[6] Egill Bachmann Hafliðason f. 15. 4. 1923, d. 16. 9. 1988
[7] Ástríður Johnsen (Egilsdóttir) f. 28. 1. 1945
[8] Guðrún Ragnarsdóttir f. 9. 5. 1926, d. 20. 6. 2013
[9] Sigríður Bachmann Egilsdóttir f. 12. 4. 1946
[10] Ragna Bachmann Egilsdóttir f. 27. 1. 1952
[11] Einar Bachmann Egilsson f. 15. 8. 1961
[12] Halldór Jón Bachmann Hafliðason f. 16. 4. 1928, d. 6. 3. 1987
[13] Rúnar Guðmundsson: Minningargrein í Mbl. 17. 3. 1987
[14] Auður Einarsdóttir f. 10. 11. 1929, d. 26. 1. 2012
[15] Hulda Halldórsdóttir f. 15. 7. 1949
[16] Lilja Halldórsdóttir f. 10. 1. 1953
[17] Hafliði Halldórsson f. 23. 10. 1960