Húsið í skóginum 2014

Húsið í skóginum 2014

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þelamörk bjóst í besta skart
í blíðsumarsgolu varmri
en fannir leysti úr fjöllum vart,
fylgdu ekki venju rammri.
Guðmundur bóndi bú sitt snart
bauð upp með forsjá skammri.
Af sviptingum þessum séð var margt
í sjónaukanum á Hamri.

Á Steindórsbletti loks hlánar hlað,
höfuðsmiðs brúnast skallinn.
Í framkvæmdasögu brotnar blað
er birtist hann, aðalkallinn,
og gefur í skyn að nú eigi að
upphefja tóninn fallinn.
Framkvæmdir aftur fóru af stað.
Fyrst skyldi smíða pallinn.

Sjá mátti kominn hug í hal
hnífa og sög að skerpa.
Mátti nú brátt sjá mannaval,
mikil var sveina snerpa.
Höggin ómuðu um Hörgárdal.
Svo hljóðnuðu slögin gerpa
og lokað var fyrir tímatal.
Tittlingur þurfti að verpa.

Líkt og gerst hafði önnur ár
allmargar vikur liðu
meðan smiðurinn fjarska fár
og framkvæmdir allar biðu.
Í eggjaframleiðslu allt gekk skár,
ungar úr hreiðri skriðu,
við þeim tók geimur himinhár
en hjónin þau aftur fóru að huga að því að nýta aðstöðuna, nú fyrir annan ungahóp.

Allt var nú komið upp á bak,
eitthvað varð þá að gera.
Bundinn var endi á kel og klak,
komið með rafstöð svera,
forðum sem reyndist fyrirtak,
fyrir gekk sögin þvera.
Klæddur í skyndi kassi á þak
kominn til þess að vera.

Gegnumborað var gráleitt ál
svo gengi í það að reka
næsta harðsnúið naglastál
niður í byrðisfleka.
Upp það fór, það var ekkert mál
öflugra vinnudreka.
Meður kostgæfni negld hver nál.
Nú ætti varla að leka.

Mænirinn klæddur áli er
eins og var tíðkað löngum.
Skorsteinninn vel við skálann fer
og skreytir hann eftir föngum
hár í lofti og sýndarsver,
svolítið grár í vöngum,
upp úr kamínu kolreyk ber.
Nú komið var fram að göngum.

Eins og jafnan á ári seint
atburðir vondir gerast.
Ef lengi hefur á limi reynt
að lokum þá beinin þverast.
Svo fór nú bæði ljóst og leynt
að leggbeinið gaf sig sverast
hans sem verklokin hafði treint
til haustsins, það opinberast.

Áunnist hefur ýmislegt
annað en kofinn góði.
Hræið sem flesta hafði svekkt
hylur nú jarðargróði.
Vatnsbólið ekki lengur lekt,
lagður marmaraslóði,
en hliðgrindin lipra, hún er skekkt,
heldur þó gripastóði.

Í Garðshornshorni er hús nú reist,
hýsa mun dætur og syni
ættar sem hefur ekkert breyst
frá eðlu Flöguselskyni[1].
Ósamþykkt teikning er, þú veist,
í öryggis- hreinu -skyni[2].
Smiðurinn margoft meir fékk leyst
með sínum Jósavini[3].

 

[1] Þ.e. líkist ættforeldrunum í Flöguseli
[2] Hér er vísað til þess að jafnan er best að teikna hús eftirá ef tryggt á að vera að teikningin sé rétt.
[3] Jósavin byggingafulltrúi er af Flöguselsætt

Ó, hversu glæst er húsið hátt
sem harðlokað vorsins bíður!
Byrgt fyrir alla glugga og gátt,
nú geysa má bylur stríður
uns söngfugla ber úr suðurátt
sunnanvindurinn þýður.
Ættarhátíðin hefst nú brátt,
hlakkar til Garðshornslýður.