Önnur úthýsi
Nú hefur verið lýst helstu peningshúsum og skemmum, sem sýnilegar voru á árunum 1940-1990, en hér á eftir verður reynt að gera grein fyrir öðrum mannvirkjum sem vitað er um. Á meðfylgjandi loftmynd hafa verið merkt önnur hús en þau sem að framan er getið.
Myndin sýnir bæjarhúsin í Garðshorni eins og þau eru 2019 þar sem bæst hafa við ný fjárhúshlaða (a) og fjárhús (b) úr búskapartíð Guðmundar og Sóleyjar auk reiðskemmu (c) Agnars og Birnu. Myndin sýnir að sjálfsögðu ekki hvernig nýting gömlu húsanna hefur breyst en fjósið hefur ekki verið notað sem slíkt eftir 1980 og er nú ásamt fjóshlöðunni notað sem hesthús. Auk þess má benda á að efst á gamla túninu framan við bæinn er nú komið reiðgerði. Fyllt hefur verið upp í farveg bæjarlækjarins að sunnan, sem á sínum tíma var veitt heim undir hús til að bera burt frárennsli frá íbúðarhúsinu og kæla mjólk, og hann fellur nú í skurði spölkorn sunnan við bæinn.
En hugum nú að eldri mannvistarleifum og mannvirkjum í nágrenni bæjarins.
- Fyrst ber að nefna rafstöðvarhúsið sunnan og ofan við íbúðarhúsið, hlaðið úr múrsteini 1947 þegar rafstöðin var tekin í notkun. Þarna var hverfill sem knúði fjögurra kílóvatta jafnstraumsrafal. Indriði Helgason í Electro Co. – Indriði í Kóinu – sá um að setja rafstöðina upp og leggja lagnir um íbúðarhús og útihús í blýköplum. Líklega hefur Haraldur Guðmundsson frá Karlsá, oft nefndur Edison vegna meintrar snilli sinnar, unnið mest við uppsetninguna en viðhaldi á rafalnum sinnti Steindór Kristfinnsson rafvélavirkjameistari á Akureyri. Hann var sonur áðurnefnds Kristfinns ljósmyndara og var í fóstri í Garðshorni sem barn.
2. Vatnið sem knúði rafstöðina var leitt norður með fjallsgirðingunni í handgröfnum skurði úr lindum sunnan og ofan við Háumóa og í svokallaðan damm (2) eða uppistöðulón uppi á Enghólnum. Dammurinn átti að jafna rennslið til rafstöðvarinnar en var of lítill til að þjóna því hlutverki vel. Hann safnaði í sig sandi og öðrum jarðvegi og á fárra ára fresti þurfti að moka upp úr honum. Vatnið til rafstöðvarinnar var tekið í gegnum inntaksrist í damminum og leitt í trépípu niður í hverfilinn í rafstöðvarhúsinu. Nokkuð var um truflanir á rennslinu á veturna, í vondum veðrum stíflaðist ristin af krapi sem þurfti að hreinsa burt til að fá ljós í húsin.
3. Neysluvatn var framan af leitt úr brunni (3) sem grafinn var niður framan í hallinu ofan við bæinn en síðar var vatnið tekið suður og upp í hólum. Um tíma fékk Hamar vatn úr því vatnsbóli en nú fá Hamarshúsin vatn úr borholum.
4. Utan og ofan við gömlu fjárhúshlöðuna, út undir Garðshornslæknum eða Ytrilæknum, stóðu lengi fjárhús (4) með hlöðu, allt byggt úr torfi og grjóti. Þessir kofar voru aðeins notaðir sem geymslur í minni tíð, þar voru m.a. bensíntunnur. Sumardrengir tóku sig til, einhvern tíma á búskaparárum Sigurðar Frímannssonar, og tóku tappann úr einni tunnunni en þeirri góðu skemmtun lauk með því að húsin brunnu. Drengirnir sluppu ómeiddir sem má teljast heppni.
5. Út við Ytrilækinn, norðan við fjárhúsin, var Reykkofinn, steinsteyptur kofi, lítill, þar sem reykt var kjöt við tað en þó oftar svörð (mó) úr svarðargröfum sunnan við tún. Þar fengust 4-5 skóflustungur af sverði sem stunginn var upp, hnausarnir klofnir í 4-5 sm þykkar sneiðar sem voru þurrkaðar og fluttar heim í Reykkofa í pokum.
Bak við Reykkofann var niðurgrafið jarðhýsi sem hugsanlega var ætlað undir heimabrugg sem var í tísku fyrr á árum. Garðshornshjónin voru engir áhugamenn um áfengisneyslu og líklega átti það sinn þátt í að jarðhýsið gegndi aldrei ætlunarhlutverki sínu.
Á milli reykkofans og fjárhússins var áður dálítill hóll sem var sundurgrafinn í kanínuholum. Kanínur voru aldar í Garðshorni frá því fyrir stríð eftir að Ulrichhjónin á Ytri-Bægisá eða Húsá gáfu Helgu ömmu stofn að kanínubúi og kenndu henni að matreiða þær. Frá þessu segir í kafla um Garðshornsfólkið í skrifum mínum um föðurættina (gunnarf.is/files/).
6. Út og niður í gamla túnfætinum í Garðshorni stóð lengi hesthúskofi með hlöðu. Hann hefur verið jafnaður við jörðu um 1950.
7. Loftmynd sem til er frá breska hernum frá árinu 1945 bendir til að annað útihús, líklega fjárhús, hafi staðið skammt fyrir ofan hesthúsið. Hinsvegar gætu önnur peningshús í Garðshorni að hafa staðið á svipuðum slóðum og fjárhús og hlöður standa nú.
Myndin af manni á hesti er ekki mjög skýr en líklega stendur Steindór Pálmason bak við hestinn og líklega er mannvirkið á bak við hest og mann hesthúsið sem hvarf um 1950 og til hægri er fjárhús á bak við upphlaðið hey.
Myndin af bílnum er hinsvegar skýr og þó að hún eigi fyrst og fremst að vera af bíl Reynis Kristjánssonar í hlaðinu á Garðshorni, komnum til að flytja Helgu og Pálma þaðan til Akureyrar í septemberlok 1947, þá sýnir hún eitt og annað merkilegt í bakgrunni. Hlanddælan bak við bílinn prýðir margar myndir sem teknar voru framan við bæinn. Næst sjást útihús, líklega fjárhúsin sem hafa verið jöfnuð við jörðu á allra næstu árum. Þvínæst er bensíntunna í hlaðvarpanum sem hefur séð Farmall A fyrir lífsviðurværi. Öllu nær sést hálfur fiskasteinninn sem notaður var til að berja harðfisk en bak við hann sést í horn á hesthúsinu sem stóð nokkrum árum lengur en fjárhúsin.
Hér getur verið við hæfi að hafa nokkur orð um loftmyndina frá 1945. Fyrir utan byggingarnar má greina þar með góðum vilja bæjarlækinn sunnan við bæ og farveg hans niður í skurðinn meðfram heimreiðinni. Þar má líka sjá skurðinn neðan við elsta túnið neðan við bæinn en aðrir skurðir sem nú eru fyrir neðan hann eru ekki komnir enda var svokallaður flói niður undir merkjum að Hamri, einkum þegar nálgaðist merkin að Rauðalæk.
Þar var rist torf og borið upp á þurrt því að ófært var á Farmall um flóann vegna bleytu. Á veturna bólgnaði þar svell sem gaman var að leika sér á á sleðum. Á sumrin sátu þar stundum álftir.
Sunnan við heimreiðarskurðinn var greinilega búið að rækta talsverðan hluta af því sem alltaf var kallað „nýræktin suður og niður“. Líklega er búið að grafa skurð austan við nýræktina en hann hefur síðar verið dýpkaður með vél. Steindórsbletturinn er ekki kominn til sögunnar en Steindór var þó á þessum tíma byrjaður að planta birki, greni og víði í afgirtan reit sunnan við sumarhúsið sem nú hefur risið. Vísast má greina reitinn á myndinni. Sjá má holbekktan lækinn sem rann lengi gegnum nýræktina og niður í merkjaskurðinn að Hamri og á myndinni sést að Þorleifur á Hamri hefur verið búinn að rækta nýræktarskikann upp að merkjunum, sunnan við Dýhólinn, en nýræktin hans nær á þessum tíma ekki suður að merkjum að Bægisá eins og síðar varð. Þorleifur flutti hey af þessari nýrækt á hestvagni jafnvel eftir að Farmall Cub kom til sögunnar á þeim bæ um miðjan 6. áratuginn.