Um fósturbörn og ómaga

Um fósturbörn og ómaga
í Skriðuhreppi og Saurbæjarhreppi á árunum 1850 til 1880

Inngangur

Öll höfum við fordóma vegna þess að fordómar byggjast á vanþekkingu og það er ekki hægt að vita allt. Algengustu og hættulegustu fordómar okkar nútímafólks eru um fólk sem er öðruvísi en fólk er flest eða fólkið sem við þekkjum best. Þetta eru fordómar gagnvart innflytjendum, múslimum, samkynhneigðum, öryrkjum og öðrum minnihlutahópum í samfélagi okkar. Besta leiðin til að losna við fordóma er að afla sér vitneskju um þá sem við fordæmum. Sjálfur hef ég vitað um fordóma mína gagnvart niðursetningum eða sveitarómögum fyrri tíma þó að ég kannist ekki við að hafa nokkurn tíma fundið fyrir andúð á þeim. Afi minn í móðurætt og amma í föðurætt voru sveitarómagar, ég kynntist báðum og þótti vænt um þau. Ég hef hinsvegar gert mér þá mynd af sveitarómögum að þeir hafi verið börn af fátækum heimilum sem urðu gjaldþrota. Til að bjarga lífi þeirra voru börnin boðin upp – eða niður eins og sumir segja – á árlegum fundum bænda í sveitarfélaginu – hreppaskil voru þeir fundir kallaðir í minni sveit. Sá bóndi fékk barnið inn á heimili sitt sem bauðst til að taka það að sér fyrir lægsta gjaldið. Fyrir vikið gátu börnin átt von á að vera hjá einum bónda þetta árið en öðrum það næsta, allt eftir því hvernig stóð á hjá hverjum bónda. Meðferðin á niðursetningunum var ill, börnin fengu lakari aðbúnað en önnur börn og heimilisfólkið sýndi þeim almennt litla alúð, þau voru snemma látin þræla, þau fengu síður kennslu en önnur börn og þau áttu litla framtíð fyrir sér. Þau voru baggar á samfélaginu. „Allir voru mér góðir, einkanlega hundarnir,“ er titill á ritgerð Gísla Ágústs Gunnlaugssonar sem lýsir betur en mörg orð viðhorfi fólks til niðursetninga fyrri tíma[1]. En var virkilega farið svona með börn?

Ég get gefið skýringu á fordómum mínum varðandi niðursetninga. Árið 1887 fluttist Haraldur Sigurðsson, langömmubróðir minn, vestan úr Skagafirði í Kræklingahlíðina þar sem hann bjó með Helgu konu sinni á Blómsturvöllum, Þinghóli og Sólborgarhóli áður en hann „fór á sveitina“ og var sendur heim í fæðingarsveit sína, Saurbæjarhrepp. Þar voru sum börn þeirra alin upp á sveitarframfæri. Ingibjörg dóttir þeirra (f. 1883) var í Melgerði í þrjú ár og síðan í Torfufelli í sjö ár eða fram að fermingu og loks í Samkomugerði áður en hún flutti til Akureyrar. Hreppsbókin segir að 35 krónur hafi verið boðnar fyrir að hafa Gunnlaug Haraldsson (f. 1884) á Jórunnarstöðum og árið eftir voru boðnar 19 kr. fyrir að hafa hann á Skáldstöðum. Engu að síður var hann fóstraður hjá Hólmfríði föðursystur sinni í Þormóðsstaðaseli í a.m.k. sex ár en þau Kristján bóndi hennar hafa þá orðið að ganga inn í tilboð bændanna á þessum bæjum til að fá að hafa hann. Egill Hólm Haraldsson (f. 1886) fór fyrst til barnlausra hjóna í Hólakoti og hjá þeim var hann næstu árin og síðan á Vatnsenda fjögur ár. Eftir það hraktist hann milli bæja eftir því hver bauð minnst fyrir að hafa hann. Eggert í Samkomugerði bauðst til að taka hann fyrir 40 kr. og árið eftir bauðst Þórður á Tjörnum til að taka hann með 15 kr. meðlagi en Sigurður í Gerði bauð 10 kr. Engu að síður fór Egill í Hólakot en ekki Samkomugerði og að Gilsbakka árið eftir, þaðan að Miklagarði, þá í Miðhús árið eftir og loks að Möðrufelli en þar var hann á árunum 1901-1907, kominn yfir fermingu. Yngri börn Haralds ólust upp hjá foreldrum sínum sem voru í húsmennsku hér og þar áður en öll fjölskyldan flutti til Kanada. Vitneskja mín um þennan þvæling á elstu börnunum í Saurbæjarhreppi kom inn hjá mér þeirri hugmynd að meiri þvælingur hefði verið á niðursetningum í Saurbæjarhreppi en í heimabyggð minni. Þess vegna datt mér í hug að skoða meðferð á niðursetningum í Glæsibæjarhreppi en komst að því að verulegar gloppur voru í hreppsbækur þaðan en hinsvegar voru hreppsbækur Skriðuhrepps heillegri. Þess vegna var Skriðuhreppur skoðaður fyrst.

Í eftirfarandi pistli er gerð grein fyrir lauslegri könnun á meðferð þurfalinga í Skriðuhreppi hinum forna, sem svo er stundum nefndur, en þá er átt við Öxnadalinn og Hörgárdal vestan Hörgár úr dalbotni niður að Litla Dunhaga. Skriðuhreppi var skipt í tvennt árið 1910, í Skriðuhrepp og Öxnadalshrepp. Skriðuhreppurinn gamli var býsna víðfeðmt sveitarfélag sem hreppsnefndin þurfti að sinna. Hún þurfti að þekkja til þarfa sveitunganna og getu þeirra til að leggja af mörkum því að bæði var hlutverk hreppsnefndar að ákveða útsvar og önnur gjöld í sveitarsjóð en einnig að hlaupa undir bagga með þeim sem gátu ekki séð um sig sjálfir eða forráðamönnum þeirra ef einhverjir voru.

Frá alda öðli hafði á Íslandi gilt löggjöf um framfærsluskyldu þar sem öllum var skylt að sjá fyrir föður sínum, móður og börnum. Árið 1834 setti Danakóngur „Reglugerð fyrir fátækra málefna lögum og stjórn á Íslandi“ sem gilti fram yfir næstu aldamót. Samkvæmt henni var það hlutverk hreppanna að annast framfærslu þurfafólks og þá færðist framfærsluskyldan af ættmennum meira yfir á sveitarfélagið. Hreppstjórinn hafði yfirumsjón með framfærslunni en sóknarpresturinn var í ráðgjafa- og eftirlitshlutverki. Framfærsla fátækra varð meginverkefni hreppanna sem bar skylda til að halda lífi í fólki sem hafði átt heima í hreppnum í fimm ár eftir 16 ára aldur – var breytt í tíu ár 1847 – en hreppnum sem fæðingarsveit bar líka skylda til að annast framfærslu fólks í öðrum sveitarfélögum ef viðkomandi hafði ekki búið þar full fimm ár (síðar tíu). Við það að þiggja sveitarstyrk misstu þurfamenn hinsvegar ýmis borgaraleg réttindi en þau eru ekki til umfjöllunar hér.[2]

Tímabilið sem valið er til skoðunar eru árin 1850 til 1880. Valið réðst að nokkru af aðgengileika gagna en eftir 1880 hætti hreppstjórinn í Skriðuhreppi að gera skýrslu um niðursetninga sem fram að þeim tíma hafði verið hinn fróðlegasti lestur. Varla hefur hann þó hætt því af persónuverndarástæðum en líklega þætti okkur nú á dögum ekki við hæfi að láta sjást eða heyrast á almannafæri umsagnir um þiggjendur úr sveitarsjóði á borð við „brjáluð, heilsulítil, mjög óþæg“, „þessi ómagi er fáfróð mjög, smá vexti, ólagin við vinnu og löt, því mjög verkasmá“ eða „sæmilega heilsugóður, sjóndaufur, nokkuð óþægur og bágt að kenna honum“. Þá sáust líka í skýrslum hreppstjórans einkunnir á borð við „latur, vankunnandi og ónotalegur aumingi, hér sveitlægur, á engan aðstoðarmann, honum varð með harðheitum komið niður“.

Heppilegt hefði verið að geta skoðað líka árin fram að aldamótum því að mikið harðæri var í landinu á árunum eftir 1880 á jafnköldustu árum Íslandssögunnar. Veðurfar hafði að sjálfsögðu mikil áhrif á afkomu fólk sem lifði af landbúnaði og mörg dæmi eru um fjölskyldur sem urðu gjaldþrota á síðustu áratugum nítjándu aldar og voru sendar með hreppaflutningi á heimasveit sína ef fjölskyldufaðirinn var ekki búinn að eiga nógu lengi heima í hreppnum.

Það er ljóst, þegar skoðuð eru útgjöld Skriðuhrepps á þessum tíma, að mörg heimili börðust þar í bökkum.

Inni í þessum tölum um útgjöld hreppsins vegna þurfafólks eru daufdumbragjald og styrkur til að senda daufdumban dreng í heyrnleysingjaskóla til Kaupmannahafnar. Í tölunum eru líka gjöld fyrir hreppaflutninga sem teljast í sjálfu sér ekki til framlaga til fátækra heldur til kostnaðar við að senda frá sér fátæklinga til heimasveitar.

 

Það er nærtækt fyrir okkur á tuttugustu og fyrstu öldinni að undrast hvers vegna börn voru tekin af heimilum sínum til að koma þeim niður hjá vandalausu fólki. Hvers vegna voru fátækar fjölskyldur ekki styrktar til að annast börn sín sjálfar? Því er til að svara að það var reyndar gert að vissu marki eins og tafla 1 ber með sér. Í reikningum Skriðuhrepps er gerð grein fyrir lánveitingum til einstaklinga fyrir kaupum á mat, tóbaki og öðrum lífsnauðsynjum til að ekki þyrfti að leysa heimilin upp og alltaf er tilgreint hversu há upphæð er útistandandi í lánum til þurfamanna.

Árið 1850 er að því leyti undantekning að þar er aðeins tilgreint hvað hver og einn skuldar en ekki hversu mikið lánað er til hvers og eins þetta ár. Ég hef ekki lagt í þá vinnu að kanna hversu vel lánin endurheimtust í sveitarsjóðinn en eflaust hefur mörgum ekki enst aldur eða geta til að endurgreiða lán frá hreppnum sínum. Hér þykir ekki rétt að telja þessi lán til kostnaðar hreppsins vegna fátækraframfærslu af því að alltaf hafa verið einhver brögð að því að lánþegar hafi getað greitt lánin til baka. Önnur útgjöld hreppsins vegna fátækra voru ekki endurkræf.

Nú ætla ég ekki að réttlæta þá framfærsluaðferð hreppanna að taka börn frá foreldrum og koma þeim fyrir hjá öðrum en það má alveg benda á að þetta var ekki alltaf einfalt mál. Margar ástæður gátu verið til að heimili voru ekki lífvænleg, t.d. vegna veikinda eða fráfalls foreldra. Svo áttu hjón ekki alltaf eigið heimili. Hjónin Guðrún Jóhannsdóttir (1828-1893) og Sigurgeir Ólafsson (1830-1905) voru vinnuhjú hvort á sínum bænum árið 1865, hún í Staðartungu, þar sem hún veiktist og þáði sjálf af sveit í þrjú ár, en hann á Þúfnavöllum og síðan Saurbæ þar sem hann hafði Jakob (1859-1926) son þeirra hjá sér. Hinum börnunum, Jóhanni Pétri (1857-1935), Solveigu Jóhönnu (1863-1928) og Stefáni (1864-1954) og var komið niður á bæjum, Jóhanni í Flögu, Stefáni á Hálsi og síðan Fagranesi en Solveigu Jóhönnu á Hallfríðarstöðum og Hallfríðarstaðakoti en bæði Stefán og Solveig Jóhanna voru lengi í fóstri. Guðrún og Sigurgeir náðu sér þó fljótlega á strik og fóru að búa á Efri-Vindheimum og gátu um síðir tekið börnin aftur til sín. En hér má spyrja sig hvaða úrræði hreppurinn hefði getað fundið á þessum tíma til að halda þessari fjölskyldu sameinaðri og hvað það hefði kostað útsvarsgreiðendurna.

 

Rannsóknaraðferð

Rannsóknin, sem þessi greinargerð byggist á, var gerð með tvennum hætti. Annarsvegar var talning og flokkun á íbúum Skriðuhrepps eftir manntölum 1850, 1860, 1880 og 1890 og úr sóknarmannatali 1870 sem á að gefa hugmynd um íbúa Skriðuhrepps á þessum tíma. Manntal fyrir árið 1870 er glatað og sá hængur er á sóknarmannatali þess árs að upplýsingar vantar um fjóra bæi í Möðruvallaklausturssókn. Í stað þeirra voru sóttar upplýsingar í næsta fáanlega sóknarmannatal á eftir, þ.e. fyrir árið 1873, en það skekkir varla niðurstöður verulega. Um þessar upplýsingar er fjallað í næsta kafla um íbúa Skriðuhrepps 1850 til 1890.

Hinsvegar var gerð skrá yfir öll börn í hreppnum undir fimmtán ára aldri á árunum 1850 til 1880 sem töldust ekki börn heimilisfólks heldur voru titluð fósturbörn, tökubörn, niðursetningar, smalar, léttadrengir eða léttastúlkur í sóknarmannatali eða manntali. Einnig voru skráðir fullorðnir einstaklingar sem voru á sveitarframfæri, annaðhvort vegna örorku eða elli. Manntal og sóknarmannatal greindu ekki alla sem voru á sveitarframfæri en þar koma hreppsbækurnar til skjalanna sem heimildir en á þessu tímabili gerði hreppstjóri glögga grein fyrir hverjum og einum sem þáði sveitarstyrk.

Rétt er að greina strax frá vafaatriðum í þessari skráningu og flokkun.

  1. Börn eru hér talin svo til fjórtán ára aldurs en eftir það eru þau talin til fullorðinna. Miðað er við þessi aldursmörk af því að algengt var að farið væri að titla fólk vinnufólk fljótt eftir fermingu sem fram að þeim tíma höfðu verið tökubörn eða niðursetur. Hér er rétt að geta þess að skráður aldur í sóknarmannatölum og manntali er oft rangur þannig að þar getur skeikað nokkrum árum.
  2. Til fullorðins fólks teljast hér allir sem hafa náð fimmtán ára aldri. Í þessum flokki er allt fólk á þessum aldri sem í opinberum skýrslum er titlað vinnufólk, húsfólk, aldraðir foreldrar húsbænda, uppkomin börn húsráðenda, ættingjar, tökubörn og fósturbörn. Fullorðið fólk á sveitarframfæri með skerta starfsgetu vegna elli eða fötlunar er þó í sérstökum flokki.
  3. Nokkrir unglingar voru skráðir niðursetningar/niðursetur eftir fjórtán ára aldur en hér eru þeir taldir með fullorðnum fullfrískum einstaklingum nema ljóst sé að þeir hafi verið varanlega fatlaðir.
  4. Flokkun barnanna er hér miðuð við þá skráningu sem þau fengu fyrst eftir að þau hættu að vera „venjuleg“ börn eða börn heimilisfólks. Fyrir kom að barn var skráð tökubarn í upphafi en nokkrum árum síðar taldist það fósturbarn. Þetta getur jafnvel átt við niðursetninga sem urðu tökubörn síðar í skráningu, jafnvel fósturbörn. Stundum var það á reiki hvort barn var tökubarn eða fósturbarn, ýmist skráð tökubarn eða fósturbarn í sóknarmannatali.

 

Íbúar Skriðuhrepps 1850-1890

Tafla 2, sem er unnin upp úr manntölunum 1850, 1860, 1880 og 1890 og úr sóknarmannatali 1870, á að gefa hugmynd um íbúa Skriðuhrepps á þessum tíma.

Húsráðendur teljast þeir sem titlaðir eru bændur og húsfreyjur þeirra og í þessum hópi eru líka einstæðir bændur, karlar og konur. Fjölgunin í þessum flokki frá 1850 til 1880 stafar fyrst og fremst af því að tvíbýlt var á fleiri bæjum 1880 en áður hafði verið. Tvíbýlum fækkaði síðan verulega til 1890.

Fullorðnir ómagar voru á sveitarframfæri vegna elli, veikinda eða fötlunar. Stundum voru þessir ómagar á sama bæ ár eftir ár en fyrir kom að fullorðnum ómögum væri þvælt milli bæja. Komum að því hér á eftir.

 

Í flokknum „Börn heimilisfólks“ eru talin börn undir 15 ára aldri sem eiga foreldra á heimilinu, bændafólk, húsfólk eða vinnufólk. Séu þau ekki börn heimilisfólks teljast þau til fósturbarna, tökubarna, niðursetna eða léttafólks eða smala. Skil á milli þessara flokka eru ekki alltaf skýr. Væntanlega hafa fósturbörn almennt verið betur sett en tökubörn að því leyti að þeim hefur verið ætlað að vera í varanlegu fóstri hjá fósturforeldrum sínum.

Tökubörn fengu ekki meðlag úr sveitarsjóði en hafa verið tekin inn á heimili fósturforeldra af greiðasemi við þau eða forráðamenn þeirra, líklega ekki með varanlegt fóstur í huga í upphafi enda stóð fóstur þeirra oft aðeins eitt eða örfá ár. Tökubörn voru þó stundum í fóstri fram yfir fermingu og ýmis dæmi voru til um að skráning tökubarna breyttist í fósturbarn þegar árin liðu. Líklega hafa foreldrar þessara barna oftast gert sér vonir um að geta tekið þau til sín aftur, þegar hagur Strympu vænkaðist, og oft gerðist það. Stundum hafa foreldrar tökubarnanna sætt sig við að hafa börn sín áfram á góðu fósturheimili ef þeir hafa séð fram á að geta ekki veitt þeim jafngott atlæti og þau fengu hjá góðu fólki.

Niðursetningar/niðursetur eða sveitarómagar voru hinsvegar nokkuð vel skilgreindur hópur barna sem hreppurinn borgaði bændum fyrir að hafa í fóstri, mismikið eftir því hversu mikla umönnun barnið taldist þurfa. Lengst af á þessu árabili voru greiddir 240 fiskar fyrir fóstur venjulegs barns sem var „á höndum“ fyrstu árin en svo lækkaði gjaldið gjarnan þegar barnið var farið „að verða til léttis“ eins og sagt var. Það er athyglisvert að greitt var meira og lengur fyrir börn sem erfitt var að kenna lestur og kristin fræði.

Það er greinilegt að fóstur niðursetninganna var boðið upp á hreppaskilum eða boðin niður eins og sumir vilja segja. Kallað var eftir því hver vildi taka að sér hvert og eitt barn og fyrir hve mikið eða lítið gjald úr sveitarsjóði. Ýmis ummæli hreppstjóranna staðfesta að þessi háttur var hafður á. Lýst er annmörkum á niðursetningi og klykkt út með að enginn hafi fengist til að taka hann að sér fyrir minna en tiltekna upphæð. Þetta á einkanlega við um fullorðna fólkið en ef börn voru álitin tornæm og óþæg var erfitt að koma þeim fyrir nema fyrir fullt gjald. Gæti niðursetningurinn skilað einhverju vinnuframlagi fengust bændur til að taka niðursetning fyrir lægra gjald. Þetta lögmál um framboð og eftirspurn hafði þó ekki endilega í för með sér að börn væru á endalausum þvælingi milli bæja. Meirihluti barna, reyndar aðeins naumur meirihluti, sem á annað borð voru komin inn á fósturheimili sem niðursetningar, var þar helst um kyrrt þangað til þau gátu farið í vinnumennsku eftir fermingu.

Léttastúlkur, léttadrengir og smalar voru settir í sérstakan flokk í töflu 2 en eiga þó í sjálfu sér allt eins heima í flokki tökubarna. Þessi börn voru gjarnan á aldrinum tíu til fjórtán ára og voru augljóslega tekin inn á heimilið til að þau ynnu fyrir sér. Léttadrengir, léttastúlkur og smalar yfir fjórtán ára aldri flokkast hér með öðru fullorðnu fólki.

Það þurftu ekki að vera nein fátæktarvandræði heima fyrir til þess að barn færi á annað heimili sem smali eða léttadrengur/léttastúlka. Stefán Nikódemusson (1899-1988), sem lengi var bóndi á Efri-Rauðalæk á Þelamörk, segir frá því í viðtali við Jón í Garðsvík í bókinni Fólk sem ekki má gleymast[3] að hann hafi verið lánaður vestur í Svartárdal af heimili sínu á Valabjörgum á Vatnsskarði. Þar var hann fyrst eitt ár og líkaði vel en var svo kallaður heim aftur til að smala þar. Einhverju hefur þó ráðið um þetta að honum samdi að eigin sögn illa við stjúpmóður sína.

 

Kyngreining fullorðinna ómaga og foreldralausra barna

Í köflunum hér á eftir verður reynt að greina börn, sem voru ekki um lengri og skemmri tíma í umsjá foreldra, og fullorðna einstaklinga sem komið var fyrir á heimilum með sveitarstyrk. Vakin er athygli á að hér er unnið með skrá yfir alla einstaklinga sem hreppsbókin segir að hafi fengið meðlag úr sveitarsjóði á árunum 1850 til 1880. Fyrst skal litið á kynskiptingu allra í þessum hópum.

Ójöfn kynskipting meðal gamalmenna skýrist af því að konur lifðu yfirleitt lengur en karlar á þessum árum.

Ójöfn kynskipting meðal niðursetninga er athyglisverð. Drengir eru meira en helmingi fleiri en stúlkur sem segir okkur að fátækir foreldrar hafa frekar látið þá frá sér en þær. Getum má leiða að því að þetta endurspegli ríkjandi hugmyndir um kyn og kynhlutverk. Drengirnir áttu að vera harðari af sér og þola betur mótlætið en stúlkurnar. Eða þótti foreldrum vænna um stúlkurnar?

Öðru máli gegnir um tökubörnin en heldur fleiri stúlkur en drengir voru í þeim hópi, hvernig svo sem hægt er að skýra það. Hugsanlega fæst vísbending um skýringu á þessum mun með því að greina hópana eftir aldri barnanna þegar þau voru tekin inn á fósturheimili.

 

Aldur barna við upphaf fósturs

Á árunum 1850 til 1880 komust tuttugu og fjögur börn á skrá yfir fósturbörn í Skriðuhreppi en í raun voru fósturbörnin fleiri því að hér eru börnin flokkuð eftir skráðri stöðu þeirra þegar þau fóru í fóstur. Sum tökubörn voru skráð sem fósturbörn þegar þau voru búin að vera nokkur ár í fóstri hjá sama fólkinu og skil á milli þessara tveggja flokka hafa greinilega verið nokkuð á reiki þegar sóknarmannatöl voru færð. Niðursetningar voru samtals um áttatíu en auk þeirra voru sjö börn í fóstri í öðrum sveitarfélögum með styrk frá Skriðuhreppi. Tökubörnin voru langflest eða 122 en eins og áður segir má í mörgum tilvikum allt eins greina þau sem fósturbörn.

Tafla 4 greinir tökubörn og niðursetninga undir fimmtán ára aldri eftir því á hvaða aldri þau voru þegar þau voru tekin í fóstur:

Auk þessara barna voru 8 börn tekin inn á heimili eftir fjórtán ára aldur en gera má ráð fyrir að þar hafi verið um einhverjar sérstakar aðstæður að ræða. Þau börn þurfa þó ekki að hafa verið öryrkjar. Höfundur pistils veit t.d. að tvær ömmusystur hans voru í hópi þeirra ungmenna sem flokkuð voru sem tökubörn þegar þær voru orðnar fimmtán og sextán ára gamlar og eru því meðal þessara 8 barna. Þær fóru með móður sinni til bróður hennar á æskuheimili hennar í Syðri-Bægisá eftir að eiginmaður hennar dó. 

Tvær yngri systur þeirra fóru líka í Syðri-Bægisá, sú yngri var á framfæri móður sinnar án meðlags frá sveit og komst því ekki á skrá hér en sú eldri, amma höfundar, fimm ára gömul, flokkaðist sem niðursetningur af því að Glæsibæjarhreppur borgaði með henni.

Það er athyglisvert að hlutfallslega mun fleiri tökubörn yfirgáfu foreldrana ellefu ára og eldri en niðursetningarnir sem voru frekar undir sjö ára aldri. Það sýnir líklega að neyð foreldra niðursetninganna hefur verið meiri en foreldra tökubarnanna sem hafa frekar reynt að hafa yngri börn sín hjá sér.

Það gæti reyndar verið rannsóknarefni hver efnahagur foreldranna var þegar þeir létu börnin frá sér, þá mætti skoða útsvarsgreiðslur þeirra á þeim tíma. Lausleg skoðun á þessu bendir þó til þess að staða þessara foreldra hafi langoftast verið sú að þeir voru svo fátækir að þeir gátu ekki framfleytt sér.

En komum nú aftur að töflu 4 og greinum hana eftir kyni barnanna en sú greining er í töflu 5. Í hópi tökubarnanna vekur það athygli að miklu algengara var að stúlkur undir þriggja ára aldri væru teknar í fóstur sem tökubörn en drengir á sama aldri. 

Heil 28% stúlknanna voru undir þriggja ára aldri en aðeins 12% drengjanna. Talsverður jöfnuður er milli kynjanna á aldrinum þriggja til tíu ára en hlutfallið hefur snúist við þegar kemur að börnum yfir tíu ára aldri.

Mun meiri jöfnuður er milli kynjanna meðal niðursetninga, hvað varðar aldur barnsins, þegar það var tekið í fóstur. 

 

Þar er eftirtektarvert að stúlkur eru hlutfallslega fleiri í aldurshópnum sjö til tíu ára, öfugt við það sem er í hópi tökubarnanna, en í elsta aldurshópnum eru drengir hlutfallslega fleiri meðal niðursetninga eins og í hópi tökubarna.

 

Fjöldi dvalarstaða

Þess var getið í inngangi að það var hald skýrsluhöfundar að niðursetningar hafi þvælst milli bæja eftir því hver bauðst til að taka þau það og það árið fyrir minnsta meðlagið. Tafla 6 byggir á greiningu á sömu gögnum og í töflu 3, þ.e. öllum sem skráðir voru í sóknarmannatöl og hreppsbók á árunum 1850 til 1880 og voru þar titlaðir tökubörn eða á sveit.

Tökubörnin voru langflest en dvalartími þeirra á fósturheimilum var yfirleitt skammur eins og greint verður frá síðar. Tafla 6 sýnir að meginreglan var sú að tökubörn voru hjá sama fólkinu ár eftir ár og sárafá dæmi eru um mikinn þvæling á tökubörnum en fleiri þegar kemur að niðursetningum og fullorðnu fólki. Stundum er skýring á fleiri en tveimur dvalarstöðum einfaldlega sú að húsráðendur fluttu og höfðu tökubörn og niðursetninga með sér. 

Það á t.d. við um systurnar Ástu Ágústu (1865-1945) og Vilborgu (1867-1942) Friðbjörnsdætur sem ólust upp hjá móðurbróður sínum sem bjó í Þverbrekku, Staðartungu og Sörlatungu á meðan stúlkurnar voru að alast upp.

Það er hinsvegar ljóst að hlutfallslega fleiri niðursetningar en tökubörn áttu heima á fleiri en einum bæ eða 40% en aðeins 11% tökubarnanna.

Þvælingurinn á niðursetningum milli bæja er þó minni en búast mátti við miðað við aðferðina sem notuð var til að finna þeim dvalarstað. Hugsanlega var fleirum innanbrjósts eins og Hamarsbóndanum sem hafði fengið meðlag með Ingu Soffíu Kráksdóttur (1856- ?) úr Öxnadal samfellt í sex ár. „Henni bauðst á næstliðnu vori samastaður innan hrepps [Skriðuhrepps] með 10 ríkisdala meðgjöf en húsbóndi hennar vildi þá heldur halda henni með þeirri meðgjöf en láta hana burtu.“[4] Inga flutti síðar með manni og börnum úr Bárðardal til Kanada. Hinsvegar var Páll Kjartansson (1866-1931) í Gloppu 1870, á Hálsi 1871, í Flögu 1872 og 1873, á Féeggstöðum 1874, í Ásgerðarstaðaseli 1875, á Öxnhóli 1876 og á Hallfríðarstöðum 1877 og 1878. Var þó um hann skráð að hann væri „fremur efnilegur“ – betra en að vera „ekki óefnilegur“ sem var algengari einkunn – en skýringin á flakkinu er að móðir hans var alltaf með honum í vist og hún hefur líklega stöðugt verið að leita að betra lífi eða ekki þótt gott vinnuhjú. Páll var um skeið bóndi í Heiðarhúsum á Þelamörk en síðan verkamaður í Glerárþorpi. Svipaða sögu er að segja af Sigurði Jónssyni sem síðar var blikksmiður á Akureyri. Hann var niðursetningur á átta bæjum í Hörgárdal og Öxnadal. Hann var fyrstu árin í Bási og Flögu hjá sömu fjölskyldu, síðan af og til með móður sinni í Flögu, Ásgerðarstöðum og Efstalandskoti, síðan eitt ár án móður sinnar á Syðri-Bægisá og tvö ár á Féeggstöðum og svo aftur með móður sinni á Hraunshöfða og síðast á Einhamri, þá orðinn 16 ára gamall.

Svipað viðhorf virðist hafa gilt um niðursetninga og um aldraða og öryrkja því að 39% þeirra voru á fleiri en einum stað á þessu tímabili. Arnþóra kjelling – eins og það var stundum skrifað – Ólafsdóttir (1800-1884) var á átta stöðum á níu árum sem þurfamaður og var þó búin að flakka víða áður en heilsan fór að bila. Hún var á Skjaldarstöðum 1872, að einhverju leyti sjálfs sín á Miðhálsstöðum 1873, „þrotin að efnum og orðin ellihrum og heilsulítil, kemst ekki af án styrks“, árið 1875 í Stóragerði, 1876 á Miðlandi, 1877 í Stóra-Dunhaga, 1879 á Efstalandi og Sörlatungu, jafnvel víðar, og á Neðstalandi 1880, „þrotin að kröftum“. Eggert Egilsson var á miðjum aldri, „aumingi til sálar og líkama“, þegar hann kom í sveitina vestan úr Skagafirði. Hann var á Hálsi 1870, í Dagverðartungu 1871, í Gili og Hrauni 1872 („tolldi ekki utan lítinn tíma“), í Hrauni 1873, á Hólum 1874 og aftur í Hrauni 1875 til 1880 en þá fór hann í Varmavatnshóla. Jónas bóndi í Hrauni „bauðst til að taka hann fyrir 300 fiska meðgjöf og lofaði hann að leggja honum til nokkuð af fötum sem hann nauðsynlega með þarf þar eð hann er mjög klæðlítill.“[5]

Einar Þorláksson (1835-1894) var vel læs, vel að sér, ráðvandur en vitskertur og var á fjórum stöðum á átta árum. Og frænka mín, Sigríður Benediktsdóttir (1815-1900), Stutta-Sigga, var á Barká, Bryta, Mýrarlóni, Hólum, Neðstalandi, í Auðbrekku í 8 ár, Ásgerðarstaðaseli, Hólkoti, Flögu og Stóragerði á þessu 30 ára tímabili auk þeirra bæja sem hún var á utan þessa umrædda tímabils en hún var sögð fákunnandi aumingi til sálar og líkama, óþæg og vinnulítil, kriflingur.

 

 

Fjöldi dvalarára

Það er líka forvitnilegt að bera saman hversu lengi tökubörn og sveitarlimir voru á dvalarheimilum. Gengið var sem fyrr út frá heildarhópnum sem komst á skrá yfir tökubörn og niðursetninga en seinni hópnum var skipt í börn undir fimmtán ára aldri annarsvegar og öryrkja og aldraða hinsvegar. Eitt og annað gerir að verkum að ekki má taka einstakar tölur bókstaflega fyrir utan ónákvæmni í upphaflegri skráningu í manntöl, sóknarmannatöl og hreppsbækur. Einstaklingar sem töldust til þessara hópa árið 1850 gátu verið búnir að dvelja sem tökubörn eða hreppsómagar einhver ár áður en rannsóknartímabilið hófst og á sama hátt gátu þau, sem voru á skrá við lok tímabilsins, átt eftir að búa við þær aðstæður mörg ár enn. Hér er aðeins reynt að sýna grófa heildarmynd og þess vegna er framsetningin myndræn fremur en tafla með nákvæmum tölum.

Myndin sýnir að tökubörn dvöldu yfirleitt skamman tíma á fósturheimilum, þrjú af hverjum fjórum börnum voru eitt til tvö ár á fósturheimilum, væntanlega aðeins á meðan foreldrar voru að koma undir sig fótum, ýmist við upphaf búskapar eða eftir áföll. Hinsvegar voru nærri sex af hverjum tíu niðursetningum lengur en tvö ár í fóstri, þrjú af hverjum tíu lengur en fimm ár.

Flest tökubörnin, sem lengst voru í fóstri, hefði allt eins mátt skrá sem fósturbörn. Daníel Tómas Gunnarsson (1863-1933), síðar járnsmiður og múrari í Glerárþorpi, var skráður tökubarn í tólf ár en fóstraður hjá móðursystkinum sínum. Hann er skráður sem tökubarn á Syðri-Bægisá frá 1864.

Þar hafði Andrés Tómasson (1806-1864) eignast nítján börn með Ingibjörgu Þórðardóttur (1810-1872) konu sinni en aðeins tólf komust upp. Þar var nú tvíbýli og fjögur börn Andrésar og Ingibjargar, móðursystkini Daníels, áttu þar heima á bernskuheimili sínu þegar Daníel varð þar tökubarn. Fjórum árum síðar fluttu foreldrar Daníels í Syðri-Bægisá, móðirin ein af Bægisársystkinunum, en sama ár fluttist Daníel sem tökubarn til ömmu sinnar sem þá hafði flutt sig um set og búið nokkur ár í Efstalandskoti og á Þverá með nokkrum börnum sínum öðrum en þeim sem urðu eftir á Syðri-Bægisá. Tökubarnið Daníel var því engan veginn hjá vandalausum.

Áður voru nefndar systurnar Ásta Ágústa og Vilborg Friðbjarnardætur sem voru lengst af saman í fóstri hjá móðurbróður sínum, önnur átta en hin ellefu ár. Ingibjörg Sigríður Magnúsdóttir (1853-1882), síðar húsfreyja á Bessahlöðum og Varmavatnshólum, kom sem tökubarn í Steinsstaði vestan úr Húnavatnssýslu, að því er virðist ótengd Steinsstaðafólkinu, en fáum árum síðar hafði hún fengið titilinn fósturdóttir í sóknarmannatalinu. Með henni á Steinsstöðum ólust upp niðursetningarnir Soffía Björnsdóttir (1853-1924), móðir Brynjólfs Sveinssonar (1888-1980) hreppstjóra í Efstalandskoti, og Þorbjörg Friðriksdóttir (1856-1934), móðir Bernharðs Stefánssonar (1889-1969) alþingismanns, en þær losnuðu aldrei við niðursetningsnafnbótina. Þeirra tveggja verður getið síðar í kafla um afdrif niðursetninga.

Rósa Kristjánsdóttir (1865-1955) var ýmist kölluð fósturbarn eða tökubarn í Lönguhlíð hjá nöfnu sinni og frænku Rósu Jónsdóttur (1839-1912) hins ríka Bergssonar. Hún var ýmist skráð tökubarn eða fósturdóttir í tólf ár.

Páll Pálsson (1841-1923) var fyrst skráður niðursetningur í Brakanda hjá Páli Gíslasyni móðurbróður sínum en þegar hann var kominn í Möðrufell í Grundarsókn var hann skráður fósturbarn hjá sama fólki. Hann var hjá þessu fólki fram á fullorðinsaldur.

Foreldrar Sigurjónu Hallgrímsdóttur (1845-?) höfðu búið á móti öðrum hjónum á Auðnum en fluttu þá að Engimýri. Sigurjóna varð hinsvegar eftir hjá mótbýlishjónunum, fyrst skráð sem tökubarn en síðar sem fósturbarn.

Sigmundur Sigurðsson (1858-1939) var hjá hjónunum í Ásgerðarstaðaseli frá átta ára aldri til fullorðinsaldurs, fyrst skráður tökubarn en frá níu ára aldri alltaf skráður smali.

Þannig mætti halda áfram með tökubörnin sem voru gjarnan hjá ættmennum, þau sem lengstan tíma voru án foreldra.

Öðru máli hefur gegnt um hreppsómagana. Miklu hærra hlutfall þeirra var lengur en tvö ár úr umsjá foreldra og nærri þriðjungur lengur en sex ár. Þessi börn voru sjaldnast hjá vandamönnum en mörg dæmi voru um systkini, tvö eða fleiri, sem voru sveitarómagar hjá vandalausum lungann af æskuárunum og mörg þeirra voru áfram á fósturheimilunum sem vinnufólk eftir fjórtán ára aldur.

Eðlilega var gamalt fólk og öryrkjar oft lengi í þeirri stöðu. Líkamlega fötluðu fólki batnar yfirleitt ekki fötlunin og andlega fötluðu fólki síður þá en nú. Gömlu fólki batnar ekki ellin fyrr en í dauðanum.

 

Fjölskyldur hreppsómaganna

Margt getur orðið til þess að fólk getur ekki séð sér farborða. Það segir sig sjálft að bregðist foreldrar börnum, hvort heldur er vegna veikinda, dauða eða fátæktar, verða börnin að fá forsjá annarra. Ef fullorðið fólk á vinnufærum aldri, sem kallað er, veikist eða er frá náttúrunnar hendi þannig gert að það getur ekki framfleytt sér, þurfa aðrir að koma til. Svo þegar aldurinn færist yfir kemur það fyrir besta fólk að verða upp á náð annarra komið varðandi umönnun og framfærslu.

Margvíslegar ástæður geta hafa verið fyrir því að foreldrar létu börn sín í hendur annarra sem tökubörn sem fósturforeldrar tóku án meðgjafar sveitarinnar. Fátækt hefur eflaust oftast ráðið mestu en heilsubrestur og búferlaflutningar geta hafa leitt til þess að börnum var komið fyrir, oftast líklega með það í huga að um tímabundið fóstur væri að ræða.

Litlar heimildir eru um aðstæður á heimilum foreldra tökubarnanna því að þar hafa fáir verið til frásagnar um samninga milli foreldra og fósturheimilis. Miklu meiri heimildir eru til um niðursetningana því að hreppstjórar Skriðuhrepps skráðu fram til 1880 aðstæður hvers og eins. Langoftast höfðu foreldrarnir einfaldlega ekki ráð á að fæða og klæða börn sín, mörg voru auk þess úr stórum systkinahópum eins og börn Björns Benediktssonar (1817-1866) frá Flöguseli og Guðrúnar Guðmundsdóttur (1815-1891) frá Lönguhlíð sem hröktust milli bæja í Hörgárdal sem bændur, vinnufólk og húsfólk áður en þau fluttu sem vinnufólk vestur í Húnavatnssýslu. Þau eignuðust tólf börn, tíu komust upp og urðu flest langlíf. Björn var hinsvegar heilsuveill og um og upp úr miðjum sjötta áratug aldarinnar komust átta barna þeirra á skrá yfir niðursetninga í hreppnum. Foreldrar voru sagðir öreigar, bláfátæk og börnum kafin, félaus og sárklæðalítil en börnin voru gjarnan sögð „ekki óefnileg“ en sum sögð tornæm, „ofur þungt að kenna honum fyrir þrjósku“ var sagt um einn bróðurinn, „það hefur verið ofur þungt að kenna honum“ var sagt um annan. Það var hinsvegar skylda fósturheimilisins að kenna barninu svo að hægt væri að ferma það og með þeirri réttlætingu var fullur sveitarstyrkur greiddur lengur en ella.

Afkomendur fleiri Flöguselssystkina en Björns koma reyndar talsvert við sögu niðursetninga í Skriðuhreppi. Þrjú barnabörn Björns, börn Þóru (1841-1927), voru niðursetningar um árabil á Geirhildargörðum, Baugaseli og Bási um og fyrir 1880, foreldrar sagðir öreigar. Áðurnefnd Sigríður Benediktsdóttir, Stutta-Sigga, var niðursetningur mestan hluta fullorðinsára sinna, sem urðu mörg, en hún eignaðist dreng sem var niðursetningur á Syðri-Bægisá öll fimm árin sem hann lifði. Hann kom reyndar líka við sögu í hreppsbókinni fyrir það að hreppurinn borgaði fyrir að sótt var niðursetukona við fæðingu hans á Hólum. Stutta-Sigga eignaðist reyndar annan dreng sem dó skömmu eftir fæðingu og komst því ekki í hreppsbækurnar. Barnabarn bróður hennar, Jóns Benediktssonar (1803-1866), barn Salvarar (1842-1879), var á framfæri Skriðuhrepps í þrjú ár í Skógum og Dagverðartungu.

Páll Pálsson var niðursetningur hjá Páli Gíslasyni (1811-1877) móðurbróður sínum í Brakanda í nokkur ár eins og áður greinir. Hann eignaðist barn með dóttur Sigfúsar Benediktssonar (1805-1863) frá Flöguseli, Guðjón sem var niðursetningur í Baugaseli nokkur ár áður en hann fluttist til föður síns sem þá var orðinn bóndi á Æsustöðum í Eyjafirði.

Og sex barnabörn Hólmfríðar Benediktsdóttur (1802-1871) frá Flöguseli voru á sveitarframfæri árið 1880 á Þverá, Steinsstöðum, Búðarnesi, Flöguseli og Nýjabæ.

Fleiri fjölskyldur lögðu hreppnum til marga niðursetninga. Guðný Rasmusdóttir (1821-1906) eignaðist fyrst barn, Vilhelm, með Kristjáni Jóhannessyni (1815-1885), síðar bónda á Hranastöðum og Kroppi í Eyjafirði, og síðan átta börn með Jóni Jónssyni (1806-1869) frá Þrastarhóli, sex þeirra komust upp. Guðný og Jón hröktust bæ frá bæ, „bláfátæk, klæðlítil og vinnulítil“ en börn þeirra mörg voru niðursetningar. Vilhelm Kristjánsson (1845-1881) var niðursetningur á Kroppi í Eyjafirði nokkur ár en Skriðuhreppur greiddi meðlag fyrir móðurina. Magnús Jónsson (1852-1897) var fyrst niðursetningur í Bási en síðan í Auðbrekku, sæmilega heilsugóður, sjóndaufur, nokkuð óþægur og bágt að kenna honum. Ólafur Jónsson (1854-1941) var fram á fullorðinsár niðursetningur á Efstalandi, sagður fremur tornæmur en þó ekki óefnilegur. Guðjón albróðir þeirra (1857-?) ólst upp í Nýjabæ, sagður ekki óefnilegur, heilsugóður en baldinn og tornæmur. Halldór (1860-1950) ólst upp í Dunhagakoti, sagður heilsugóður og skarpur en nokkuð baldinn. Sigríður Jónsdóttir (1863-1897) var eitt ár niðursetningur í Hólkoti, „foreldrar leggja til með henni það lítið þau kunna“ og Stefanía (1867-1945) var í Búðarnesi 1869 og á Féeggstöðum 1870.

Krákur nokkur Jónsson (1778-1863) eignaðist sjö börn í Saurbæjarhreppi með fyrri konu sinni en flutti sem ekkill í Hóla í Öxnadal og réði til sín bústýru, Halldóru Sveinsdóttur (1825-1864). Halldóra var fjörutu og sjö árum yngri en Krákur en nú skipti það engum togum, þau giftust og eignuðust saman sex börn. Af þessum sex börnum komust fjögur upp. Undir lokin var Krákur orðinn „örvasa karl“ sem ekkert átti til að gefa með börnum sínum. Bjarni (1851-1887), sonur Kráks og Halldóru, var niðursetningur á Þverá en fljótlega skráður tökubarn og ólst þar upp framundir tvítugt. Bjarni var bóndi á Hraunshöfða en varð ekki langlífur. María Kráksdóttir (1852-1914) var eitt ár sveitarlimur á Finnastöðum í Eyjafirði en eftir það tökubarn. Áðurnefnd Inga Soffía (1856-?) var á Hamri á Þelamörk frá átta ára aldri og fram að fermingu og síðan tvö ár niðursetningur á Hálsi. Hún eignaðist dótturina Guðnýju (1876-1960) sem framan af var skráð föðurlaus því að það vafðist eitthvað fyrir sýslumanni að rétta í faðernismálinu. Guðný þessi, síðar Jónsdóttir, var niðursetningur eitt ár í Flögu en eftir það á Auðnum.

Fósturforeldrarnir

Einhvers staðar þykist skýrsluhöfundur hafa heyrt eða séð að það hafi þótt gróðavegur frekar en hitt að taka að sér niðursetning gegn greiðslu og þess vegna hafi efnaminni heimili sælst til að taka ómaga að sér. Þessi athugun á sveitarómögum í Skriðuhreppi á árunum 1850 til 1880 bendir ekki til þess. Til að fá hugmynd um efnahag heimilanna var tekið mið af heildarútsvari eins og það var lagt á árin 1860, 1865, 1870 og 1875. Þar sem talsverðar sveiflur gátu verið í útsvarsgreiðslunum var tekið meðaltal af útsvarsgreiðslum þessara fjögurra ára fyrir hvern bæ, óháð því hver bjó á bænum á hverjum tíma. Rétt er að taka fram að á nokkrum bæjum var oft tvíbýli og þá var samanlagt útsvar beggja ábúenda notað því að ekki var alltaf ljóst hjá hvorum bóndanum niðursetningurinn var. Síðan var bæjunum skipt í þrjá sem næst jafnstóra flokka, þá sem guldu lægsta útsvarið (20 bæir sem guldu að meðaltali þrjátíu og níu fiska), þá sem guldu miðlungsútsvar (tuttugu bæir sem guldu 89 fiska) og þá sem guldu hæsta útsvarið (átján bæir sem guldu 204 fiska að meðaltali). Síðan var skoðað á hvaða bæjum niðursetningar voru á árunum 1850 til 1880, talið hve mörg ár hver bær hýsti sveitarómaga og loks lagt saman hve mörg dvalarár voru í hverjum gjaldaflokki. Eftirfarandi súlurit sýnir dreifinguna:

Þessi athugun bendir eindregið til þess að efnaheimilin hafi frekar tekið að sér niðursetninga en hin sem efnaminni voru. Eflaust hefur þó fleira en efnahagur haft áhrif á það hvort heimili tók að sér niðursetning, t.d. fjölskyldutengsl og kunningskapur. Þetta ætti samt að hafa verið frekar heppilegt fyrir niðursetningana að þeir lentu ekki á bæjum þar sem heimilisfólkið barðist sjálft í bökkum. Það er heldur ekki útilokað að hreppstjórinn hafi forðast að koma ómögunum fyrir hjá fólki sem hann treysti síður til að fara vel með þá.

Gamalt máltæki segir að þangað leiti auður sem fé er fyrir. 

Hafi það verið gróðavegur að taka að sér niðursetning gegn gjaldi má með svolítilli illgirni benda á að efnaheimilin hafi setið fyrir þegar hreppstjórinn deildi ómögunum niður á bæi.

 

Meðferð sveitarómaga

Það er alltaf gaman að leika sér með tölur eins og í köflunum hér á undan en þær segja fátt af líðan barnanna sem um ræðir. Hráar tölur um fjölda fósturbarna, tökubarna og sveitarómaga segja fátt um meðferðina á þessum börnum en sumir fræðimenn hafa lagt áherslu á að kanna hana frekar en að horfa á tölur eins og hér hefur verið gert. Þetta hefur Monika Magnúsdóttir reynt að gera í ritgerð sinni „Það var fæddur krakki í koti“.[6] Vandamálið er hinsvegar að engar áreiðanlegar upplýsingar eru til um hversu algengt það var að fósturforeldrar færu vel eða illa með sveitarómagana. Höfundi þessarar samantektar er ekki kunnugt um frásagnir fólks af því hvernig því leið í fóstri í Skriðuhreppi á seinni hluta nítjándu aldar. Einhver sagði frá systkinum sem höfðu verið fóstruð á tveimur bæjum í fram-Hörgárdal, reyndar skömmu eftir aldamótin 1900. Drengnum hafði liðið vel í Staðartungu og hann átti góðar minningar þaðan og hugsanlega hafði það sitt að segja að á sínum tíma börðust foreldrar Friðbjörns (1872-1945) í Staðartungu í bökkum og þurftu að láta börn sín frá sér tímabundið sem niðursetninga. Stúlkan hinsvegar sagðist forðast að líta heim á bæinn þar sem hún var alin upp þannig að ekki hefur henni liðið vel á fósturheimilinu. Þar skorti þó ekki efnin. Þannig var það engin trygging fyrir góðri meðferð ómaga að hann væri tekinn í fóstur á efnaheimili, hlýja í viðmóti stóð líklega ekki frekar en nú í neinu samhengi við efnahag.

Langafi minn og langamma, Guðmundur Sigfússon (1843-1904) og Steinunn Anna Sigurðardóttir (1845-1928), hófu búskap sinn á Einarsstöðum í Kræklingahlíð 1876, fluttu þaðan í Grjótgarð 1886 og í Garðshorn 1899. Á Einarsstöðum tóku þau að sér stúlkubarn sem dó hjá þeim í mislingafaraldri. Á Grjótgarði tóku þau að sér fjögurra ára dreng, Stefán V. Sigurjónsson (1886-1973), og ólu upp fram yfir fermingu en þá fór hann vinnumaður á næsta bæ. Hann var skráður niðursetningur í sóknarmannatalinu. Foreldrar hans höfðu verið í húsmennsku, áttu mörg börn og þurftu að láta nokkur þeirra frá sér, sum lengi, önnur skemur. Stefán var síðar bóndi og oddviti á Blómsturvöllum í Kræklingahlíð. Svipaða sögu var að segja um foreldra annars dreng sem fór líka fjögurra ára gamall í fóstur til Steinunnar og Guðmundar þegar þau voru nýflutt í Garðshorn. Sá hét Kristfinnur Guðjónsson (1896-1974), síðar ljósmyndari á Siglufirði, og var sonur Rósu Kristjánsdóttur sem minnst var á hér að framan sem fósturbarn eða tökubarn í Lönguhlíð. Kristfinnur var skráður tökubarn í sóknarmannatalinu árið 1900 en niðursetningur í manntalinu árið eftir og sveitarbarn í sóknarmannatalinu. Árið 1902 var hann enn sveitarbarn en tökubarn 1903 og þaðan í frá. Enn síðar eða 1913 tóku svo afi og amma í Garðshorni, Pálmi og Helga, að sér nýfæddan dreng, Kára Larsen (1913-1994), og ólu upp til fullorðinsára. Hann var alltaf skráður tökubarn í sóknarmannatali en var þó alls ekki skráður fyrstu þrjú árin sem er eitt fjölmargra dæma um ónákvæmni í skýrslugerð sóknarprestsins á Bægisá sem er sagður hafa geymt frumheimildir að sóknarmannatalinu á miðum í vösum sínum.

Nú segir það ekkert um meðferð á ómögum og fósturbörnum almennt hvernig farið var með þessa drengi og pistilshöfundur hefur reyndar aðeins vísbendingar um meðferðina á þeim úr bréfum sem hafa varðveist frá þessum piltum til fósturmæðra og -systkina og úr öðrum óprentuðum gögnum. Það virðist vera sameiginlegt með uppeldi Stefáns og Kristfinns að lagt var upp úr því að þeir héldu tengslum við kynforeldra sína og systkini eftir því sem kostur var.

Í bréfi sem Stefán skrifaði Arnbjörgu (1883-1938) uppeldissystur sinni árið 1911, þá giftur maður á Akureyri, segir hann m.a.:

„Fyrir hálfum mánuði fór ég vesturfyrir að finna fólkið okkar. Því leið öllu vel, samt er mamma ekki orðin góð í fætinum ennþá“[7]. Hér talar Stefán um fósturmóður sína og móður Arnbjargar og kallar hana mömmu. Hann segir skömmu síðar í bréfinu: „Litli frændi á Hamri er stór og fjörugur“ og á þar við Guðmund son Frímanns (1878-1926) uppeldisbróður síns sem var ekkert skyldur honum. Loks segir hann í lok bréfsins fréttir af kynforeldrum sínum og systkinum: „Mamma er svona með svipaða heilsu“ og á þá við kynmóður sína.

Stefán flutti minningarorð við gröf Frímanns í Bægisárkirkjugarði 1926 sem segja líklega meira um kjör sumra niðursetninga:

„... Innan um hugsanirnar fléttast atburðir liðinna daga, endurminningar um óvita og ósjálfbjarga barnið sem hrifið var burt úr faðmi foreldranna og flutt til þess fólks sem það hafði ekki fyrr séð og þekkti ekkert. Ég veit að allir geta sett sig inn í ástand barnsins, menn geta gert sér í hugarlund harm og hugarangur þessa vanmáttuga, vesala einstæðings sem engu gat af sér hrundið og aðeins tárin, þessi svalandi sorgarlind, gáfu til kynna hversu mikinn harm það hafði að dylja.

En það er meira lán og meiri hamingja en með orðum verður lýst þegar hinn algóði Guð, sem öllu ræður, lét barnið munaðarlausa fyrirhitta sanna foreldra og góð og elskuleg systkin. Ég var aðeins á fjórða árinu þegar foreldrar Frímanns sáluga tóku mig til fósturs og hjá þeim var ég þangað til ég var orðinn sjálfbjarga sem kallað er. Foreldra hans kallaði ég foreldra mína og ætíð síðan hefur mér verið það svo einkar ljúft að kalla hann og systkini hans systkini mín.“[8]

Þegar Arnbjörg fluttist með Valdemar bónda sínum frá Efri-Rauðalæk vestur að Fremri-Kotum og síðar að Bólu varð að ráði að Kristfinnur færi með þeim enda Guðmundur dáinn og Steinunn hætt búskap. Kristfinnur lætur Steindór son sinn, tveggja ára gamlan, senda Steinunni fósturmóður sinni jólakveðju árið 1923. Þar skrifar hann fyrir hönd Steindórs: „Elsku amma mín! Má ég ekki kalla þig ömmu þegar pabbi kallar þig mömmu?“[9] Og mömmurnar tvær koma líka fyrir í bréfi frá Kristfinni frá sama ári[10]. Hann segir frá því að hann hafi verið að eignast dóttur en að hann hafi verið úti á Siglufirði þegar hún fæddist: „Mamma var hjá okkur á meðan ég var útfrá ...“ og á þá við Rósu, móður sína. Skömmu síðar segir hann í bréfinu: „Í fyrramálið fer ég vestur á Þelamörk að sækja hey fyrir Jónas Sveinsson. Kem þá að Garðshorni. Ég hefi heyrt að mamma væri með frískasta móti sem hún hefur verið lengi.“ Í seinna skiptið talar hann um Steinunni fósturmóður sína.

Um Kára Larsen þarf ég ekki að hafa neinar vangaveltur því að honum kynntist ég sjálfur og sá með eigin augum að samband hans við föður minn og föðursystkini var eins og best getur orðið milli systkina.

Ýmsir hafa orðið til að fjalla um hlutskipti fósturbarna, ómaga og tökubarna í gamla bændasamfélaginu. Sumar þær frásagnir eru um upplifun barnsins af því að vera hjá vandalausum og margar þeirra bera með sér að atlætið hafi verið illt. Tryggvi Emilsson segir í Fátæku fólki frá dvöl sinni hjá Hólmfríði (1850-1932), systur Steinunnar langömmu, á Draflastöðum í Sölvadal og lætur illa af þó svo að hann beri Hólmfríði sjálfri ekki illa söguna. Þetta gerðist þó áður en bölvað eineltið var fundið upp.

Það gefur auga leið að það er barni alltaf sársaukafullt að skiljast við foreldra sína, hvað svo sem Halldór Laxness lætur sögumanninn í Brekkukotsannál hafa eftir „vitrum mönnum“ í upphafsorðum bókarinnar: „Vitur maður hefur sagt að næst því að missa móður sína sé fátt hollara úngum börnum en missa föður sinn“.[11] Viðmót og atlæti við tökubörn og ómaga hefur verið misjafnt milli heimila og þess verður að minnast að aðbúnaður barna var oft vondur, jafnvel þótt þau ælust upp með fátækum foreldrum sínum sem þræluðu myrkranna á milli til að sjá sjálfum sér og börnum sínum farborða. Niðursetningar voru látnir vinna en öll börn þurftu að vinna og þótti sjálfsagður hlutur. Fólki af minni kynslóð þykir jafnvel enn í dag þroskandi fyrir börn að þurfa öðru hverju að taka a.m.k. aðra höndina af snjallsímanum til að vinna fyrir kaupi.

 

Afdrif niðursetninganna

Nú væri fróðlegt að gera sér mynd af því hvort tökubörnum og þó sérstaklega niðursetningum vegnaði betur eða verr í lífinu en þeim börnum sem ólust upp hjá foreldrum sínum. Margt verður til þess að þeirri spurningu er erfitt að svara.

Í fyrsta lagi þarf að svara þeirri spurningu hvað hafa á til marks um að einhverjum vegni vel í lífinu. Líklega hefur það þó þótt nærtækasti mælikvarðinn í Skriðuhreppi á seinni hluta 19. aldar hvort fólki tókst að fá afnot af bújörð og hefja þar hokur. Vafalaust þurftu niðursetningarnir að hefja sig yfir hærri þröskuld til að hefja búskap en börnin frá bjargálna heimilum, rétt eins og er enn þann dag í dag þegar litið er til ungs fólks sem er að kaupa sína fyrstu íbúð.

Í öðru lagi liggja upplýsingar um æviferil fólks almennt ekki fyrir. Í Íslendingabók er víða að finna glefsur um stöðu fólks eins og hún hefur verið skráð í manntölum og minningargreinum en þær upplýsingar eru samt afar gloppóttar og handahófskenndar. Í sjálfu sér er stundum hægt að grafast nánar fyrir um afdrif þessa fólks en það er mikið verk og hefur ekki verið gert hér. Lausleg athugun bendir þó til að niðursetningar í Skriðuhreppi á þessum tíma hafi almennt ekki komist til mikils auðs eða metorða. Sumir hokruðu á rýrum kotum, yfirleitt skamman tíma áður en þeir flosnuðu upp og fluttu á mölina, sumir fluttu vestur um haf.

Ég gat þess hér framar að amma mín hefði verið niðursetningur á Syðri-Bægisá á kostnað Glæsibæjarhrepps. Hér verða ekki höfð stór orð um frama afkomenda hennar en föðursystir mín sagði við bróðurdóttur sína á góðri stundu að við skyldum ekki búast við að neitt yrði úr okkur, afkomendum Benedikts og Rósu í Flöguseli. Þá átti hún reyndar ekki aðeins við fátæktina.

Í kaflanum um fjölda dvalarára ómaga hér að framan var nefnd Þorbjörg Friðriksdóttir sem var niðursetningur á Þverá hjá Stefáni Jónssyni (1802-1890) bónda og alþingismanni á Þverá og Rannveigu Hallgrímsdóttur (1802-1874) konu hans, systur Jónasar skálds. Þorbjörg var niðursetningur á Þverá í sex ár og síðan vinnukona á heimilinu mörg ár enn sem bendir ekki til að dvölin þar hafi verið henni nein ánauð. Hún giftist síðar Stefáni Bergssyni (1854-1938) frá Efri-Rauðalæk, síðar oddvita og hreppstjóra í Öxnadal. Þau voru foreldrar Bernharðs kennara og alþingismanns. Í sama kafla var nefnd Soffía Björnsdóttir sem kom fimm ára gömul sem niðursetningur í Þverá og var þar fram á þrítugsaldur á sama tíma og Þorbjörg. Soffía var eitt barna framangreinds Björns Benediktssonar frá Flöguseli. Hún giftist Skagfirðingnum Sveini Björnssyni (1852-1922). Þau voru sárafátæk framan af, misstu fjögur börn af sjö en náðu sér á strik og bjuggu á Syðri-Bægisá og síðar Steinsstöðum. Brynjólfur (1888-1980) hreppstjóri í Efstalandskoti var sonur þeirra, einnig Stefán (1883-1930) varaborgarfulltrúi í Reykjavík, langafi Láru Stefánsdóttur skólameistara á Ólafsfirði og afi Hennýjar Hermannsdóttur danskennara sem hefur nýlega endurheimt frægð sína með aðstoð Margrétar Blöndal, barnabarns Brynjólfs í Koti. Þriðja barn Soffíu og Sveins var Helga Guðbjörg, móðir Magnúsar heilsugæslulæknis á Akureyri og þeirra systkina. Þessi dæmi um niðursetninga, sem náðu að halda sér á floti, eru ekki mörg og önnur hafa ekki verið könnuð til hlítar. Afdrif þessara tveggja niðursetninga frá Steinsstöðum vekja þó óneitanlega spurningar um áhrif uppeldisins hjá því góða fólki sem hjónin á Steinsstöðum hafa líklega verið.

Þess er hinsvegar ekki að vænta að niðursetningum hafi vegnað verr en systkinum þeirra sem urðu eftir hjá foreldrum sínum sem bjuggu við þá fátækt að þeir urðu að láta börn sín frá sér sem tökubörn eða niðursetninga. Það hefur komið fram hér að framan að það voru yfirleitt frekar vel stæð heimili sem tóku við niðursetningunum og þess vegna er líklegt að þeir hafi almennt fengið betra uppeldi og atlæti en systkinin sem eftir sátu. Dæmin um illa meðferð á niðursetningum eru án efa til og sögurnar af þeim sannar en við vitum ekki hversu algeng þau dæmi voru. Hitt vitum við að „fár bregður hinu betra ef hann veit hið verra,“ eins og máltækið segir. Þess vegna er eins víst að sögurnar um illa meðferð á hreppsómögum séu minnisstæðari en um heimilin sem fóru vel með börn, óháð því hver átti þau.

„Það er gott að fá barnið, hver sem á það“, sagði framangreindur Stefán á Rauðalæk þegar gárungarnir, sveitungar hans, reyndu að stríða honum á því að hann gæti ekki verið faðir svo fallegrar stúlku sem Moniku dóttur hans. Þetta viðhorf til barna var víst ekki endilega í heiðri haft meðal fósturforeldra niðursetninga í Skriðuhreppi á seinni hluta nítjándu aldar og jafnvel síðar, annars hefðu þessi orð Stefáns ekki orðið fleyg.

 

 

Skriðuhreppur og Saurbæjarhreppur

Eins og segir í inngangi þessara skrifa bjóst höfundur þeirra við að niðursetningum hefði verið þvælt meira milli bæja í Saurbæjarhreppi en á heimaslóðum hans sem reyndar voru í Glæsibæjarhreppi en ekki Skriðuhreppi sem þó var tekinn til skoðunar. Hér á eftir fer lauslegur samanburður á þessum málum í þessum tveimur sveitarfélögum en tekið skal fram að athugun á Saurbæjarhreppnum er hvergi nærri eins nákvæm og á Skriðuhreppnum. Íbúafjöldi í Saurbæjarhreppi var á seinni hluta nítjándu aldar talsvert minni, sjá töflu 7:

 

Hlutfallslegur barnafjöldi í sveitarfélögunum var svipaður eins og mynd 3 sýnir:

Hlutfall niðursetninga af öllum börnum hefur þó verið sveiflukenndari í Saurbæjarhreppi, þeir voru fáir um og upp úr miðri öld en um 1860 fór þeim að fjölga mjög. Á árunum 1853 til 1858 voru aðeins einn til tveir niðursetningar undir fimmtán ára aldri í hreppnum en árið 1859 urðu þeir allt í einu tíu og á árunum 1870 til 1875 voru þeir um og yfir 35, flestir árið 1874, 47. Mynd 4 sýnir hlutfall niðursetninga af öllum börnum í þessum sveitarfélögum.

 

Gerð var samskonar athugun á fjölda niðursetninga í Saurbæjarhreppi og gerð hafði verið í Skriðuhreppi. Skráðir voru allir niðursetningar samkvæmt hreppsbókum frá 1850 og fram til 1874 en á árunum 1875 til 1880 voru upplýsingar fengnar úr sóknarmannatali viðkomandi sókna. Niðurstöður eru sýndar í töflu 8.

 

Þar sem íbúafjöldi í Saurbæjarhreppi var aðeins um 2/3 af íbúum Skriðuhrepps er ljóst að meginhluta þessa tímabils voru niðursetningar í Saurbæjarhreppi tvöfalt fleiri hlutfallslega en niðursetningar í Skriðuhreppi.

Það vekur strax athygli hve kynjaskipting niðursetninganna í Saurbæjarhreppi er jöfn á meðan drengir eru helmingi fleiri en stúlkur meðal niðursetninga í Skriðuhreppi.

 

Þegar litið er yfir niðursetningahópinn í Saurbæjarhreppi á árunum 1850 til 1880 vekur það athygli að meginreglan hefur verið að börnin hafa verið hjá sömu fjölskyldunni frá því að þeim var komið í fóstur og þangað til þau áttu að vera farin að standa á eigin fótum eftir fermingu.

Algengt var að þau voru áfram hjá fósturfjölskyldunni sem vinnufólk eftir að hreppurinn var hættur að borga með þeim. Sömu fyrirvara verður að hafa á athuguninni á Saurbæjarhreppi og á Skriðuhreppi, ástæða fyrir að börn voru á fleiri en einum bæ getur stundum hafa verið að fósturfjölskyldan flutti og niðursetningurinn með. Þetta hefur ekki verið skoðað jafnvandlega í Saurbæjarhreppi og í Skriðuhreppi. Tafla 9 sýnir fjölda dvalarstaða barnanna í Saurbæjarhreppi í samanburði við Skriðuhrepp.

Niðurstaðan af samanburði þessara tveggja sveitarfélaga er sú að enginn umtalsverður munur hafi verið á meðferð niðursetninga hvað varðaði þvæling þeirra á milli heimila eftir því hver bauðst til að hafa þau fyrir minnsta meðlagið. Í báðum hreppunum var meira en helmingur barnanna alltaf hjá sömu fjölskyldunni eftir að þau voru tekin í fóstur. Allnokkur dæmi eru um það í Saurbæjarhreppi að barn hafi farið eitt ár á bæ og næsta ár á annan bæ en verið þar upp frá því. 

Höfundur pistils þessa kyngir því hér með þeim fordómum sínum að verr hafi verið farið með niðursetninga í Saurbæjarhreppi en í heimabyggð hans, hvað þvæling milli bæjar varðar, þótt vissulega hafi Glæsibæjarhreppur bjargað sér undan dómi um málið með því að varðveita ekki hreppsbækur sínar eins vel og hin sveitarfélögin. Sjálfsagt hafa viðhorf hreppstjóra þar þó verið svipuð og annarstaðar.

Hér verður ekki fjallað nánar um aðra hópa sveitarómaga né um tökubörn í Saurbæjarhreppi. Þó má þess geta að meginreglan þar var að gamlingjar væru á sama bæ uns yfir lauk eftir að þeir komust á sveitarframfæri. Á þessu voru þó undantekningar. Sigríður Bjarnadóttir fór á sveitina 75 ára gömul og var eftir það á Jórunnarstöðum, Hrísum, Melgerði, Rauðhúsum, Torfufelli, Þormóðsstöðum, Ytri-Villingadal og aftur á Jórunnarstöðum. Verri dæmi eru þó um öryrkjana, hreppsómaga á aldrinum 15 til 60 ára eða svo sem voru ófærir um eigin framfærslu. Guðrún Sigurðardóttir brjálaðist 25 ára gömul og var á tveimur bæjum áður en hún komst í varanlega vist á Núpufelli. Helga Guðmundsdóttir var í hreppsbókinni sögð heyrnarlaus og vitlaus, leiðinleg og fjandi óþæg. Næstu ár eftir að hún varð 29 ára var hún vistuð á nokkrum bæjum sum árin, mest á fjórum bæjum áður en hún hún fékk varanlega vist í Nesi þar sem hún var tólf ár samfleytt. Sigurður bróðir hennar vann sér það til óhelgi að vera nánast blindur og óþægur, Íslendingabók segir hann hafa verið geðbilaðan. Hann var vistaður víða, eitt árið á þremur bæjum, annað á fjórum.

 

Niðurstöður

Á seinni hluta 19. aldar var algengt í Skriðuhreppi að börn væru vistuð utan heimila foreldra sinna, ýmist sem neyðarúrræði foreldra – fósturbörn og tökubörn – eða sem neyðarúrræði sveitarinnar – niðursetningar eða niðursetur. Samskonar úrræði voru notuð þegar um var að ræða fullorðna öryrkja og gamalt fólk sem gat ekki lengur séð fyrir sér. Í þessari samantekt hefur fyrst og fremst verið horft á tökubörn og niðursetur í Skriðuhreppi sem voru 3,5 til 5% hreppsbúa á þessum tíma og hreppsómagar, börn og fullorðnir, kostuðu sveitarsjóð gjarnan um 90% af útgjöldum hreppsins. Á tímabilinu sem skoðað var – árin 1850 til 1880 – fór tökubörnum fækkandi en niðursetum fjölgaði. Meðal tökubarna voru stúlkur heldur fleiri en drengir en drengir voru helmingi fleiri en stúlkur meðal niðursetninga. Algengast var að tökubörn færu frá foreldrum sínum eftir tíu ára aldur en niðursetningar fóru almennt yngri að heiman, algengast var að þeir væru þriggja til sex ára sem skýrir að niðursetningar voru almennt mun lengur í fóstri en tökubörn. Meira en 70% tökubarnanna voru aðeins eitt til tvö ár í fóstri en rúm 40% niðursetninga voru eitt til tvö ár í fóstri og um 30% þeirra voru sex ár eða lengur. Aðeins 11% tökubarnanna dvöldust á fleiri en einum bæ og ástæðan fyrir umskiptunum var gjarnan að fósturforeldrarnir fluttu milli bæja. Um 60% niðursetninganna voru allan fósturtímann á sama bænum en 15% þeirra voru á þremur bæjum eða fleiri. Það virðist þó hafa verið viðurkennt sjónarmið að best væri fyrir barnið að það væri sem mest hjá sömu fósturforeldrum.

Nokkur dæmi eru um að stórir barnahópar frá sömu foreldrum hafi verið niðursetningar og nokkuð ljóst að foreldrar sem ólust sjálfir upp á fátækum heimilum hafa oft átt erfitt uppdráttar og þurft að láta börn sín frá sér.

Fósturforeldrar niðursetninga voru almennt betur stæðir en meðalbóndinn í sveitinni sem bendir til að skilyrði til að fara vel með þessi börn hafi verið heldur góð. Þar með er ekki sagt að vel hafi verið farið með niðursetninga en um atlæti þeirra eru næsta fáar heimildir. Við vitum ekki hvort þeir nutu ástar og umhyggju til jafns við önnur börn en engum þarf að koma á óvart þótt svo hafi ekki verið. Niðursetningar og tökubörn voru eflaust látin vinna en það hafa önnur börn þurft að gera líka. Líklega var þó á mörgum heimilum staðið nokkuð vel að uppeldi þessara barna. Þeim var kennt að lesa og sú skylda hvíldi á fósturheimilunum að þeim væru kennd fræðin, þ.e. lestur og sú kunnátta sem þau þurftu að hafa til að geta fermst. Sóknarmannatöl bera með sér að presturinn hefur litið eftir fræðslunni og skráð í bókina hvernig börnin stóðu sig á hverjum tíma. Að öðru leyti komu þessi börn úr fóstrinu með tvær hendur tómar og fá dæmi hafa sést um að niðursetningarnir, sem hér voru skoðaðir, hafi orðið vel bjargálna síðar á lífsleiðinni. Þó eru dæmi um að stúlkur, niðursetningar, hafi gifst sæmilega efnuðum bóndasonum og búnast vel. Yfirleitt gekk fátæktin þó í erfðir og það var ekki fyrr en löngu seinna sem sanngirnisbætur voru fundnar upp handa börnum sem fengu óásættanlegt uppfóstur á kostnað hins opinbera.

Ekkert bendir til að nokkur grundvallarmunur hafi verið á meðferð hreppsómaga í Skriðuhreppi og Saurbæjarhreppi. Athyglisvert er að hlutfall kynja meðal niðursetninga undir fimmtán ára aldri var jafnt í Saurbæjarhreppi en í Skriðuhreppi voru piltar helmingi fleiri en stúlkur.

(Greinin birtist í Súlum, norðlensku tímariti, 59. hefti 2020)

 

 

[1] Gísli Ágúst Gunnlaugsson: „Everyone’s Been Good To Me, Especially the Dogs“: Foster-Children and Young Paupers in Nineteenth-Century Southern Iceland. Journal of Social History 27 (Winter 1993).
[2] Hulda Sigurdís Þráinsdóttir: Líf til fárra fiska metið. Fátækt fólk og fátækraframfærsla á Austurlandi 1850-1910. Ritgerð til BA-prófs, maí 2011. Sjá einnig Stefán Ólafsson: Íslenska leiðin. Almannatryggingar og velferð í fjölþjóðlegum samanburði. Háskólaútgáfan 1999.
[3] Jón Bjarnason: Fólk sem ekki má gleymast. Akureyri, Skjaldborg 1983.
[4] Hreppsbók Skriðuhrepps 1864-1881, bls. 125.
[5] Hreppsbók Skriðuhrepps 1864-1881, bls. 340
[6] Monika Magnúsdóttir: Það var fæddur krakki í koti. Um fósturbörn og ómaga á síðari hluta nítjándu aldar. Grein í ritgerðasafninu Einsagan – ólíkar leiðir, Háskólaútgáfan, Reykjavík 1998.
[7] Bréfin 1911-1920 á vefnum gunnarf.is undir Textaskrár. Bréf dags. 9. 4. 1911.
[8] Bréfin 1921-1936 á vefnum gunnarf.is undir Textaskrár. Minningarorð Stefáns V. Sigurjónssonar um Frímann Guðmundsson mælt fram við gröf hans 31. mars 1926.
[9] Bréfin 1921-1936 á vefnum gunnarf.is undir Textaskrár. Bréf dags. 9. 1. 1923.
[10] Bréfin 1921-1936 á vefnum gunnarf.is undir Textaskrár. Bréf dags. 26. 11. 1923.
[11] Halldór Laxness: Brekkukotsannáll. Vaka-Helgafell, Reykjavík 2004.