Elíasar þáttur

Elíasar þáttur

Árið 1859 var Elías Eyjólfs­son (1841-1871) skráður vinnumaður í Vigur, 19 ára gamall, og var þar fram yfir miðjan næsta áratug. Skömmu eftir lát Skarphéðins Ottasonar árið 1861 fæddi Elísabet enn son sem nefndur var Skarp­héðinn Hinrik (1861-1947), Elías var lýstur faðir og hann gekkst við barninu. Skarphéðinn hafði fátt af Elíasi að segja en heldur meira af Sigmundi bónda í Vigur sem reyndist honum ætíð vel og þau hjón reyndar bæði svo og seinni kona Sigmundar, Viktoría. Hélt Skarphéðinn því fram að Sigmundur hefði sagt sér fullorðnum manni að hann væri faðir hans og ætlaði að gera það opinbert. Af því varð hins vegar aldrei, hugsanlega vegna skyndi­legs fráfalls Sigmundar, en hugsan­lega var þetta bara ein af sögunum sem Skarphéðinn sagði og voru ekki „teknar sem ábyggilegar heimildir“ eins og Kristján frá Garð­stöðum orðar það (Kristján Jónsson frá Garðstöðum: „Svipmyndir af búendum í Ögursveit um alda­mótin 1900“ í Árbók Sögufélags Ísfirðinga, 1956). Svo mikið er þó víst að Skarp­héðinn lét fyrsta soninn sem hann eignaðist heita Sigmund Viktor eftir Vigurhjónunum sem vitjuðu hans í draumi eins og siður var á þeim tíma. Og hugsan­lega var fyrsta /næst­fyrsta dóttirin skírð eftir Önnu, fyrri konu Sigmundar.

Söguslóðir á Snæfjallaströnd og Langadalsströnd

Nú veit auðvitað enginn hvað hæft er í sögum um að Sigmundur óðals­bóndi í Vigur hafi verið faðir Skarp­héðins en ekki Elías Eyjólfsson. Þess vegna verður Elías að fá að njóta vafans og fá hér lýsingu á skammri og líklega ekki viðburðaríkri ævi. Hann var sennilega fæddur á Vöðlum í Önundarfirði þar sem hann ólst upp fyrstu árin. Móðir hans var Sigríður Markúsdóttir (1808-1862) fædd í Súgandafirði en faðirinn Eyjólfur Pálsson (1812-1862) úr Önundarfirði. Þau áttu enga frekari samleið, Eyjólfur kvæntist ekki og eignaðist líklega ekki önnur börn en árið 1845 var Elías í manntali kallaður niður­setningur á Vöðlum hjá móður sinni og Bjarna Þorgilssyni (1800-1846) bónda hennar en þau giftust árið 1844. Bjarni lést tveimur árum eftir giftinguna en þá höfðu þau Sigríður eignast tvo syni en hvorugur varð langlífur. Sigríður hafði Elías hjá sér í vinnu­mennsku á Skarði í Ögursveit 1849 og í „Staðar­húsum“ í Súgandafirði 1850. Þau voru aftur á Skarði 1853 og 1855 var Elías skráður smali þar enda orðinn 14 ára gamall. Sigríður var þá vinnu­kona á Fremribakka í Langadal við Ísafjörð en 1860 voru mæðginin komin saman út í Vigur til Sigmundar Erlingssonar útvegs­bónda.

Eftir að hafa gengist við Skarphéðni Hinrik í Vigur 1861 var Elías nokkur ár þar áfram en fluttist inn að Eyri í Mjóafirði 1867 og árið 1870 var hann kominn út að Bæjum á Snæfjallaströnd ásamt móður sinni. Elías giftist Guðbjörgu Jónsdóttur (1849-1882) frá Efstadal (systur Rósin­krönsu ömmu Karvels Pálmasonar alþingismanns) í janúar 1870 og voru þau í húsmennsku á Bæjum og Sigríður móðir hans hjá þeim. Ári síðar fórst Elías í fiskiróðri frá Bolungarvík þrítugur að aldri. Sigríður var áfram á Bæjum og lést þar en Guðbjörg fæddi soninn Elías (1871-1953), líklega á Bæjum.

Elías Elíasson kemur nokkuð við sögu Önnu Skarp­­héðinsdóttur (1888-1968) Elías­sonar, sem rakin verður hér á eftir, m.a. þegar Anna bjó hjá honum á Ísafirði á fyrsta tug 20. aldarinnar. En ekki bara það. Elías ólst upp hjá móður sinni sem giftist aftur og bjó með Dagbjarti Jónssyni á Hamri á Langa­dalsströnd 1880. Guðbjörg og Dag­bjartur eignuðust þrjú börn en af þeim komst aðeins Jónína Margrét (1878-1959) á legg en fékk þó ekki að njóta foreldranna lengi því að Guðbjörg lést 1882 og Dagbjartur drukkn­aði 1884. Jónína Margrét Dagbjartar­dóttir, eins og hún var skráð á bækur, ólst upp á Snæ­fjallaströnd og giftist þar Jóni Guðmundi Karvels­syni, föðurbróður Karvels Pálma­sonar alþingis­manns. Þau lifðu lengi, eignuðust 3 dætur sem upp komust og bjuggu í Bolungar­vík.

Elías sem þarna var orðinn 13 ára fór í fóstur eða vinnumennsku að Tungu og e.t.v. á fleiri bæi þar við Ísafjörð áður en hann fór í Laugaland í Skjald­fannar­dal og þar var hann fram yfir aldamót. Einu sinni - skömmu eftir að hann fór fyrst í Lauga­land - átti að setja hann niður á annan bæ en hann strauk þaðan aftur í Laugaland og ílentist þar.

Árið 1890 var Elías skráður vinnumaður á Lauga­landi hjá Kristjáni Sigurði Ólafssyni (1845-1914) og Guðrúnu Finnsdóttur (1832-1911) og þar voru þær líka til heimilis Etilríður Pálsdóttir (1882-1963), móðir Steins Steinarrs, og Anna Skarp­héðinsdóttir, bróður­dóttir Elíasar – nema hvað?

Elías Elíasson

Elías og Jensína

Dóttir Kristjáns og Guðrúnar á Lauga­landi hét Halldóra (1872-1899) og var árinu yngri en Elías. Elías og Halldóra trúlofuðust og eignuðust tvö börn, Ólöfu Guðrúnu (1897-1950) og Kristján Sigurð (1899-1977) en hálfu ári eftir fæðingu Kristjáns lést Halldóra, komst aldrei á fætur eftir barnsburðinn. Elías var áfram á Lauga­landi með Kristján hjá sér en Ólöf fór í fóstur í Lauga­ból í Ögur­sókn. Árið 1902 giftist Elías Jensínu Hróbjörtu Jensdóttur (1877-1955) sem komin var norður í Djúp sunnan úr Dölum eins og svo margir sýslungar hennar um þessar mundir. Þau voru húsfólk á Laugalandi til 1904 en fluttu þá til Ísafjarðar með börn sín og í manntalinu 1910 er hann skráður bóndi á Gili í Syðridal í Bolungar­vík. Jensína Hróbjört Jensdóttir, kona hans, var föður­systur Brynjólfs Jóhannes­sonar leikara. Eina barn þeirra sem upp komst var Aðal­steinn (1909-1991) en eftir að þau fluttu með börn sín til Reykja­víkur eignuðust þau tvíbura sem létust nýfæddir. Elías starfaði hjá Reykja­víkurbæ, eins og sveitar­félagið hét þá, eftir að hann kom til Reykjavíkur.

Ólöf Guðrún Elíasdóttir eignaðist 4 börn með Sigur­jóni Jóhannes­syni bif­reiðastjóra í Reykja­vík. Þau Sigurjón slitu samvistum og eftir það átti Ólöf dóttur með Carl Bartels úrsmíða­meistara. Kristján Sigurður Elíasson giftist Kristínu Geirs­dóttur úr Biskups­tungum, þau eignuðust 3 börn. Kristján starfaði sem sem bílstjóri við gerð Flóaveitunnar en lengst af sem bifvélavirki og verkstjóri hjá Eimskip­a­félagi Íslands í Reykjavík. Aðalsteinn giftist Sigríði Sigur­brandsdóttur, Breiðfirðingi, og átti með henni 2 börn. Hann starfaði sem smiður, bifreiðastjóri og vaktmaður í Reykjavík.

Elíasi er svo lýst að hann hafi verið afar ljúfur maður, hafði gaman af börnum. Þau hjónin voru félagslynd og mannblendin og fóru mikið út að dansa. Verður saga þeirra ekki rakin hér frekar. Elías var jarðsettur í Fossvogskirkjugarði (H-22-0039).

Jensína H. Jensdóttir, Ólöf Guðrún, Kristján Sigurður, Aðalsteinn og Elías Elíasson