Viðtal við Gunnlaug Hólm Haraldsson og Svanfríði Jakobsdóttur
tekið 1. júlí 1966 af Jóni G. Hjálmarssyni bónda í Villingadal.
Leitast var við að skrifa viðtalið sem mest orðrétt upp eftir segulbandinu. Spurningar Jóns hafa þó að nokkru leyti verið felldar út þar sem svör viðmælenda þarfnast ekki skýringa í spurningunum.
Hér í Villingadal eru nú stödd hjón frá Kanada sem fluttu vestur úr Eyjafirði á fyrsta tug aldarinnar en voru þá ung og ógift. Þau voru landnemar og háðu erfiða lífsbaráttu til að byrja með en áttu atorku og viljastyrk sem nægði þeim til að brjóta sér leið til góðra lífskjara. Gamla landið gleymdist þeim þó ekki og móðurmál sitt hafa þau varðveitt ágætlega. Eitthvað þrýsti þeim á gamalsaldri til að heimsækja æskustöðvarnar og ættingja sína þar enda er nú stórum auðveldara að komast á milli landanna en þegar þau fluttu vestur. Þau hafa fallist á að tala inn á segulband og segja ofurlítið frá ævi sinni og ætti það að varpa nokkru ljósi á ævikjör landnemanna í Vesturheimi. Ég sem spyr er Jón Hjálmarsson, bóndi í Villingadal, Eyjafirði.
Hvar ertu þú fæddur, Gunnlaugur?
Mér er sagt að ég sé fæddur á Blómsturvöllum í Kræklingahlíð 23. maí 1884. Foreldrar mínir voru þar í húsmennsku, þau voru ekki búandi, þau höfðu ekki jarðnæði. Leiðin þaðan lá að Hólum í Eyjafirði, held ég sé. Þau fluttu frá Hólum til Vatnsenda, sem er næsti bær við Hóla, suður, og þaðan fluttist ég til föðursystur minnar að Þormóðsstaðaseli í Sölvadal. Hún hét Hólmfríður Sigurðardóttir og hennar maður hét Kristján Jónasson, ættaður frá Finnastöðum í Sölvadal. Þaðan lá leið mín þegar ég var 13 ára gamall eftir að hafa verið þar í 6 ár, ofan að Ölversgerði í Saurbæjarhrepp. Ég var vinnumaður á bæjum, t.d. í Hraungerði hjá Jónasi Bergmann. Ég var einnig vinnumaður – og það var mitt seinasta vinnumennskuár – hjá Jóhanni Sveinbjörnssyni á Botni.
Þegar ég var 19 ára þá fór ég að hugsa um það að fara vestur. Kaupið var lítið. Ég var nú enginn mannskapsmaður en mér datt í hug, eftir því sem fréttir komu að vestan, að ég mundi geta gert betur þar.
Þú hefur kannski verið búinn að heyra þaðan sögur um gull og græna skóga og ævintýrin heillað þig líka.
Já, svo var það en ég trúði nú því sem mér þótti trúlegast en það sem ég heyrði nú yfirleitt fannst mér fullvissa fengin fyrir því að fátækur og menntunarlaus unglingurinn eins og ég mundi geta gert betur vestur frá.
Voru þá kunningjar þínir einhverjir komnir vestur sem gátu leiðbeint þér og frætt þig um hvernig þar væri að vera?
Frændi minn, Ragnar Smith, var kominn vestur. Hann skrifaði okkur og lét vel af.
(Ragnar Smith, f. 1882, og Gunnlaugur voru systkinabörn. Ragnar var sonur Gunnlaugs E. Gunnlaugssonar, f. 1849, bróður Helgu móður Gunnlaugs, sem fluttist til Brandon 1887 en til hans fluttist Sigurbjörg móðir þeirra Helgu 1893. Ragnar giftist Ingibjörgu systur Haralds og eignaðist með henni Huldu og Valtý (Walter) en lést á besta aldri árið 1918, 36 ára gamall.)
Hvar og hvenær kynntist þú konu þinni og hvað heitir hún?
Svanfríður Jakobsdóttir. Við kynntumst fyrst þegar við vorum bæði á 11. ári og eftir það höfðum við kynni hvort af öðru.
Og var þá ákveðið ykkar í milli áður en þú fórst vestur að hún skyldi koma á eftir ef þér líkaði vel?
Það var talað um það. Ég lagði af stað 1905, 21 árs. Mér brugðust ekki vonir þegar vestur kom, ég var hæstánægður undireins. Þá var dollarinn 3 kr. 75 aurar og þegar ég fékk 2 dollara á dag og reiknaði það 7 kr og 50 aura á dag þá hélt ég að ég væri að gera dásamlega hluti.
Og tókstu þá skjótt að efnast og hugsa þér til búsetu?
Ekki efnaðist ég nú mikið til að byrja með því ég hef nú aldrei verið mikill fjárhagsmaður en ég dró þó svo saman að ég gat hjálpað foreldrum mínum og systkinum að nokkru leyti til að komast vestur. Þau komu tveimur árum seinna og kærastan með.
Og fóruð þið þá að setja saman bú eða urðuð þið ekki bændafólk þegar vestur kom?
Ekki til að byrja með því að við vorum nú bæði efnalítil. Við settumst að í West-Selkirk, við giftum okkur þar og dvöldum þar í ár og hálft. Þá hafði ég tekið heimilisréttarland norður þar sem þá var kallað Árborg og heitir enn í dag. Það var endastöð á járnbraut.
Tókstu þar að nema land eða var þetta tilbúið?
Það var algjörlega ótilbúið, bara frá náttúrunnar hendi.
Þú hefur þá hafist handa eins og gömlu landnemarnir að ryðja skóg og rækta land og byggðir hús þitt úr bjálkum með sömu aðferð og þeir.
Nei, ég gerði það ekki. Ég tók út „logga“ úr skóginum, fékk það sagað í borðvið og byggði mitt fyrsta íveruhús úr því. Það var bara eins og frumbyggjahús, við kölluðum þetta vestur frá sjanta, „shanty“. En yfir skepnurnar byggði ég úr bjálkum. Það var kalt í húsinu og maður hafði viðarofn.
Frumbýlingsárin voru erfið en maður var einkennilega ánægður með það því að alltaf var maður að bera saman við það sem maður áður hafði haft við að búa. Mér fannst það mikið ákjósanlegra en að búa áfram á gamla landinu fyrir utan það að ég hafði ekkert tækifæri til þess að fá bújörð og engin efni á Íslandi. Við þurftum ekki að kaupa landið fyrir sama sem neitt, við fengum landið frá stjórninni, 160 ekrur fyrir 10 dollara. Það var eignarréttur. Skepnurnar komu svona smám saman. Ég vann á Winnipegvatni á veturna fyrir hæsta kaupi en konan sá um heimilið. Og það smáfjölgaði skepnunum. Hún var alein heima með okkar fyrsta barn og gerði það með mestu prýði. Hún kunni að hirða skepnur.
En á sumrin hefur þú þurft að heyja?
Mín fyrstu vinnudýr voru uxar. Þeir reyndust ágætlega. Það hafa líklega verið 4 – 6 ár sem við höfðum uxana. Þá voru þeir orðnir 4 og voru taldir góð vinnudýr en þá breytti maður nú til og keypti hesta.
Og þóttu þeir heppilegri til heimanotkunar en uxarnir?
Þeir voru kannski ekkert heppilegri, þeir voru fljótari og skemmtilegra að vinna með þeim, en þeir voru miklu dýrari í fóðri og viðhaldi öllu. Við bjuggum lengi á þessum stað. Við vorum að lokum komin með 35–40 nautgripi, 12 kýr eða þannig og margar kindur og svín. Manni fannst þetta gefa góðan arð. Undir það síðasta, eftir 1930–40, voru óðum að koma inn dráttarvélar en ég hafði nú enga dráttarvél þar til þrjú síðustu árin sem við bjuggum.
Ég seldi nágranna mínum jörðina. Börnin tóku aðra stefnu, dætur okkar voru giftar í Winnipeg og yngsta dóttirin var komin út í vinnu og það var bara sonur okkar með okkur. Ég man ekki hvað hann var gamall þegar við fórum af landinu.
Það hafa svo liðið áratugir þangað til þið komuð heim?
Konan mín fór heim 1930 en ég kom ekki heim fyrr en fyrir 3 árum, þá komum við bæði. Þegar ég kom í Eyjafjörð þá hefði ég ekki trúað þeirri breytingu sem var á, hefði ég ekki séð það.
Hvað var nú það sem dró þig aftur heim svona á gamalsaldri í svona stutta heimsókn?
Líklega var það forvitni að sjá breytinguna.
Áttir þú ekki skyldmenni eða kunningja sem þú vildir hitta sem voru á lífi þó að þú værir orðinn aldraður maður?
Kunningjunum og ættingjum var nú farið að fækka og ég reiknaði það svo, þegar ég fór, að hugsa um það að jafnaldrar mínir voru flestir farnir, að ég hlyti að vera framúrskarandi lífseig skepna. Þegar við komum í fyrra skiptið vorum við í hóp og tíminn í Reykjavík fór í veislur og ferðalög. Það var tekið framúrskarandi vel á móti okkur og við vorum höfð í hávegum og tíminn eyddist í það og okkur fannst að við þurfa að koma aftur og sjá meira. Nú höfum við farbréf svo að við getum verið heilt ár ef við viljum en það hugsum við nú ekki að vera.
Og hvernig hefur ykkur geðjast þessi síðari heimsókn?
Með ágætum. Við gerðum ekki ráð fyrir því, þegar við komum síðast, að koma aftur og sama er enn, við gerum ekki ráð fyrir að koma aftur. Það er nú farið að halla undan og við förum að teljast gömul. Ég er 82ja og konan mín er á öðru árinu yfir áttrætt.
Þið lítið nú ekki út fyrir að vera svona gömul. Þið berið aldurinn vel. Heldur þú að þið hefðuð verið svona ungleg ef þið hefðuð átt heima hér á Íslandi?
Ég get nú ekki um það sagt en ég geri ráð fyrir að við hefðum verið komin undir græna torfu.
Þessi lífsbarátta hefur reynst ykkur erfið hvort heldur sem var hér heima eða í byrjun þarna vestur frá en svo hafið þið haft ykkur upp úr þessu og ykkur liðið vel síðari hluta ævinnar, er það ekki rétt?
Sérstaklega síðan við fluttum 1944 til Vancouver í British Columbia. Okkur hefur reynst sérstaklega vel að vera þar.
Er það nokkuð sem þú vilt taka fram að lokum frá eigin brjósti áður en við slítum þessu samtali?
Það er nú svona að þegar maður er að tala saman, þá getur maður talað í það óendanlega um eitthvað og ég held að það sé nú óþarfi.
Þú minnist ýmissa manna, er það ekki, sem þér hefur verið sérstaklega vel við á lífsleiðinni. Kærir þú þig um að nefna nokkur nöfn, hér heima á Íslandi?
Ég fékk litla aðstoð frá mönnum hér á Íslandi.
Þú hefur átt góða kunningja en ekki átt neitt sem hélt í þig í raun og veru og fyrst foreldrar þínir fóru með þér vestur, þá hefur þú í rauninni verið búinn að slíta þig héðan, að mestu leyti a.m.k.
Það var enginn hér sem vildi eyða tíma í að koma neinu viti fyrir mig. Menntun mín var engin og enginn tími til að læra neitt vestra því að vinnan sat fyrir öllu.
Ég þakka þér fyrir. Þetta er nú svona í fljótu bragði það sem mig langaði til að vita. Ég veit að þú átt í fórum þínum fjölda af skemmtilegum sögum þar sem þú ert margt búinn að reyna. Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru en tíminn leyfir ekki að farið sé nánar út í þetta. En ég þakka þér svo fyrir.
Svanfríður, nú hef ég átt viðtal við bónda þinn og mig langar til að spyrja þig líka. Hvar ert þú fædd?
Á Æsustöðum í Eyjafirði.
Hvað hétu foreldrar þínir og voru þeir búandi þar?
Þau hétu Jakob og Guðbjörg og voru ekki búandi. Frá Æsustöðum fór ég til ömmu minnar, Kristbjargar Jónsdóttur. Hún var þá á Kambi í Eyjafirði – nálægt Munkaþverá. Ég var þá á öðru árinu. Mig minnir að ég væri þar í tvö ár. Síðan lá leiðin að Holti. Þá fór móðir mín að búa þar, gifti sig Sigurjóni Þorkelsssyni og fór að búa á einni jörðinni hans Magnúsar Sigurðssonar sem þá var stórbóndi á Grund í Eyjafirði. Æskustöðvarnar voru í Holti og þar var ég þangað til ég var á 20. árinu. Þá fór ég ofan á Akureyri og fór að læra saumaskap fyrir einn vetur. Svo fór ég þann næsta vetur og var hingað og þangað á bæjum að sauma föt, bæði karlmannsföt og peysuföt sem þá tíðkaðist að vera brúkað, mest sem spariföt, og svoleiðis vann ég í tvo vetur við þetta starf á veturna en tvö sumur eða þrjú eiginlega var ég í Hvammi hjá Guðlaugi Jónssyni bróður Guðrúnar á Grund. Þar var ég þrjú sumur og haust og vor líka.
(Jakob Pétur Sigurgeirsson f. 1858, sonur sr. Sigurgeirs Jakobssonar prests á Grund í Eyjafirði, f. um 1824, Péturssonar umboðsmanns á Breiðumýri í S.Þing. Sigurgeir var prestur á Grund frá 1860 og fram undir 1880 en var þá sviptur hempunni vegna drykkjuskapar. Móðir Jakobs Péturs var Ingibjörg Jónsdóttir, f. um 1838 í Draflastaðasókn. Grundarbræðurnir voru 6 og var Jakob elstur, síðan Eggert Ferdínant, þá Vilhjálmur Kristján, Jón Gunnlaugur, Bogi Hermanníus og loks Haraldur Geir, tónskáld í Kanada. Yngst var stúlka sem hét Vilhelmína Jakobína. Kristín Sigfúsdóttir segir svo frá: „Þeir bræður voru flestir hneigðir til víndrykkju en atgervismenn á margan hátt. Allir voru þeir söngmenn góðir og léku vel á hljóðfæri, orgel, fiðlu og harmoniku, og smíðuðu þau að miklu leyti. Undruðust allir hagleik þeirra og snilligáfu. ... Mörg síðustu árin bjó fjölskyldan ein saman á Grund. Önnuðust bræðurnir þá mest innanbæjarstörf. Þeir sniðu og saumuðu eftir fyrirsögn móður sinnar, matbjuggu og báru á borð fyrir gesti og öll verk fóru þeim vel úr hendi.“ Síðar segir Kristín: „Nokkru síðar [eftir að sr. Sigurgeir dó í fátækt] dó Jakob umboðsmaður Pétursson á Breiðumýri og eftirlét sonarbörnum sínum á Grund arf, sem í þá daga þótti mikill. Brá fjölskyldan búi fljótt eftir það og flutti til Ameríku. Mikilhæf var hún en hamingjulítil í Eyjafirði“ (Kristín Sigfúsdóttir: Rit, I. bindi, bls. 231). Söguritara er ekki kunnugt um örlög Jakobs í Kanada en í Tímariti Þjóðræknisfélags Íslendinga 1951 segir Gísli Jónsson svo frá Haraldi bróður Jakobs: „Haraldur kvað hafa verið fjölhæfur til munns og handa og mjög listhneigður; lærði tungumál auðveldlega, fékkst töluvert við smásagna- og ljóðagjörð og gaf út lítið kvæðakver. Lék óvenju vel á stofuorgel, að mestu sjálflærður, og bjó til nokkur sönglög. Kvað allstór syrpa af söngvum hans vera til í fórum frændfólks hans sem eg hefi því miður ekki átt kost á að sjá. Hann mun hafa fengið bréflega kennslu í tónfræði og einhverja aðra tilsögn að auki. Eitt lag var prentað og hét „Frelsissöngur“. Var bæði kvæðið og lag eftir Harald.“
Guðbjörg Jónsdóttir, f. 24. 5. 1865 á Finnastöðum í Köldukinn, d. 3. 8. 1943 á Akureyri. Guðbjörg giftist Sigurjóni Þorkelssyni, f. 12. 3. 1855 í Grundarsókn, d. 7. 2. 1946 á Akureyri. Þau bjuggu í Holti til 1930 að þau fluttu til Akureyrar ásamt sonum sínum og bjuggu hjá þeim elsta, Steinþóri f. 6. 3. 1892 sem giftist ekki. Næstur var Kristbjörn, f. 6. 6. 1894, sem giftist Jóhönnu Aðalmundardóttur, f. 4. 9. 1887 í Hlíð í Sauðaneshreppi. Þau áttu Aðalbjörn, f. 20. 6. 1921 í Árgerði, Saurbæjarhreppi, hann var flugmaður og bjó á Akureyri til 1951. Magnús hét þriðji sonurinn, f. 21. 1. 1898, húsgagnabólstrari og dívanasmiður á Akureyri, d. um 1982. Hann giftist Guðrúnu Þóreyju Jónsdóttur og dóttir þeirra er Lilja Guðbjörg, f. 13. 2. 1940, kona Birgis Sveinarssonar, f. 14. 12. 1952. Yngsti sonur Sigurjóns og Guðbjargar, sem upp komst, var Garðar f. 16. 8. 1902. Kona hans var Amalía Guðrún Valdimarsdóttir, f. 13. 12. 1896 á Kífsá í Glæsibæjarhreppi. Þau áttu ekki börn en ólu upp kjörson. Guðbjörg og Sigurjón eignuðust síðan Þorkel sem dó á 1. ári 1905.)
Þú hefur nú margt fengist við í æsku þinni. Hvað er þér nú svona minnisstæðast af því?
Ég fékk vel algenga vinnu, það var nú allt erfiðisvinna, allt unnið af handafli. Ég var við heyskap, ég var við skepnuhirðingu og ég var við smalamennsku, var með ærnar á nóttunni um fráfærurnar fyrir nokkrar vikur fram að slættinum en þá varð ég að sleppa því starfi til að fara í heyskapinn en þá bara fór ég á kvöldin og rak saman ærnar til þess að geta unnið ef ég þurfti að vinna á daginn þó ég væri með ærnar á nóttunni til að hjálpa allt sem ég gat. Þetta var nú mitt starf og svo tóskapur á veturna. Mér líkaði smalastarfið ágætlega því að ég hef ævinlega verið gefin fyrir skepnur, sérstaklega kindur. Ég fann ekkert til þess að það væri erfitt því að ég var ævinlega frísk og hafði ánægju af skepnunum.
Svo fór ég vestur um haf 1907.
Og hlakkaðir þú til fararinnar eða var í þér uggur?
Það var ekki í mér uggur því að ég hef aldrei kviðið fyrir neinu. Ég er ánægð með að hafa farið vestur, ekki fyrir það að ég hefði getað lifað á Íslandi en mig langaði að breyta til og ég vildi fara vestur og sjá mig um en var nú að hugsa um að koma heim aftur sem ekki varð nú fyrr en eftir mörg ár. En það gekk vel þarna vestur frá fyrir okkur eftir að ég giftist. Þá vann ég á landinu sem við lifðum á í 35 ár og þar fæddust okkar krakkar og ólust upp. Þau heita Ida, Fanney, Svava og Garðar.
Var nú ekki erfitt til að byrja með að vera húsfreyja þarna?
Það var nokkuð erfitt að vera húsfreyja þar vestra til að byrja með en ég var vön við alla vinnu og ég hef ævinlega haft gaman af að vinna og það var ekkert erfitt þess vegna og ég var ánægð með að vinna.
Svo komst þú heim, var það Alþingishátíðarárið?
Já, ég kom heim 1930, Alþingishátíðarárið. Ég var á hátíðinni og á góðar minningar þaðan. Það var fjarskalega mikið um að vera, óskapleg ræðuhöld og miklar skemmtanir og einlægir stórhöfðingjar úr einlægum löndum, hingað og þangað að. Þá kom ég til Eyjafjarðar. Ég fór nú aðallega heim til að sjá móður mína því að hún var orðin lasin. Hún lifði þó mörg ár eftir það. Mig langaði að nota tækifærið þarna því að þá var hópferð. Við fórum á skipi og það var nú allt öðruvísi heldur en að fljúga því það tók svo langan tíma. En sama, það gekk vel.
Og svo komum við fyrir þremur árum, 63. Það gekk ágætlega, þá komum við á flugvél, fengum góðar móttökur í Reykjavík. Það var hópferð þá. Það voru óskapa veisluhöld og skemmtanir. Við ætluðum aldrei að komast norður í Eyjafjörð fyrir þessu því tíminn var svo naumur, við vorum bara 3 vikur. Svo við höfðum svo stuttan tíma hérna í Eyjafirði. Tíminn var ekki nógu langur, ekki hægt að taka eftir nógu mörgu og ekki hægt að fara nógu víða. Tíminn leyfði það ekki.
Og hvernig líst þér á landið núna?
Nú líst mér vel á landið, ég er alveg hissa hreint hvað hægt hefur verið að gera mikið á ekki lengri tíma, alveg hissa hreint. Og hvað mér sýnist að öllu fólki líði vel og hafi allsnægtir.
Gætir þú hugsað þér að setjast hér að núna?
Nei, ég er búin að vera of lengi fyrir vestan til þess. Ég mundi ekki vilja breyta til, fyndist ég ekki geta það. Ég hef haft sérstaka ánægju af að koma heim núna, allstaðar tekið vel á móti manni, hvar sem maður kemur. Ég var hjá bróður mínum á Akureyri, á þar þrjá bræður og þeir vilja allt fyrir mig gera auðvitað og nú sem stendur er ég hjá skyldfólki hans, frænku hans, og manni er allt gert til skemmtunar sem upphugsanlegt er svo það er alveg eins gott eins og getur frekast verið.
Ég er þakklát fólkinu sem hefur gert okkur allt til geðs og allt til góðs og viljað skemmta okkur á allan hátt. Ég er þeim þakklát og óska að þeim megi líða það allra besta af ókomna tímanum.
Að lokum vil ég geta þess að ég er undrandi yfir því hvað þið hjónin talið góða íslensku eftir svona langa fjarveru. Hvernig eiginlega má það vera að þið hafið haldið íslenskunni óbrenglaðri svona langan tíma?
Svoleiðis var að við settum okkur að tala íslensku vegna barnanna til að þau lærðu okkar mál, íslenskuna, því að þau eru Íslendingar í húð og hár og geta ekki orðið annað og ef við hefðum ekki talað íslensku þá hefðu þau ekki lært nokkurn skapaðan hlut í íslensku og það er leiðinlegt. Þess vegna töluðum við alltaf íslensku við þau og þess vegna tala þau öll íslensku og þau lesa öll íslensku og eru eiginlega góðir Íslendingar. Þau myndu hafa ánægju af því að koma heim og sjá landið foreldra sinna en hvort það verður nú nokkurn tíma það skal ég ekkert um segja, hvort það getur látið sig gera.
Þakka þér fyrir, Svanfríður.
Á seinni hluta síðaðstliðinnar aldar og í byrjun þessarar fluttu Íslendingar í stórum hópum til Ameríku og gerðust landnemar þar. Orsökin var leit að betri lífskjörum en Ísland hafði þá upp á að bjóða enda urðu ýmsir til að halda upp áróðri fyrir vesturferðum og hafa þá kannski málað lífið þar bjartari litum en ástæða var til. Landnámið reyndist hins vegar erfitt og krafðist viljastyrks og vinnuþrælkunar. Fátæktin fylgdi líka fólkinu vestur yfir hafið og yfirgaf það ekki fyrstu árin eftir komuna þangað. Sumir fóru heim til Íslands aftur, aðra langaði heim en komust ekki vegna peningaleysis en flestir sættu sig við lífið vestra og gerðust þar ríkisborgarar. Ísland bjó samt áfram í hugum þess og heimilin og heilar byggðir héldu áfram að vera íslensk. Fólkið langaði til að heimsækja Ísland en ferð þangað tók langan tíma og var auk þess mjög kostnaðarsöm. En bætt lífskjör og bættar samgöngur hafa nú um nokkur ár gert fólki mögulegt að koma til Íslands enda hafa nú margir gert það og heimsótt vini og ættingja um leið og það ferðaðist um landið. Allt þetta kemur glöggt fram í viðræðum hér að framan þar sem hjónin Gunnlaugur Hólm Haraldsson og Svanfríður Jakobsdóttir segja frá því helsta sem á daga þeirra hefur drifið.
Viðtalið var tekið 1. júlí 1966 í Villingadal í Eyjafirði hjá hjónunum Hólmfríði Sigfúsdóttur og Jóni Hjálmarssyni sem var spyrjandi.