Jóns þáttur beykis
Árið 1855 var Elísabet vinnukona á Fæti undir Folafæti við Seyðisfjörð, sumir segja ráðskona, og eignaðist þá dreng, sem skírður var Jón (1855-1928), með Jóni Jóhannessyni (1832-1907) vinnumanni og síðar bónda á Fæti og 1857 segir prestþjónustubók Ögurþinga að hún hafi eignast dótturina Ingibjörgu (1857-?) með þeim sama Jóni. Sögusagnir eru til um að Jón bóndi hafi að börnum þessum getnum og fæddum komið heim í Fót með aðra konu til að giftast, Gróu Benidiktsdóttur (1828-1892), og þá hafi Elísabet ekki séð ástæðu til að vera þar lengur. Þetta er ekki alls kostar rétt því að Elísabet var komin með Jón son sinn út í Vigur 1858 en Gróa kom ekki í Fót fyrr en 1859 og þá voru bæði börn Jóns bónda, Jón og Ingibjörg, skráð þar til heimilis. Ingibjörg var síðan hjá föður sínum óslitið til 18 ára aldurs og Jón var þar líka frá árinu 1866 til tvítugsaldurs en fyrstu 11 árin var hann mest hjá móður sinni.
Jón Jóhannesson og Gróa bjuggu á Fæti fram yfir 1880 og eignuðust mörg börn en fluttu eftir það að Kleifum í Seyðisfirði ásamt tveimur sonum sínum. Eftir lát Gróu fór Jón með Guðmundi syni sínum að Seljalandi í Álftafirði og var þar 1901.
Eins og áður segir ólst Ingibjörg upp hjá föður sínum á Fæti en árið 1880 var hún skráð vinnukona í Æðey og árið eftir flutti hún þaðan í Fremrihús á Arnarnesi.
Eftir það hverfur hún sporlaust út af kortinu, finnst hvorki í skrám yfir brottflutta né dána. Hún gæti þó hafa farið vestur um haf eins og svo margir á þessum tíma en hún gæti líka hafa flust til Noregs á eftir Jóni bróður sínum.
Jón fór ungur til Noregs, líklega fyrir 1880, en engar upplýsingar um það er að finna í kirkjubókum. Hann hefur sennilega komist á norska skútu en Norðmenn sóttu mjög á Íslandsmið á þessum tíma. Í Noregi lærði Jón beykisiðn sem hann stundaði síðan eftir að hann flutti til Reykjavíkur árið 1908. Á meðan hann bjó í Noregi var hann mikið í siglingum milli landa á tunnuflutningaskipum þar sem hann nýtti iðnnám sitt. Hann giftist norskri konu, Anne Marie (1851-1934). Í Noregi eignuðust þau Anne Marie og Jón 4 börn, Jóhannes, Önnu, Ásmund eða Osmund og Jón Magnús sem síðar kallaði sig aðeins Magnús. Jón beykir og Jóhannes fluttust á undan öðrum í fjölskyldunni til Reykjavíkur en hin komu ekki til Íslands fyrr en þeir voru búnir að finna húsnæði í Lækjargötu 10A. Reyndar komu aðeins þrjú barnanna því að Ásmundur varð eftir, fór í fóstur til móðurbróður síns sem bjó í Noregi, giftist og eignaðist dóttur þar ytra. Jóhannes, Anna og Magnús stóðu reyndar ekki lengi við á Íslandi því að þau fluttust öll til Kanada og aðeins Magnús kom aftur. Jóhannes kom þó í heimsókn og dvaldi skamman tíma. Í Kanada giftist Anna Birni Hallssyni sem hafði flutt til Kanada ásamt foreldrum sínum, Halli Hallssyni og Kristjönu (?). Björn og Anna fluttu síðar til Kaliforníu en afkomendur þeirra hafa haldið sambandi við ættingja sína á Íslandi.
Í Lækjargötu 10 A rak Jón trésmíðaverkstæði og starfaði sem beykir. Hjá honum lærði Sigurjón Svanberg Skarphéðinsson, bróðursonur hans, beykisiðnina og tók við rekstri verkstæðisins þegar Jón féll frá.
Sigurjón Svanberg ólst að hluta til upp hjá Jóni í Reykjavík. Jón átti íbúð á Klapparstíg 7 og eftir að Skarphéðinn, hálfbróðir hans, flutti til Reykjavíkur með fjölskyldu sína bjuggu þau Pálína og börn þeirra, Sigurjón Svanberg og Bergþóra, öll þar á Klapparstígnum og líklega lengi enn og eftir að Jón beykir flutti á Klapparstíg 26. Jón var þannig ákveðið akkeri fyrir þessa fjölskyldu þegar fram í sótti.
Þegar sr. Sigurbjörn Á. Gíslason fór að hvetja til þess í grein í dagblaðinu Vísi sumarið 1922 að stofnað yrði elliheimili í Reykjavík gerðist Jón beykir stuðningsmaður framtaksins með afgerandi hætti. Í Afmælisriti Elliheimilisins Grundar 1922 – 1997 segir á bls. 12: „Kunnur borgari, Jón Jónsson beykir, sem les fyrrnefnd orð [hvatningarorð Sigurbjörns], kemur að máli við Sigurbjörn daginn eftir og tilkynnir honum eftirfarandi: „Ef stjórn Samverjans lofar að stofna elliheimili í haust skal ég gefa 1500 krónur í stofnsjóðinn og auk þess safna fé í bænum. En þér verðið að senda mér samskotalista og skrifa um málið í blöðin“.“
Á þessum tíma voru 1500 krónur mikið fé svo að þetta tilboð kom flatt upp á Sigurbjörn og samherja hans í Samverjanum en eftir japl og jaml og fuður var ákveðið að taka tilboði Jóns beykis og um haustið 1922 var Elliheimilið Grund stofnað.
Jóhannes Jónsson var elstur barna Jóns, lærði húsgagnasmíði og rak verkstæði á Vatnsstíg 10 auk þess sem hann og kona hans, Nína Þorsteinsdóttir, stofnuðu til veitingareksturs í Aðalstræti 8 þar sem Breiðfjörðsleikhúsið starfaði og þar var fyrsta kvikmyndahúsið á Íslandi. Húsið var síðar nefnt Fjalakötturinn þegar það var farið að láta verulega á sjá. Þau Jóhannes fluttu fáum árum síðar til Kanada og bjuggu þar til æviloka. Þau eignuðust ekki börn en ættleiddu son Hjálmars bróður Nínu.
Anna fluttist til Kanada 1911 um leið og Jóhannes og raunar Magnús líka og fluttist aldrei heim aftur, eignaðist tvær dætur þar með íslenskum manni sínum en þau fluttu síðar til Kaliforníu eins og áður segir.
Jón Magnús (1893-1963) var yngstur barna Jóns. Hann lærði húsgagnasmíði hjá Jóhannesi bróður sínum og tók við verkstæði hans eftir að Jóhannes var fluttur vestur um haf. Magnús fór reyndar með systkinum sínum til Kanada en kom til baka 1914. Hann giftist Unu Einarsdóttur (1894-1983) frá Heimalandi í Flóa, þau eignuðust 5 börn en 4 komust upp, Jón (1919-1981), Ásta (1921-), Einar (1926-2019) og Inga Marie (1932-) og eru systurnar tvær á lífi 2020. Magnús ólst upp í Noregi með norsku sem móðurmál enda heyrðist það alltaf á mæli hans.
Framanskráður fróðleikur um Jón Jónsson og afkomendur hans er að miklu leyti fenginn frá Ástu og Ingu Magnúsardætrum í júlí 2013 en börn þeirra og Einars bróður þeirra eru fjórmenningar við flesta ættarmótsgestina í Heydal í júní 2013.