Skarphéðinn Hinrik Elíasson/Sigmundsson

Skarphéðinn Hinrik Elíasson/Sigmundsson

Skarphéðinn Hinrik Elíasson (1861-1947) ólst upp hjá vandalausu fólki á Garðstöðum í Ögursveit. Hann giftist Petrínu Ásgeirsdóttur frá Látrum í Mjóafirði en missti hana frá þremur ungum börnum, stúlkum sem allar lifðu langa ævi. Hann giftist fáum árum síðar Pálínu Árnadóttur og eignaðist með henni sex börn, eitt fæddist andvana og annað lést ársgamalt, eitt lést um tvítugt en þrjú lifðu lengi. Skarphéðinn bjó fyrst á nokkrum stöðum í Ögursveit áður en hann flutti um fimmtugt með konu og börn út í Hnífsdal, hafði skamma viðdvöl á Ísafirði áður en þau fluttu til Reykjavíkur þar sem þau nutu skjóls hjá hálfbróður hans um skeið. Þar lést Pálína og Skarphéðinn fór um skamman tíma til dætra sinna á Ísafirði, Bolungarvík og Skálavík en síðustu árin var hann hjá Karítas, dóttur sinni, í nágrenni Reykjavíkur. Segir nú nánar frá ævi hans.  

Skarphéðinn hélt því sjálfur fram að Sigmundur Erlingsson bóndi í Vigur hefði verið faðir sinn og sagðist hafa fyrir því orð Sigmundar sjálfs. Segir sagan að Sigmundur hafi ætlað sér að staðfesta þetta opinberlega en sviplegt fráfall hans kom í veg fyrir það.

Skarphéðinn Hinrik Elíasson

Einhverjar ástæður voru fyrir þeim taugum sem Sigmundur hafði til Skarphéðins sem kom m.a. fram í því að Viktoría, seinni kona Sigmundar, reyndist Skarphéðni vel og sendi honum gjafir (Sjá Ársrit Sögufélags Ísfirðinga, 1956).

Skarphéðinn var með móður sinni fyrsta árið en var komið í fóstur að Garð­stöðum í Ögursveit strax á öðru ári. Á Garðstöðum var hann fram yfir tvítugt hjá Einari Magnússyni og Karitas Ólafsdóttur og má telja meira en líklegt að þaðan sé komið nafn þriðju dóttur Skarphéðins sem fæddist 1890 eða 4 árum eftir að Karitas á Garð­stöðum lést. Einar og Karitas eign­uðust a.m.k. 4 börn en auk þeirra eignaðist Einar 4 börn með jafnmörgum konum, tvö fæddust áður en þau Karitas giftust 1845 en tvö átti hann framhjá. Aldrei heyrðist hann þó uppnefndur Barna-Einar. Auk barna sinna ólu Einar og Karitas upp fósturbörn, m.a. Skarp­héðin Elíasson, og Steindór Markússon, hálfbróðir hans, var skamman tíma niður­setningur hjá þeim Garðstaðahjónum eins og hjá svo mörgum öðrum.

Til er saga um að Jón sonur Einars á Garðsstöðum hafi sent börn sín í skóla út í Æðey en vildi ekki senda Skarphéðin.

Það vildi hinsvegar Karitas fósturmóðir Skarphéðins og þegar Jón var búinn að senda bát með börn sín út í Æðey bað Karitas Þuríði systur sína í Ögri að lána sér bát til að flytja Skarphéðin á eftir hinum börnunum. Karitas fékk sínu framgengt og Skarp­héðinn fékk samkvæmt því einhverja kennslu á uppvaxtar­árunum á Garðs­stöðum. Þessi saga hefur eitthvað skolast til í tímans rás því að elstu synir Jóns voru nærri tveimur áratugum yngri en Skarp­héðinn og hafa því ekki átt samleið með honum í skóla.

Bæirnir Garðstaðir, vinstra megin, en Ögur, hægra megin. Á Garðstöðum er nú umdeildur bílakirkjugarður eða "samgönguminjasafn"