Skarphéðinn Hinrik Elíasson/Sigmundsson

Skarphéðinn Hinrik Elíasson/Sigmundsson

Skarphéðinn Hinrik Elíasson (1861-1947) hélt því sjálfur fram að Sigmundur Erlingsson bóndi í Vigur hefði verið faðir sinn og sagðist hafa fyrir því orð Sigmundar sjálfs. Segir sagan að Sigmundur hafi ætlað sér að staðfesta þetta opinberlega en sviplegt fráfall hans kom í veg fyrir það.

Skarphéðinn Hinrik Elíasson

Einhverjar ástæður voru fyrir þeim taugum sem Sigmundur hafði til Skarphéðins sem kom m.a. fram í því að Viktoría, seinni kona Sigmundar, reyndist Skarphéðni vel og sendi honum gjafir (Sjá Ársrit Sögufélags Ísfirðinga, 1956).

Skarphéðinn var með móður sinni fyrsta árið en var komið í fóstur að Garð­stöðum í Ögursveit strax á öðru ári. Á Garðstöðum var hann fram yfir tvítugt hjá Einari Magnússyni og Karitas Ólafsdóttur og má telja meira en líklegt að þaðan sé komið nafn þriðju dóttur Skarphéðins sem fæddist 1890 eða 4 árum eftir að Karitas á Garð­stöðum lést. Einar og Karitas eign­uðust a.m.k. 4 börn en auk þeirra eignaðist Einar 4 börn með jafnmörgum konum, tvö fæddust áður en þau Karitas giftust 1845 en tvö átti hann framhjá. Aldrei heyrðist hann þó uppnefndur Barna-Einar. Auk barna sinna ólu Einar og Karitas upp fósturbörn, m.a. Skarp­héðin Elíasson, og Steindór Markússon, hálfbróðir hans, var skamman tíma niður­setningur hjá þeim Garðstaðahjónum eins og hjá svo mörgum öðrum.

Til er saga um að Jón sonur Einars á Garðsstöðum hafi sent börn sín í skóla út í Æðey en vildi ekki senda Skarphéðin.

Það vildi hinsvegar Karitas fósturmóðir Skarphéðins og þegar Jón var búinn að senda bát með börn sín út í Æðey bað Karitas Þuríði systur sína í Ögri að lána sér bát til að flytja Skarphéðin á eftir hinum börnunum. Karitas fékk sínu framgengt og Skarp­héðinn fékk samkvæmt því einhverja kennslu á uppvaxtar­árunum á Garðs­stöðum. Þessi saga hefur eitthvað skolast til í tímans rás því að elstu synir Jóns voru nærri tveimur áratugum yngri en Skarp­héðinn og hafa því ekki átt samleið með honum í skóla.

Bæirnir Garðstaðir, vinstra megin, en Ögur, hægra megin. Á Garðstöðum er nú umdeildur bílakirkjugarður eða "samgönguminjasafn"