Hrakhólafólk á 19. öld
Margar merkar greinar og bækur hafa verið skrifaðar um ábúendur á kotum og stórbýlum í íslenskum sveitum eins langt aftur í aldir og heimildir leyfa. Eyfirðingar standa langt að baki nágrönnum sínum í efnum efnum að skrá ábúendur í sýslunni þótt bækur Stefáns Aðalsteinssonar og brátt Bernharðs Haraldssonar bæti stöðuna nokkuð en við skulum samt viðurkenna að eyfirsk ábúendatöl komast ekki með tærnar þar sem bækur Hjalta Pálssonar um ábúendur í Skagafirði hafa hælana. Sá annmarki er þó á þessum ritum öllum að þar er fyrst og fremst fjallað um fólkið sem náði að teljast ábúendur á jörðum. Nú bjuggu ekki einvörðungu bændur, húsfreyjur og börn þeirra í íslenskum sveitum heldur voru þar líka ýmsir jarðlausir einstaklingar, vinnufólk og húsfólk sem kemur lítið við sögu í ábúendatölunum svo ekki sé minnst á þá sem ennþá minna máttu sín. Ég hef mér til gamans tekið mér fyrir hendur að rekja æviferla tveggja löngu látinna ættingja minna sem áttu það sameiginlegt að koma lítt við sögu í ábúendatölum en komu samt víða við. Sögur þessa fólks gerast til hliðar við ábúendatölin, eru sjálfsagt ekki merkilegar fyrir neinna hluta sakir en geta samt minnt okkur á að fleira er matur en feitt kjöt.
Langalangafi minn og langalangamma eignuðust bæði börn fyrir hjónaband, raunar áttu bæði tvö börn í lausaleik en bæði misstu annað barnið og aðeins langalangamma lagði með sér son sinn inn í skamman hjúskap þeirra.
Jóhann Sigurðsson og Sigurlaug Sigfúsdóttir voru ekkert skyld en móðir annars og faðir hins voru hjón og Jóhann og Sigurlaug áttu sömu hálfbræðurna. Guðrún Friðfinnsdóttir var móðir Jóhanns og Sigfús Benediktsson var faðir Sigurlaugar. Guðrún og Sigfús voru hjón og eignuðust tvo syni sem voru hálfbræður Jóhanns og Sigurlaugar. Í eftirfarandi samantekt er fyrst sagt frá Sigurlaugu og föðurfólki hennar en síðan er fjallað um Jóhann og móðurfólk hans. Sigurlaug og Jóhann áttu það sammerkt að skipta oft um dvalarstað á lífsleiðinni. Hún átti samtals a.m.k. 31 heimili á móti 33 þekktum heimilum Jóhanns. Í þessum samanburði hallar þó á Jóhann því að hann varð 77 ára en Sigurlaug náði aðeins 53 ára aldri og hefði farið létt með að bæta tug heimila við sögu sína hefði heilsan leyft.
Kaflarnir um Sigurlaugu og Jóhann eru skrifaðir þannig að þá má lesa hvorn um sig án hins og því verður nokkuð um endurtekningar þegar sagt er frá foreldrum þeirra.
Um Sigurlaugu Sigfúsdóttur
Um Jóhann Sigurðsson