Gásaættin

Gásaættin

Þó svo að þessi skýrsla hafi í upphafi fyrst og fremst átt að fjalla um sögu Guðmundar og Steinunnar í Garðshorni og ættmenni þeirra, verður ekki hjá því komist að skrifa líka um tengdafólk þeirra. Þess vegna fer hér á eftir kafli um Helgu Sigríði Gunnarsdóttur sem giftist Pálma Guðmundssyni syni þeirra hjóna. Fjallað er um foreldra Helgu og systkini með innskoti um Guðrúnu, föðursystur hennar. Talsverðu púðri er líka eytt á Grím, afa hennar, og systkini hans.

Ég hef heyrt það helst um móðurætt föður míns, Frímanns, að móðir hans, Helga Sigríður Gunnarsdóttir, hafi í móðurætt verið af svonefndri Kjarnaætt sem er orðin allvel rakin í heimildum en minni rækt hefur verið lögð við að kanna föðurfólk ömmu. Þess vegna er drepið niður fæti í sögu Helgu Sigríðar þegar amma hennar og afi, Þorgerður Gunnarsdóttir (1811-1894), bóndadóttir á Gásum í Kræklingahlíð, og Grímur Jónsson (1806-1866), vinnumaður þar á bæ, gengu í hjónaband árið 1832. Þar voru þau vinnuhjú hjá foreldrum Þorgerðar, Gunnari Oddssyni og Guðrúnu Einarsdóttur, í tæp 20 ár og hófu ekki eigin búskap þar á Gásum fyrr en árið 1851 þegar börn þeirra tvö voru komin undir tvítugt.

Auðvitað hefst saga Helgu ömmu ekki á þessari giftingu enda byrjar svona ættarsaga hvergi nema þá í Miklahvelli. Hún verður samt ekki rakin þangað. Og Grímur á Gásum spratt ekki upp úr engu fremur en aðrir. Hann var aðkomumaður í sveitinni, sonur Jóns „gamla“ Jónssonar (1747-1837), bónda í Arnarnesi á Galmaströnd og konu hans, Guðrúnar Árnadóttur (1762-1823) frá Stóra-Dunhaga en frá þeim verður ætt Helgu Sigríðar aðallega rakin að þessu sinni. Jón og Guðrún voru merkisfólk. Þau bjuggu á næstdýrustu jörðinni í sveitinni á eftir Hvammi í Hvammshreppi – síðar Arnarneshreppi – en Hvammur var metinn á 35 hundruð en Arnarnes til 34 hundraða. Sjálfur hreppstjórinn, Árni bróðir Guðrúnar í Arnarnesi, bjó á Syðri-Reistará sem var í hópi þeirra jarða sem næst á eftir komu, metin á 30 hundruð, en aðrar jarðir jafndýrar voru Syðri-Bakki, Bragholt og Skriðuland. Jón og Guðrún áttu 9 börn sem komust upp, tvö dóu ung. Elstur var Árni, fæddur 1783, en yngstur Grímur, fæddur 1806, Guðrún þá orðin 44 ára gömul en Jón 59. Nú verður sagt frá systkinum Gríms á Gásum, þau voru sum barnmörg og frá þeim er kominn mikill fjöldi merkisfólks.

Arnarneshjónin eignuðust 17 börn en 8 þeirra dóu ung. Hér á eftir verða aðeins talin þau sem lifðu. Elstur þeirra var Árni (1783-1843) bóndi á Björgum og í Hátúni í Auðbrekkutorfunni í utan­verðum Hörgárdal. Í kaflanum um Flöguselsætt Garðshyrninga kemur fram að amma Pálma Guðmundssonar í Garðshorni hafi verið Guðrún Friðfinnsdóttir sem var afburða­unglingur að mati Myrkárklerks, ólíkt því sem segja mátti um eiginmann hennar, Sigfús frá Flöguseli sem fermdist tvítugur eftir að hafa náð ásættanlegri þekkingu á sögu himnafeðganna. Guðrún Friðfinnsdóttir átti bróður sem Gísli hét og bjó í Hátúni. Hann var giftur Björgu dóttur Árna frá Arnarnesi og þau tóku þar við búi af Árna í fyllingu tímans. Árni Árnason, bróðir Bjargar, var langafi Árna Tryggvasonar leikara en í þeim legg hefur Árna-nafninu verið haldið við nær óslitið frá Árna í Stóra-Dunhaga.

Næstelstur barnanna frá Arnarnesi, sem upp komust, var Jón (1788-1838) eldri. Arnarneshjónin áttu nefnilega tvo syni með því nafni, annan fæddan 1788 en hinn 1792. Það var alsiða í gamla daga að tvö eða jafnvel þrjú systkini bæru sama nafn og það er algengur misskilningur að þetta hafi verið gert til að auka líkur á að a.m.k. eitt barn kæmist upp með nafninu. Ástæðan var hinsvegar sú að fyrsta barnið var skírt í höfuðið á einhverjum ættingja eða vini en næsta barn með sama nafni var skírt eftir einhverjum öðrum ættingja eða vini með sama nafni. Ekki hefur höfundur pistils kannað eftir hverjum Jónarnir voru nefndir en Jón var afar algengt nafn á þessum tíma. Það liggur þó fyrir að Jón „gamli“ bóndi í Arnarnesi var Jónsson.

Jón eldri var lengi heima í Arnarnesi en gerðist síðar bóndi á Ytri-Reistará og lést þar fimmtugur að aldri, átti 10 börn. Meðal þekktra afkomenda hans eru Ármann Snævarr háskólarektor en einnig má nefna Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur leikkonu og Ástu Sigurðar­dóttur söngtextahöfund og eiginkonu Ingimars Eydal. Við upptalninguna má svo bæta samstúdentunum Jóhanni Kröyer verkfræðingi og Steingrími Gunnarssyni leiðsögumanni.

Þriðja barnið sem komst upp var Valgerður (1789-1864) húsfreyja í Fagraskógi, sem var formóðir t.d. Steinunnar Þórhallsdóttur Bækkeskov líffræðings í Bandaríkjunum, Jóhönnu Sigrúnar Þorsteinsdóttur sýslu­manns­frúr á Akureyri, Árna Finnssonar náttúru­verndar­frömuðar og Sigurðar Óla Brynjólfssonar sem lengi var bæjarfulltrúi á Akureyri.

Sigríður (1791-1853) var húsfreyja á Þrastarhóli. Það á eftir að koma fram síðar í þessum kafla að Guðrún, systir og fósturmóðir Helgu Sigríðar í Garðshorni, fluttist út í Búðarhól í Ólafsfirði með Baldvin, manni sínum, og eignaðist með honum tvo syni, Gunnar og Steingrím. Meðal afkomenda Sigríðar frá Arnarnesi var Sólrún Sigurðardóttir, kona Steingríms Baldvinssonar á Búðarhóli. Þekktir afkomendur hennar eru líka tónlistar- og fjölmiðlamaðurinn Vilhelm Anton Jónsson, þekktur sem Villi naglbítur og Vísinda-Villi, en minna þekkt á landsvísu eru Úlfar Gunnarsson kaupmaður á Akureyri og Þóra Ákadóttir sem var forseti bæjarstjórnar á Akureyri eitt kjörtímabil.

Jón (1792-1834) yngri fór um fermingu sem léttadrengur eða fósturbarn til Árna móður­bróður síns, umboðsmanns og hreppstjóra á Syðri-Reistará, og var þar fram yfir tvítugt en frá 1825 var hann bóndi og hreppstjóri á Siglunesi. Hann drukknaði ásamt konu sinni rúmlega fertugur og höfðu þau þá eignast 9 börn á 11 árum, það yngsta hálfs annars árs þegar foreldrarnir féllu frá. Sjö börn komust upp. Kunnir afkomendur hans eru t.d. fjölmiðlamennirnir Ingvi Hrafn Jónsson og Björn Þór Sigbjörnsson, Kristín Jónsdóttir listmálari og dætur hennar Helga og Hulda Valtýsdætur, rithöfundarnir og bræðurnir Hallgrímur og Gunnar Helgasynir og loks má nefna Daníel Bjarnason tónskáld og hljómsveitarstjóra.

Sjötta systkinið sem upp komst var Stefán (1797-1846). Stefán tók við búi í Arnarnesi en fluttist ásamt föður sínum öldruðum í Þúfnavelli í Hörgárdal og bjó þar 1833–1846 eða til dauðadags. Höfundur kannast lítið við afkomendur hans nema helst Þóru Þormóðsdóttur, húsfreyju á Syðri-Sauðadalsá í Miðfirði, og Stefán Baldursson sem lengi var forstöðumaður Strætisvagna Akureyrar. Þó gæti verið að afkomendur Stefáns á Þúfnavöllum séu fleiri en opinberar skýrslur greina, eins og gengur, en að því verður komið hér á eftir.

Sjöunda systkinið sem komst upp var Sveinn (1800-1849) sem fór með Stefáni bróður sínum sem vinnumaður í Þúfnavelli en var lengst vinnumaður á Myrká, ógiftur og barnlaus. Hann var húsmaður á Einhamri 1848 og í september það ár giftist hann tæplega fimmtugri ekkju, Hólmfríði Gamalíelsdóttur, prestsdóttur frá Myrká. Hjónabandssælan entist þeim þó ekki lengi því að Sveinn dó í janúar árið eftir úr lifrarbólgu.

Áttundi var Jónas (1804-1862) sem giftist ekkjunni Bergþóru Árnadóttur frá Hofi í Arnarneshreppi sem var 15 árum eldri en hann. Bergþóra hafði misst Gísla mann sinn í sjóinn í september 1824 og þá hefur Jónas líklega farið sem fyrirvinna eða ráðsmaður til hennar, tvítugur. Í nóvember 1825 voru þau Bergþóra svo gefin saman og til að byrja með bjuggu þau á Hofi. Árið 1829 þurftu þau að víkja þaðan fyrir Ólafi lækni en ekki er ljóst hvar þau bjuggu næstu ár eða þangað til þau tóku við búinu í Arnarnesi 1833 af Stefáni, bróður Jóns, og eignuðust þar dótturina Bergrós sem dó 9 ára gömul. Þau fluttu sem vinnuhjú vestur í Höskuldsstaði á Skagaströnd 1839 og árið eftir í Syðriey í sömu sveit en Bergþóra fór fljótlega aftur til barna sinna í Öxnadal og Hörgárdal. Jónas var áfram vinnumaður þar vestra, um tíma á Spákonufelli en síðan á Þverá á Skagaströnd til æviloka.

Yngstur alsystkinanna í Arnarnesi var áðurnefndur Grímur sem helst kemur við sögu hér á eftir.

Jón „gamli“ í Arnarnesi var hinsvegar ekki fyrr búinn að missa Guðrúnu konu sína að hann bætti um betur í barneignunum því að 1825 eignaðist hann dóttur, Helgu (1825-1873), með 31 árs gamalli vinnukonu sinni sem einnig hét Helga og var Pálsdóttir og varð síðar húsfreyja á Uppsölum í Svarfaðardal. Helga var þá búin að vera vinnukona hjá þeim Jóni og Guðrúnu í nokkur ár en Jón var 78 ára gamall þegar Helga Jónsdóttir fæddist. Sá grunur hefur læðst að söguritara að hér hafi Jón hlaupið í skarðið í kirkjubókinni fyrir Stefán son sinn sem þá var giftur maður. Svo mikið er þó víst að Helga ólst upp hjá föður sínum, fyrst í Arnarnesi þar sem Stefán hafði tekið við búinu. Þegar Stefán flutti í Þúfnavelli í Hörgárdal 1833 fóru gamli Jón og dóttirin Helga með honum og þar var Jón til dauðadags. Þar giftist Helga og varð síðar húsfreyja á Bryta á Þelamörk 1852–1863. Þá lést Jón bóndi hennar og hún flutti með sum börn sín fram í Eyjafjörð þar sem hún lést. Meðal afkomenda hennar eru David Gislason skáldbóndi á Svaðastöðum í Árborg í Kanada, læknarnir Friðrik og Stefán Yngvasynir, Bjarki Elíasson yfirlögreglu­þjónn í Reykjavík og Sverrir Baldvinsson bóndi í Skógum á Þelamörk. Frímann í Garðshorni og Sverrir í Skógum voru fjórmenningar frá Jóni og Guðrúnu í Arnarnesi.

Nú hafa foreldrum og systkinum Gríms á Gásum verið gerð nokkur skil og víkur þá sögunni að aðstandendum Þorgerðar konu hans. Faðir Þorgerðar Gunnars­dóttur á Gásum hét Gunnar Oddsson og faðir hans Oddur Gunnarsson. Móðir þess Odds var Margrét Oddsdóttir dóttir Odds „sterka“ Sturlusonar (f. um 1673) bónda á Dagverðareyri. Þessi langfeðgin bjuggu ýmist á Gásum eða Dagverðareyri en reyndar koma fleiri bæir við sögu. Oddsnafnið hefur hinsvegar fylgt afkomendum Odds sterka allt fram á þennan dag en Oddur heitinn Gunnarsson, bóndi á Dagverðareyri, var á meðal þeirra.

Móðir Þorgerðar Gunnarsdóttur var Guðrún Einarsdóttir frá Gilsbakka í Hrafnagilshreppi. Meðal afkomenda Gunnars og Guðrúnar á Gásum, annarra en Þorgerðar, má nefna Stefán Arnaldsson handknatt­leiks­dómara og Stefán Halldórsson bónda á Hlöðum sem eru afkomendur Þóreyjar, húsfreyju í Syðri-Skjaldarvík, systur Þorgerðar.

Þorgerður Gunnarsdóttir og Grímur Jónsson eignuðust tvö börn sem komust upp, Guðrúnu (1833-1920) og Gunnar (1834-1879). Þau ólust upp hjá foreldrum sínum til fullorðinsára. Og áður en sagt verður frá afkomendum Gunnars Grímssonar verður hér gerður útúrdúr til að segja lítillega frá Guðrúnu systur hans.

 

Guðrún Grímsdóttir og afkomendur

Um 1850 (giftust 1851) tók Guðrún barnung saman við Jóhann Jón Guðmundsson (1822-1883) sem var um hríð með henni á Gásum og þar eignuðust þau tvö fyrstu börnin af fjórum, bæði skammlíf, Maríu Þorgerði (1851-1853) og Grím Júlíus (1852-1852). Þau voru eitt ár á Auðnum í Öxnadal og þar fæddist þeim sonurinn Grímur (1853-eftir 1883) sem fór í fóstur í Háls þar í sveit. Fósturforeldrarnir voru aldraðir og hættu búskap en Grímur var áfram hjá dóttur þeirra og tengdasyni sem fluttu í Stóragerði í Myrkárdal. Þegar þau fluttu þaðan 1869 fór Grímur til móðurbróður síns, Gunnars, sem var þá að flytja í Sólborgarhól. Ári síðar flutti Grímur í Kjarna í Hrafnagilshreppi, var léttadrengur á Naustum 1870 og fór þaðan í Varmavatnshóla árið eftir. Árið 1875 fór hann frá Varmavatnshólum í Laugaland á Þelamörk og þaðan fram í Eyjafjörð. Hann kom þaðan í Gásir til móður sinnar 1883 en eftir það hverfur hann alveg úr kirkjubókum, hefur e.t.v. farið vestur um haf eins og margir gerðu á þessum árum.

Guðrún og Jóhann fluttu aftur í Gásir og þar fæddist síðasta barnið, Guðrún Júlíana, 1856. Eftir það kemur Jóhann ekki meira við sögu Guðrúnar en hann fór að eignast börn með öðrum konum og flutti út í Ólafsfjörð, bjó í Hornbrekku þegar Grímur sonur hans fermdist.

Jóhann Jón Guðmundsson fæddist á Ölduhrygg í Svarfaðardal en ólst upp á öðrum bæjum þar í sveit þangað til hann fluttist innar með firðinum og var á Dagverðareyri 1850 þegar hann tók saman við Guðrúnu á Gásum/Gæsum. Eftir að hann skildi við Guðrúnu var hann um tíma við sjómennsku á Árskógsströnd og eignaðist þar soninn Baldvin (1857-1928) með Guðrúnu Halldórsdóttur, síðar húsfreyju í Vilpu á Húsavík. Jóhann fluttist út í Ólafsfjörð og gerðist þar fyrirvinna fyrir ekkjunni Guðfinnu Jónsdóttur (1832-1890) sem búið hafði á Reykjum í Ólafsfirði frá 1853 þar til Jón Jónsson, maður hennar, lést 1868. Áður höfðu þau búið úti í Fljótum. Jóhann eignaðist soninn Jón (1870-1884) með Guðfinnu og giftist henni síðan og varð mektarbóndi þar í sveit, m.a. hreppsnefndaroddviti. Maron sonur þeirra fæddist 1874 en þeir bræður drukknuðu báðir óveðri sem brast á þá í sjóróðri 1884 en Baldvin, hálfbróðir þeirra, komst lífs af með naumindum eftir því sem kirkjubókin segir.

Guðrún bjó fyrst eftir Öxnadalsævintýrið hjá foreldrum sínum á Gásum en giftist fljótlega Arinbirni Arnbjarnarsyni (skírður Arnbjörn) frá Syðra-Hvarfi í Svarfaðardal og þau tóku við búinu á Gásum. Með honum eignaðist Guðrún 6 dætur en aðeins fjórar komust á legg. Fyrst fæddist Anína Ágústa (1865-1956) og síðan Þorgerður Ragnheiður (1867-1869). María Valgerður (1868-1921) fæddist næst, stundum skrifuð Valgerður María. Þá fæddist önnur Þorgerður Ragnheiður (1872-1873) sem einnig varð skammlíf. Loks fæddust tvíburarnir Arinbjörg (1874-1949) og Þórhildur María (1874-1964). Guðrún og Arinbjörn bjuggu á Gásum fram undir aldamót en brugðu búi þegar Arinbjörn fór sem sjúklingur á Holdsveikraspítalann í Laugarnesi í Reykjavík árið 1900. Hann var þar árið 1901 en hefur líklega dáið það ár eða 1902 en dánardægur hans finnst ekki skráð. Guðrún var skráð leigjandi í Bandagerði 1901, 69 ára gömul, gift kona en árið eftir bjó hún með Anínu dóttur sinni og fjölskyldu inni á Oddeyri og hafði þá lifað Arinbjörn. Guðrún hefur líklega búið hjá þeim Anínu og Guðmundi í Lundargötu 8 á Oddeyri til dauðadags 1920 en þar bjuggu þau Anína og Guðmundur lengst af ævinnar.

Af fyrra hjónabandi Guðrúnar lifðu tvö börn, Grímur sem sagt var frá að framan, og Guðrún Júlía (1856-1939) sem giftist austur á Tjörnes Stefáni Agli Egilssyni (1857-1922) en þau bjuggu lengst í Syðri-Tungu á Tjörnesi. Áður höfðu þau verið í Hringveri þar sem Ólöf Guðrún (1891-1897) fæddist og dó og á Íslólfsstöðum þar sem Jón (1894-1959) fæddist. Hann átti ekki afkomendur.

Fjórar dætur Guðrúnar af seinna hjónabandi komust upp. Anína Ágústa fór að heiman 1891 austur í Ólafsgerði í Kelduhverfi og var þá gift Guðmundi Jónssyni sem hafði fæðst þar og alist upp hjá foreldrum sínum. Þau fluttu hinsvegar fljótlega til Akureyrar en Ólöf dóttir þeirra fæddist á Gásum 1894. Fréttapistill í Alþýðumanninum 9. ágúst 1955 hljóðar svo:

„Hinn 26. júlí síðastliðinn var ekkjan Anína Ágústa Arinbjarnardóttir, Lundargötu 8 hér í bæ, níræð. Anína er ekkja Guðmundar Jónssonar sem fjölmörg ár var bæjarpóstur hér og rækti það starf með sérstakri kostgæfni og trúmennsku.

Anína var ættuð frá Gæsum í Glæsibæjarhreppi og er búin á níræðisafmælinu að vera búsett hér í 57 ár, lengst af í Lundargötu 8 á Oddeyri. Hún gengur enn að venjulegum húsmóðurstörfum, furðu ern; notar t.d. ekki gleraugu nema við vandasamari verk. Hún fylgist vel með því sem gerist í bænum og er áhugasöm um almenn mál.

Hún segir að sér hafi alltaf líkað vel við Akureyringa og biður þeim allrar blessunar með þökk fyrir langa viðkynningu nú á þessum merku tímamótum ævi sinnar. Þannig er ljúft að lifa lengi og vel.“

Anína og Guðmundur eignuðust tvö börn, fyrrnefnda Ólöfu (1894-1981) sem giftist Sigfúsi Baldvinssyni (1893-1969) skipstjóra og útgerðarmanni á Akureyri en þau áttu fjögur börn. Annað barn Anínu og Guðmundar var Arinbjörn (1903-1988) sem var verkamaður á Akureyri, ógiftur og barnlaus. Hann var dyggur stuðningsmaður íþróttafélagsins Þórs á Akureyri og ánafnaði félaginu myndarlega fjárupphæð þegar hann lést.

María Valgerður (1868-1921) giftist Daníel Tómasi Gunnarssyni (1863-1933) sem var bóndi, sjómaður, járnsmiður og síðast „múrari m.fl.“.

Daníel var sonur Helgu Andrésdóttur (1834-1891), úr stórum systkinahópi frá Syðri-Bægisá í Öxnadal, og Gunnars Magnússonar (1834-1915) framan úr Eyjafirði. Foreldrar Daníels þvældust vestur á Skagaströnd á 7. áratugnum og þar fæddist hann í Tjarnarseli, líklega einhverju þurrabúðarkotinu í landi Tjarnar en Gunnar hefur trúlega stundað sjóinn frá Kálfshamarsvík. Daníel var tveggja ára gamall kominn í fóstur til móðurfólks síns á Syðri-Bægisá og ólst upp hjá ömmu sinni og móðursystkinum á Syðri-Bægisá og Þverá til fullorðinsaldurs þó svo að foreldrar hans væru farin að búa á Syðri-Bægisá á móti móðurbróður hans þegar drengurinn var 7 ára. Þar var hann skráður tökubarn hjá móðurbróður sínum þó að foreldrar hans byggju í tvíbýli á sama bæ.

Daníel fór vestur á Skagaströnd strax eftir fermingu skv. kirkjubók Bægisár en hann finnst þó ekki skráður þar vestra. Hann var ekki skráður á Syðri-Bægisá eftir þetta en var þó sagður flytjast þaðan í Skipalón 1883 þar sem frændfólk hans bjó og þaðan fór hann að Gásum þar sem hann var í húsmennsku með Maríu Valgerði en þau beiddust lýsingar með sér 1889. Þau voru í húsmennsku á Gásum og á Skipalóni voru þau frá 1894. Árið 1901 voru þau þar ásamt dætrum sínum Björgu Guðrúnu (1890-1980), Helgu (1894-1968) og Önnu Margréti (1898-1907) en Magnea Halldóra (1905-1991) var ófædd. Frændgarðurinn var sterkur í Skipalóni þessi árin. Þarna var Björg Andrésdóttir frá Syðri-Bægisá, 68 ára, móðir Þorsteins Daníelssonar bónda sem ekki má rugla saman við Dannebrogsmanninn frænda hans sem bjó á Skipalóni á undan honum. Þarna var líka Þorgerður Guðrún Gunnarsdóttir með eiginmanni og sonum, dóttir Gunnars Grímssonar frá Gásum. Einnig voru þarna systurnar Þórhildur María og María Valgerður Arinbjarnardætur, Þórhildur vinnukona en María Valgerður gift Daníel Tómasi, syni Helgu Andrésdóttur úr systkinahópnum stóra frá Syðri-Bægisá.

Frá Skipalóni fluttu María Valgerður og Daníel inn í Glerárþorp, þar sem þau bjuggu á Melstað 1910, og síðan til Akureyrar þar sem þau áttu heima í Brekkugötu 19 árið 1920. Aðeins Magnea var hjá þeim 1910 en 1920 voru (Björg) Guðrún, Helga og Magnea allar hjá foreldrum sínum. Daníel og María Valgerður áttu heima í Brekkugötu 2 þegar hann lést, „kominn fast að sjötugu og mjög þrotinn að heilsu síðustu árin“ eins og segir í frétt í Degi 27. apríl 1933 og í Alþýðumanninum 25. apríl það ár er því hnýtt við frétt af andláti hans að hann hafi verið „mjög vel látinn af öllum sem kynntust honum“.

Björg Guðrún, sem uppkomin var jafnan skrifuð Guðrún, mun ekki hafa gifst en var vinnukona, verkakona og ráðskona á Akureyri. Að öðru leyti er lítið vitað um ævi hennar en mynd úr Hlyn, blaði starfsmannafélags SÍS 15. maí 1961, gæti verið af henni, tekin á saumastofu Gefjunar. Myndin er alltént af Guðrúnu Daníelsdóttur.

Helga Daníelsdóttir giftist Jóni Gunnlaugssyni Jónssyni (1898-1974) matsveini og iðnverkamanni á Akureyri. Þau áttu fjóra syni, Daníel Gunnar (1924-2000) bifreiðastjóra í Borgarnesi, Ólaf (1927-2010) sem var vélstjóri og verslunarmaður í Grindavík og Hafnarfirði, Valgarð Agnar (1929-2015) sem starfaði lengst sem vélvirki á Sauðárkróki og lokst Gunnar (1932-2000) sem var sjómaður á Akureyri.

Magnea Halldóra Daníelsdóttir giftist Vilhjálmi Jónssyni (1905-1972) frá Ósi í Arnarneshreppi. Hann var bifvélavirki á Akureyri og lengi kennari við meirapróf bílstjóra á Norðurlandi. Þau áttu þrjú börn, Valgerði (1927-2017) sem var fulltrúi og skjalavörður í menntamálaráðuneytinu, gift Birni Þórarni Jóhannessyni lektor við Kennaraháskólann, þau voru barnlaus. Annað barn Magneu og Vilhjálms var Jón Kristinn (1929-1998) sem var rafvirkjameistari á Akureyri, giftur Sigrúnu Ernu Ásgeirsdóttur, þau áttu fjögur börn, og loks áttu Magnea og Vilhjálmur Sverri (1931-1994) flugumferðarstjóra á Akureyri. Hann átti þrjú börn með konu sinni, Hönnu Sigríði Sigurðardóttur.

Arinbjörg Arinbjarnardóttir ólst upp hjá foreldrum sínum á Gásum en bjó eftir það í Arnarneshreppi. Hún giftist fyrst Þórði Stefáni Guðlaugi Jakobssyni (1871-1897) frá Pálmholti sem drukknaði í sjóslysi skömmu áður en Þórður sonur þeirra fæddist. Arinbjörg giftist síðar Ólafi Jónssyni (1874-1928) frá Syðra-Brekkukoti í Arnarneshreppi og átti með honum tvo syni, Bernharð og Svein. Ólafur var sjómaður á Hjalteyri og þar bjó Arinbjörg til æviloka.

Tvíburinn á móti Arinbjörgu, Þórhildur María, giftist (Sigurjóni) Pálma Kristjánssyni (1874-1956) sjómanni frá Pálmholti í Arnarneshreppi. Þau bjuggu á Hjalteyri til 1912 en fluttu þá til Ísafjarðar þar sem þau bjuggu í Sundstræti 27 árið 1920. Þau voru aftur á Hjalteyri 1930 þar sem þau bjuggu í Oddahúsi. Þau fluttu síðar til Reykjavíkur þar sem Pálmi var fisksali 1945. Dætur þeirra voru Eva (1904-1993) og Anna Steinunn (1910-1991) sem bjuggu báðar síðast í Reykjavík.

Víkur nú sögunni aftur til Þorgerðar og Gríms sem bjuggu á Gásum til æviloka og segir fátt annað af þeim nema þau virðast hafa verið allvel bjargálna á þeirrar tíðar mælikvarða. Grímur dó 1866 en Þorgerður náði háum aldri og bjó alla tíð á Gásum, síðast á heimili dóttur sinnar og tengdasonar.

Gunnar Grímsson og afkomendur

Þann 2. október 1861 voru gefin saman í hjónaband í Glæsibæjarkirkju Gunnar, 27 ára, sonur Gríms og Þorgerðar á Gásum, og Jóhanna Andrésdóttir (1839-1890), 24 ára vinnukona á sama bæ, frá Syðri-Bægisá í Öxnadal, dóttir Ingibjargar Þórðardóttur frá Kjarna í Hrafnagilshreppi, húsfreyju á Syðri-Bægisá, og Andrésar Tómassonar bónda þar. Ingibjörg og Andrés á Syðri-Bægisá áttu það sammerkt að vera uppalin á sæmilega efnum búnum heimilum þrátt fyrir stóra barnahópa, börnin í Kjarna voru ekki færri en 13 sem komust upp og systkini Andrésar á Syðri-Bægisá voru ekki færri en 14 en af þeim komust reyndar aðeins 4 upp auk Andrésar. Nú er við hæfi að segja lítillega frá Syðri-Bægisárfólkinu sem bjó þar nánast alla 19. öldina.

Tómas Egilsson „yngri“, Eyfirðingur, og Helga Daníelsdóttir, ættuð úr Ólafsfirði, hófu búskap á Syðri-Bægisá vorið 1803 en höfðu áður búið á Hjálmsstöðum í Hrafnagilshreppi og á Hallfríðar­stöðum. Þau eignuðust 15 börn en samt er varla hægt að segja að barnalán þeirra hafi verið mikið því að aðeins 4 þessara barna urðu langlíf, 7 dóu á fyrsta ári eða fæddust andvana og 4 dóu um eða innan við tvítugt. Eitt barnanna sem urðu langlíf var Andrés sem fæddist 1806 og dó 1864, 58 ára að aldri.

Andrés Tómasson náði sér í konu, framangreinda Ingibjörgu, úr stórum systkinahópi sem ólst upp á Draflastöðum í Fnjóskadal og síðan Kjarna í Hrafnagilshreppi þar sem nú er Kjarnaskógur, útivistarsvæði Akureyringa. Systurnar frá Kjarna þóttu allra kvenna bestir kvenkostir og er sagt að ungir menn kæmu úr fjarlægum landshornum til að biðja þeirra enda dreifðust þær víða, austur í Loðmundarfjörð, vestur á Barðaströnd og allt þar á milli. Ingibjörg var titluð vefari í kirkjubókum en sú iðn hefur komið sér vel á heimilinu því að börn þeirra Andrésar urðu 19 og fæddust á 21 ári en þeirra verður getið stuttlega hér á eftir.

Björg (1832) var elst og var skírð í höfuðið á móðurömmu sinni í Kjarna. Hún var móðir Þorsteins Daníelssonar bónda á Skipalóni sem má ekki rugla saman við alnafna hans og frænda, stórbónda og byggingameistara, sem bjó á Skipalóni á undan honum.

Næstelstur var Daníel (1833) en hann bjó á Harastöðum á Skagaströnd og Ingveldarstöðum í Skagafirði. Meðal afkomenda hans eru Daníel Þorsteinsson píanóleikari, tónskáld og kórstjóri og Gyða Haraldsdóttir sálfræðingur, um tíma kennari við Háskólann á Akureyri og síðar forstöðumaður Þroska- og hegðunarstöðvar í Reykjavík.

Þriðja barn Andrésar og Ingibjargar var Helga (1834), langamma Kára Larsen og móðir Daníels Tómasar Gunnarssonar, manns Maríu Valgerðar dóttur Guðrúnar Grímsdóttur frá Gásum. Daníel ólst upp hjá móðurfólki sínu á Syðri-Bægisá og fluttist með ömmu sinni og afa fram í Efstalandskot og Þverá þegar Helga flutti í Syðri-Bægisá þar sem hún bjó í 20 ár með Gunnari Magnússyni.

Fjórða barn Andrésar og Ingibjargar var Tómas (1835) sem fórst rúmlega tvítugur með hákarlaskipinu Leyningi frá Skipalóni. Næstu tvö börn dóu ung, Jóhanna (1836) og Þórður (1837).

Sjöunda barnið var Jóhanna (1839), sem giftist Gunnari Grímssyni frá Gásum og sagt er frá hér á eftir, en á eftir henni komu Anna Metta (1840) og Björn (1841) sem bæði dóu á 1. ári.

Tíunda barnið var Árni (1842) sem fluttist til Kanada og eignaðist þar mikinn fjölda afkomenda.

Ellefti í röðinni var Páll (1843) sem bjó á Bústöðum í Austurdal. Hann var faðir Tómasar föður Ólafs bónda í Garðshorni, Sveins slökkviliðsstjóra á Akureyri, Eyþórs í Lindu, Guðmundar í Lorelei, Böðvars föður Tómasar Búa og þannig mætti lengi telja þekkta afkomendur Páls.

Tólfta barn Andrésar og Jóhönnu var Benedikt (1845) sem var bóndi á Efri-Vindheimum á Þelamörk og á Hálsi í Öxnadal. Afkomendur hans fluttu til Kanada og vestur í Strandasýslu en eru nú margir búsettir á Akranesi.

Kristjana (1846) hét þrettánda barn Syðri-Bægisárhjónanna sem lést á 1. ári en Ingibjörg (1847) var fjórtánda í röðinni. Hún bjó á mörgum bæjum í Skagafirði, m.a. Hellu og í Sólheima­gerði í Blönduhlíð, eignaðist ekki afkomendur sem komust upp en fóstraði börn, m.a. Pétur Valdimarsson síðar bónda á Neðri-Rauðalæk. Framangreind Jóhanna, kona Gunnars frá Gásum sem fjallað er um í þessum kafla, systir Ingibjargar, var amma Péturs.

Fimmtánda barn Syðri-Bægisárhjónanna var Jón Júlíus (1847) sem bjó í Ásgeirsbrekku, Stafni og e.t.v. víðar í Skagafirði. Hann var afi fríðleikspiltsins Brynjólfs Sveinssonar menntaskólakennara, Ástþrúðar konu Kristins flugmarskálks á Akureyri og Svanborgar móður Sveins smiðs Jónassonar sem var um tíma umsjónarmaður Safnaðarheimilis Akureyrar­kirkju.

Sextándi í röðinni var Andrés (1849) , sautjándi var Sigurknútur (1850) og átjánda var Anna (1851) en þessi börn dóu öll ung.

Síðast fæddist svo Sigurbjörg (1853) sem bjó á Bandaskarði í Vindhælishreppi í A-Hún. en meðal afkomenda hennar má nefna Sigurjón Pétursson borgarfulltrúa í Reykjavík og Ögmund Helgason forstöðumann handritadeildar Landsbókasafnsins í Reykjavík.

Andrés og Ingibjörg hófu búskap á Syðri-Bægisá árið 1831 með foreldrum Andrésar sem höfðu búið þar frá árinu 1803. Gömlu hjónin, Tómas og Helga, hættu búskap 1842 en afkomendur þeirra bjuggu þar áfram allt til ársins 1897. Andrés og Ingibjörg bjuggu á Syðri-Bægisá til 1863 en fluttu þaðan í Efstalandskot þar sem Andrés dó 1864. Eftir það bjó Ingibjörg í Efstalandskoti og á Þverá með börnum sínum og á Þverá dó hún 1872.

En nokkur orð um ábúendur á Syðri-Bægisá úr barnahópi Andrésar og Ingibjargar. Frá 1838 til 1853 bjó Katrín systir Andrésar á móti honum á Syðri-Bægisá ásamt manni sínum, Jóhanni Pálssyni, en Katrín dóttir þeirra var móðir Jóhanns Ó. tónskálds, Elísabetar á Öxnhóli og Árna á Hallfríðarstöðum (sjá minningargrein Helgu Sigríðar Gunnarsdóttur um Katrínu með bréfunum til Boggu). Árni sonur Andrésar og Ingibjargar tók við búinu á Syðri-Bægisá 1863 og bjó þar til 1872 áður en hann flutti vestur í Brekkukot í Manitoba, Kanada, og Páll bróðir hans bjó þar 1867–68 en flutti síðan vestur í Skagafjörð þar sem hann bjó á ýmsum bæjum áður en hann flutti að Bústöðum í Austurdal. Helga Andrésdóttir bjó á Syðri-Bægisá ásamt Gunnari Magnússyni frá 1868 til 1883. Björg dóttir Andrésar og Ingibjargar bjó á Syðri Bægisá 1876–78 eftir að hún missti mann sinn, Daníel, sem var sonur Ástu ömmusystur Bjargar. Jón Júlíus Andrésson var síðasti afkomandi Tómasar Egilssonar og Helgu Daníelsdóttir sem bjó á Syðri Bægisá en hann bjó þar 1872–1897 en þá hafði ættin búið þar á bænum í rétt tæpa öld.Yfirleitt var tvíbýlt á Syðri-Bægisá á þessum tíma og fyrir kom að fjögur Andrésarbörn voru þar í einu, bændur, húsfólk og vinnufólk. Þegar kom fram á 9. áratuginn bjó Jón Júlíus meðhjálpari þar einn með fjölskyldu sinni áður en þau fluttust vestur í Ásgeirsbrekku í Viðvíkursveit.

Andrés og Ingibjörg á Syðri-Bægisá eignuðust 19 börn á 21 ári, eins og áður segir, en þau Gunnar frá Gásum og Jóhanna dóttir þeirra eignuðust „aðeins“ 10. Þau bjuggu fyrst á Ytri-Varðgjá í Kaupvangssveit og þar fæddist Þorgerður Guðrún (1862-1949). Árið 1863 fluttu þau í Breiðaból í sömu sveit og þar fæddist Björg (1863-1869), Ingibjörg (1866-1948) og Grímur Andrés (1867-1892). Þau fluttust loks í Sólborgar­hól í Kræklingahlíð og þar fæddust Björg önnur (1869-1890), Sigurlín Ragnheiður (1870-1872), Árni (1873-1875), Helga Sigríður (1875-1958), María (1876-1910) og loks Matthildur Júlíana (1879-1881). Eitt barn fæddist andvana 1865.

Heimilið á Sólborgarhóli var barnmargt en sjálfbært, jörðin lítil og efnin væntanlega eftir því. Gunnar var alltaf í hópi þeirra bænda sem greiddu lægsta útsvarið í hreppnum. Þó hafa Gunnar og Jóhanna haft vinnuhjú framan af, hjá þeim var t.d. Ingibjörg Andrésdóttir frá Syðri Bægisá, systir Jóhönnu, vinnukona 1871 en fljótt úr því hefur Þorgerður Guðrún verið farin að gegna því hlutverki. Björgu Gunnarsdóttur var komið í fóstur til Bjargar móður­systur sinnar á Syðri-Bægisá 1876 til að létta á heimilinu en hún kom aftur í Sólborgarhól tveimur árum síðar, þá orðin 9 ára, enda var þá Björg Andrésdóttir að flytja inn í Kræklingahlíð. Að öðru leyti ólust börnin á Sólborgarhóli upp hjá foreldrum sínum.

Þann 26. apríl 1879 lést Gunnar Grímsson úr lungnabólgu frá konu og 7 börnum og var jarðsettur í Glæsibæjarkirkjugarði. Þá var heimilið á Sólborgarhóli leyst upp. Ekkjan Jóhanna Andrésdóttir fór til systkina sinna á Syðri-Bægisá, Jóns, Benedikts og Helgu með Guðrúnu, Ingibjörgu, Helgu Sigríði og Matthildi. Jóhanna, Guðrún og Ingibjörg voru vinnukonur en Helga Sigríður og Matthildur voru „á sveit“ þar sem Glæsibæjarhreppur greiddi meðlag með þeim. Grímur, 12 ára, fór til föðursystur sinnar að Gásum, Björg, 16 ára, að Vöglum og María, þriggja ára, fór sem niðursetningur í Moldhauga. Því má svo skjóta hér inn í að Helga Sigríður var skírð í höfuðið á Helgu móðursystur sinni á Syðri-Bægisá að sögn hennar sjálfrar. 

Matthildur lést á Syðri-Bægisá tæpra tveggja ára gömul.

Grímur Andrés Gunnarsson ólst upp á Gásum til 1889. Það ár fór hann sem vinnumaður að Möðruvöllum og árið eftir að Krossa­stöðum þar sem hann var heimilisfastur þegar hann lést á Gásum 1892, hálfþrítugur að aldri.

Björg Gunnarsdóttir fór fyrst að Vöglum en síðan á ný til Bjargar móðursystur sinnar, elstu dóttur Andrésar á Syðri-Bægisá, sem var bústýra hjá syni sínum í Lögmannshlíð, Þorsteini Daníelssyni Sigfússonar en Sigfús og Andrés á Syðri-Bægisá voru systrasynir. Á þessum tíma bjó Þorsteinn dannebrogsmaður, skipa- og kirkjusmiður, enn á Skipalóni á níræðisaldri. Þorsteinn í Lögmannshlíð, alnafni hans og frændi, giftist fósturdóttur Þorsteins eldri, Gunnlaugu Margréti Gunnlaugsdóttur, og tók við búi í Skipalóni en varð aldrei sami höfðingi og dannebrogsmaðurinn. Gamli Þorsteinn var ömmubróðir Bjargar móður Þorsteins yngri. Björg Andrésdóttir hafði misst Daníel mann sinn þegar hún var innan við þrítugt og ól þennan eina son sinn upp, fyrst í Hvammi í Arnarnes­hreppi, síðan á Syðri-Bægisá og loks á Skipalóni.

Áður en Þorsteinn yngri tæki við búinu í Skipalóni árið 1883 hafði hann farið sem ungur maður í Lögmanns­hlíð, fyrst sem vinnumaður en síðan bóndi með móður sína sem ráðskonu en nú var hann sem sagt kominn í Skipalón þar sem margt var um frændfólkið. Auk þeirra hjóna var þar á Skipalóni Björg Andrésdóttir, móðir Þorsteins, og næstu árin ekkjan Jóhanna Andrésdóttir, systir hennar, og Björg dóttir Jóhönnu og fósturdóttir Bjargar. Á árunum 1885-1888 voru þar líka Guðrún og Helga Sigríður systur Bjargar yngri. Ennfremur var þar um árabil vinnumaður Daníel Tómas Gunnarsson frá Hraukbæjar­koti, sonur Helgu Andrésdóttur, systur Bjargar og Jóhönnu. Björg Gunnarsdóttir var á Skipalóni hjá frændfólki sínu þar til hún lést árið 1890, 21 árs að aldri. Kirkjubókin segir ekkert um banamein þeirra systkinanna, Gríms og Bjargar, en líklegt er að þau hafi bæði dáið úr taugaveiki eins og móðir þeirra.

Þegar heimilið á Sólborgar­hóli leystist upp 1879 fór María Gunnarsdóttir, þriggja ára, að Mold­haugum eins og áður segir og þar var hún til fullorðinsaldurs nema 1 ár var hún á Skútum. Hún var sveitar­ómagi til 1889. Hreppurinn greiddi 63 kr. með henni fyrstu árin auk þess sem hann greiddi 1 kr. og 10 aura fyrir meðul handa henni árið 1883 en 1885–87 voru greiddar 50 kr. í meðgjöf og 45 kr. 1888 og 1889. Það var einmitt ósætti um meðlag hreppsins sem varð til þess að María fór eitt ár að Skútum og þar er alveg ljóst að það voru hagsmunir Mold­haugna­­bóndans og hreppsins og en ekki barnsins sem voru látnir ráða.

 

Þorsteinn Hrólfsson og María Gunnarsdóttir ásamt börnum

María giftist Hrólfi Þor­steini Hrólfssyni frá Brunná 26. maí 1897. Þá var hún enn vinnukona á Moldhaugum en það ár fluttu þau Þorsteinn í Dúnhagakot í Hörg­árdal. Þau fluttu í Hamar og bjuggu þar til 1901 og þar var María í nábýli við Helgu Sigríði systur sína í Garðshorni.

Þaðan fóru þau María til foreldra Þorsteins sem þá bjuggu á Ásgerðar­stöðum. Árið eftir voru þau í húsmennsku á Neðri-Rauðalæk með 3 börn, Steingrím 5 ára, Sigríði þriggja ára og Inga Hrólf eins árs. Í Mið-Samtúni bjuggu þau 1904–1910 og þar bættust Árni og Soffía við barnahópinn. Þá ákváðu þau að flytja til Vesturheims en María veiktist og dó frá 5 börnum viku áður en skipið fór. Þorsteinn fluttist vestur með börnin áður en útförin hafði farið fram. Soffía varð skammlíf en Stein­grímur og Ingi munu hafa drukknað skömmu eftir vestur­­komuna er þeir voru við fiskveiðar á einhverju vatni þar, líklega Winnipegvatni, en Árni fórst við heræfingar 1940. Síðast þegar fréttist af Sigríði var hún gift manni af rúss­neskum ættum og áttu þau eina dóttur (Heimild: Valdimar S. Gunnars­son, Kjarna­ætt).

Um það leyti sem Jóhanna Andrésdóttir fór frá Syðri-Bægisá í Skipalón fór Ingibjörg dóttir hennar 18 ára gömul í Hrauk­bæjar­kot til móðursystur sinnar Helgu Andrés­dóttur frá Syðri-Bægisá og Gunnars Magnússonar. „Ingibjörg var lágvaxin, frekar feitlagin, jarp­hærð, hárprúð og fríð kona. Hún var hirðusöm og mjög vel fær í kven­legum verkum, glaðlynd og gaman­söm“ (Skagfirskar æviskrár). Hún giftist Valdemar Bjarnasyni frá Keldulandi í Austurdal (á Kjálka) í Skagafirði. Þau bjuggu í Víkurkoti, Stokkhólma, Þorleifs­stöðum, Vöglum og lengst (7 ár) á Keldulandi en brugðu síðan búi og fóru í Sólheima­gerði. „Þau hjón voru fátæk sem stafaði m.a. af tíðum búferla­flutningi“. Valdimar dó 1911 en Ingibjörg 1948.

Þegar börn Frímanns og Guðfinnu í Garðshorni voru að alast upp, var mikill samgangur milli Garðshorns og Neðri-Rauðalækjar enda voru Frímann og Pétur á Rauðalæk systrasynir, Pétur sonur Ingibjargar frá Sólborgarhóli en Frímann sonur Helgu.

Ingibjörg Gunnarsdóttir með sonarsoninn Pétur Steingrímsson

Fjölskyldutengslunum var viðhaldið með ýmsum hætti og því er ekki úr vegi að geta hér barna Ingibjargar og Valdemars. Af 7 börnum þeirra komust upp:

  1. Pétur (1896-1973) var bóndi í Úlfsstaðakoti (síðar Sunnu­hvoli) 1915–20, Sólheima­gerði 1920–1924, Fremri-Kotum 1924 – 1935 og loks Neðri-Rauðalæk 1935–1970. Hann var giftur Kristínu Hallgríms­dóttur (1892-1997) frá Úlfsstaðakoti (Sunnuhvoli) í Blönduhlíð. Kristín varð 104 ára gömul. Hún og Bernharð Stefánsson alþingis­­maður voru þremenn­ingar. Um föður Péturs segir svo í Skagfirskum æviskrám: „Valdimar var meðalmaður vexti, fríður sýnum og bjartur í andliti, dökkhærður. Hann var hæglætismaður og prúður í framgöngu, verkhagur en ekki heilsuhraustur“. Þessi lýsing á föður Péturs á mætavel við Pétur og Ingólf (1920-1996) son hans, bónda á Neðri-Rauðalæk sem var giftur Kristínu Brynjólfs­dóttur (1928-2018), nema e.t.v. hvað varðar heilsuna. Afkomendur Péturs og Kristínar eru orðnir margir.
  2. Grímur Benedikt (1898-1986) var hús­gagna­smiður á Akur­eyri, giftur Jónínu Jóns­dóttur. Grímur var þrek­vaxinn, ekki ólíkur frænda sínum Steindóri Pálmasyni en þeir höfðu talsvert samband. Grímur eignaðist ekki börn. Grímur var í leið­angrinum sem fór frá Akureyri til að bjarga áhöfn Geysis af Vatnajökli í september 1950.
  3. Helgi Ingimar (1898-1982) var tvíbura­bróðir Gríms. Hann var bóndi í Árnesi í Tungusveit frá 1950, giftur Snjólaugu Guðmundsdóttur frá Litluhlíð í Vesturdal í Skagafirði. Þau eignuðust einn son, Guðmund bónda í Árnesi sem giftist lettneskri konu og átti með henni þrjú börn.
  4. Gunnar Jóhann (1900-1989) var bóndi á Víðimel í Seyluhreppi frá 1949, giftur Amalíu Sigurðardóttur frá Víðivöllum. Dóttir þeirra var Sigurlaug sem átti 4 börn.
  5. Baldvina Guðrún (1905-1935) var gift Gunnari Baldvinssyni á Búðarhóli í Ólafsfirði, syni Þorgerðar Guðrúnar Gunnarsdóttur frá Sólborgarhóli. Guðrún og Gunnar voru því systrabörn. Guðrún lést af barnsförum frá fjögurra ára gömlum syni, Valdemar Sigurði sem safnað hefur miklum fróðleik um Kjarnaættina sem stendur að honum í báðar ættir.

Þorgerður Guðrún gekk systur sinni Helgu Sigríði í móður stað enda 13 árum eldri. Þær fóru saman í Syðri-Bægisá frá Sólborgarhóli 1879, í Ytri-Bægisá 1881-1884, að Ásláksstöðum 1884-85, í Skipalón 1885-88, að Glæsibæ 1888 og þaðan að Moldhaugum 1891 og síðan aftur í Skipalón. Um 1893 byrjaði Guðrún að búa með Baldvin Baldvinssyni og 1894 fæddist Steingrímur Árni (1894-1985) og tveimur árum síðar Gunnar Jóhann (1896-1976). Baldvin og Guðrún voru í húsmennsku á Skipalóni 1901, á Ytra-Brennihóli 1902 en síðan í Baldurshaga til 1906 en þá munu þau hafa flutt til Ólafsfjarðar þar sem þau bjuggu á Búðarhóli á Kleifum, út með firðinum að norðan. Þeir bræður áttu drjúgan þátt í að þar var gerð höfn og útgerð frá þorpi sem þar myndaðist og að þar var sett upp 24 kw rafstöð 1933 í rennsli Gunnólfsár sem sá húsunum í þorpinu fyrir lýsingu.

Steingrímur Baldvinsson giftist Sólrúnu Sigurðardóttur og eignuðust þau Huldu (1932-2019) sem bjó á Ólafsfirði og Baldvinu Guðrúnu Sigríði (1932) móður Öglu Huldar Þórarinsdóttur sálfræð­ings. Önnur dóttir Sigríðar er Helga Dröfn iðnaðar- og vélaverkfræðingur.

Fyrri kona Gunnars Jóhanns var Baldvina Guðrún Valdimarsdóttir (systir Péturs á Rauðalæk), dóttir Ingibjargar í Sólheimagerði, systur Guðrúnar. Sonur þeirra Gunnars Jóhanns og Guðrúnar Valdimarsdóttur er áðurnefndur Valdimar Sigurður (1931), búsettur í Keflavík. Baldvina Guðrún lést af barnsförum 1935 en Gunnar giftist aftur Sigur­björgu Sigurðardóttur (1915-2008) og eignaðist með henni Þorgeir hafnarstjóra á Ólafsfirði (1938), Björgvin (1943) sem var starfsmaður Íslenskra aðalverktaka í Reykja­nes­bæ og loks Jóhönnu Ósk sjúkraliða á Akureyri (1948).

Árið 1881 fór Jóhanna Andrésdóttir frá Syðri-Bægisá í Lögmannshlíð til Bjargar systur sinnar og fluttist síðan með henni í Skipalón 1883. Ári síðar fluttu dætur hennar, Guðrún og Helga Sigríður, í Ásláksstaði og í Skipalón 1885 þar sem móðir þeirra og Björg systir þeirra var fyrir. Árið 1889 fluttist Jóhanna Andrés­dóttir frá Skipalóni að Gásum til tengdafólks síns sem þar bjó þá enn en þá var hún fimmtug. Árið eftir var hún komin í Glæsibæ þar sem hún lést úr taugaveiki 1890.

Helga Sigríður Gunnarsdóttir með sonardótturina Helgu Frímannsdóttur

Helga Sigríður var sem sagt heima á Sólborgarhóli til 1879 en fór þá með móður sinni og systrum til frændfólksins á Syðri-Bægisá. Hún var með á Ytri-Bægisá 1881-1884, á Ásláks­stöðum 1884-1885 en síðan á Skipalóni í 3 ár, allan tímann í vist með Guðrúnu systur sinni. Þá fluttu Guðrún og Helga í Glæsibæ og fóru þaðan 1891 í Moldhauga. Á árunum 1893–1898 var Helga aftur á Skipalóni eða þangað til hún giftist Pálma Guðmundssyni á Grjót­garði.

Helga var hreppsómagi eins og áður segir frá því að faðir hennar lést og það var hún til ársins 1888 þó svo að hún væri alltaf í vist með móður sinni og síðan eldri systur. Á þessum árum voru hreppsómagar í Glæsibæjar­hreppi yfir­leitt um 10 en fjölgaði verulega í byrjun 10. áratugarins. Ekki virðist hafa verið venja að bjóða ómagana upp í Glæsi­bæjar­hreppi eins og sums staðar tíðkaðist heldur hefur þeim verið fenginn sama­staður með öðrum aðferðum og ákvarðað fast verð fyrir „venjulegan“ ómaga sem á þessum árum var 63 kr á ári í Glæsibæjarhreppi.

Fyrir kom að bændur kröfðust hærra gjalds ef um erfiðari einstaklinga var að ræða, t.d. fullorðna rúmliggjandi sjúk­linga sem þurftu mikla umönnun. Gjaldið lækkaði þegar börnin eltust og gátu farið að hjálpa verulega til við bústörfin, þ.e. um og eftir 10 ára aldur. Ekki var þó hreppsnefnd Glæsi­bæjar­hrepps svo mannúðleg í afstöðu sinni til allra mála. Á þessum árum samþykkti hún t.d. að bóndinn á Glerá skyldi greiða að fullu kostnað við sjúkrahúsdvöl dóttur sinnar sem dó á sjúkrahúsinu á Akureyri. Greiðslunum mátti þó dreifa á 4 ár. Skömmu síðar barst hreppsnefnd­inni tillaga frá lækni á Akureyri um að stofnaður yrði sjóður til að standa straum af sjúkrahúsvist hreppsbúa ef á þyrfti að halda. Hreppsnefndin taldi tillöguna góða en hins vegar væri ekki fært að auka álögur á hreppsbúa eins og sakir stæðu og því var tillögunni hafnað.

Nú hefur verið greint frá þremur systrunum af fjórum frá Sólborgarhóli sem eignuðust afkomendur, Guðrúnu sem fluttist til Ólafsfjarðar, Maríu sem lá á líkbörunum þegar fjölskylda hennar fluttist til Kanada og Ingibjörgu sem giftist til Skagafjarðar. Sú fjórða, Helga Sigríður, giftist Pálma Guðmundssyni bónda á Grjótgarði og síðan Garðshorni, eins og áður segir, og er fjallað um þau hjón í sérstökum kafla hér á eftir.