Inngangur

Saga bygginganna

Íbúðarhúsið í Garðshorni var byggt á árunum 1932 – 1933, flutt var inn í húsið fyrir jól 1932 en innréttingum lokið á útmánuðum 1933. Þá höfðu örfá steinhús verið byggð í sveitunum í kring, á Laugalandi og Ási á Þelamörk, í Hrauni, Hálsi og Syðri-Bægisá í Öxnadal og Stóra-Dunhaga, Fornhaga og Öxnhóli en íbúðarhús úr timbri höfðu verið byggð á nokkrum bæjum svo sem á Ytri-Bægisá, Neðri-Rauðalæk, Efri-Rauðalæk (1882) og Krossastöðum (1895) á Þelamörk og á Þúfnavöllum (1895) í Hörgárdal. Talsverður skriður var hinsvegar að komast á byggingu steinhúsa á 4. áratugnum. Þetta var á kreppuárunum þannig að kreppan hefur ekki komið mjög illa við bændur á þessum slóðum. Húsin sem byggð voru eftir 1930 voru yfirleitt steinsteypt en sum steinhúsin, sem byggð voru fyrr, voru hlaðin úr R-steini.

Garðshornsbærinn 1939. Fjárhúshlaðan í byggingu, fjóshlaðan byggð 1936

Í Byggðum Eyjafjarðar (1973) segir að íbúðarhúsið í Garðshorni sé 540 rúmmetrar. Húsið er stein­steypt, yfirsmiður var Árni Jónsson frá Laugalandi. Líklega hafa þeir Árni og Steindór Pálmason teiknað og hannað húsið í samráði við Helgu ömmu. Efnið í húsið var tekið niður við Hörgá en var greinilega ekki allt hrein möl því að fljótlega fór að bera á því að pússning flagnaði af veggjum. Það gæti þó líka hafa stafað af of litlu sementi. Framan af var reynt að gera við skemmdir með því að klína pússningu í skellurnar þangað til Guðmundur Víkingsson og Sóley Jóhannsdóttir, ábúendur á árunum 1981-2014, gripu til þess ráðs að klæða húsið utan með áli um leið og þau lyftu upphaflega þakinu og stækkuðu efri hæðina 1998 þannig að nú er gólf­flötur talinn vera 199 m2. Á skúrþakinu á norðan­verðu húsinu höfðu orðið skemmdir áður fyrr þegar sperrur fúnuðu vegna lélegrar loftræstingar en þær sperrur voru endurnýjaðar á 7. áratugnum. Húsið var einangrað með torfi. Tvöfalt gler var sett í glugga seint á 6. ára­tugnum og skipt um glugga­karma. Húsið var kynt með kolum og að hluta með rafmagni eftir að rafstöð var byggð 1947, 4 kw, 220 volta jafn­straumur sem náði þó sjaldnast 220 voltum vegna vatnsskorts og álags. Pottofnar voru í miðju hússins eins og tíðkaðist á þeim tíma. Gólf voru flest trégólf á 1. og 2. hæð, framan af var ekki dúkur á herbergjum á efri hæð en dúkur hefur líklega snemma verið settur á gólf á neðri hæðinni nema í smíðahúsi en í búrinu og gamla eldhúsinu voru steingólf. Veggir hússins voru málaðir hvítir að utan en þakið rautt. Fyrir útidyrum voru stein­tröppur til þriggja átta en þær sigu lausar frá húsinu og voru rifnar á búskapar­árum Guðmundar og Sóleyjar og endurnýjaðar með trétröppum.

Engar heimildir eru til um húsakost í Garðshorni á fyrri öldum en svo vel vill til að til er greinargerð eftir Steindór Pálmason um gamla Garðshornsbæinn sem fer hér fyrst á eftir. Síðan verður farið nokkrum orðum um útihúsin eins og þau voru á árunum 1940 – 1990 eða áður en Guðmundur og Sóley byggðu fjárhús og hlöðu norðan við gömlu fjárhúsin og hlöðuna 1988 og Agnar Magnússon og Birna Tryggvadóttir, ábúendur síðan 2014, bættu við veglegri reiðskemmu 2018. Þá verður sagt frá öðrum peningshúsum og mannvirkjum sem textahöfundur þykist þekkja til og loks gerð grein fyrir herbergjaskipan á árunum 1940 til 1998 og nefnd nokkur dæmi um notkun hússins fram á 7. áratuginn eða þangað til höfundur fór að fara úr föðurhúsum.

Lýsing Steindórs Pálmasonar á gamla Garðshornsbænum birtist í Súlum 27/1987, ári eftir að hann lést. Með lýsingunni fylgir grunnteikning og útlitsteikning sem Steinar Frímannsson gerði eftir fyrirsögn Steindórs. Einnig er til málverk af gamla bænum eftir Jósef Kristjánsson, einnig gert eftir fyrirsögn Steindórs, en það málverk bætir raunar litlu við teikningar Steindórs og Steinars. Því miður náði greinargerð Steindórs ekki til útihúsa á jörðinni nema að litlu leyti þannig að fátæklegar upplýsingar eru til um þau. Lýsingin og grunnmyndin fara hér á eftir eins og þær birtust í Súlum. En fyrst kemur úttekt á jörðinni frá árinu 1899 þegar Guðmundur Sigfússon tók við henni af Sigurjóni Jónssyni.