Guðmundur, Steinunn og Garðshornssystkinin elstu

Guðmundur, Steinunn og Garðshornssystkinin elstu

Nú er loks komið að því að segja frá Guðmundi Sigfússyni og Steinunni Önnu Sigurðardóttur. Þau giftust þegar þau voru á Æsustöðum hjá föður hennar, fluttu í Hraungerði, síðan í Einarsstaði, þá í Grjótgarð og loks í Garðshorn.

Víkjum nú sögunni aftur að Guðmundi Sigfússyni frá Tittlingi. Hann fór í Glæsibæ og var léttadrengur á heimili sr. Daníels Halldórssonar um 1856 og þar var hann fermdur með góðum vitnisburði árið 1858, þá á fimmtánda ári. Þegar Daníel fluttist í Hrafnagil 1860 og tók við prófastsembætti, fluttist Guðmundur þangað með presti og fjölskyldu hans. Ekki er vitað hvar Guðmundur var næstu tvö ár á eftir en árið 1863 réðst hann vinnumaður í Möðrufell í Hrafnagils­hreppi til Páls Gíslasonar og Maríu Friðfinns­dóttur og hjá þeim var hann sleitulítið í áratug. Hann fór reyndar eitt ár, 1870-1871 að Ánastöðum í Sölvadal og þá gæti hann hafa kynnst Steinunni á Æsustöðum, en kom þaðan aftur í Möðrufell. Frá Möðrufelli fór hann svo sem vinnumaður að Æsu­stöðum árið 1874. Þar var þá tvíbýli og á einum jarðarhlutanum bjó Sigurður Bárðar­son ásamt börnum sínum en hann var þá orðinn ekkjumaður. Á hinum hluta Æsustaða bjó Páll Pálsson frá Möðrufelli ásamt konu sinni, dóttur þeirra, dóttur hennar og Guðjóni syni hans, systursyni Guðmundar. Sigurður var húsmaður hjá Páli og Jóhannes sonur hans hjá honum og hjá Páli var Guðmundur vinnumaður með Steinunni konu sína. Guðmundur hefur eflaust þekkt Pál frá fyrri tíð er þeir voru samtíða á Möðrufelli. 

Steinunn Anna Sigurðardóttir. Myndin var tekin árið 1911, Steinunn þá 66 ára

Um haustið, nánar tiltekið 14. október 1874, voru þau Guðmundur og Steinunn Anna Sigurðar­­dóttir gefin saman í hjóna­band í Möðruvallakirkju. Skömmu síðar fluttu þau í Hraungerði í Hrafnagils­hreppi sem var lítið kot, byggt úr landi Möðrufells. Þar voru þau í hús­mennsku og þar fæddist Pálmi í febrúar 1876.

Ekki hefur þeim Guðmundi og Steinunni þótt mikil framtíð í því að búa í Hraun­gerði því að vorið 1876 fluttu þau þaðan í Einarsstaði í Kræklinga­hlíð og hófu þar búskap á hálfri jörðinni og brátt var bústofninn 2 kýr og 25 – 30 lembdar ær.

Með Steinunni og Guðmundi flutti Sigurður faðir hennar Bárðarson og var húsmaður hjá þeim á Einars­stöðum. Hann dó um haustið 1876 og var jarðaður í Glæsi­bæjarkirkjugarði. Með þeim flutti líka Jóhannes, bróðir Steinunnar á 15. ári, frá Æsustöðum og árið 1879 flutti systir þeirra, Anna Margrét Sigurðardóttir, 21 árs vinnu­kona frá Rúgstöðum (Rútsstöðum) í Önguls­staðahreppi í Einarsstaði. Önnur systir þeirra, Helga Sigurðar­dóttir, flutti í Sólborgarhól árið 1880, þá 29 ára, eignaðist þar dóttur og var með hana á nokkrum bæjum þar í sveitinni næsta áratuginn. Haraldur bróðir þeirra flutti með konu og barn vestan úr Skagafirði 1884 í Blómstur­velli og síðan í Sól­borgar­­hól. Mestur hluti Æsustaða­fjöl­skyld­unnar fluttist þannig inn í Kræklinga­hlíð um þetta leyti. Hólm­fríður varð eftir sem kaupakona á Hrísum en um Kristján Frímann er það síðast vitað að hann var á Stokka­hlöðum 1881. Bárður og Jóhannes fluttu til Vesturheims árið 1878 og líklega hefur Kristján Frímann farið á eftir þeim þótt síðan hafi ekkert til hans spurst.

Á Einarsstöðum bjuggu þau Guðmundur og Steinunn til ársins 1886 og eignuðust þar Frímann 1878 og Arnbjörgu 1880. Tvíbýli var á Einarsstöðum sem var 23gja hundraða jörð en þau höfðu hálfa jörðina á móti Jóhanni Jónassyni. Bústofn þeirra var ekki stór en var þó ekki langt undir meðalbúi í Glæsibæjarhreppi á þessum tíma. Árið 1880 bjuggu þau með 2 kýr, 23 lembdar ær, 1 lambgotu og 1 gelda á, 12 gemlinga og 2 tamin hross. Afkoman var ekki verri en svo að þau gátu staðið í skilum við hreppssjóð sem var meira en hægt var að segja um alla. En nú fóru erfið ár í hönd, kuldar og hafís og síðasta árið á Einarsstöðum voru kýrnar enn 2 en ærnar aðeins 15, ein geldá og 8 gemlingar. Hrossið var aðeins eitt auk tryppis. Heyfengur hafði verið 60 hestar af töðu og 100 hestar úthey veturinn 1880-81 en 1883-84 komst töðufengur niður í 40 hesta og úthey 80 hesta. Eftir það skánaði ástandið án þess að verða jafngott og áður.

Fyrstu árin á Einarsstöðum höfðu Guðmundur og Steinunn vinnuhjú, m.a. Jóhannes smala, bróður Steinunnar. Á útmánuðum 1882 höfðu Guðmundur og Steinunn 15 ára léttastúlku en auk þess tvo niðursetninga, 31 árs holdsveika stúlku, sem lést úr mislingum um haustið, og 14 ára dreng. Eftir þetta voru hjónin ein með börn sín.

Árið 1886 fékk Jóhann alla Einarsstaði til ábúðar og þá fluttu Guðmundur og Steinunn í Grjótgarð á Þelamörk þar sem þau bjuggu til ársins 1899. Bústofninn var svipaður og áður þótt jörðin væri heldur minni eða 10 hundruð. Fyrsta árið var heyfengur 22 hestar af töðu og 45 hestar af útheyi. Árin 1889 – 91 komst heyfengur í 60 töðuhesta og 120 útheyshesta en lengst af eftir það voru töðuhestarnir rúmlega 50 og útheyshestar um 130. Á þessum árum voru sléttaðir 50 – 80 ferfaðmar af túni á ári hverju og síðustu árin á Grjótgarði voru ræktuð jarðepli sem var ekki gert á hverjum bæ. Síðustu 3 árin á Grjótgarði, 1896 – 1898, var Pálmi á skrá yfir verkfæra menn en Guðmundur ekki sem bendir til að hann hafi þá þegar verið orðinn heilsulítill.

Á Grjótgarði tóku Guðmundur og Steinunn tvo drengi inn á heimilið. Stefán Valdimar Sigurjónsson (1886-1973) kom til þeirra 1890 sem fjögurra ára sveitarómagi og með honum greiddi hreppurinn 55 krónur á ári. 52 krónur voru síðan greiddar með Stefáni til 1897 en síðasta árið sem greitt var með honum, 1899, var meðlagið komið niður í 10 krónur. Á sama tíma og Stefán var hjá Steinunni og Guðmundi á Grjótgarði var eldri bróðir hans, Einar Marinó, niður­setningur á Rauðalæk en síðan á Krossastöðum 1892-1897.

Kristfinnur Guðjónsson (1896-1974) komst aldrei á lista yfir sveitarómaga í hreppsbók Glæsi­bæjar­hrepps af því að hætt var að færa þann lista inn í fundargerðir hreppsnefndarinnar en í kirkjubókum árið 1899 er hann kallaður tökubarn, næstu tvö ár sveitarbarn og síðan aftur tökubarn. Guðjón faðir hans Manasesson hafði verið sæmilega gildur bóndi í Ási á eftir föður sínum og þar kosinn til að hafa umsjón með vegavinnu á Þelamörkinni fyrir hreppinn en börnin voru mörg og svo virðist sem verulegt basl hafi verið á fjölskyldunni um tíma. Guðjón gat ekki staðið í skilum við hreppinn og þurfti að fá gjaldfrest og lánafyrirgreiðslu hjá Glæsibæjar­hrepp eftir að hann flutti að Skriðu og Fornhaga. Árið 1899-1900 var eitt barn Guðjóns á Mýrarlóni á framfæri Glæsibæjarhrepps og árið eftir voru börnin tvö og kostuðu hreppinn 110 kr.

Þegar manntalið var tekið 1901 var Stefán Sigurjónsson ekki lengur heimilis­fastur í Garðshorni heldur er hann sagður hjú á Hamri, þá 15 ára gamall. Kristfinnur var hins vegar skráður tökubarn í Garðshorni sem þýddi að hreppurinn greiddi ekki meðlag með honum. Stefán og Kristfinnur urðu hluti af fjölskyldunni og raunar lengi síðan. Þeir voru lítið skyldir Guðmundi og Steinunni sem virðast hafa gengið þeim í foreldra stað, Steinunn og Guðjón Manasesson reyndar fjórmenningar, sem varla hefur ráðið neinu um fóstrið. Báðir kölluðu Steinunni mömmu eins og fram kemur í bréfi Steindórs Valbergs Kristfinnssonar til hennar og Stefán talar um Steinunni sem mömmu í bréfi til Arnbjargar „stallsystur“ sinnar, eins og hann orðar það. Hafi meðferðin á þeim Stebba og Kidda og síðar Kára og Steindóri Valberg verið dæmigerð fyrir meðferð á niðursetningum á fyrri tímum, hefur alls ekki verið svo bölvað að vera niðursetningur. En því var eflaust yfirleitt ekki að heilsa og ósennilegt að allir hafi haft sama viðhorf og Jón á Skjaldarstöðum sem sagði „niðursetningnum“ Steindóri Valberg að meiri vandi væri að ala upp annarra manna börn en sín eigin því að þar væru aðrir að trúa honum fyrir barninu. En Jón átti reyndar aldrei börn.

Guðmundur Sigfússon dó kvalafullum dauðdaga fáum árum eftir komuna í Garðshorn eða 4. ágúst 1904, þá 62 ára gamall. Banamein hans er skráð „magakveisa“ en ráða má af orðum Steinunnar síðar, þegar Frímann sonur hennar var orðinn veikur af magakrabbameini, að Guðmundur hafi dáið úr sama sjúkdómi. Magakrabbi var reyndar algengur á þessum árum vegna þess hve saltpétur var mikið notaður til að geyma mat og grænmetisneysla lítil. Guðmundur er grafinn í Bægisár­kirkjugarði en enginn veit hvar leiðið er.

Ekkert er vitað um persónuna Guðmund Sigfússon, hvorki útlit né innræti. Hann fékk góða umsögn við fermingu og virðist hafa komið sér vel þar sem hann var vinnumaður því að hann var lengi í Möðrufelli. Hann var líklega dugandi bóndi því að ekki verður annað séð af opinberum skýrslum en búskapur hans á Einarsstöðum og Grjótgarði hafi gengið vel þótt bústofninn hafi aldrei verið stór. Og Guðmundur fékk afar vinsamleg ummæli frá niðursetningnum Stefáni í eftirmælum sem fara hér á eftir.

Fyrst eftir að fjölskyldan flutti frá Grjótgarði í Garðshorn voru öll systkinin þar til heimilis ásamt Helgu Sigríði, konu Pálma, Guðmundi, Steinunni og Kristfinni eða til 1905. Þá giftist Arnbjörg Valdemar Guðmundssyni bónda á Efri-Rauðalæk og flutti þangað og Steinunn og Kristfinnur með henni. Frímann giftist Margéti Jónsdóttur frá Laugalandi en fyrstu búskaparár þeirra voru í Garðshorni eða frá 1905 til 1908. Á þessum tíma hafði Pálmi veikst af berklum og lá lengi rúmfastur en Frímann sá um búið með Margréti og Helgu. 1908 fluttu Frímann og Margrét í Hamar og þá bjuggu þau systkinin Pálmi, Frímann og Arnbjörg á þremur nánast samliggjandi bæjum. Nábýlið stóð þó ekki lengi því að 1910 fluttu Arnbjörg og Valdemar í Fremri-Kot og 1917 fluttu Frímann og Margrét í Efstaland.

Til er gömul vísa eftir Jóhannes Sig­urðs­son frá Engi­mýri sem hann orti eftir að hann flutti þaðan í Neðri-Vindheima. Hún hljóðar svo:

Það er ekki á Þelamörk
þotið á milli bæja.
Hver með sinni baugabjörk
býr og lætur nægja.

Elstu Garðshornssystkinin fóru vissulega oft á milli bæja, a.m.k. til að hitta hvert annað, en ekki fóru þau langt þegar þau voru að finna sér maka. Líklega hefur Pálmi leitað einna lengst en þó ekki margar bæjarleiðir því að frá Grjótgarði í Skipalón er ekki löng leið. Arnbjörg hefur væntanlega kynnst Valdemar sem bónda á Rauðalæk, hugsanlega sem bústýra hjá honum, og Frímann hefur örugglega þekkt Margréti þegar hún var heimasæta á Laugalandi en hann jafnaldra á næsta bæ, Grjótgarði. Hann þurfti þó að sækja hana í vinnumennsku til Akureyrar og af einhverjum ástæðum völdu þau að láta gefa sig saman fjarri heimabyggð en hvorki á Bægisá, Möðruvöllum eða jafnvel Glæsibæ sem virðist þó allt hafa legið beinna við.

Árið 1901 var Helga Sveinsdóttir (1884-1924) vinnustúlka í Garðshorni, 16 ára gömul, en hún átti síðar eftir að koma við sögu Steinunnar þegar hún var í 2-3 vikur hjá Helgu í Hálsi eftir barnsburð. Helga var líka vinnukona hjá Arnbjörgu á Efri-Rauðalæk 1907 á meðan Steinunn var þar líka. Helga var systir Brynjólfs síðar bónda og hreppstjóra í Efstalandskoti en Soffía móðir hans og Guðmundur í Garðshorni voru bræðrabörn. Helga giftist síðar Baldvin Sigurðssyni frá Geirhildargörðum en Sigurður faðir hans og Steinunn í Garðshorni voru systkinabörn.

Arnbjörg og Valdemar bjuggu ekki lengi á Efri-Rauðalæk heldur fluttu vestur í Fremri-Kot í Norðurárdal 1910. Kristín systir Valdemars og Friðfinnur maður hennar sem bjuggu á Rauðalæk á undan þeim höfðu flutt vestur í Egilsá þegar þau fluttu frá Rauðalæk og hefur greinilega líkað vel.

Þar þótti snjóléttara en á Þelamörkinni og á þeim tíma hefur ekki þótt skipta máli þótt Fremri-Kot hafi verið afskekkt. Þau voru þó í alfaraleið. Gunnar sonur Arnbjargar og Valdimars var þá fæddur og með þeim flutti líka Kristfinnur Guðjónsson, þá kominn um fermingu. Steinunn flutti hins vegar til Frímanns og Margrétar í Hamar og var hjá þeim til 1915 að hún flutti til Pálma og Helgu í Garðshorn þar sem hún bjó til dauðadags.

Steinunn dvaldi þó öðru hverju hjá Frímanni á Hamri og Efstalandi, t.d. í veikindum Margrétar. Og hún heimsótti Arnbjörgu vestur í Skagafjörð nokkrum sinnum, m.a. fór hún vestur 1911 og 1912 og sumarið 1913 fór hún vestur með Guðrúnu á Draflastöðum, systurdóttur sinni. Hún hélt tryggð við sína, heimsótti Stefán fósturson sinn í Bótina og í Grjótgarð, hún heimsótti vinafólk sitt á Vöglum og hún heimsótti Helgu frænku sína Sveinsdóttur fram í Háls en Helga hafði verið henni samtíða á Efri-Rauðalæk eins og áður segir. Steinunn hefur verið dugleg að skrifa Arnbjörgu eftir að hún fluttist vestur og hefur greinilega líka skrifað systkinum sínum, a.m.k. Haraldi og Margréti sem fóru til Kanada. Hún skrifaði sjálf framan af en þegar sjónin fór að bila þurfti hún að lesa öðrum fyrir og þar veittu margir henni lið, oftast þó Frímann Pálmason, Kristfinnur Guðjónsson og Sigurbjörg Frímannsdóttir.

Steinunn var í húsmennsku í Garðshorni fram til 1922 en var eftir það á framfæri Pálma. Margrét systir hennar lést vestur í Kanada um 1920 og lét hún eftir sig bankainnistæðu sem skipt var milli systkina hennar. Þá fékk Steinunn um 500 kr. í sinn hlut sem var talsverð upphæð. Þessi upphæð var þó ekki notuð til framfærslu hennar á meðan hún lifði en eftirstöðvunum var ráðstafað til uppgjörs á framfærslunni að henni látinni. Um það hafa þeir tekist, Pálmi sonur hennar og Valdemar tengda­sonur, en þeir fengu báðir orð fyrir að láta ekki hlut sinn í viðskiptum.

Steinunn var lengi heilsuveil eftir að árin færðust yfir og meira og minna rúmliggjandi síðustu árin enda aldurinn orðinn hár miðað við það sem algengt var á þessum tíma. Hún var lengi brjóstveik, hóstaði mikið, og var farin að tapa sjón, aðallega þó á öðru auganu. Hún gat þó lengi lesið og hafði gaman af því svo og af því að vinna úr ull í höndunum.

Steinunn Anna Sigurðardóttir dó 8. október 1928 „úr inflúensu“ eins og segir í kirkjubókum. Steindór Pálmason sat við dánarbeð hennar þegar hún skildi við. Hún var þá 82 ára gömul.

Á leiði Steinunnar í Bægisárkirkjugarði er nú legsteinn en það er milli leiða sona hennar, Frímanns og Pálma. Næsta merkta leiði norðan við leiði Frímanns er leiði Pálma bróður hans og Helgu S. Gunnarsdóttur frá Garðshorni. Í þessari röð, norðan við, eru leiði Frímanns Pálmasonar og Guðfinnu frá Garðshorni og þriggja barna þeirra og í næstu röð vestan við eru leiði Gunnars og Sigurlaugar frá Fremri Kotum.

 

Reikningur

frá Pálma Guðmundssyni, Garðshorni
til Valdemars Guðmundssonar, Bólu

 

 

Úttektir

kr. au

Goldið

kr. au.

Móðir mín var á mínu framfæri frá því um sumarið 1922 til 14. maí 1923. Þar fyrir tek ég

 

150,00

 

Frá 14. maí 1923 til 14. maí 1924

150,00

 

Rentur af kr. 150,00 5% yfir sama tíma

7,50

 

Frá 14. maí 1924 til 14. maí 1925

150,00

 

Rentur af 307,50 y.s.t.

15.38

 

Frá 14. maí 1925 til 14. maí 1926

150,00

 

Rentur af 472,88 y.s.t.

23,64

 

Frá 14. maí 1926 til 14. maí1927

150,00

 

Rentur af kr. 646,52 y.s.t.

32,31

 

Borgað 8. apríl kr. 100,00 og 23. maí kr. 100,00

 

200,00

Frá 14. maí 1927 til 14. maí 1928

175,00

 

Rentur af kr. 628,83 y.s.t.

31,44

 

Frá 14. maí 1928 till loka

125,00

 

Rentur af kr. 835,27 frá 14. maí 1928 til 31. des. 1928

26,10

 

Útfararkostnaður: Kista og líkklæði 105,00, veitingar 40,00 kr. grafartekt 10,00 kr., til prests 14,00 kr., jarðarfarar­auglýsing 8,00 kr., stúlkum borgaðar 6,00 kr., flutningur 3,00

 

 

186,00

 

Samkvæmt sparisjóðsbók hefði innistæða orðið 31. des. 1928

 

579,52

Samtals

1.372,37

779,52

Mismunur

592,85

 

Helmingur

296,43

 

 

 

 

 

Garðshorni 31. des. 1928

Pálmi Guðmundsson

 

Til skýringar við framanskráðan reikning

Ég reikna jafnt fyrir öll 5 fyrstu árin kr. 150,00 þrátt fyrir þó fyrsta árið væri ekki heilt. Bræðurnir [Steindór og Frímann] tóku kr. 300,00 fyrir tímann frá 14. maí 1927 til dánardægurs og er þar í innifalin fyrirhöfn við jarðarför og fleira sem þeir lögðu til. Í þessari upphæð er því hluti af legu og jarðarfararkostnaði. Ég skipti upphæðinni eins og reikningurinn sýnir.

Rentur reikna ég vegna þess að eins og þú sagðir einhvern tíma að rétt væri að móðir mín sáluga borgaði með sér meðan eigur hennar entust en af ástæðum sem þér eru kunnar tók ég þær ekki. Ég reikna því hinar sömu rentur og hún fékk í spari­sjóðnum.

Ég reikna til 31. des. 1928. Tók að vísu mestan hluta sparisjóðsinnstæðu nokkru fyrr en það er ekki að fullu uppgert enn, en niðurstaðan verður rétt þegar jafnar rentur eru reiknaðar af hvorutveggja til þess tíma. Innstæða var 1. jan. 1928 kr. 581,32. Sjálf tók hún úr sjóði kr. 30,00 21. júní.

Útfararkostnaður finnst mér fremur lágur en þess ber að gæta sem að ofan er tekið fram og að ekki er fært á þennan reikning efni eða vinna við að steypa gröfina, vindlar og fleira (veitingaleifar dregnar frá).

 

Á sérstökum miða.

 

Það sem Steinunn sál. Sigurðard. átti, er hún dó árið 9128, er þetta:

Dragkista kr. 50
Kista kr. 10
Kofort kr. 10
Rokkur
Borð (með skúffu, dágott) kr. 5
Rúm (lélegt) kr. 5
Peningabudda með 4 kr. í kr. 6

Það sem Steini tók yfir tvö ár voru kr. 200
Helmingur af vöxtum kr. 68,18½
Jarðarfararauglýsing (helmingur) kr. 4,00
Borgað í janúar 1929 kr. 60,00
Borgað 14. nóv. 1930 kr. 60,00

Systkinin voru þrjú og hefur þeim líklega borið öllum jafnt skylda til að sjá um móður sína meðan þau voru á lífi, sem hefur verið í 3 ár af þessum 6 árum sem krafan er gerð fyrir.

(óundirritað).

 

 

 

Eftirmæli

eftir Guðmund sáluga Sigfússon

 

Mér hitnaði um hjartað er heyrði ég að
héðan burt snúinn í sælunnar stað
værir þú vinurinn þýði.
En gladdist þó því að ég vissi að þú varst
svo veikur, og þungur sá kross er þú barst,
nú leystur frá langvinnu stríði.

Ætíð til gagns var þín iðjandi hönd
þó oft að þér hart þrengdu sjúkleika bönd,
nú skapa er skeið þitt út runnið.
Und blæjunni hvítu blundar þú rótt,
bíður þér hvíldina hin friðsæla nótt
því dagsins er erfiði unnið.

Þú varst mér sem faðir og vinarþel hlýtt
vannst mér að sýna og atlæti blítt
er bjargast í bernsku ég ei kunni.
Lund þín var hrein og svo laus við allt tál,
lastyrðin klúru og spjátrunga mál
þér heyrðust ei hrjóta af munni.

Ég þakka þér, vinur, allt vel til mín gert.
Ég veit að þér borgast það nú sem þú ert
af Guði hvar glaður þú byggir.
Með ástvinum þínum ég kveð þig nú kært
af klökkum hug síðasta þakklæti fært.
Vertu sæll, vinurinn tryggi.

Ort fyrir fósturson.

(Fóstursynirnir voru tveir en líklega er hér um Stefán V. Sigurjónsson að ræða því að Kristfinnur Guðjónsson var raunar skamman tíma í fóstri hjá Guðmundi og hann leit ekki síður á sig sem fósturson Arnbjargar en Guðmundar og Steinunnar. Þegar Guðmundur dó 4. ágúst 1904 var Stefán tæpra 18 ára. Engar vísbendingar hafa fundist um höfund þessara eftirmæla sem eru til í tvíriti, annað með rithönd Frímanns Pálmasonar en hitt gæti verið með rithönd Kristfinns Guðjónssonar fremur en Stefáns sjálfs.)