Gunnar meðhjálpari

Gunnar meðhjálpari

Næstu þekktu ábúendur í Garðshorni voru Gunnar Jónsson (1723-1801) og fyrri kona hans, Sigríður Ólafsdóttir (1720-1762). Þau höfðu hafið búskap í Garðshorni 1751 samkvæmt kirkjubók eða fyrr og bjuggu þar til dauðadags Sigríðar 1762 og Gunnar raunar til aldamóta. Þau áttu a.m.k. 6 börn en aðeins þrjú þeirra komust til fullorðinsára, Guðrún, Sigríður og Ólafur. Guðrún dóttir þeirra Gunnars­dóttir f. 1751 var sektuð fyrir að eignast óskilgetið barn 1778, soninn Jón sem hún kenndi Davíð Ketilssyni en hann var „hvinnskur og pöróttur“ og lést í Móðuharðindunum eins og svo margir. Jón Davíðsson varð skammlífur. Ólafur f. 1756, sonur Gunnars og Sigríðar, lést einnig í Móðuharðind­unum, tæplega þrítugur. Sigríður Gunnarsdóttir f. 1752 var vinnukona á Myrká, Saurbæ, Barká og Ásgerðarstöðum á árunum 1789-1801 en fátt annað er um hana vitað.

Gunnar bjó einn næstu árin eftir dauða Sigríðar en í janúar 1775 giftist hann Guðrúnu Jónsdóttur (1749-1820) „með helmingaskiptaskilmála“. Í maí sama ár fæddist þeim sonurinn Jón sem dó 10 eða 11 ára gamall. Gunnar og Guðrún eignuðust ekki önnur börn en Jón, að því er séð verður, þangað til þeim fæddist dóttirin Guðrún (1794-1873) nærri 20 árum síðar. Hún varð síðar húsfreyja og yfirsetu­kona á Stóru-Brekku í Arnarneshreppi. Guðrún yngri giftist Snorra frá Ásgerðarstöðum, bróður Skáld-Rósu. Sonur þeirra var Guðmundur faðir Snorra á Steðja, föður Guðmundar Stefáns, þess úrræðagóða bílstjóra og hjólbarða­viðgerða­manns. Þessi tilgangslausa tilvísun þarfnast auðvitað skýringar. Guðmundur Stefán, sem sveitungarnir kölluðu gjarnan Stefán G á Steðja, eignaðist snemma vörubíl sem hann vann með við vegagerð þar um sveitir. Nú hendir það einhvern daginn að hjólbarði undir bíl Guðmundar rifnar og rauð slangan brýst út í stórri blöðru. Guðmundur á að hafa verið fljótur að leysa þennan vanda með því að bregða vasahníf sínum á slönguna og hleypa loftinu út.

Gunnar og Guðrún bjuggu í Garðshorni til æviloka hans, síðustu 6 árin á móti öðrum. Gunnar var meðhjálpari við Bægisárkirkju en „til þess starfs völdust ekki aðrir en betri bændur og þótti upphefð að,“ segir Eiður á Þúfnavöllum og Espólín viðhefur svipuð orð. Gunnar hefur verið í metum hjá Bægisárklerki sem á síðasta hluta þessa tímabils var sr. Jón Þorláksson, forfaðir Garðshyrninganna Funa, Bjarma og Glóu Hrannarsbarna. Gunnar var vel læs en Guðrún lesandi, forstöndug og greiðug samkvæmt kirkjubókinni.

Eiður á Þúfnavöllum ættfærir Gunnar en ekki Guðrúnu því að á þeim tíma voru konur yfirleitt ekki ættaðar, hann hafi verið „sonur Jóns í Skógum, Jónssonar á Laugalandi, Jónssonar í Skógum, galdramanns Illugasonar prests á Þóroddsstað í Köldukinn. Er fjöldi manna kominn frá Galdra-Jóni og ber mikið á góðri greind í því kyni,“ skrifar Eiður. Í Íslendingabók eru hinsvegar bornar brigður á þessa ættfærslu Eiðs en Guðrún sögð dóttir Jóns í Skógum og talið fráleitt að Gunnar hafi gifst hálfsystur sinni. Eiður var stundum fullfljótur til ályktana ekki síður en Guðmundur bílstjóri á Steðja.

Á árunum 1795-1801 voru ábúendur í Garðshorni á móti Gunnari og Guðrúnu Ólafur nokkur Einarsson, fæddur í Dag­verðar­tungu eða Digurstungu, eins og bærinn hét þá, og Þuríður Eiríksdóttir, fædd á Ytri-Reistará, en Ingibjörg dóttir þeirra er sögð fædd í Garðshorni árið 1800. Ögmundur Ólafsson og Guðríður Ingimundar­dóttir áttu líka heima í Garðshorni þegar þau giftu sig 29. september 1797 en þau hafa varla talist búandi. Þau eignuðust barn í Garðshorni ári síðar, Guðríði, en henni gefur Espólín þessa ágætiseinkunn: „Hálfviti, átti eitt barn sem dó.“ Ögmundur og Guðríður kona hans fluttu út í Efri-Vindheima og áttu þar heima 1801. Um Ögmund segir Eiður: „Hann var fátæklingur og þótti lítils háttar.“

Guðmundur (1725-1810) bróðir Gunnars meðhjálpara bjó á Litla-Rauðalæk og eignaðist þar soninn Ólaf með konu sinni Ragnheiði Bjarnadóttur árið 1764 en Ragnheiður dó síðar á árinu. Þessi Ólafur fór í fóstur til Gunnars föðurbróður síns í Garðshorni. Árið 1801 tóku Ólafur Guðmundsson (1764-1815) og Þóra Guðmundsdóttir (1766-1819) við búinu í Garðshorni en þau höfðu búið í Flöguseli 1790-1800. Óvíst er hvar Guðmundur var þangað til hann fór í Garðshorn til sonar síns en þar voru þá líka Gunnar bróðir hans og Guðrún kona Gunnars. Guðmundur og Gunnar létust báðir í Garðshorni á meðan Ólafur bjó þar og Guðrún dó þar líka 1820 en eftir að Ólafur var fluttur annað.

Heimilisfólk í Garðshorni var yfirleitt fátt utan fjölskyldunnar á meðan Gunnar meðhjálpari bjó þar, vinnufólk utan fjölskyldunnar var fátt en oft voru þar sveitarómagar. Guðrún dóttir hans var í föður­húsum framundir þrítugt og Sigríður framyfir þrítugt.

Ólafur Guðmundsson var vel lesandi, kristilegur og forstöndugur, sæmilega að sér í kristnum fræðum en „var alltaf fátækur“ segir Espólín, „fátækur en vel látinn“ segir Eiður. Þóra var sæmilega læs. Þau áttu fjögur börn á aldrinum eins til tíu ára þegar þau voru í Garðshorni en þau misstu a.m.k. þrjú börn, m.a. tvær Arnþórur en sú þriðja komst upp og segir Eiður á Þúfnavöllum af henni talsverða sögu sem kemur ekki þessu ábúendatali við en Eiði þótti ekki mikið til hennar koma. Ólafur og Þóra bjuggu í Garðshorni til 1814. Á þessum árum eignuðust þau börn (1802, 1804 og 1808). Ólafur lést í Syðri-Skjaldarvík í Kræklingahlíð árið 1815, sagður bóndi þar, en Þóra var síðustu árin hreppsómagi í Fornhaga og Stóra-Dunhaga þar sem hún lést 1819.

„Ólafur dó fáum árum eftir að hann fluttist frá Flöguseli [í Garðshorn] ... og Þóra kona hans missti heilsuna um svipað leyti,“ segir Eiður á Þúfnavöllum. Ólafur lifði reyndar 15 ár eftir að hann fór úr Flöguseli og Þóra fjórum árum lengur. En auðvitað er afstætt hvenær ár eru mörg eða fá. „Það er ekki langt þegar það er liðið,“ sagði Fríða á Hamri þegar skólameistarinn hafði orð á að hún hefði búið lengi á Hamri eða frá 1917 til 1968.

Með Ólafi Guðmundssyni lýkur a.m.k. 80 ára ættarsögu í Garðshorni, líklega er hún lengri en kirkju­bækur ná ekki lengra en til 1751. Þegar Ólafur og Þóra fluttu burt hófst önnur ættarsaga sem stóð ekki mikið skemur eða í ein 70 ár á meðan Jón Bergsson og skyldmenni hans bjuggu þar. Skömmu síðar flutti þriðja ættin í Garðshorn eða árið 1899 og var þar lengst þessara þriggja ætta eða tæp 80 ár, Steinunn Anna Sigurðardóttir, Guðmundur Sigfússon og afkomendur þeirra. Jafnvel mætti færa að því rök að Flöguselsættin hafi verið þar 10 árum lengur eða frá því að Benedikt Jónsson flutti þangað 1889 en þeir Guðmundur voru bræðrasynir, feður þeirra frá Flöguseli.