Um Skarphéðin og Petrínu

Um Skarphéðin og Petrínu

Petrína Ásgeirsdóttir fór í fóstur eða vist að Ögri við 12 ára aldur, hugsanlega vegna veikinda móður hennar. Hún var í Ögri til 1881 og nú er rétt að hafa í huga að túnin í Ögri og Garðstöðum liggja saman og aðeins bæjar­lækurinn skilur á milli þannig að Petrína og Skarphéðinn hafa þekkst vel á uppvaxtar­árum þeirra. Þegar Petrína var 17 ára og Skarphéðinn 20 fór hún sem vinnukona í Hagakot og síðan í Laugaból þar sem hún var þangað til þau Skarphéðinn hófu búskap 5 árum síðar.

Friðgerður, Anna og Karítas dætur Skarphéðins og Petrínu. Myndin er tekin 1942

Skarphéðinn og Petrína voru í húsmennsku í Æðey 15. apríl 1888 þegar þeim fæddust eineggja tvíbur­arnir Friðgerður (1888-1943) og Anna (1888-1968), Friðgerður 7 merkur en Anna 13. Þau Skarp­héðinn og Petrína fengu aðeins að hafa annan tvíburann hjá sér, þann minni, þannig að ljós­móðirin hafði Önnu með sér í land og kom henni í fóstur á Lauga­landi í Skjald­fannar­dal. Þar var Anna í fóstri til 10 ára aldurs ásamt Etilríði móður Aðalsteins Krist­munds­sonar (sjá ævi­sögu Steins Steinarrs eftir Gylfa Gröndal). Á bænum var líka vinnu­maðurinn Elías Elías­son hálfbróðir Skarp­héðins, samfeðra. Segir nánar af Önnu í sérstökum kafla hér á eftir.

Karítas Skarp­héðins­dóttir (1890-1972) fæddist í Æðey áður en for­eldrar hennar fluttu í Lauga­ból 1890 en dótturdóttir hennar heldur því fram í ritgerð um ömmu sína að hún hafi orðið „eftir í Æðey og annaðist gömul kona hana í eitt eða tvö ár“ (Karítas Skarphéðinsdóttir Neff: Karítas Skarphéðinsdóttir frá Æðey). 

Þetta getur þó ekki staðist. Samkvæmt manntali voru Skarphéðinn og Petrína tómthúsfólk á Laugabóli í Laugardal 1890 og höfðu Friðgerði og Karítas hjá sér.

Þegar Karítas var rúmra 10 mánaða, í nóvember það ár, dó Petrína úr lungnabólgu, aðeins réttra 26 ára að aldri. Í nefndri ritgerð er því haldið fram að Petrína hafi látist af barnsburði en það getur auðvitað ekki staðist heldur. Reyndar segir kirkjubókin ekkert um banamein Petrínu en höfundur þessa pistils þykist hafa það úr munnlegum heimildum að hún hafi fengið lungnabólgu og dáið af þeim sökum. En eftir lát Petrínu var Friðgerði komið í fóstur til Ásgeirs afa síns á Látrum, sem þar bjó enn með Guðrúnu ráðskonu sinni og barns­móður, en Karítas var hjá föður sínum á Laugabóli í árslok 1891 en hinsvegar ekki í árslok 1890. Það er því hugsanlegt að Skarphéðinn hafi róið með Karítas yfir í Æðey síðla árs 1890 og þar hafi hún verið jafnvel hátt í ár áður en Skarphéðinn sótti hana aftur yfir Djúpið. Heldur er það þó ósennilegt.