Þorbjörg Þorláksdóttir

Þorbjörg Þorláksdóttir[1]

var yngst systkina Bjarna langafa. Hún gæti hafa flækst eitthvað um með foreldrum sínum fyrstu árin en var sveitarómagi í Svalvogum 1880. Árið 1890 var hún vinnukona í Neðsta-Hvammi í Meðaldal í Dýrafirði, 1897–1898 var hún á Sæbóli á Ingjaldssandi og 1899–1901 var hún vinnukona í Villingadal í sömu sveit. Árið 1902-1905 var hún vinnukona á Skaga á Fjallaskaga yst við norðanverðan Dýrafjörð hjá Jóni nokkrum Gabríelssyni[2] og Jensínu Jensdóttur konu hans. Þau áttu 5 börn. Vistinni lauk með því að húsbóndinn gerði Þorbjörgu vinnukonu barn sem nefnt var Haraldur[3]. Jensína mun hafa tekið þessu framtaki bónda síns með lunta því að árið eftir var Þorbjörg komin til Friðgerðar, móðursystur sinnar, og fólksins hennar norður í Kleifar og síðan Borg í Skötufirði en drengurinn fór í fóstur á Gerðhömrum innar með Dýrafirðinum til Baldvins Júlíusar Sigurðssonar og Sigríðar Zakaríu Kristjánsdóttur. Þau fluttu suður á Eiði á Seltjarnarnesi ásamt börnum sínum og fósturbörnum en Haraldur varð ekki langlífur, lést 16 ára gamall, 20 dögum áður en fósturfaðir hans dó. Haraldur hafði þá verið einn vetur á Samvinnuskólanum á Bifröst þannig að fósturforeldrar hans hafa reynst honum vel.

Frá Borg fór Þorbjörg til Ísafjarðar árið 1908 og þar var hún samvistum við móður sína á Smiðjugötu 11 þar sem Þórunn lifði af því að prjóna en Þorbjörg vann í fiski. Þarna bjuggu þær saman til dauða Þórunnar 1916. Eftir Ísafjarðardvölina fór Þorbjörg aftur suður í Dýrafjörð þar sem Mikael bróðir hennar bjó enn og margir afkomendur hans. Árið 1920 var hún vinnu­kona í Lambadal innri við norðanverðan fjörðinn. Árið 1930 var hún vinnukona í Hrauni II í Keldudal, sunnanvert við Dýrafjörðinn, árið eftir í Haukadal en 1932 voru þau systkinin, Mikael og Þorbjörg, bæði skráð „heimilislaus“ í Sandasókn í Dýrafirði. Þorbjörg hefur því verið víða í vistum, líklega oftast í Dýrafirði, alltaf ógift og „ekki alltaf mulið undir hana“ eins og einn ættingi hennar, sem til þekkti, orðaði það.

 

[1] Þorbjörg Jóhanna Þorláksdóttir f. 24. 7. 1874, d. 14. 2. 1937
[2] Jón Jakob Gabríelsson f. 13. 9. 1856, d. 17. 12. 1935
[3] Haraldur Jónsson f. 13. 12. 1905, d. 1. 7. 1922