Stefán V. Sigurjónsson

Stefán V. Sigurjónsson

Hér segir frá Stefáni V. Sigurjónssyni bónda á Blómsturvöllum og oddvita Glæsibæjarhrepps, fóstursyni Steinunnar og Guðmundar sem þau tóku að sér 1890 og ólu upp fram yfir fermingu en þá fór hann aftur til foreldra sinna.

Þessir kaflar um ættmenni Garðshyrninga eru þéttsetnir útúrdúrum og einhver kann að spyrja hvers vegna hér eru kaflar um fóstursynina Stefán Sigurjónsson, Kristfinn Guðjónsson og Kára Larsen en skýringin er sú að litið var á þessa drengi eins og þeir væru fóstursynir og bræður. Það kemur skýrt fram í bréfunum til Boggu.

Stefán V. Sigurjónsson og Sigríður G. Pálsdóttir

Hjónin Sigurjón Jónsson (1862-1947) og Sigríður Helgadóttir (1853-1931) voru bæði fædd í Glæsibæjarsókn. Þau áttu nokkur börn, Einar Marinó (1884-1949), Stefán Valdimar (1886-1973), Þóreyju Oktovinu (1890-1978), Jón Guðmann (1892-1987), Kristján Hallfreð (1895-1981) og e.t.v. fleiri. Þau voru í húsmennsku á Hlöðum og Glæsibæ og voru á Blómstur­völlum þegar Stefán Valdimar fæddist. Fjórum árum síðar voru þau á Syðra-Hóli þegar Stefáni var komið fyrir hjá Steinunni og Guðmundi á Grjótgarði. Greitt var með honum úr hreppssjóði til fermingar­aldurs, fyrst 52 krónur á ári en þegar hann var 10 ára var gjaldið lækkað niður í 35 krónur og í 10 krónur þegar hann var á 13. ári. Á sama tíma var Einar Marinó einnig á framfæri hreppsins, fyrst á Rauðalæk 1890-92 en síðan hjá Jóni ríka á Krossastöðum til 1897. Stefán ólst upp hjá Guðmundi og Steinunni fram yfir fermingu en árið 1901 var hann vinnumaður á Hamri.

Einar Sigurjónsson bjó á Jaðri sem þá hét, kotbýli í Glerárþorpi. Hann átti tvo syni, Mikael sem bjó á Jaðri og Guðmund bónda á Veðramóti í Gönguskörðum. Dóttir Mikaels er Inga sem var gift Trausta bróður Sóleyjar húsfreyju í Garðshorni. Kristján Sigurjónsson (Stjáni í Bótinni) átti mörg börn, m.a. Sigríði sem giftist Halldóri skósmið, en þau voru foreldrar Odds Helga bæjar­fulltrúa.

Stefán hélt alltaf sambandi við foreldra sína og þegar hann hóf sambúð með Sigríði Guðrúnu Páls­dóttir (1891-1959) bjuggu þau fyrst með kyn­foreldrum hans og framan­greind­um syst­kinum Stefáns í Sandgerðis­bót. Þar bjuggu þau 1910 og þá var þar líka dóttir þeirra, Pálína Sumar­rós. Þau fluttu síðan í Svíra í Hörg­árdal og bjuggu þar 1912-1915. („Bærinn stóð samtýnis og á milli Þríhyrnings og Auð­brekku, heldur ofar en hinir bæirnir, undir Svírahausi“, BE bls. 476). Stefán og Sigríður bjuggu aftur í Bótinni 1915-1917 og þá stundaði Stefán m.a. barnakennslu en síðan bjuggu þau á Grjót­garði 1917-1922. Þá fluttu þau í Blómstur­velli og bjuggu þar til 1951 að þau fluttu til Akureyrar. Þeim búnaðist sæmilega eftir að þau fluttu í Blómsturvelli og Stefán naut virðingar sveitunga sinna, var m.a. oddviti á árunum 1938–1955 eða til 69 ára aldurs og þar af í fjögur ár eftir að hann hætti búskap á Blómsturvöllum. Það kom í hlut hans að vinna að lagningu síma og raflína um hreppinn og að undirbúa sameiningu Glerárþorps og syðstu bæjanna í Kræklingahlíð við Akureyri sem tók gildi 1955. Eftir að Stefán flutti til Akureyrar starfaði hann hjá Sparisjóði Glæsibæjarhrepps og á bæjarskrifstofunum á Akureyri. Hann var sagður „afskaplega traustur maður“.

Stefán og Sigríður áttu mörg börn. Pálína Sumarrós (1910-1978) fæddist í Bótinni eins og áður segir, Baldur (1914-1973) á Svíra, Þorsteinn (1917-1989), Sigurjón Guðmundur (1919-1959), Jónína Ragnheiður (1922-1986), öll þrjú fædd á Grjótgarði, Frímann (1925-1988) og Guðbjörg Marín (1928-2018), bæði fædd á Blómsturvöllum. Frímann var skírður í höfuðið á Frímanni á Efstalandi sem var þá orðinn veikur og ljóst að hverju stefndi.

Við búinu á Blómsturvöllum tók sonur Stefáns og Sigríðar, Þorsteinn, ásamt konu sinni Jónínu Víglunds­dóttur frá Vopnafirði en þau bjuggu áður á Bjargi í Glerárþorpi. Baldur sonur Stefáns og Sigríðar átti m.a. Bjarka föður Önnu sem var húsfreyja í Garðshorni 1977-80, konu Jóhanns Stefánssonar bónda.

Í kirkjubókum heitir það svo að Stefán hafi verið niðursetningur hjá Steinunni og Guðmundi á Grjótgarði. Umhyggja Steinunnar Önnu og barna hennar fyrir Stefáni sést vel í bréfunum til Boggu og ekki virðist hafa verið gerður mikill greinarmunur á honum og uppeldissystkinum hans hvað umhyggjuna snerti. Garðshornsfólkið heim­sótti Stefán og Sigríði í Bótina í kaupstaðarferðum og gisti hjá þeim bæði þar og í Grjótgarði. 

Pálína og Baldur Stefánsbörn

Steindór Pálmason talaði um hann með mikilli virðingu þegar hann skrifaði föðursystur sinni eftir fráfall Frímanns á Efstalandi 1926 en þá hafði Stefán talað yfir moldum Frímanns.