Garðshorni 22. janúar 1921
Elsku dóttir mín.
Hjartans þakklæti fyrir bréfið þitt og þó einkum og helst fyrir síðustu samfundi okkar því ég er mikið ánægðari og rólegri síðan. En oft er hugurinn samt hjá þér.
Ég kom heim á þriðjudaginn fyrstan í vetri en lömbin mín voru skorin daginn áður svo ég baslaði við að koma því í mat. Þótti mér það nú líka best, svo spann ég það sem eftir var í peysuna hans Pálma og prjónaði sokkana frá Efstalandi. Svo fór ég að láta í smáband og kepptist við því mönnum þótti það ganga svo vel. Ég kom af tuttugu pörum af sjóvettlingum og átta af hálfsokkum og gerði þetta fimmtíu og tvær krónur og er ég næstum montin af því. Þá var nú ullin búin en ég hef nú nóg að gera.
Ég hef verið slæm af giktinni nokkra daga undanfarið svo ég hef lítið getað spunnið. Ég vona mér skáni það nú. Ég er að nokkru leyti betri innvortis en í haust. Það er öðruvísi og aldrei er ég vel frísk. Innflúensan kom hér í haust meðan ég var ekki heima svo ég komst hjá henni. Læknirinn var sóttur til Pálma sama sunnudaginn sem piltarnir fóru vestur. Hann fékk þ... blóðuppgang en nú er hann orðinn frískur eftir sínum máta og allir eru hér frískir.
Frímann kom hér í dag. Hann færði mér smjör og sagði að allir væru frískir hjá sér. Ég er búin að fá myndina sem ég ætla Kristfinni en ég þori ekki að senda hana. Hrædd er ég um að Jóhanna fari ekki vestur í vetur en [hún] ætlar að láta þig fá dúkinn sem hún saumaði í fyrra. Ætlar hún að senda hann þegar hún fær góða ferð. Svo held ég sé komið nóg af þessu rugli. Ég skrifa þetta við ljós og sé það svo illa.
Svo bið ég að heilsa öllu þínu fólki en sjálfa þig kveð ég í anda og bið Guð varðveita ykkur í bráð og lengd. Þess biður þín móðir vesöl
Steinunn Anna Sigurðardóttir1.
Ég ætla að reyna að koma þessum miða fram í Steinsstaði svo hann komist á póstinn. Ekki hef ég fengið bréf frá Bárði. Það biðja allir hér að heilsa ykkur.
1 Þetta er síðasta bréfið sem Steinunn skrifar með eigin hendi þangað til árið 1925.
Efstalandi 2. júní 1921
Elsku dóttir mín!
Ætíð sæl. Mér finnst ég þurfi að skrifa þér fáar línur af því ég fæ svo góða ferð. Ég er búin að vera hér nærri fimm vikur og hef verið að tæta sokkaplögg og stundum verið með litlu stúlkuna1. Hún er bæði væn og falleg og allir eru frískir og eins í Garðshorni þegar ég fór að heiman.
Ég sjálf lík til heilsunnar og verið hefur, aldrei vel frísk en aldrei verið nokkurn dag í rúminu og baslað fyrir sjálfa mig og nú verð ég hjá sjálfri mér í sumar ef ég lifi. Helga sagði í vor að hún ætlaði ekki að hafa mig í sumar, hún hefði ekki neitt handa mér að borða sem ég gæti notað mér því það er nú og verður lítil mjólkin því Síðu gömlu var fargað í haust. Og er ég nú ekki svo óánægð með það annað en að þurfa að þiggja mjólk þykir mér verst.
Ekki veit ég hvað ég verð hér lengi. Ég læt þau ráða því ég hef hugsað mér að fara ofan að Grjótgarði og Vöglum í sumar ef Guð lofar. Ég vildi nú geta óskað mér það væri ekki lengra til þín og Hólmfríðar systur minnar. Þá mundi ég reyna að finna ykkur, ekki til að flakka eða létta af heldur mér til skemmtunar því ég veit mér leiðist.
Ég er nýlega búin að fá bréf frá Bárði bróður mínum með ávísun upp á fimm hundruð krónur2. Finnst mér ég nú vera orðin rík í ellinni og finnst mér í huganum ég vera þakklát hinni látnu systur minni sem gat eftirlátið okkur systkinunum svo mikið fyrir iðni sína og sparsemi sem alla tíð var þó heilsulítil. Líka fékk ég bréf í vetur frá Haraldi. Hann er hjá Lúlla3 og er nú búinn að byggja sér lítið hús svo ... ég hann sé betri til heilsunnar en verið hefur en Helga4 lifir við sömu eymd eins og verið hefur. En börnum öllum líður vel.
Rúna á Draflastöðum skrifaði mér nýlega, voru þá allir frískir þar. Litla stúlkan hennar heitir Sigurlína5 Hólmfríður, er það föðurnafn mannsins hennar. Vildi ég þú værir nú komin til að lesa bréfin en þú hefur máski annað að gjöra. Ég hef hugsað til þín síðan ég vissi hvernig var ástatt heima hjá þér. Vildi ég það breyttist til batnaðar. Að gamni mínu læt ég fermingarkort í bréfið og bið Gunnar að fyrirgefa. Það fékkst ekki eins fallegt og ég hefði viljað og gjarnan hefði ég viljað gefa honum betri gjöf. Má nú ekki segja ég geti það ekki en ég hef ekki kringumstæður til þess.
(Niðurlag bréfsins vantar)
Óundirritað af Steinunni Önnu Sigurðardóttur
1 Ástu Frímannsdóttur f. 25.3. 1921
2 Þetta er arfshlutur Steinunnar eftir Margréti systur sína sem lést í Kanada. Fimm hundruð krónur hljóta að hafa verið talsverður peningur.
3 Lúðvík Hólm Haraldsson (1891-1956) var sonur Haralds.
4 Helga Gunnlaugsdóttir (1857-1923) var kona Haralds.
5 Föðurnafn eiginmanns Guðrúnar var Sigurður Guðmundsson.
Garðshorni 30. júní 1921
Kæra frænka mín!
Loksins kemst það á fyrir mér að skrifa þér og senda þér dúkinn sem þú baðst mig að kaupa fyrir þig en reyndar er það nú sami dúkurinn sem þú sást hjá mér, þó ég ætlaði það ekki í fyrstu en það kemur til af því að dúkurinn sem keyptur var fyrir þig er mikið öðruvísi og mikið meiri saumur á honum en ég hef ekki góðan tíma til að sitja við svoleiðis og er því aðeins byrjuð á honum. Það er heldur fínni hör í honum heldur en þessum dúk, svo á að sauma í hann með hvítu garni og „brodera“ einlæg göt í hann svo ég verð víst ekki strax búin með það allt en mér gerir það ekki svo mikið til því ég á enga kommóðu ennþá en ég hélt að þér mundi leiðast eftir honum.
Ég var búin að ætla mér að þvo dúkinn áður en ég sendi hann en mér var ráðlagt að gera það ekki því ... brúka hann eins og hann er því hætt er við að garnið vilji láta lit þegar hann er þveginn. Heyrt hef ég að best væri að þvo svona stykki úr soðnu sápuvatni sem aðeins má vera volgt þegar stykkið er látið ofan í það, skola það síðan úr hreinu vatni og hengja það samstundis til þurrks en láta það ekki liggja blautt. Þegar dúkurinn er orðinn þurr þarf að strauja hann á ranghverfunni en hafa fjarska þykkt undir honum svo rósirnar geti sokkið vel niður í það. Þá verða þær fallegri.
Við getum ekki betur munað en þessi dúkur kostaði 8 kr. en sá sem keyptur var í haust kostaði 9,50 kr. svo þú átt 2 kr. hjá mér því sauminn vil ég ekki selja þér og getur þú nú annaðhvort beðið mig um eitthvað fyrir þær eða ég borga þær seinna.
Svo hef ég víst ekki meira um þetta að segja, bið þig bara að fyrirgefa það allt og taka viljann fyrir verkið.
Ég býst við að þér gangi ekki vel að lesa þetta krass því ég skrifa það liggjandi í rúminu, hef ekki einu sinni getað setið uppi. Þetta kemur til af því að svo óheppilega vildi til að sjóðandi heit mjólk skvettist á vinstri fótinn á mér og brenndi mig en mér varð það fyrst fyrir að klæða mig úr sokknum í staðinn fyrir að ég hefði átt að klippa hann utan af fætinum og þó ég reyndi að fletta sokknum sem best, fór blaðran ofan af á stórum parti. Bruninn náði fram undir tær, yfir ristina utanfótar og ögn upp á mjóalegg. Pabbi fór strax til læknisins og fékk umbúðir og fannst mér þetta aðeins batna fyrst en svo fór að grafa í sárinu svo læknir var sóttur í fyrradag. Hann þvoði og hreinsaði sárið, batt svo um það og sagði að ég mætti ekki róta fætinum. Umbúðirnar á ekki að taka fyrr en vika er liðin frá því þær voru látnar en læknirinn bjóst nú frekar við að þetta yrði þá að mestu leyti gróið, og nú finnst mér líka ég finna talsvert minna til í fætinum. Þetta vildi til fyrra miðvikudag svo nú er ég búin að liggja rúma viku.
Guðrún1 systir mömmu kom hingað í vor. Hún fór inn á Akureyri og fékk sér nýjar tennur. Pabbi sótti hana þangað. Hún var hér 2 daga um kyrrt og sýndist mér hún furðanlega hress. Pabbi og mamma fylgdu henni svo inneftir og fóru með Kára2 um leið til að lofa honum að sjá mömmu sína og systur.
Amma kom heim á sunnudaginn. Svo ætlar hún ef hún getur út að Grjótgarði3 á laugardaginn og vera þar eitthvað um kyrrt og koma svo að Vöglum á bakaleiðinni.
Ekki man ég eftir neinum fréttum sem ég get skrifað. Hér ber fátt til tíðinda enda veit ég að þú fréttir svo margt norðan að. Það biðja allir kærlega að heilsa þér og þínum með innilegri ósk um góða líðan og farsæla framtíð.
Vertu svo ævinlega best kvödd af
Jóhönnu Pálmadóttur
vonast eftir bréfi.
1 Guðrún var Þorgerður Guðrún (1862-1949) systir og fóstra Helgu Sigríðar í Garðshorni. Guðrún og Baldvin Baldvinsson bjuggu á Búðarhóli á Kleifum í Ólafsfirði.
2 Hér er Kári Angantýr Larsen (1913-1994) fyrst nefndur til sögunnar í þessum bréfum. Hann kom ungur í fóstur til Helgu og Pálma og ólst upp hjá þeim til fullorðinsaldurs eins og eitt systkinanna. Magnús Gunnarsson, afi hans, og Helga voru systkinabörn.
3 Til að heimsækja Stefán Sigurjónsson, Stebba, fósturson sinn sem bjó á Grjótgarði 1917-1922.
Garðshorni 11. nóv. 1921
Kæra frænka mín!
Bestu þökk fyrir bréfið og allt gott frá því fyrsta. Í gær um þetta leyti dags var ég að skrifa ömmu bréf og vissi þá ekki annað en hún væri sæmilega hress en svo brá okkur heldur þegar Baldi1 kom. Ó, hvað okkur þykir leiðinlegt að geta ekki rétt neina hjálparhönd. Ég veit að ömmu líður að mörgu leyti betur hjá þér heldur en hér, það er bara verst hvað langt er að sækja meðul, svo get ég ímyndað mér að þér líði ekki vel, þegar henni líður illa. Skilaðu kærri kveðju frá mér til ömmu, segðu henni að ég viti ekki annað en að dótið hennar yfir höfuð sé með sömu ummerkjum eins og þegar hún skildi við það og get ég ekki ímyndað mér að því sé hætta búin og ég vil reyna að líta eftir því og passa það eins vel og ég get. Sömuleiðis bý ég svo vel um þetta sem hún bað að senda sér sem ég hef best vit á.
Ekki þori ég að lofa neinu um ísauminn í slifsi því bæði er ég nú fákunnandi til þess og svo vantar góðan tíma. Þó gerir ekki til þó þú skrifir mér hvernig þig langar helst til að hafa það. Það var mjög illt að fá gott efni í fyrravetur og það er ekki reglulega gott silki í mínu slifsi. Sömuleiðis fengust ekki allir litir af ísaumssilki sem ég hefði helst kosið, en svo veit ég ekkert hvernig mundi ganga að fá þetta núna.
Ég skrifa þér engar fréttir. Þú fréttir það helsta sem við ber hér.
Segðu ömmu að ég hafi litið niður í kistuna hennar til að vita hvort þar væri nokkuð sem getur skemmst en það er víst ekki. 3 kökur voru þar sem ég sendi. Hún getur máske borðað þær sjálf eða gefið drengjunum þær. Skilaðu svo innilegustu kveðju frá okkur öllum til hennar og segðu henni að við vonum að við fáum að sjá hana aftur í þessu lífi, annaðhvort fyrir vestan eða þá ef hún fær heilsu og vill heldur koma aftur, þá er henni það auðvitað velkomið. Ég skrifa henni ekki sérstaklega núna því ég vona að hún fái bréf frá mér áður en langt líður og svo getur þú lesið þetta bréf fyrir hana ef hún hefur gaman af því.
Svo bið ég þig að skrifa okkur svo fljótt sem þú getur og segja okkur hvernig líður. Góður guð veri með ykkur alla tíma, þess óskar
Jóhanna Pálmadóttir.
Nú er Steindór kominn með meðulin en hægðameðulin voru skrifuð á reseftið eins og hitt en þegar farið var að taka meðulin upp sást að þau vöntuðu og hafa þeir á apótekinu aldrei afhent þau en af því þetta var svo margt hefir Steindór ekki tekið eftir því.
Meðulin og reseftið kosta 9,30 kr.
50 kr. voru teknar út hjá Kristjáni2.
21 kr. fékkst fyrir slátrið og mörinn.
Af þessum peningum voru teknar 40 kr. með kindunum. Afgangurinn verða því 21,70 kr.
Baldi hljóp niður að Hamri og fékk hægðameðul sem á að taka þannig inn:
1 teskeið í hálfan bolla af soðnu volgu vatni kveld og morgun.
1 Hugsanlega Baldvin í Hálsi sem var bæði frændi Steinunnar og Guðmundar í Garðshorni. Hér hefur Steinunn verið hjá Arnbjörgu dóttur sinni að vetri til.
2 Kristján Árnason var verslunarmaður og organisti á Grund í Eyjafirði 1902-1909 og síðar kaupmaður í Verslun Eyjafjörður sem var í Hafnarstræti 86. Synir hans voru Árni píanóleikari og Gunnar Höskuldur kaupmaður í Verslun Eyjafjörður. Kristján var af Kjarnaætt og skyldur Helgu Sigríði í 3. og 4. lið.
Ódagsett kort til Steinunnar Sigurðardóttur,
Garðshorni, Þelamörk
Góða amma mín!
Kæra þökk fyrir allt gott á liðnum árum. Kristfinnur er nýbúinn að fá bréf frá Bólu og segir þar að Bogga sé komin heim og farin að hressast. Það verður erfitt fyrir Kidda þetta heilsuleysi á Kristínu, ég skrifaði Manna um það. Hér líður mér vel eins og þú munt hafa heyrt og vonandi fer heilsan batnandi. Ég vona að þér og ykkur líði vel og að ég fái að hitta ykkur glöð og ánægð þegar ég fer héðan. Vert þú svo kvödd með kærum kossi, þess óskar þinn
Steindór1.
1 Steindór Pálmason hefur líklega verið farinn að vinna við smíðar inni á Akureyri þegar hér er komið sögu. Tímasetning kortsins er óviss.
Kort til ekkjunnar Steinunnar A. Sigurðardóttur,
Garðshorni, Þelamörk
Melstað 9. 1. 1923
Elsku amma mín!
Guð gefi að þessar línur hitti þig glaða og heilbrigða. Ekkert get ég sagt þér í fréttum. Ég er orðinn nokkuð stór og farinn að ganga um allt. Þú hefðir átt að vera komin til okkar um jólin. Þá fékk ég jólatré og mörg kerti og ég var ... í nýjum fötum og og sögðu aðrir að ég væri montinn. Elsku amma mín! Má ég ekki kalla þig ömmu þegar pabbi kallar þig mömmu? Ég get ekkert sagt þér meira í fréttum. Mamma1 biður ósköp vel að heilsa þér og biðjum við Guð að gefa þér gleðilegt ár.
Steindór Valberg2
1 Móðir Steindórs var Kristín Gísladóttir (1892-1975), fyrri kona Kristfinns.
2 Hér hefur Kristfinnur Guðjónsson skrifað fyrir hönd Steindórs (1921-2010) sonar síns sem fæddist 19. júní 1921. Steindór hét í höfuðið á Steinunni „ömmu“ sinni sem tók Kristfinn í fóstur fjögurra ára gamlan. Það að Kristfinnur kallaði Steinunni mömmu bendir eindregið til að Steinunn hafi gengið honum í móður stað en Kristfinnur átti þó aðra mömmu sem hann tengdist líka góðum böndum. Það var ekki farið illa með alla niðursetninga. Steindór Valberg var rafvélavirkjameistari á Akureyri. Hann ólst að nokkru leyti upp hjá Jóni og Ragnheiði á Skjaldarstöðum, líklega vegna þess að Manases bróðir Kristfinns var giftur Aðalheiði systur þeirra Skaldarstaðasystkina.
Garðshorni 20. maí 1923
Elsku dóttir mín!
Hjartans þakklæti eiga þessar línur að færa þér og drengjunum þínum fyrir bréfin sem mér þótti svo fjarska vænt um og bið ykkur að fyrirgefa hvað lengi hefir dregist að senda ykkur línu. Ég held það sé réttast að byrja á því að segja þér að mér og hjónunum héðan var boðið út að Bryta á sumardaginn fyrsta. Þá var litli drengurinn skírður Þórður1. Boðsfólkið var 20 manns. Skírnarveislan fór vel fram og hafði ég mikla skemmtun af túrnum. Úr sumarmálunum var ég búin að ætla mér fram að Efstalandi en svo var svo mikið öfugstreymi í tíðinni að það kólnaði einmitt með sumarkomunni. Líka fékk ég kvef svo ég hef verið heldur lakari fyrirfarandi og ekki treyst mér til að fara frameftir en nú langar mig til að fara fljótlega ef ég get.
Ég veit þú ert búin að frétta að Steini og Jóhanna fara í Laugaland í vor og þykir mér leiðinlegt að þau þurftu að fara. Árni og Franklín2 taka helminginn af Laugalandi.
Kiddi í Melstað3 kom hingað í dag. Hann var búinn að biðja fyrir Steindór hérna í sumar en svo þegar þetta gerðist að Jóhanna fer þá var helst ekki hægt að taka hann (enda var það tekið fram í fyrstunni). Nú geta þau ekki komið honum niður annarsstaðar svo það er helst ráðgjört að Kristín verði hérna með hann í sumar. Kiddi er búinn að vinna í 3 daga við Eyjafjarðarárbrúna.
Í dag fékk ég bréf frá Haraldi bróður mínum. Hann skrifar mér að Helga, konan hans, hafi dáið 22. janúar í vetur og ekki legið nema stuttan tíma. Hann og Lúlli4 komu til hennar stuttu áður en hún dó og var hún þá nokkuð hress en dó stuttu seinna fremur þjáningalítið. Haraldur biður innilega að heilsa öllu skyldfólkinu og veit ég að þú hefir átt part af því. Hann segist nú helst ekki hafa gaman af að ferðast neitt en getur alltaf tætt og prjónað sér til skemmtunar. Hann sendir mér ofurlitla mynd af sér, hann stendur úti fyrir húsinu sínu og heldur í hendina á tveimur drengjum og lítil stúlka stendur við hlið hans. Það eru börn Lúlla. Drengirnir heita Hjálmar (2 ára), Albert (4 ára), Elva (5 ára), svo er Helga (1 árs), hún er ekki á myndinni.
Fjarska þætti mér vænt um ef þú getur með hægu móti komið í vor en ekki vil ég að þú takir það mjög nærri þér mín vegna því mér finnst ég ekki eiga það skilið.
Jæja, Bogga mín, ég bið þig að fyrirgefa þetta ómerkilega bréf. Skilaðu kærri kveðju til heimafólksins og sér í lagi til drengjanna og bið þú þá að skrifa mér þó ég eigi það ekki skilið og fyrirgefa mér að ég hef ekki skrifað þeim. Svo kveð ég þig með kossi hjartans og bið guð að lýsa þér og leiðbeina um tíma og eilífð, það mælir þín móðir
Steinunn Sigurðardóttir.
Það biðja allir kærlega að heilsa og Manni ekki síst, hann hafði fjarska gaman af að finna ykkur. Jóhanna segist ætla að skrifa þér seinna, hún óskar að hún fái að sjá þig ef þú kemur norður.
Bréfið er með rithönd Jóhönnu.
1 Þórður Thorarensen, sonur Brytahjónanna, f. 1. febr. 1923
2 Árni Halldór (1885-1963) og Jón Franklín (1893-1969) voru bræður Steina, hagleiksmenn eins og faðir þeirra. Árni var yfirsmiður þegar húsið í Garðshorni var byggt 1932.
3 Hér hafa Kristfinnur og Kristín verið nýflutt í Melstað í Sandgerðisbót. Steindór Valberg, sonur þeirra, var um tíma í fóstri í Garðshorni.
4 Lúlli var Lúðvík Hólm, sonur Haraldar.
Melstað 26. nóvember 1923
Kæra Arnbjörg.
Innilegar þakkir fyrir liðna tíð. Ég má til með að senda þér fáar línur og lofa þér að frétta af okkur hér. Þá er það að segja að okkur líður vel, við erum frísk.
Fjórða nóvember eignuðumst við dóttur. Það gekk mjög vel. Þá var ég úti á Siglufirði er hún fæddist og var Stína komin á fætur er ég kom heim. Hún lá ekki nema viku og er hún vel frísk og sömuleiðis stelpan1. Mamma2 var hjá okkur á meðan ég var útfrá og fór til Stebba3 er ég kom heim.
Nú er ekkert að starfa nema passa krakkana. Steindór er fremur óþægur en vill vera góður við Systu, gefur henni pelann þegar hún skælir og treður honum ofan í kok á henni. Ég er búinn að vera um mánuð heima síðan um miðjan maí í vor. Ég var um hálfan mánuð heima eftir að ég kom úr brúargjörðinni. Svo var ég um mánuð á Siglufirði og hef verið heima síðan.
Í fyrramálið fer ég vestur á Þelamörk að sækja hey fyrir Jónas Sveinsson. Kem þá að Garðshorni. Ég hefi heyrt að mamma4 væri með frískasta móti sem hún hefur verið lengi. Hún fékk kvef í haust og varð hún þá mjög slæm.
Ekki veit ég til að ég komi vestur í vetur nema ef ég komi að ganga til rjúpna. Ég skrifaði Valdimar um það en hef ekki fengið svar.
Ég býst við að geti skeð að ég fari aftur út á Siglufjörð t.d. í mars með Einari múrara hér á Akureyri. Hann tók að sér að byggja „Bíó“ uppá „akkorð“ handa Siglfirðingum fyrir Odd lyfsala Thorarensen og þá bræður. Ég var hjá Einari um daginn útfrá og getur skeð hann láti mig hafa vinnu í vetur. Það er leiðinlegt að þurfa burtu en illt að sitja atvinnulaus.
Ég fékk tvenna sokka og ferna vettlinga frá þér í sumar til að selja. Ég gat selt alla vettlingana en ekki sokkana og gerðu vettlingarnir kr. 10.oo. Það væri ef þú vildir taka þessar krónur hjá Valdemar5. Ég á þær hjá honum. Sokkana býst ég ekki við að geta selt og sendi ég þá ef færi gefst.
Meðfylgjandi myndir átt þú að eiga ef þú kærir þig um. Þú skalt ekki kosta svo miklu til að setja myndirnar af mér í ramma. Stína og Steindór biðja kærlega að heilsa þér, svo biðjum við í félagi að heilsa öllu fólkinu. Segðu Munda að ég skrifi honum seinna, hann á bréf hjá mér.
Nú fer ég að hætta. Valdimar þætti sennilega nóg komið ef hann vissi, þú segir honum það. Ég bið þig að fyrirgefa. Vertu svo blessuð og sæl. Guð gefi ykkur að líði vel, þinn
Kiddi.
1 Rósa Pálína Kristfinnsdóttir (1923-?) hét í höfuðið á Rósu ömmu sinni, konu Guðjóns Manasessonar. Hún giftist til Englands.
2 Rósa Kristjánsdóttir (1865-1955) móðir Kristfinns fæddist á Hamri á Þelamörk en ólst upp hjá Rósu Jónsdóttur Bergssonar „ríka“ í Lönguhlíð.
3 Stefán Guðjónsson (1894-1978), verkamaður á Akureyri, bróðir Kristfinns. Elsti sonur hans var Hreiðar rithöfundur og kennari, kona hans var Jensína „Jenna“ Jensdóttir. Hver man ekki eftir bókum eftir Jennu og Hreiðar? Þau sömdu meira en 20 barnabækur, t.d. Öddubækurnar.
4 Enn er það mamma, hér Steinunn í Garðshorni. Kristfinnur átti í rauninni þrjár mömmur, Rósu, Steinunni fósturmóður sína og svo Arnbjörgu sem hann leit einnig á sem fóstru sína.
5 Valdemar bóndi Arnbjargar á Kotum. Hann þótti ekki útlátasamur á peninga og hér hefur Kristfinnur talið sig eiga inni hjá honum.
Ódagsett bréf til Ástu frá Haraldi Sigurðssyni Hólm í Vesturheimi
Sæl og blessuð, Ásta dóttir pabba síns og mömmu. Mér finnst ég sjái þig hlaupa um gólfið með rúllurnar þínar í eftirdragi og ég sé líka kisu húka þar í horni og allt í einu hendast á rúllur þínar og þá þyngjast þær nú heldur en nógir eru kraftar þó hendurnar séu smáar að rífa þær af kisu. Mundi þér ekki þykja gaman að sjá amerískan kálf á blaði og bola og kú. Ég ætla að láta það hér með að gamni mínu. Þér kynni að þykja gaman að því og ég ætla að láta þá ósk fylgja að það lifni og verði að sama gagni og það sýnir hér því það er góð mjólkurkýr sem myndin er af og kálfsi er af sama kyni en boli er af öðru kyni. Segðu pabba þínum að ég gjöri betur en hann í tóbakssparseminni. Ég tek í nefið og það er skorið tóbak í 12 dósum í einu pundi og það kostar 1 dollar og 80 sent sem mun gilda nálægt 10 krónum eftir því sem ég kemst næst. Eftir því eyði ég um árið í kringum 14 kr. Af því pabbi þinn spurði mig hvort ég gerði betur varð ég að segja honum þetta. Vertu blessuð og sæl,
þinn gamli frændi
H.S.H.
Garðshorni 25. janúar 1924
Elsku dóttir mín!
Ég má til með að skrifa þér fáar línur þar sem tækifæri gefst til þess. Kiddi er kominn, er búinn að vera 2 daga um kyrrt en fer í fyrramálið. Ég vildi skrifa oftar en ég geri en sjálf get ég það ekki en leiðinlegt að biðja aðra þess þó ég veit það yrði gjört. Munda og Gunnari bið ég kærlega að heilsa með þökk fyrir bréfin sem þeir hafa skrifað mér og sem hafa glatt mig svo mjög.
Hér eru allir frískir og eins segir Kiddi að sé hjá sér. Hann biður fyrir innilegar kveðjur til ykkar og segist eiga von á bréfi frá ykkur Munda. Það er búið að skíra dóttur hans, var skírð milli jóla og nýárs (sunnudag) og heitir Rósa Pálína1, mæðranöfn þeirra.
Af mér er svipað að segja og vanalega. Ég lá er Valdemar og Gunnar komu í haust og fannst mér þeir vera mér sendir til hjálpar. Þeir tóku af mér meðalaglasið inneftir og skildu það eftir á Rauðalæk er þeir fóru framhjá. Mér fór strax að batna er ég fékk meðalið og klæddi mig í sömu vikunni og síðan hefi ég verið á fótum þó ég hafi stundum verið hálflasin. Mér er ekki til neins að brúka meðalið alltaf en þarf að eiga það er ég fæ kvef. Mér gengur alltaf illa að sofa á nóttunni og fellur mér það einna verst. Þá sækja á mann allskonar hugsanir og virðist manni þá einmanalegt lífið jafnvel þótt allir séu manni góðir. Alltaf er ég að reyna að gjöra í höndunum því ég finn aldrei til í þeim og væri ég ekki mjög aum ef ég væri hvergi verri en í þeim. Mest er það í kaupstað sem ég tæti og er það mikill munur að geta það þó sér til dægrastyttingar.
Alltaf sé ég til að lesa í bók er bjart er að deginum. Hér koma fáir mér til skemmtunar. Jóhanna hefur komið tvisvar og var hún nóttina í annað skiptið. Ég finn það alltaf betur og betur hvað ég missti er hún fór héðan. Ég veit ekki betur en henni líði vel og hún kunni vel við sig. Nýlega eignaðist hún eldavél og í haust fékk hún skilvindu að hálfu leyti. Hvort tveggja hefur hún í baðstofunni því annað pláss hefur hún ekki fyrir utan skemmu sem þau verða að geyma eldivið og mestalla búslóð sína.
Rúna á Draflastöðum2 skrifaði mér í vetur en ekki sagði hún neinar fréttir nema allt væri frískt og þar er enginn vandalaus en Hólmfríður hafði stúlku í sumar. Er ég las bréfið frá Rúnu þá fannst mér sem hún væri ekki sem best ánægð þó ekki segði hún það beint.
Haraldur skrifaði mér í sumar. Hann sagði mér allt gott af sínu fólki. Haraldur mun hafa svipaða sjón því alltaf getur hann skrifað sjálfur. Hann segir að Bárður hafi heimsótt sig í sumar í fyrsta skipti í þessi 16 ár sem Haraldur er búinn að vera í Ameríku. Bárður hefur það gott en þarf mikið að vinna. Hann hefur 1 yfir sjötugt en lítur út sem væri um 60 ára. Bárður3 þarf alltaf að kosta börnin sín, dóttir hans er að verða útlærð af háskóla en drengurinn er að læra handverk, bæði eru þau með góðum gáfum. Haraldur sendi mér mynd af þeim Bárði þar sem þeir sitja á léttivagni með 2 íslenskum hestum fyrir.
Elsku Bogga mín, nú fjarlægist enn meira á milli okkar þar sem þið flytjið í vor ofan að Bólu og minni líkur til að við sjáumst þó ég lifi eitthvað og er ekki til neins að tala um það. En það gleður mig ósegjanlega mikið að fá bréf þó ég sé svo vesöl að geta ekki skrifað. Að svo mæltu kveð ég þig og bið ég algóðan Guð að annast þig og ykkur öll, það mælir þín vesöl móðir
Steinunn Sigurðardóttir (rithönd Kristfinns)
Ég bið fyrir kæra kveðju til allra.
1 Arnbjörg og Valdemar tóku Rósu í fóstur og ólu upp þegar heimili Kristfinns og Kristínar leystist upp vegna fátæktar og e.t.v. veikinda hennar. Um þessar mundir eru Arnbjörg og Valdemar að flytjast frá Fremri-Kotum í Bólu í Blönduhlíð.
2 Rúna (Guðrún Kristjánsdóttir) á Draflastöðum.
3 Dóttir Bárðar hét Fanney og sonur hans Jón. Hvorugt þeirra eignaðist afkomendur.
Stödd á Efstalandi (líklega að haustlagi) 1924
Elsku Mundi1 minn!
Kæra þökk fyrir síðasta bréfið þitt ásamt öllum þínum góðu bréfum sem að mér þykir svo vænt um að fá. Það gleður mig að þið eruð ekki búin að gleyma mér. Mér datt í hug að skrifa þér þessar línur af því að ég veit af fólki vestan að fyrir innan og ætla ég að reyna að koma bréfinu vestur með því.
Lítið get ég nú sagt þér í fréttum. Máttleysisveikin er nú komin til Akureyrar og er nú óðum að berast út um sveitirnar. Börn hrynja niður úti í Svarfaðardal og eins er hún komin út í Hlíðina. Kristinn Friðriksson frá Vindheimum er búinn að fá hana og hefur verið mjög þungt haldinn. Hann er alveg máttlaus að ofanverðu og nú er nýbúið að bera hann inn á Akureyri. Hún er voðagestur þessi veiki, með öllum þeim bágindum sem fyrir eru og er óskandi að hún komi ekki í þetta pláss. Hættast er við að börn og unglingar fái veikina allt fram að þrítugu.
Ég kom hingað á annan í hvítasunnu og þá var fermt á Bakka en ekki fór ég nú frameftir. Svo fer ég nú að hugsa til að fara heim. Hér eru allir frískir og ég veit ekki annað en allir séu frískir í Garðshorni líka. Það var byggt fjós í Garðshorni upp að nýju utan við bæinn og svo á að ganga í það úr eldhúsinu. Það nú líka búið að byggja fjós hér.
Alltaf er tíðin hér slæm, alveg hvítahríð í dag þó að ekki festi. Þó er þetta nú besta plássið hér. Ég er þetta svipuð til heilsunnar eins og ég hef verið þó að mér fari nú heldur hnignandi. Þú segir að mömmu þína langi til að koma og vænt þætti mér um það því að mig langar ekki eins mikið til að sjá neinn eins og hana en þó vil ég ekki að hún leggi mjög hart á sig. Svo bið ég ykkur að skrifa mér aftur og segja mér hvernig þið kunnið við ykkur. Svo kveð ég ykkur í anda og bið guð að vera ykkur allt í öllu.
Þess biður þín amma
Steinunn Sigurðardóttir.
1 Hér var Guðmundur Valdemarsson kominn með foreldrum sínum út í Bólu í Blönduhlíð.
Garðshorni 17. október 1924
Elsku besta dóttir mín!
Mér finnst ég mega til að skrifa þér fáar línur af því ég fæ svo góða ferð. Ég byrja þá á því að þakka þér og ykkur fyrir bréfin ykkar sem hafa glatt mig mjög mikið. Ég fór í ferðalag hálfum mánuði fyrir göngur, fór ofan að Laugalandi1 og var þar um kyrrt í viku, svo fór ég fram að Vöglum og var þar hálfan mánuð af því að veðrið var oft svo vont fyrir mig þó aðrir gætu farið ferða sinna. Líka var ég eina nótt á Grjótgarði hjá Guðrúnu ljósmóður2.
Mér fannst ég hafa mjög gott af þessu ferðalagi, það hressti mig svo mikið og allir tóku mér mjög vel en síðan ég kom heim hef ég lengst af verið vesöl. Er það mest kvef og hósti og innvortis þrautir. Er ég búin að vera í rúminu á aðra viku.
Mundi litli gat um það í bréfum sínum að þig langaði til að koma norður og þætti mér varla um annað vænna en þó vil ég varla vera að biðja þig um það af því ég veit að það er svo erfitt fyrir þig og er þó líklega að það yrði í síðasta sinn sem ég fengi að sjá þig ef það gæti lánast núna.
Það væri víst hægt að skrifa margt og mikið en tíminn er stuttur og ég er víst ekki upplögð til að stíla. Tíðin hefur verið mjög bág í sumar og erfið í alla staði og enn er fremur óstillt þó ekki sé hún eins óþægileg eins og í sumar.
Mér þætti fjarska vænt um að fá línu frá þér ef ég lifi og ef þú kemur ekki. Það er búið að skíra litla drenginn á Laugalandi og hann heitir Reynir3. Hann er bæði efnilegur og laglegur en dálítið óþægur og hefur Jóhanna verið inni með hann í sumar.
Svo er þá líklega best að fara að slá botninn í þetta bréf og bið ég góðan Guð að annast þig og þína um tíma og eilífð. Vertu svo ævinlega blessuð og sæl og líði þér ætíð sem best, það mælir þín móðir
Steinunn Sigurðardóttir
(rithönd Frímanns Pálmasonar)
1 Til Jóhönnu og Steina sem bjuggu á Laugalandi 1923-1925. Með þeim á Laugalandi bjuggu Árni, Franklín og María, systkini Steina, og Sigurbjörg móðir þeirra. Sigurbjörg var titluð ekkja í kirkjubókinni þó svo að Jón Júlíus Árnason, eiginmaður hennar, hafi ekki látist fyrr en 1927. Þau skildu aldrei formlega en Jón yfirgaf hana og flutti austur á Þórshöfn um aldamótin 1900.
2 Guðrún Jóhannesdóttir ljósmóðir bjó á Grjótgarði 1922-1925.
3 Reynir Kristjánsson (1924-1999) húsgagnasmíðameistari á Akureyri og Þóra Gunnarsdóttir frá Illugastöðum í Fnjóskadal bjuggu á efstu hæðinni í Hafnarstræti 86a þangað til þau fluttu öll í Hvannavelli 4 sem þeir Steindór byggðu saman. Þau eignuðust Rögnvald Sigurjón (1948). Reynir var eina barn Jóhönnu og Steina enda sagðist Jóhanna aldrei hafa verið gefin fyrir munað.
Kæra frænka mín!
Ég má til að bæta ögn við þetta bréf. Það er skrifað í mesta flýti og svo er amma svo illa haldin nú að hún getur illa stílað. Hennar vesöld nú er eins eða svipuð eins og vanalega, hósti og alls kyns eymsli og er nú verið að ráðgera að vitja læknis.
Héðan er ekkert að frétta nema allt bærilegt, allir aðrir bærilega frískir. Sumarið var afar erfitt svo heyafli varð lítill og það sem verra var að þau voru mest öll með illri verkun. Ég get ekki sagt þér annað en fremur gott af okkar skyldfólki. Þeim líður vel á Laugalandi hvað heilsu snertir og eins á Efstalandi. Ég hef ekki frétt neitt nýlega frá Blómsturvöllum1, held samt að þar líði heldur vel eftir ástæðum. Yngsta barnið þeirra fékk máttleysisveikina í sumar og varð máttlítið í fæti.
Þetta er nú orðið allra mesta rugl og best að fara að hætta. Vertu svo ævinlega blessuð og sæl og líði þér ætíð vel, það mælir
Frímann Pálmason.
Það biðja allir að heilsa. Ég held að ömmu langi mjög mikið til að þú komir.
Sami
1 Þarna er Stefán fóstursonur Steinunnar fluttur í Blómsturvelli þar sem fjölskyldan bjó lengi.
Efstalandi 30. nóvember 1924
Kæra systir!
Nú býst ég við að senda kápuna með póstinum, búinn að biðja Brynjólf á Steinsstöðum að afhenda honum hana ef hann yrði ekki drukkinn, annars ekki. Ég saumaði utanum hana og merkti til Valdemars, annars er ekki gott að vita hvernig Gvendur1 hagar sér.
Þegar hann fór í síðustu póstferðina var hann ódrukkinn þegar hann fór hér um en var orðinn blindfullur þegar í Bakkasel kom. Sagan segir hann hafi vakað þar alla nóttina og dansað við Dóra2.
Það er vika síðan ég kom að Garðshorni og þá var mamma á fótum og nokkuð hress. Henni þótti Rósa3 hafa hjúkrað sér vel á meðan hún var þar, það var þá tæp vika síðan hún fór.
Fátt hefur borið til tíðinda síðan þið komuð norður, önnur fullorðna beljan mín lagðist í doða og stóð upp í morgun, búin að liggja í þrjú dægur.
Snorri á Bægisá innsprautaði hana tvisvar sinnum, ómögulegt að segja hvort hún tórir eða ekki, býst við að það hafi líka verið lakastífla, nokkurn veginn víst hún hefði drepist ef þurft hefði að fara til Akureyrar. Hún var aðeins óborin þegar þessi skömm fór í hana, miklar vökur og mannahald hefur verið hér undanfarið.
Svo kveð ég þig og óska þér alls hins besta. Þinn bróðir
Frímann.
Allir á heimilinu biðja að heilsa ykkur.
F.G.
1 Frímanni hefur ekki þótt Gvendur póstur vera traustvekjandi einstaklingur. Gvendur hét Guðmundur Marinó Ólafsson (1878-1964).
2 Halldór Gottskálk Jóhannsson (1871-1942) bóndi í Bakkaseli og miklu víðar var faðir Ásgríms í Hálsi, Pálma föður Sverris húsvarðar í Glerárkirkju og fleira merkisfólks.
3 Rósa var Rósa Kristjánsdóttir frá Melstað, móðir Kristfinns.
Til Ástu Frímannsdóttur (ódagsett)
Blessuð litla frænka mín. Mikið þótti mér vænt um sérstöku myndina þína og þakka ég þér fyrir hana. Ef ekki hefði staðið illa á fyrir mér með peninga hefði ég sent þér nokkur sent svo þú gætir fengið þér skó á litlu fæturna þína en síðan um jól er ég búinn að láta frá mér liðuga 200 dali og fremur lítið eftir og bið ég þig fyrirgefa þennan miða. Líði þér ætíð sem best og ykkur öllum, blessuð og sæl, litla Ásta, þinn lélegi frændi
Haraldur
Garðshorni 16. desember 1924
Elsku dóttir mín!
Nú langar mig til að skrifa þér fáar línur og vona ég að guð gefi að þær hitti þig glaða og heilbrigða. Innilega þakka ég þér fyrir síðustu samfundi og hefði mér fundist tilfinnanlegri einstæðingsskapurinn eftir að þú fórst ef Rósa frá Melstað hefði ekki komið sama kvöldið og verið hjá mér. Hún var hjá mér í liðugan hálfan mánuð og saknaði ég hennar mjög mikið er hún fór því hún var mér svo góð og hugsaði svo vel um mig og vildi allt fyrir mig gjöra. Ég klæddi mig í seinni vikunni sem Rósa var hér og síðan hefi ég verið á fótum og heilsan ekki verið uppá það versta þó ég hafi alltaf haft hósta ásamt því að ég hefi oft átt bágt með að sofa ásamt fl. eymdarskap. Þó gæti það verra verið og vonast ég eftir að Guð gefi mér þolinmæði að bera það sem hann leggur á mig meðan honum þóknast að láta mig lifa.
Fátt get ég sagt þér í fréttum, hér gerist ekkert sem tíðindum sætir. Ég hefi heldur grun um, ég tel það víst, að Jóhanna og Steini flytji hingað í vor og muni þá taka við jörðinni og sé ég ekki betur en muni verða fullþröngt hér. Ekki get ég sagt um hvort ég verð kyrr, um það hefur ekki verið talað og væri ég til með ýmsra orsaka vegna að fara burtu þó að sumu leyti yrði það kannski ekki betra fyrir mig og ég veit að Jóhanna vildi ekki láta mig fara burtu sín vegna og ég veit að hún yrði mér góð. Það er ekki til neins að hugsa um það fyrst um sinn, það er best að sjá hvað setur, ekki víst ég lifi svo lengi og segi ég svo ekki meira um þetta.
Sigfús á Draflastöðum dó á spítalanum skömmu eftir að þú fórst og talaði [ég] við Rúnu um það. Nánar get ég ekki sagt þér því ég hefi ekkert frétt þaðan.
Nýlega er ég búin að fá bréfið frá Gunnari og gladdi það mig mjög mikið og bið ég kærlega að heilsa þeim bræðrunum fyrir bréfin og bið þá að skrifa mér framvegis þó ég geti ekki skrifað þeim aftur. Kiddi skrifar fyrir mig þetta bréf, hann er staddur hér, ætlaði að ganga til rjúpna en býst við að fara fljótt heim því það er ekkert af rjúpum hér nú. Hann biður kærlega að heilsa ykkur og biður þig að skila til Munda að hann sé stórreiður við hann fyrir að hafa aldrei skrifað sér og biður hann að skrifa með næsta pósti.
Veðurfar hefur verið fremur gott, þar til nú í gær og dag hefur verið hríð, mjög lítill snjór er en fremur slæmt á jörð (storka).
Heilbrigði er allgóð það ég til veit. Mislingarnir eru á Akureyri í nokkrum húsum en hafa ekki breiðst út um sveitirnar. Ég held ég hætti þessu og bið þig að skrifa mér aftur. Endurminningarnar um þig um síðustu samfundi okkar og bréfin sem ég fæ frá ykkur veita ljósi og gleði um sál mína. Elsku dóttir mín, vertu sæl. Guð veri með þér og þínum og gefi ykkur líði ævinlega vel, það mælir þín mamma,
Steinunn.
Melstað 3. janúar 1925
Kæra Arnbjörg!
Innilegar þakkir fyrir gamalt og gott. Ég býst við að þú verðir forviða er þú færð bréf frá mér því það hefur sjaldan komið fyrir en ég ætla þá einu sinni að gera þig hissa.
Af okkur er lítið að segja, við erum frísk og líður sæmilega vel. Ekkert hefi ég haft að gjöra síðan ég kom frá Dagverðareyri þar til í gær og dag, var ég við tóvinnuvélalækinn að moka hann upp ásamt fleiri mönnum og er sú atvinna búin. Ég var að koma heim nú á sömu stundu og er hálfuppgefinn og svo skjálfhentur að ég get varla skrifað.
Lítið hefur verið um skemmtanir hér um hátíðirnar. Íþróttafélagið „Þróttur“ hélt „ball“ á annan í jólum og svo héldum við í stúkunni „Tilraun“ samkomu laugardagskvöld milli jóla og nýárs. Akureyringar ætluðu að halda álfadans á gamlársdagskvöld en varð ekki af vegna hríðar en verður líklega á þrettándanum og skalt þú þá koma. Sigurjón1 gamli í Bótinni selur bæinn og flytur út í sókn til Jóns sonar síns. Sigríður fer líka en ég veit ekki um Tótu.
Stjáni2 sonur Sigurjóns kaupir bæinn að nafninu til en Sigvaldi3 frá Rauðalæk kaupir túnið því Stjáni getur ekki keypt það en Sigvaldi er ríkasti maður þorpsins.
Á milli jóla og nýárs eignuðust Stebbi4 og Benna stelpu, fæðingin gekk allvel og er Benna nokkuð frísk. Mamma er hjá henni á meðan hún liggur. Mamma er „..?..“, hún má fara milli krakkanna sinna og hjálpa uppá þau er þeim liggur á, hún má líklega fara fljótlega til Öllu og Manna5, þau eru búin að efna uppá einn krakka.
Enginn fisk- eða síldarafli er sem stendur, enda hefur verið slæm tíð nú undanfarið og ekki gefið á sjó. Norðanhríð hefur verið 3 síðustu daga og er kominn mikill snjór. Mislingar eru á Akureyri í mörgum húsum en hafa ekki útbreiðst um sveitirnar. Að öðru leyti er heilsufar allgott.
Nú er ég uppgefinn að romsa meiri fréttir ef svo getur kallast og byrja ég því á aðalbréfsefninu. Svo er mál með vexti að við ætlum burtu héðan í vor og er hugmyndin að koma krökkunum fyrir næsta ár og er ég þá kominn að efninu að ég ætla að biðja ykkur ef þið mögulega getið að taka af okkur Steindór næsta ár. Ég segi fyrir mig að mér fellur illa að láta hann í burtu en ég veit að hjá ykkur ætti hann jafngott og heima og ég veit jafnvel betra.
Ég vona og veit að þið gjörið þetta ef þið getið og bið ég ykkur að skrifa mér með næsta pósti og segja mér hvort þið getið gjört þetta og þá hvað þið vilduð hafa í meðgjöf. Ég bíð með óþreyju eftir svarinu.
Kæra Arnbjörg, ég kveð þig og bið Guð að gefa ykkur öllum gleðilegt og farsælt komandi ár.
Kiddi
1 Sigurjón faðir Stefáns á Blómsturvöllum. Jón Guðmann Sigurjónsson bjó í Hólkoti í Möðruvallasókn 1924-1928. Tóta var Þórey Októvína Sigurjónsdóttir, systir Stefáns og Jóns.
2 Kristján Hallfreður (1895-1981) var m.a. faðir Arngríms múrara og húsvarðar í VMA og Sigríðar móður Odds Helga bæjarfulltrúa.
3 Faðir Rósants í Ási, sá Baldvin bjó um tíma á Neðri Rauðalæk.
4 Stefán Guðjónsson, bróðir Kristfinns, giftist Benediktu Ásgerði Sigvaldadóttur (1897-1976) frá Neðri-Rauðalæk, systur Rósants í Ási. Barnið var Rósa Guðrún f. 29. des. 1924, húsfr. í Reykjavík.
5 Alla og Manni voru Aðalheiður Jónsdóttir frá Skjaldarstöðum og Manases Guðjónsson, bróðir Kristfinns. Þau bjuggu á Barká 1923-1938, þá dó Manases en Alla bjó áfram til 1950. Eftir það var hún í vinnumennsku á bæjum þar um sveitir, m.a. í Garðshorni, en bjó síðustu árin á Akureyri. Alla var eftirminnileg og skemmtileg kona. Barnið sem þau voru búin að efna uppá var Stefán Manasesson (1925-1985) verkamaður á Dalvík og í Reykjavík.
Ljóðabréf1
(ort við tunglsljós 3. mars 1925)
Ljóðabréf eitt lítið hér ég læt nú flakka
og óska að það þig hitta megi
á hríðarlausum sólskinsdegi.
Þess ég óska, þess ég bið og það ég vona
að bréfið hitti þig og þína
við þægilega líðan fína.
Ef vinnumaður vilt þú að ég verði hjá þér
allt hið næsta árið langa
þá afarkosti set ég stranga.
Ég upp það set nú alveg fyrir utan kaupið
að ég þurfi ekki að prjóna,
að öðru leyti vil ég þjóna.
Svo ég ekki í baki bogni bið ég yður
að ég þurfi ekki að moka
og ekki troða heyi í poka.
Ég upp það set en ekki fyrir utan kaupið
að ég megi á orgel læra,
af því hef ég skemmtun kæra.
Eina rollu á ég sem er orðin gömul,
geld er og með galla á fæti,
greyið er mitt eftirlæti.
Svo hún verði setjandi í salt að hausti,
ég óska að megi greyið ganga
til gangna hvar sem hana langar.
Í kvennatúr ég kannski þarf í hverri viku.
Má ég ekki á skíði skjótast
og skreppa á bæi rétt sem fljótast?
Taktu ekki hart á því þó heldur seinki
ferð minni af fljóða fundi,
þú fyrirgefur þó ég dundi.
Að endingu ég um það bið, því ei skal flíka
að ég hafi frá þér frið
í fjóra daga að gifta mig.
Ef finnst þér þetta feykilega fúlir kostir
og öfugt gangi allt til baka,
ég þá reyni til að slaka.
Fr.Ps.
1 Þetta ljóðabréf er í sjálfu sér ekki í neinu samhengi við bréfin til Arnbjargar en þar sem hugmyndin með því að skrifa þau upp er fyrst og fremst að gefa seinni kynslóðum ættarinnar hugmynd um líf þessa fólks á fyrri hluta aldarinnar, má vel birta það hér. Það sýnir hvers konar gamansemi fylgdi samskiptum Frímanns og Steina alla tíð. Hér stendur til að Jóhanna og Steini flytji í Garðshorn og taki við búinu og að Frímann verði vinnumaður hjá þeim.
Garðshorni 24. maí 1925
Elsku dóttir mín!
Ég þakka þér og ykkur öllum kærlega fyrir tilskrifin sem mér hefur þótt mjög vænt um. Ég ætla að reyna að skrifa þér nokkrar línur og myndi ég gera það oftar ef ég gæti því ég veit að þú hefur gaman af að frétta af mér.
Það er þá af mér að segja að ég hef verið með lakara móti til heilsunnar seinnipartinn í vetur og vor, en mér finnst nú ekki mikið til um það hjá því sem um heilsuleysið hans Frímanns og líður mér oft miklu verr þessvegna. Hann fann fyrst til þessara þrauta snemma í vetur fyrir jólaföstu en gerði samt sín verk fram yfir miðjan vetur en úr því fór hann að verða svo slæmur, sérstaklega máttlítill, að hann átti bágt með að hreyfa sig nokkuð til muna. Þrisvar fór hann inneftir og átti þá aðallega við Valdemar og fékk aldrei neina bót. Seinast skoðuðu þeir hann allir og kom þeim þá öllum saman um hvað þetta væri sem að honum gengi þó þeir segðu honum það ekki sjálfum. Ellefu daga lá hann á spítalanum og svo var hann fluttur heim um sumarmálin.
Seinast þegar hann var fluttur inneftir var hann í rúmi á sleða og þegar hann fór heim var hann borinn af mönnum upp hjá Steinkoti og ekið þaðan á sleða hingað heim. Það var á Sumardaginn fyrsta og fannst mér hann vera fremur alvarlegur og eftirminnilegur. Svo var hann hér um nóttina og blöskraði mér hreint hvað hann var horaður og bjálfalegur og svo var hann afllaus að hann gat varla staðið eða gengið um bæinn. Svo voru fengnir menn hér í kring og hann var svo borinn heim daginn eftir.
En bágt átti fólkið hans að taka aftur við honum svona því það var eins og seinasti vonarneistinn væri slökktur þegar útséð var um að engin mannleg hjálp fengist en þó býst ég við að minnsta kosti Margrét sé rólegri nú síðan hann kom heim heldur en meðan hann var innfrá. Hún kom hér úteftir á meðan og var hún þá fjarska sorgmædd. Þú getur máski ímyndað þér hvernig mér hafi orðið við þegar ég vissi að það var það sama sem gekk að honum eins og föður hans en það er eins og mér finnist alltaf að guð muni ekki leggja aðrar eins kvalir á hann af því þetta er í öðrum stað.
Það hefur enginn maður verið þar í vetur eða vor og systkinin hafa hirt skepnurnar og unnið á vellinum en líklega að Franklín1 á Laugalandi verði þar í sumar. Pálmi hefur hjálpað Frímanni bæði til að komast á spítalann og af honum aftur og svo vitjar hann um hann öðru hvoru síðan hann kom heim.
Það eru allir hér bærilega frískir eftir hætti. Þau2 eru enn ekki flutt neðanað en búist við því úr hátíðinni.
Ég ætla að segja þér þær gleðifréttir að Anna í Hraukbæjarkoti fékk að deyja í vetur. Það var stuttu fyrir páskana og var það gleðilegt að hún fékk að deyja á undan þeim foreldrum sínum.
Ég sendi þér bréf rétt fyrir jólin sem Kiddi skrifaði fyrir mig og vonast ég eftir að þú hafir fengið það.
Ég held ég megi nú fara að hætta þessu og bið ég þig að fyrirgefa mér alla þessa raunarollu sem getur tæpast orðið til að gleðja þig en mér finnst að ég megi til að segja eins og er.
Svo kveð ég þig elsku dóttir mín og bið guð að vera þér allt í öllu, það mælir þín vesæl mamma, Steinunn.
Ég bið kært að heilsa öllu þínu fólki.
(með rithönd Frímanns Pálmasonar)
1 Jón Franklín, bróðir Margrétar.
2 Jóhanna og Steini eru að flytja frá Laugalandi í Garðshorn.
Akureyri 6. júlí 1925
Góða Arnbjörg mín.
Kærar þakkir fyrir allt gott, mest af öllu má ég þó þakka þér fyrir drenginn minn. Ég hef frétt af honum og að hann hefði það heldur bærilegt. Mikið hefur þú mátt verða undrandi þegar Steindór litli fékk kortið frá mér en ég sendi þér ekki eina línu, en ég hafði engan tíma til þess. Ég vissi ekki að póstur átti að fara fyrr en sama morguninn og það ekki fyrr en klukkan að ganga níu en klukkan níu átti hann að fara af stað svo ég skrifaði bara á kortið og rétt það náðist í póstinn þegar hann var að fara.
Ég held ég hafi engar fréttir að segja þér. Kristfinnur vinnur út á Dagverðareyri en ég ætla að vera hjá Axel bakara í sumar. Ég fór til hans á krossmessu og er ráðin til septemberloka. Nú er ég að hugsa um að koma vestur í Skagafjörð í haust og gaman væri ef að þú gætir einhvern tíma skrifað mér fáeinar línur og sagt mér eitthvað af Steindóri litla. Ég fer flesta sunnudaga upp í Lynghól að sjá Diddu litlu, hún hefur það mjög gott.
Vertu svo best kvödd og fyrirgefðu þetta bréf.
Kristín Gísladóttir.
Garðshorni 12. október 1925
Elsku dóttir mín.
Mig langar svo mikið til að skrifa þér fáar línur af því ég fæ svo góða ferð en það vantar máttinn en ekki viljann til þess. Ég sé lítið með öðru auganu en mikið betur með hinu, guði sé lof, því það er nú mín mesta ánægja að líta í bók og meðan ég get svolítið gjört í höndunum og ekki hefur verið skipt sér annað af mér en þvo upp af mér, vildi ég það yrði meðan ég þarf á að halda. Ég er með þeim sama eymdarskap og verið hefur, alltaf svo slæm innvortis og svo hóstinn og þyngslin en þó bætir það ekki til að Reynir litli má ekki koma nálægt mér eða rúminu mínu. Ég er króuð af með koffortum og ... nú ekki því hann reynir að komast yfir.
Þetta átti ég nú eftir í ellinni en ég vona fastlega oft að það sé nú ekki langt að því eftirþráða takmarki.
Jóhanna er notaleg í útlátum við mig og mér fellur betur matur en áður var. Oft hef ég hugsað til Frímanns og þeirra beggja í sumar en ekkert getað annað en beðið guð að styrkja þau og mörg tár hef ég fellt í rúminu mínu í sumar.
Aldrei hafði ég mig í það að fara og sjá Frímann og langaði mig þó sárt til þess. Sé ég eftir að ég reyndi það ekki því ekki fer ég það nú framar. Alltaf finn ég meira og sárara til þess hvað langt er á milli okkar því mér finnst ég vera svo einmana og utan við allt sem hlýlegt er. Svo bið ég þig fyrirgefa þetta krass sem þú getur ekki lesið og láta engan sjá það nema eldinn.
Svo bið ég hjartanlega að heilsa drengjunum með þakklæti fyrir bréf þeirra. Ég ætla að senda þér frá Haraldi ef þú hefðir gaman af að lesa bréf .. frá Stebba líka og frá Margrétu á Efstalandi. Þú átt nú bara að lesa það sjálf. Svo bið ég þig senda mér þau aftur. Ég vonast nú eftir að fá bréf aftur fyrir fallega bréfið. Svo kveð ég þig og ykkur og bið Guð annast ykkur öll. Það mælir þín elskandi móðir
St. Sd. 1
1 Þetta er síðasta bréfið með rithönd Steinunnar sjálfrar og greinilegt að hún á orðið erfitt um skriftir. Hér er Jóhanna flutt í Garðshorn aftur en Steinunn hefur orðið fyrir vonbrigðum með það, m.a. vegna þess að Reyni er haldið frá henni, e.t.v. vegna hóstans sem einhver ótti hefur verið við á heimilinu eins og Steinunn hafði fundið fyrir um árabil. Hún var heilsulítil og oft rúmföst síðustu árin sem hún lifði og það hefur ekki verið neinn sældartími og nú bætist við að Frímann hefur veikst af krabbameini eins og faðir hans áður og svo margir aðrir í ættinni síðar. Guðmundur, Frímann, Arnbjörg og raunar Pálmi líka hafa líklega öll verið með BRCA2-genið. Guðmundur og Frímann fengu magakrabbamein sem má svo sem rekja til þess að algengt var að nota nítrít í saltkjöt á þessum tíma. Arnbjörg fékk brjóstakrabbamein á sextugsaldri. Og Frímann Pálmason hefur nokkuð örugglega fengið BRCA2 frá föður sínum. BRCA2 er þekkt hjá afkomendum Friðfinns og Herdísar frá Stóragerði, a.m.k. hjá afkomendum Gísla Friðfinnssonar.
Úr bókinni „Sagan af bóndanum í Hrauni“
eftir Guðmund L. Friðfinnsson
Sagan er ævisaga Jónasar Jónssonar bónda í Hrauni í Öxnadal en þegar hér er komið sögu býr hann á Varmavatnshólum í sömu sveit. Guðmundur segist sjálfur hafa skrifað söguna sem baráttusögu bónda.
Sex dagar eru til jóla og Jónas minnir að þetta hafi verið veturinn 1925. Hann hefur tekið féð heim af beitarhúsunum og þarf inn til Akureyrar, því að bæði er að föng skorti eins og oft vildi verða á þessum árum, og svo hefur Jónas selt rauðskjóttan fola, fjögurra eða fimm vetra gamlan og lofað að koma honum til kaupanda fyrir hátíðir. En kaupandi er Sigtryggur Þorsteinsson sláturhússtjóri og yfirkjötmatsmaður á Akureyri og kaupverð folans 220 krónur.
En um þetta leyti er veðrátta hörð með jagandi hríðum og þónokkur snjór kominn svo að Jónasi er um og ó að fara frá heimilinu forstöðulausu á þessum tíma árs. Er hann hálfpartinn hættur við förina að svo stöddu en þykir þó illt að standa ekki við orð sín enda á hann eitthvað af rjúpum sem hann vill gjarnan koma til innleggs.
En svo bar gest að garði.
Er þar kominn Kristfinnur Guðjónsson, nú ljósmyndari á Siglufirði, og er með Steindór son sinn, fjögurra til fimm ára gamlan. Ók Kristfinnur drengnum á litlum sleða og komu þeir feðgar frá Bakkaseli þennan dag og voru á leið til Akureyrar1.
Hríðarveður var á af austri en vægt frost og Jónas við rjúpur. En þá er hann kom heim leggur Kristfinnur að honum talsvert fast að verða sér samferða „inneftir“. Kvað Kristfinnur sér nauðsyn á að komast leiðar sinnar án tafar og vill fyrir hvern mun koma drengnum á hestasleða.
Tók Jónas heldur lítið á þessu í fyrstu og kvað sér ekki lítast á útlitið en þó urðu þeir feðgar þar um nóttina.
Morguninn eftir var veður með svipuðum hætti og deginum áður en þó varð úr að Jónas lagði af stað með Rauðstjarna sinn fyrir sleða og svo folann skjótta Sigtryggs.
Bjuggu þeir Kristfinnur um drenginn sem best þeir máttu í kassa og var tjaldað yfir með brekáni sem Elínborg lagði til. Einnig voru á sleðanum rjúpur Jónasar og hafði hann ofurlitla von um að losna við allt saman í Engimýri því að þaðan var jafnan farið í kaupstað fyrir jól. Bjóst Jónas við að svo yrði og að þessu sinni.
En þegar til Engimýrar kom aftók Jóhannes að nokkuð yrði farið í kaupstað frá sér í þvílíkri tíð og útliti og ekki lengra til jóla.
Ekki mun Jónasi hafa þótt gott að skiljast þannig við þá feðga úr því að komið var af stað, enda lagði Kristfinnur að honum að halda áfram. Komust þeir í Neðstaland2 um kvöldið og höfðu þar góða gistingu hjá Stefáni Guðmundssyni og Margréti Kristjánsdóttur frá Hamri.
Um nóttina vaknar Jónas við veðurgný sem skall á baðstofunni eins og foss og varð hugsað heim og nýttist lítt að svefni eftir það.
Þegar birta tók af degi var norðaustanstormur með mikilli fannkomu og sá ekki út úr augum. Varð nú tíðrætt um hvað gera skyldi. Latti Stefán farar og bauð að hýsa þá félaga uns upp birti. Kristfinnur var og mjög uggandi vegna drengsins og töldu raunar flestir óðs manns æði að leggja af stað með barn á sleða í þvílíku veðri. Hins vegar var Jónas því vanastur að halda fram ferð sinni svo sem hann ætlaði, enda ófús að vera lengur í burtu frá heimilinu en þörf krefði, kvaðst því hiklaust halda áfram úr því að hann væri lagður af stað. Aftur á móti réði Kristfinnur sínum ferðum en á hestinum sagðist Jónas taka ábyrgð að eigi bilaði.
Varð þá úr að þeir félagar bjuggust og var enn hlúð að drengnum með ull og fatnaði.
Síðan var lagt út í bylinn.
Ekki höfðu þeir mjög langt farið eða eitthvað út á Bægisármóa þegar þeir fundu að þeir voru farnir að villast og gekk svo um hríð. Var nú útlitið ekki sem best, þeir villtir, sá ekki út úr augunum fyrir ofsa og hríð og drengnum orðið flökurt. En áður mjög langur tími leið rofaði þó svolítið til í bili. Var þá girðingarhlið rétt hjá og áttuðu þeir sig þá að þetta var skammt sunnan Bægisár.
Héldust nú upprof annað veifið niður Hörgárdal. Sóttist ferðin fremur greitt og segir ekki af þeim kumpánum fyrr en á Moldhaugum í Kræklingahlíð. En þar ætluðu þeir feðgar að verða eftir. Var nú farið að birta til en þó allmikið hríðarveður.
Þegar þeir Kristfinnur voru að bera kassann af sleðanum í bæjardyr á Moldhaugum, kom Benedikt hreppstjóri þar að og spurði hvað hér væri á seyði. Sögðu þeir sem var og leist Benedikt ekki á og taldi kvíðvænlegt að taka tjaldið ofan af kassanum. Enn ekkert bar á dreng, spratt hann upp úr kassa sínum hinn brattasti, var ekkert kalt og kenndi sér einskis meins.
Létt mun pyngja Kristfinns hafa verið um þessar mundir, ekki síður en Jónasar, því að áður en þeir skildust brá Kristfinnur Jónasi á eintal og sagðist því miður ekki hafa peninga til greiðslu þá sem stæði. Kvað Jónas það engu skipta en ef honum sýndist, gæti hann greitt honum þetta síðar.
Skildust þeir að því en Jónas gaf sér ekki tíma til að þiggja kaffi sem í boði var á Moldhaugum, heldur snaraðist til hesta sinna og hélt áfram „inn eftir“.
En það er af greiðslu Kristfinns að segja að fjórum til fimm árum síðar lá Elínborg á Sjúkrahúsi Akureyrar og kom Jónas til hennar í heimsókn. Var þá Kristfinnur þar, rúmliggjandi sjúklingur, og gerði Jónasi boð um að finna sig og borgaði greiðann frá ferðinni góðu, enda þótt Jónas færðist undan að taka við.
Bls. 111 – 113.
1 Í bréfi sínu frá 3. janúar 1925 biður Kristfinnur Arnbjörgu að taka Steindór næsta árið. Steindór hefur farið vestur um vorið eða sumarið en hér er Kristfinnur að sækja hann, líklega fyrr en ráð var fyrir gert. Ástæðan gæti verið sú að þau Kristín hafa viljað hafa hann hjá sér um jólin og þar sem Kristín var ófrísk, eignaðist Sigurbjörgu snemma í janúar 1926, þá var sýnt að hún gæti ekki unnið utan heimilis hvort eð var og þá var ekki ástæða til að hafa Steindór í fóstri annars staðar lengur.
Hins vegar er ekki trúlegt að Kristfinnur hafi verið að koma frá Bakkaseli eftir gistingu þar því að leiðin út í Varmavatnshóla er stutt. Hann hefur frekar verið að koma vestan úr Bólu.
Kristfinnur tók þessa frásögn óstinnt upp þegar hún birtist. Guðmundur á Egilsá var spurður að því hvort Kristfinni hefði líkað illa sagan og sagðist hann þá ímynda sér að svo hefði verið því að Kristfinnur væri nú hættur að skrifa sér. Vildi Kristfinnur meina að Guðmundur og/eða Jónas hefðu ýkt verulega hversu mjög hann hefði verið upp á Jónas kominn í ferðinni, hann hefði sjálfur verið búinn að ferðast einn með Steindór vestan úr Bólu og hefði verið fullfær um að komast „inn eftir“ af eigin rammleik.
2 Stefán og Margrét bjuggu í Neðstalandi. Stefán bóndi þar var bróðir Valdemars í Bólu og Margrét kona hans var móðursystir Kristfinns þannig að þarna var Kristfinnur hjá sínu fólki.
Efstalandi 4. janúar 1926
Góða Arnbjörg mín!
Hjartans bestu þakkir á þessi miði að færa þér fyrir bréfið þitt og þakklæti okkar til ykkar hjónanna fyrir sendinguna sem var innan í því. Það gladdi okkur í þessum raunum okkar að finna til hlýjunnar og hluttekningarinnar frá ykkur því ég veit að þið hafið gefið af góðum hug og biðjum við góðan guð að launa ykkur og öllum þeim sem reyndu að gleðja okkur en það voru döpur og gleðisnauð þessi blessuð jól. Frímann var þá mjög veikur, aldrei verið verri, alltaf veinandi dag og nótt, en svo skánaði honum aftur úr jólum. Það var mest sem þjáði hann og sem alltaf hefur þjáð hann svo mikið þessi vinduppþemba svo mikil og ógleði sem spennti upp úr honum það sem hann nærðist og svo þreytan í öllum líkamanum og ill líðan sem ekki er að undra þar sem hann verður að liggja alltaf á bakið og geta lítið hreyft sig eða hagrætt í rúminu. Hann getur sama sem ekkert rótað þeim fætinum sem meinsemdin er í mjöðminni og er hann krepptur um hnéð. Þér mundi bregða í brún ef þú sæir kroppinn á bróður þínum sem ekkert er orðið eftir nema bein og sinar og það er ekki undarlegt, mikið er hann búinn að líða í þessari löngu legu, og hver veit hvað eftir er?
Það halda margir nú orðið að hann ætli að hafa það af, það er nú svo um mig að ég hef alltaf vonað og beðið til guðs að hann lofaði honum að lifa lengur hjá okkur en það eru lítil líkindi til að hann fái þá heilsu að hann geti unnið en ég er nú svo eigingjörn að mig langar samt til að hann fái að lifa en hann biður mig að segja þér að hann hafi langt um heldur kosið að fá að deyja en lifa og verða aumingi og máske upp á aðra kominn. Og finn ég þetta vel að það er sárt fyrir aðra eins menn og hann sem aldrei var iðjulaus og hafði yndi af að starfa að geta ekki verið við það sem hann var hneigður fyrir.
En ég get sagt þér það að hann hefur borið þetta mótlæti með þolinmæði og ekki kvartað um skör fram. Hann getur nú miklu heldur borðað t.d. spónamat, nýtt skyr og mjólkurgraut heldur en í sumar, þegar hann bragðaði ekki í marga mánuði annað en mjólk og sárneyddi henni ofan í sig.
Hann þorir ekki að borða mat upp úr súru, sem hann hefði þó lyst á, vegna magans sem er svo illa farinn. Það fer alltaf graftrarvilsa út úr sárinu á mjöðminni að framan en svo sem ekkert úr því sem er aftan á síðunni og það minnkar alltaf og sýnist vera orðin mjög lítil bólga í kringum þessi sár en hann ...
Nú erum við búin að selja Efstaland. Stefán bróðir Valdemars1 kaupir á 7 þúsund. 2 þúsund borgar hann af þeim í vor en hitt á að borgast á 10 árum. Það var ekki um annað að gjöra fyrir okkur þó við seljum hana okkur í skaða af því við keyptum hana þessu vitlausa verði. Ekki veit ég hvernig við höfum það eftirleiðis ef við tórum.
Það eru nógar jarðir lausar hér í dalnum, Gloppa, Bakkasel, Miðland, Neðstaland, Miðhálsstaðir og getur einhver fengið jörð hér. Mamma þín sendi mér fallega olíumynd af Kristi og fl. fólki. Steini bróðir kom með hana milli jóla og nýárs. Hann var hér nóttina. Mamma þín er þetta svipuð til heilsu, tætir alltaf töluvert, oft hugsar hún víst hingað til Frímanns, auminginn.
Nú er bréfsefnið á enda og ég á ekki meiri pappír nú og verð ég að kveðja þig í þetta sinn og óskum við ykkur öllum gleðil. nýtt ár.
Vertu svo blessuð ævinlega og guð veri með ykkur. Frímann biður að heilsa og systkinin líka.
(undirskrift Margrétar vantar)
1 Stefán Guðmundsson á Neðstalandi, bróðir Valdemars í Bólu og Margrét Kristjánsdóttir systir Rósu (í Melgerði) móður Kristfinns. Þau bjuggu á Efstalandi 1926 – 1945.
Garðshorni 14. febrúar 1926
Elsku dóttir mín!
Hjartans þakklæti á þessi miði að færa þér fyrir bréfið og sendinguna og allt gott en lengi þótti mér bréfið þitt vera á leiðinni því ég fékk það ekki fyrr en sjöunda þ.m. Ég átti alltaf von á Kidda í haust að hann kæmi og færi vestur og ætlaði ég þá að senda þér línu en það fór nú eins og þú veist. Mikil mildi var það að Steindór litli skyldi ekki hafa neitt illt af ferðalaginu en ég hef sannfrétt að hann hafi ekkert sakað1. Þau Kiddi og Kristín eignuðust stúlku2 núna eftir nýárið að mig minnir og veit ég ekki annað en það sé allt við góða heilsu.
Það eru allir hér bærilega frískir nema ég því ég er aldrei frísk. Það er alltaf þessi sama eymd sem ásækir mig og fer ekki batnandi sem ekki er nein von til. Ég hef alltaf þennan vonda hósta og þyngsli fyrir brjósti og svo innvortis þrautirnar sem mér finnst oft ætla að gera út af við mig. Ég þarf því alltaf að kaupa meðöl og taka inn þegar ég er sem verst.
Ég finn stóran mun á því hvað ég er farin að tapa sjón. Ég sé sama sem ekkert með öðru auganu en held nokkurri sjón á hinu svo ég get lesið á bók ef bjart er og bið ég Guð og vona að það verði ekki lengi sem ég þarf að lifa ef ég missi sjónina því það er mín eina ánægja að geta litið í bók. Mér gengur oftast betur að sofa núna en var hér áður þó það komi fyrir að ég vaki á næturnar. Flesta daga hef ég reynt að klæða mig og hef þá verið að tæta ofurlítið, spinna og prjóna. En mikið bætir það ofan á minn eymdarskap að vita hvað Frímann á bágt og hvað hann þarf að líða mikið því oft hugsa ég til hans. Mín líðan er nú eins og búast má við, það er ekki von á því betra á þessum aldri en það er aumra að vita Frímann vera orðinn þennan bjálfa. Margrét skrifaði mér á milli jóla og nýárs og sagðist ætla að skrifa þér með næsta pósti og veit ég að hún hefur skrifað þér miklu ítarlegar en ég get gert. Síðan hefur hann alltaf verið svipaður þar til nú að hann er heldur lakari en Guð hefur gefið honum þolinmæði og stillingu til að bera þennan kross.
Það hefur eitthvað komið til tals að þau færu í Grjótgarð í vor en hvernig það ræðst veit ég ekki enn. Það er nú raunar ólíklegt að hann þurfi á því að halda en það þarf alltaf að hafa einhverja hugsun fyrir lífinu. Bogga er ráðin að Bakka eftirleiðis en yngri börnin verða sjálfsagt foreldrunum áhangandi.
Þú hefur máski gaman af að vita að yngsti drengurinn á Blómsturvöllum heitir Frímann. Stebbi skrifaði mér og sagði sér þætti vænt um nafnið.
Ég býst við að þú hafir ekki mikla ánægju af að lesa þetta bréf sem er eins og ein raunarolla en mér finnst ég naumast geta skrifað það öðruvísi en það er.
Svo kveð ég þig með kossi hjartans og bið Guð að vera ykkur allt í öllu. Það mælir þín vesöl mamma
Steinunn Sigurðardóttir.
Pálma gekk vel heim í haust og biður hann og allir hér að heilsa ykkur
Sama
(rithönd Frímanns Pálmasonar)
1 Sjá frásögn Guðmundar L. Friðfinnssonar á Egilsá hér að framan. Þetta hefur verið mikil svaðilför og þakkar Jónas í Hrauni (sem þá var) sér að ekki fór verr en hann mun hafa verið með í för en Kristfinnur taldi of mikið úr því gert. (Eftir Steindóri Kristfinnssyni).
2 Sigurbjörg f. 8. 1. 1926. Hún fékk nafn Sigurbjargar Ágústsdóttur í Öxnafellskoti sem tók hana í fóstur þegar foreldrarnir veiktust en Sigurbjörg var dóttir Helgu systur Steinunnar í Garðshorni.
Efstalandi 23. mars (1926)
Kæra Arnbjörg mín.
Með þessum fáu línum læt ég þig vita að Frímann bróðir þinn andaðist aðfararnótt 20. þessa mánaðar eftir miklar þrautir og þjáningu. Það er ákveðið að jarðarförin fari fram þann 31. þessa mánaðar ef þið gætuð verið viðstödd. Hann verður jarðaður á Bægisá. Fyrir 3 vikum fór honum að hnigna svo mikið og versna, tolldi ekkert niðri í honum fyrir ógleði. Svo var komið gat á þarmana svo saurinn kom þar upp um sárið sem var ofan við smáþarminn. Og svo hafði hann seinast svo mikinn hita og svo niðurgang. Það var svo þreytandi. Það er sárt að sjá honum á bak og tómlegt finnst mér nú vera að koma inn og sjá hann ekki. Ég var búin að hjúkra honum svo lengi og bað og vonaði að guð gæfi mér að hann lifði en það hefir ekki verið vilji hans. Við skiljum ekki ráðstafanir guðs.
Með því síðasta sem hann talaði við mig voru þessi orð: „Mikið ertu búin að gera fyrir mig, elskan mín!“ og þessi orð eru mér nóg umbun fyrir allt mitt stríð, hann reyndi að leiðbeina okkur fram í dauðann, hjartans vinurinn minn. Alltaf finnst mér ég þurfa að koma á hverjum degi fram í stofu að sjá hann, það hvílir friður yfir ásjónu hans. Það er eins og hann sofi værum svefni og hann er líka laus við allar þjáningar.
Kæra Arnbjörg, fyrirgefðu þó ég skrifi ekki meira, ég er svo niðurbeygð. Berðu kæra kveðju fólki þínu.
Guð veri með þér, það mælir þín
Margrét.
Garðshorni 29. apríl 1926
Góða frænka mín!
Það er fyrir tilmæli annarra að ég skrifa þér þessar línur því eins og þú veist af reynslunni þá er það mér nýtt að fást mikið við bréfaskriftir þó að þú og fleiri ættu það skilið. Nú sem stendur hef ég sérlega góðan tíma, því nú dvel ég hér mér til heilsubótar, er búinn að vera hér 10 daga og á eftir að vera svo sem annað eins, en þá vonast ég eftir að verða búinn að fá þá heilsu að ég geti farið að starfa eitthvað. Tildrög þessa lasleika voru mislingar sem ég fékk um miðjan mars og lungnabólgu upp úr þeim. Ég var þá á Akureyri hjá Bjarna Einarssyni. Mislingar voru mjög slæmir þar innfrá seinnipartinn í vetur og eftir því lögðust þeir fremur létt á mig þó eftirköstin yrðu slæm. Mamma kom til mín og var hjá mér þrjár vikur á meðan ég lá. Mér leið mjög vel á Akureyri í vetur og féll vel við fólkið sem ég var með og líkaði verkið heldur vel, það var mest við smíðar. Geta má nærri að bíó, leikir, böll, fyrirlestrar og annað fargan sem gert er fyrir fólkið hafi gert sitt til að gera mér dvölina ánægjulega og þó ég væri ekki orðinn fullnuma í að nota mér þau gæði, þá er þó tilgangurinn góður þó skeð geti að fégirnd eða fordild félaga eða einstaklinga hafi stundum verið að verki með.
Héðan er fátt að frétta, heilsufar yfirleitt allgott þó kvef og þessháttar kvillar heimsæki svona við og við eins og vant er. Amma er einlægt þetta svipuð, klæðir sig flesta daga og situr svo með prjóna sína.
Tíðin er ágæt og eru flestir farnir að vinna á. Hérna er talsvert búið og í dag eru piltarnir niðri á Rauðalæk að mala1 en svo stendur á því að pabbi hefur þar part, tók hann af því að ábúandinn vildi losna við hann en enginn taka við honum en pabbi þurfti að hafa grasnyt og þótti því þægilegt að hafa það sem næst. Sveinn2 bróðir Halls á Hallfríðarstöðum er þar ábúandi en ætlar að flytja sig inn í Glerárþorpið og setjast þar að. Hann verður sjálfur við sjó í sumar en konan á að verða fremra og nytja hinn part jarðarinnar og flytja svo inneftir í haust og lítur nú útfyrir að bærinn verði mannlaus í vetur.
Undanfarið hafa verið haldnar hér samkomur á ýmsum stöðum í sveitinni en af þeim hef ég ekkert að segja nema það sem ég hef heyrt aðra tala og er það misjafnt eins og gengur og ekkert merkilegt og ekki geta þær einusinni orðið til þess að skapa kærustupar, því hér minnist enginn á þá hluti og eru á því sviði hryggileg dauðamörk en vonandi eru ekki allir hættir að hugsa um það svona í einrúmi. Innan í bréfið læt ég mynd af mömmu sem hún sendir þér og kveðju sína með, ennfremur minningarorð eftir frænda sáluga. Þau eru eftir Stebba á Blómsturvöllum, hann talaði þau yfir gröfinni[1]. Þau eru mjög falleg eins og vænta mátti af honum því þó hann sé með fátækustu mönnum hér um slóðir hvað efnin snertir, þá er andlega lífið auðugra og fegra en almennt gerist en það lítur út fyrir að margir líti svo á að sá auður sé minna virði. Jarðarförin fór fram eins og ráð var fyrir gert á miðvikudaginn fyrir skírdag og var margt fólk viðstatt, einkum á Bægisá. Amma fór suðureftir af því veðrið var einkar gott en af henni get ég ekki sagt þér frekar því ég lá þá innfrá og gat ekki verið viðstaddur.
Kristfinnur flytur inn á Akureyri í vor og verður vinnumaður hjá Axel Schöith. Hann fær íbúð uppi á brekkunni, þar hefur Axel kýr sínar og á Kristfinnur að hirða þær. Mér þótti hann duglegur að koma með nafna fyrir jólin en ekki sagði hann að drengur hefði borið sig bjálfalega, enda var það alltaf auðséð að kjarkur var í nafna litla.
Það biðja allir að heilsa og amma var að óska eftir að fá að sjá þig í vor af því að tíðin er líka svona góð, segir hún.
Vert þú svo best kvödd með ósk um góða líðan fyrir þig og þína. Það mælir þinn einlægur frændi
Steindór Pálmason
Kári biður sérstaklega að heilsa Munda og óskar eftir bréfi frá honum.
1 Þeir voru að mala tað í taðkvörn. Taðið var stungið út úr fjárhúsunum, þurrkað, malað og borið í krærnar til að þurrka taðið sem ærnar gengu á.
2 Sveinn og Hallur voru synir Jóhanns Benedikts Jónssonar Benediktssonar frá Flöguseli. Benedikt var bóndi í Garðshorni 1889 til 1897. Hallur átti m.a. Brynleif og og Theodór með seinni konu sinni, Önnu Brynjólfsdóttur frá Efstalandskoti. Þeir bræður voru stundum á Neðri-Rauðalæk á sumrin hjá Kristínu móðursystur sinni. Benediktsnafn Bensa í Flöguseli lifði í trommuleikaranum vinsæla, Benedikt Brynleifssyni, sem lést í október 2020.
Garðshorni 2. nóv. 1926
Kæra systir mín!
Ég ræðst í að skrifa þér fáeinar línur til að lofa þér að vita hvernig okkur líður hér og er ekki hægt að láta vel af því eins og nú standa sakir, inflúensan kom hér til okkar fyrir tæpum hálfum mánuði og tók næstum allt fólkið í einu og urðu menn mikið veikir og af því einhverjir þurftu að gera nauðsynlegustu verkin þá voru sumir að skrúfast við að gera þau og versnaði þá veikin sem vonlegt var. Ég lagðist að sönnu aldrei í rúmið en var mikið lasinn fleiri daga og ekki jafngóður enn. Nú eru samt allir komnir á fætur að nafninu til nema Helga og mamma. Helga var lengi vel að reyna að klæða sig en þoldi það ekki og er svo mikið verri, samt ekki fjarska mikið veik og er nú á batavegi. Það var fenginn maður af næsta bæ til að gera mikið af útiverkunum því þeir lágu báðir Steini og Manni í fleiri daga og eru lítið farnir að fara út enn. Kári varð lítið lasinn og hefur getað hjálpað dálítið til.
Mamma fór ekki varhluta af þessari pest sem auðvitað var. Hún hefur verið svo afskaplega mikið veik og þjáð að hún hefur alltaf orðið að taka inn deyfandi meðul, bæði daga og nætur svo hún hefði viðþol. Héldum við á tímabili að hún myndi þá og þegar skilja við þetta auma líf sitt en það hefur enn ekki orðið og virðist eins og hún sé heldur hressari annað slagið þessa síðustu daga en verst er að fáir eru til að hjúkra henni eins og þyrfti af því líka að allir eru svo lasnir enn. Þessi inflúensa er hér á flestum bæjum, liggja flestir eitthvað en ekki hef ég heyrt um nein alvarleg tilfelli og er það næsta mikið þar sem líka tíðin er hér köld og óstillt svo hættara er við að einhverjum verði of kalt. Við fengum bréf frá ykkur með góðum skilum með Jóni Ólafssyni1. Ykkur langar til að frétta af þeim Kidda og Stebba. Ég gisti hjá Kidda hér í haust og sýndist mér þeim líða sæmilega vel, þau eða a.m.k. Kiddi, er ánægður með þessa atvinnu og er ekki ólíklegt að þau verði þarna kyrr eftirleiðis.
Um Stebba get ég lítið skrifað því ég hef ekki fundið hann svo lengi og það lítið sem ég hef frétt er ekki vel ábyggilegt. En það sem maður veit heima hjá sér er auðvitað fátækt og basl samfara heilsuleysi sem aldrei skilur við hann.
Valdemar skrifaði mér miða þar sem hann segir mér að ég geti fengið gráan fola sem kominn sé út af Gránu-kyninu af því ég var búinn að minnast á það í sumar en af því nú er orðið svo áliðið þá hef ég ekki hentugleika á að taka hann norður í haust svo ég get ekkert átt við hann, hvað sem ég kynni að gera í vor ef hann þá verður óseldur og falur.
Það er nú lítið ánægjulegt fyrir þig að fá þetta bréf sem er fullt með veikindafréttir en það er fátt annað hægt að skrifa finnst mér því annað sögulegt gerist ekki hér. Skemmtilegra hefði mér þótt ef þú legðist á spítala2 að það væri hér fyrir norðan en samt get ég vel séð að það er mikið þægilegra fyrir ykkur að komast út á Krókinn.
Það er líklega best að fara að slá botn í þetta ómerkilega bréf. Vertu svo blessuð og sæl og líði þér ætíð sem best, það mælir bróðir þinn
Pálmi Guðmundsson
1 Jón Ólafsson bjó 1926-1928 á Ytri-Bægisá, líklega á „Kirkjubæ“ fremur en „Húsá“ eða Ytri-Bægisá II.
2 Arnbjörg dó úr krabbameini í brjósti 1938. Varla hefur það verið farið að hrjá hana á þessum tíma.
Frk. Ásta Frímannsdóttir
Grjótgarði, Þelamörk, Eyjafjarðarsýslu, Íslandi
Arborg, Man.
Ágúst 15/26
Elsku litla frændka!
Ég sendi þér að gamni mínu 5 dali af því þú ert yngst af systkinunum. Þú getur gefið ömmu Steinunni eitthvað af því ef hún hefur lítið af aurum, þér kannski þætti gaman að því.
Ég sendi líka litla mynd af mér og litlu dótturdóttur minni. Hún heitir Cecelia Grace (framborið Greis). Kysstu ömmu Steinunni fyrir mig.
Ég vona að þú og ykkur öllum megi líða sem best.
Þinn einlægur frændi
Haraldur
Adr. Haraldur S. Holm
c/o NS Eyjolfsson
Árborg
Manitoba
Canada, NA
Ódagsett1
Elsku dóttir mín!
Nú er ég svo mikið veik að ég get lítið hugsað eða talað. Þó langar mig til að senda þér línu þó það geti ekki orðið öðruvísi en allt í molum. Þó ég sé mikið veik, þá líður mér þó verst fyrir þyngsli fyrir brjóstinu og er það oft svo að ég held ég muni kafna þá og þegar. Það er alltaf reynt að útvega meðul en það eru aðeins þau meðul sem ekkert batnar af heldur bara deyfa og draga úr þrautunum í bráðina. Ég bað Jón Ólafsson2 að koma til ykkar svo hann gæti sagt mér hvernig liði hjá ykkur því mér leiddist svo voða mikið að frétta ekkert. Svo kom Jón með bréf og þakka ég þér mjög vel fyrir það, mér þótti svo vænt um að fá bréfið.
Haraldur bróðir minn er nýlega búinn að skrifa Margrétu á Grjótgarði3, segist hann nú vera orðinn alveg blindur en að sér líði að öðru leyti svo vel sem hægt sé. Hann sendi mynd af sér og dótturdóttur sinni sem lítur út fyrir að vera ársgömul. Líka sendi hann Ástu4 litlu 5 dollara og sagði henni að gefa mér af því ef ég ætti lítið af aurum. Svo sendi hún mér 10 kr. sem var tæpur helmingur en mér leiðist að taka við því af henni en Haraldur auminginn gat ekki betur. Lúlli skrifaði fyrir hann en hann er hjá dóttur sinni, Vilfríði. Ég fór að reyna að lesa þetta og gat komist fram úr því en samt sé ég mun verr en áður en ég veiktist þetta. Samt vona ég að ég þurfi ekki að vera lengi í myrkri.
Svo kveð ég ykkur öll og bið guð að vera ykkur allt í öllu, það mælir þín vesæl móðir
Steinunn S.
(með rithönd Frímanns Pálmasonar)
1 Þetta bréf hlýtur að vera skrifað skömmu eftir að bréf Haraldar barst til Ástu.
2 Sjá skýringu með bréfi Pálma 2. nóv. 1926.
3 Margrét flutti í Grjótgarð 1926, sumarið eftir að Frímann dó, og bjó þar til 1928. Hún var á Bægisá (Kirkjubæ) 1929-30. Síðan fór hún sem ráðskona í Laugaland til Einars kennara og hreppstjóra.
4 Ásta Frímannsdóttir (1921-1996), yngsta dóttir Margrétar. Ásta var langyngst barna Frímanns og Margrétar og á þessum tíma hafa hin börnin verið flutt að heiman.
Garðshorni 27. desember 1926
Góði Mundi minn!
Nú sest ég niður og skrifa þér fáeinar línur í þeirri von að þú borgir þær aftur eins fljótt og þú getur því okkur leiðist mjög mikið að frétta ekkert af ykkur, sérstaklega mömmu þinni. Við höfum lítillega tvisvar frétt af henni. Í fyrra skiptið sagði Kiddi okkur að búið væri að flytja hana út á Sauðárkrók og í síðara skiptið skrifaði Jóhanna Bergsdóttir1 okkur og sagði okkur þá hvernig leið. Svo er nú tæplega von að þið skrifið okkur því fá eru bréfin sem þið fáið frá okkur.
Héðan er fátt að frétta nú sem stendur. Við erum öll frísk nema amma. Hún er mesti aumingi síðan hún fékk inflúensuna, liggur alveg í rúminu en Steindór er alltaf inn á spítala. Hann fékk inflúensuna í haust og upp úr henni aðkenningu af blóðspýting en var kominn inneftir og ætlaði að halda áfram náminu við söðlasmíðar og þessvegna lagðist hann strax á spítala af því hann kaus það heldur en að taka dýra hjúkrunarkonu. En svo álítur læknirinn veilu í lungum en nú klæðist hann og fitnar og líkindi til að honum batni ef hann fer gætilega. Aðrir eru frískir og fátt að frétta héðan. En nú vonast ég eftir bréfi frá þér svo fljótt sem þú getur. Svo óskum við ykkur gleðilegs árs og góða líðan. Það mælir þinn
Kári Larsen
1 Jóhanna Álfheiður Bergsdóttir (1883-1967) hefur komið áður við sögu þegar hún eignaðist tvíburana sem Jóhönnu Pálmadóttur langaði að vita hvað voru skírðir. Jóhanna var gift Haraldi Sigurðssyni bróður Rósants á Hamri og Jóhannesar föður Jóa á Vindheimum. Jóhanna hafði verið í Garðshorni þegar Pálmey Helga dóttir hennar fæddist 1909. Tvíburarnir voru Sesselja (1913-1957) og Tryggvi (1913-1984).
Garðshorni 25. júní 1927
Elsku dóttir mín!
Mig langar til að skrifa þér fáeinar línur til að láta í ljósi þakklæti mitt til þín og ykkar allra fyrir sendinguna af því ég gat ekki fundið Valdemar. Ég veit að það er mikill krókur að koma hér við og svo finn ég það að einhver frá þér hefur oft tekið á sig krókinn til að finna mig. En mér finnst það nú vera orðnir fáir sem líta inn til mín sem ég hef skemmtun af. Mér kom vel það sem þú sendir mér, sérstaklega skyrtan. Ég hefði frekar komist af fyrir utan buxurnar og þykir mér verst ef þú hefur tekið of nærri þér til að geta sent mér þetta.
Hér eru allir vel frískir nema bara ég. Ég veit þú munir hafa heyrt það að ég var í rúminu í allan vetur en þegar hlýnaði fór ég að klæða mig. Annars get ég ekkert sagt þér af mér nema það sem þér þykir leiðinlegt að frétta að ég er aldrei frísk, hef þennan rífandi hósta og innvortis þrautir en get helst aldrei verið öðruvísi en að hafa meðöl til að bæta líðanina, því helst sljákkar hóstinn og þrautirnar ef ég tek inn.
Eftir því sem ég verð meiri aumingi þá langar mig þess meir til að vera nær þér en um það er ekki til neins að kvarta. Ég veit að það muni ekki vera hressandi fyrir þig að fá svona bréf en ég get ekki annað en sagt eins og er úr því ég segi nokkuð en ég bið þig að taka þér það ekki nærri því ég vona að það fari nú að verða stutt eftir fyrir mér.
En umfram allt bið ég þig að fara varlega með þína heilsu því það er erfitt að vera heilsulaus.
Ég hef alltaf getað prjónað ofurlítið og líka hef ég alltaf getað lesið í bók með gleraugum. Þetta hvorttveggja er það eina sem hefur stytt mér stundir.
Það er lítið um tíma til að skrifa og þess vegna er ekki hægt að segja neinar fréttir enda berast þær vestur til ykkar alla vega. Aðeins get ég sagt þér það að Katrín1 sáluga á Efri-Rauðalæk var jörðuð á föstudaginn síðastliðinn og Haraldur er búinn að liggja rúma viku í rúminu og er það taugagikt sem gengur að honum en hann er samt heldur á batavegi.
Ég finn það vel að ég mundi hafa gott af að lyfta mér upp en hitt er líka að ég finn að ég er engin manneskja til þess. Svo kveð ég þig og ykkur öll og bið góðan guð að vera ykkur allt í öllu. Það mælir þín vesöl móðir
Steinunn A. Sigurðardóttir
Ég bið kærlega að heilsa bræðrunum og bið þá að senda mér línu eins og þeir hafa gert. Og svo biðja allir að heilsa á þitt heimili. Steindór2 litli biður kærlega að heilsa systur sinni.
Sama S.A.S.
Ég vonast eftir að geta sent bréfið með Jóni Ólafssyni á þriðjudag.
(rithönd Frímanns Pálmasonar)
1 Katrín var móðir Árna á Hallfríðarstöðum, Elísabetar á Öxnhóli, Jóhanns Ó tónskálds og Laufeyjar konu Eiríks Stefánssonar kennara. Hún dó 14. júní 1927. Haraldur brá búi á Rauðalæk eftir lát Katrínar. Katrín var frænka Helgu í Garðshorni og vinkona frá fornu fari. Hún var fædd á Einarsstöðum 17. jan. 1876, nokkrum mánuðum áður en Steinunn og Guðmundur fluttu þangað.
2 Hér eru öll börn Kristfinns og Kristínar komin í fóstur, Steindór í Garðshorn, Rósa Pálína (Didda) í Bólu og Sigurbjörg (Góa) í Öxnafellskot. Kristín hefur verið orðin veik af berklum og komin á Kristneshæli.
Katrín Jóhannsdóttir
frá Dagverðareyri
- 17. jan. 1870 – D. 14. júní 1927
„Þá lít ég til baka á æskunnar ár,
á ævi hallandi degi,
mig viðkvæmni grípur, mér vöknar um brár,
ég veit ekki óðar en felli ég tár
og þögul mitt höfuð ég hneigi.“
Því skyldi ég ekki láta það eftir löngun minni að minnast þín með örfáum orðum, kæra vinkonan mín? Ætíð þegar ég hugsa um þig, koma fram í huga minn endurminningar löngu liðinna daga, atburðir frá æskuárunum, þegar við unnum verk okkar saman, hjálpuðum hvor annarri, glöddum hvor aðra og hryggð annarrar var hryggð beggja. Það var á vordögum ævi okkar, meðan við sáum framtíðina í ljósi gleðinnar og ljómandi vona og á meðan æskan og áhyggjuleysið lokuðu augum okkar fyrir öllum örðugleikum og stríði daglega lífsins. Þá bundum við, ef til vill óafvitandi, þau bönd sem aldrei slitna, bönd tryggðar og vináttu.
Svo komu fullorðinsárin. – Atvikin ollu því að við urðum að skilja návistum, svo að við gátum sjaldnar fundist, en hugurinn verður aldrei í fjötra færður og honum hamlar ekkert að leita þangað sem honum er ljúft að dvelja. Það gladdi mig að leiðir okkar lágu aftur saman og að við fengum aftur að dvelja svo að segja hlið við hlið. Þá gafst okkur tækifæri til þess að endurnýja æskuvináttu okkar. Mér virtist þú vera sama blíða og saklausa barnið sem öllum vildir gott gera. Aldrei vissi ég þig ánægðari en þegar þú miðlaðir öðrum, jafnvel af skornum skammti þínum. Gleði þín var að gleðja aðra. Fullorðinsárin höfðu lítið breytt þér að öðru en því að þú hlaust að taka þinn óskerta þátt í lífsbaráttunni, en studd af þínum ástkæra eiginmanni tókst þér að yfirstíga örðugleikana.
En svipleg umskipti svifta okkur oft möguleikunum til þess að ná að settu marki. Heilsan þín þraut en samt gat ég ekki ímyndað mér að við ættum að skilja svo fljótt aftur. Örlögin urðu að ráða og fyrr en ég bjóst við, fékk ég fregnina sem flutti mér harm og trega – þá fregn að þú værir horfin – dáin. Já þú varst horfin sýnilegum návistum en ávallt mun ég geyma minninguna um þig í huga mínum þar til við fáum aftur að sjást og þegar að því kemur að ég flyt mig héðan til þín, þá tak þú í hönd mína og leiddu mig inn á land friðar og sælu, þar sem þú unir nú í faðmi þíns ástkæra föður.
Helga Gunnarsdóttir1.
1 Helga í Garðshorni og Katrín á Efri-Rauðalæk voru æskuvinkonur eins og hér kemur fram. Ólöf móðir Katrínar hafði verið húsfreyja á Dagverðareyri þegar hún missti Jóhann mann sinn, föður Katrínar, en Ólöf giftist aftur og bjó á Dagverðareyri þegar Helga var í vist með Guðrúnu systur sinni í Glæsibæ þegar þær voru 13-15 ára og þá hafa þær kynnst. Þær voru síðan á nærliggjandi bæjum næstu árin þangað til Helga giftist Pálma og flutti í Garðshorn en Katrín giftist Haraldi og bjó með honum á Dagverðareyri þangað til þau fluttu í Efri-Rauðalæk og urðu nágrannar Helgu og Pálma í Garðshorni.
Sjúkrahúsi Akureyrar 28. nóvember 1927
Kæra Arnbjörg.
Innilega þökk fyrir síðast og sömuleiðis allt gamalt og gott.
Mér datt í hug að skrifa þér fáar línur því ég hef svo góðan tíma til að hugsa síðan ég lagðist þó mér gangi öllu verr að skrifa í þeim stellingum sem ég ligg. Héðan af sjúkrahúsinu er fátt að frétta, hér líður sjúklingi ekki sem verst eins og er og eru nokkrir sem líkur eru til að komist heilbrigðir héðan og aðrir sem bíða þess að leggja út í eilífðina ókunnu.
Það er sex manna stofa sem ég ligg á og eru allir hressir á henni nú. Ég er einna aumastur að því leyti að ég get ekki rótað mér. Tveir hafa dáið við hliðina á mér síðan ég lagðist, báðir úr krabbameini, sem er að verða algengur sjúkdómur. Annars hefur margt dáið hér á sjúkrahúsinu síðan í vor, t.d. stóðu uppi 7 lík hér einu sinni og dó þetta fólk á 8 dögum, flest úr tæringu.
Margrét á Grjótgarði er hér. Það er eitthvað að öðru auganu á henni. Hún hefur verið hálfslæm öðru hvoru en er hressari nú. María systir Margrétar er hér líka. Það er nýrnasig sem gengur að henni, var skorin upp í vor og saumað upp annað nýrað, fór af spítalanum en kom eftir nokkurn tíma og var skorin upp aftur og hitt nýrað saumað upp. Síðan hefur hún verið mikill aumingi og munu vera litlar líkur til hún fái heilsu.
Ólafur gamli „hálfblindi“ er hér1. Hann er hress en sjónlaus að mestu, hann býst við að verða hér í vetur. Hjörtur sér um kallinn, var búinn að reyna að koma honum fyrir annarstaðar en enginn vildi taka Ólaf svo Hjörtur kom honum fyrir hér. Ólafur kemur oft til mín því hér þekkir hann fáa og er hann þá vel fjörugur, minnist sinna afreka í æsku og er þá drjúgur yfir, t.d. þegar hann glímdi við 30 vegabótarmenn á Öxnadalsheiði og lagði þá alla. Þá hefði Jónasi heitnum í Hrauni líkað við sig.
„Einn af þessum sem ég glímdi við var bölvað illmenni og fól. Hann fór til Ameríku og var drepinn þar“, sagði Ólafur. Einu sinni sagði hann sem dæmi hve hann hefði verið duglegur sláttumaður að hann hefði slegið túnið á Bryta og bundið af því á einni viku „og var Tryggvi þá ánægður“. Guðrúnu missti hann í hitteðfyrra og harmar hann hana mjög, segir að hún hafi verið „besta kona og svo logandi skörp“. Ólafur talar mikið um Hjört, „blessunin hann Hjörtur minn“, „blessaður stúfurinn Kolbeins“ og er Hjörtur honum ágætur sonur.
Nýlega hef ég frétt af Steindóri og litlu Góu. Þau eru bæði frísk og leið öllu vel í Garðshorni. Sigurbjörg litla fékk kíghóstann fyrir 11 vikum og varð slæm en nú er hún orðin jafngóð að mestu.
Ég sendi Diddu litlu brúðu sem ég var búinn að lofa henni og mamma hennar sendir henni jólatréð og svo eru kerti og skraut. Jólatréð er frá í fyrra og fannst okkur best að láta Diddu hafa það því það verður líklega langt þar til þau geta horft á það öll. Ég ætla að biðja þig að sjá um að þetta eyðileggist ekki meðan hún hefur ekki vit á að fara með það sjálf. Það er ekki víst að ég hafi tækifæri til að gleðja hana eða þau fyrir næstu jól. Ég bið að heilsa Munda og bið hann að útbúa tréð, best að taka kertin sundur því þau eru of þung fyrir greinarnar sem eru bara úr vír. Svo fylgir toppur sem á að setja á það og annað skraut.
Það vildi ég að ég væri horfinn til ykkar en það líklega dregst eitthvað að ég geti komið. Ég kvíði fyrir jólunum. Ég held þau verði daufleg hér en það verður að taka því eins og það er. Ég á þann einn úrkost að láta hugann fljúga. Ég ætlaði að koma vestur í vetur og sjá ykkur, litlu Diddu mína, blessað litla barnið hans pabba síns, en ég verð að biðja þig að kyssa hana fyrir mig. Ég veit henni líður vel og hún hefur gleðileg jól eins og þau öll börnin og þá má ég vera rólegur. Það er viðkvæmt mál að flytja börnin sín burtu og kveðja þau þó þau fari í bestu staði en sárara er það þó að þurfa að segja þau til sveitar. En útyfir allt tekur er börnin þurfa að flækjast stað úr stað eftir því sem í þau er boðið. Umhugsunin um það mundi veita mér erfitt að leggja út í eilífðina. En ég vona að ekki komi til þess.
Kæra Arnbjörg, fyrirgefðu klórið. Líði ykkur öllum sem best. Gleðileg jól.
Kristfinnur Guðjónsson
1 Ólafur Jónsson (1854-1941) frá Halldórsstöðum í Bárðardal, bóndi m.a. í Fagranesi, Bláteigi og Dunhagakoti. Hjörtur sonur hans (1892-1984) fæddur í Varmavatnshólum var síðar kennari og verkamaður í Reykjavík og á Eyrarbakka. Guðrún kona Ólafs var Helgadóttir (1853-1926) fædd á Vöglum á Þelamörk.
Kristneshæli 28. desember 1927
Góða Arnbjörg mín!
Innilegt þakklæti fyrir síðast og allt gott, fyrr og síðar, gaman væri að geta komið vestur til ykkar og litlu Diddu minnar en það verður nú víst ekki fyrst um sinn. Ég er raunar orðin vel frísk, að mér finnst, en ég þarf víst samt að vera hér á hælinu til vors en það er nú ekkert með mig, ég er nú að verða góð, að minnsta kosti í bráðina, en aumingja Kristfinnur. Það lítur ekki vel út með hann. Hann þjáist að vísu ekki mikið en hann getur ekki nokkurn hlut hreyft sig. Hann er mjög alvarlega veikur en ég vona samt að honum batni með tímanum en það tekur máski af fleiri ár.
Ég sendi Diddu minni ögn af gottelsi. Ég hef eignast svo mikið af því um jólin að ég get sent þeim öllum svona kassa, ég veit það gleður þau. Það var talsvert mikið um að vera hér um jólin, fimm stór jólatré, eitt í dagstofunni fyrir okkur fótaferðarsjúklinga og fjögur inná stofum fyrir þá sem ekki máttu eða gátu klætt sig. Það eru nær 50 sjúklingar hér á hælinu og af þeim eru rúmlega 20 á fótum. Af hinum eru sumir mikið veikir, enginn hefur enn dáið en hér eru samt nokkrir sem að mér sýnast stefna aðeins að því marki.
Það var kveikt á jólatrjánum öll jólakvöldin og á meðan lifði á þeim. Það er að segja meðan lifði í dagstofum. Gengum við öll í kringum tréð og allir sungu sem gátu og var spilað undir á orgel. Svo messaði séra Friðrik Rafnar hér á annan og kirkjusöngflokkurinn frá Akureyri kom og söng. Svo kom Arthur Gook hér í gærkvöld og sýndi skuggamyndir. Okkur þótti nú þetta mikið gaman því annars er ekki mikið um breytingar hjá okkur dag hvern, höfum lítil frí. Við höfum nóg að gera að fylgja reglunum, ýmist ganga eða liggja í poka, þrjár umferðir á dag. Við fáum ½ tíma frí um miðjan daginn og 1 og ¼ tíma á kvöldin eftir mat og þangað til að við eigum að hátta. Landlæknirinn sagði í haust í ræðu sem hann hélt hér að sjúklingarnir ættu að vinna ögn ef að þeir væru svo frískir. Þú hefur máski séð það í blöðunum í haust, eins og svo margt sem skrifað var um Kristneshælið um þær mundir.
Ég var nærri strax látin ögn gera 3 tíma á dag við að sauma legupokana sem við liggjum í úti í skálanum og var annar sjúklingur með mér við það. Svo er það nú fyrir nokkru búið og nú er ég að sauma ýmislegt smálegt fyrir hælið og hugsa ég að það verði eitthvað til handa mér í allan vetur því hér er lítið um starfsstúlkur.
Kæra Arnbjörg mín, gaman væri að fá bréf frá ykkur og fréttir að vestan, af gömlu kunningjunum. Vertu blessuð og sæl, góða Arnbjörg mín, Guð gefi ykkur gott og gleðilegt nýtt ár. Hjartans þakklæti fyrir gamla árið.
Kristín Gísladóttir.
Garðshorni 22. febrúar 1928
Kæra frænka!
Ég ætla að pára þér fáeinar línur af því við vitum um góða ferð til að senda bréf með. Mér dettur í hug að ykkur þætti gaman að frétta eitthvað lítilsháttar af okkur. Af okkur hér í Garðshorni er ekki að frétta neitt nýtt, heilsufar og líðan líkt og verið hefur. Amma er alltaf þetta svipuð, klæðir sig sjaldan og líður alltaf hálf illa. Verst er þó að þessi deyfandi meðul sem hún alltaf brúkar eru ekki farin að hrífa eins og var. Annars er engin breyting sjáanleg að minnsta kosti fyrir þá sem alltaf sjá hana daglega.
Allir aðrir eru frískir eftir hætti, Steindór litli biður að heilsa Diddu sinni. Hann er allra mesti ærslakálfur og er til í flestar svaðilfarir en fremur þrár og keypóttur þegar því er að skipta. Ég veit ekkert nýtt að frétta af þeim foreldrum hans. Margrét á Grjótgarði fór heim fyrir jólin. Var hún þá á góðum batavegi og er nú orðin jafngóð í auganu eins og hún var áður.
Það gekk allt til baka með kaupin á Grjótgarði1 eins og þau hefðu aldrei verið gerð og líklegt að þetta fólk fari þaðan í vor en hvert? Það veit ég ekki. María systir Margrétar var lifandi seinast þegar ég vissi en alltaf að draga af henni2.
Verstu fréttirnar eru frá Bryta. Skeð getur að þú hafir frétt af því en samt ætla ég að skýra þér frá því svo greinilega sem ég get frá byrjun. Það mun hafa verið um hálfan mánuð fyrir jól að Jóhanna var einn dag að þvo þvott. Fór hún út heit og sveitt með bert höfuðið en vel búin að öðru leyti og fór að þvo föt í læknum. Mun henni hafa orðið kalt á höfðinu og um kvöldið varð hún lasin og veiktist þar á eftir en aldrei mjög mikið, t.d. hafði hún mjög lítinn hita en var mjög máttfarin og niðurdregin, fann til sárinda og verkja í höfðinu og hálstaugunum, þoldi ekkert rót eða hávaða. Fljótlega var farið til læknis og kallaði hann þetta taugabólgu og lét meðul. Eftir nokkra daga fór heldur að draga úr þessu en fór afskaplega hægt. Hún hefur alltaf brúkað meðul síðan en enn er hún þó svo að hún þolir ekki að sitja uppi nema örlitla stund í einu. Þó hefur hún farið í föt flesta daga nú upp á síðkastið og hefur hún frekar styrkst fyrir það. Nú á helst að fá lækni fremeftir það fyrsta ef ske kynni að honum sýndist að breyta um meðul eða meðferð að einhverju leyti.
Nú hef ég sagt þér það helsta sem ég man eftir að þér þætti gaman að heyra. Það er búist við ábúendaskiptum á Efri-Rauðalæk. Þangað fer í vor Marinó3 sonur Benidikts hreppstjóra á Moldhaugum. Líka hef ég heyrt að Jóhanna4 í Bakkaseli fari þangað annaðhvort í húsmennsku eða þá með einhver ítök.
Ég má til að biðja þig að fyrirgefa þetta bréf sem allt er í molum og illa samið. Það biðja allir að heilsa á þitt heimili.
Vertu svo blessuð og sæl og líði þér ætíð vel, þess óskar
Frímann Pálmason
Steindór litli sendir Diddu sinni myndirnar. Hann hefur teiknað þær sjálfur uppúr bók.
1 Af þessu má líklega ráða að Margrét hafi reynt að kaupa Grjótgarð en kaupin gengið til baka. „Þetta fólk“ er sennilega Margrét og börn hennar 4
2 María dó 7. 9. 1928
3 Jón Marinó Benediktsson (1897-1968) síðar sparisjóðshaldari í Glæsibæjarhreppi
4 Jóhanna þessi hefur ekki verið færð til bókar í Bakkaseli.
Garðshorni 10. okt. 1928
Kæra frænka.
Í flýti hripa ég þér nokkrar línur til þess að láta þig vita um ástæðurnar hér. Það er þá fyrst að segja þér lát ömmu minnar, hún dó síðastliðinn mánudagsmorgun, þann 8. þ.m. og veit ég að þér muni ekki koma það á óvart þar sem þú rétt áður fréttir um líðan hennar. Jarðarförina höfum við ákveðið á laugardag 20. þ.m.
Ég skrifa svo ekki frekar um þetta af því ég vona að þú og þitt fólk komið á hinum tiltekna tíma eða fyrr ef svo stendur á. Þetta verður auglýst í blaði og eru allir velkomnir.
Við erum óðum að ná okkur eftir inflúensuna og vona ég að við verðum bráðum jafngóð.
Ég hef von um að geta komið bréfinu áleiðis í dag með Agnari Jónssyni1, fyrr var það ekki hægt.
Vertu svo best kvödd af þínum frænda
Frímann Pálmason.
1 Agnar Jónsson (1907-1974) var sonur Jóns Ólafssonar sem bjó um tíma á Ytri-Bægisá. Agnar var ókvæntur ábúandi í Skógum 1931-1932. Var síðar bústjóri á Seljalandi í Skutulsfirði.
Kirkjubæ 7. júlí 1929
Kæra vina mín!
Ég ætla að rissa þér fáar línur fyrst ég fæ góða ferð og ef að þú hefðir nokkuð gaman af því, en það er verst að ég er farin að skrifa svo illa og er orðin svo pennalöt. Eins og þú sérð er ég komin hingað. Ég fékk hér húsmennsku með Ástu litlu og verð hjá Benedikt1 í vor og sumar. Ekki get ég sagt að ég kunni vel við mig hér. Ég vildi ekki vera á Grjótgarði þó mér stæði það til boða. Þú hefur kannski heyrt að gamla Vaglafólkið flutti þangað í vor. Það var allt komið í bál og brand milli þess á Vöglum og rak Sigmundur2 Sigurgeir í burtu af jörðinni og láðu flestir honum það. Það var sagt að það væri mest á milli þeirra Ólafar og Snjólaugar. Sigurgeir er orðinn mesti ræfill, hálfblindur. Guðrún dóttir hans dó á hælinu í vor og svo fór Sigríður systir hennar í plássið hennar á hælið. Ólöf litla er með berkla og lá lengi í vetur og vor en er nokkuð frísk nú og eins Leonharð. Hann er nokkuð brattur. Það á bágt, aumingja fólkið.
Jóhanna á Bryta er langt frá því að vera frísk, alltaf slæm í höfðinu, var þó mánuð innfrá í vor undir læknishendi en hún er samt á fótum og gerir töluvert en er alveg frá á hverju kvöldi. Jórunn3 gamla sem var kaupakona í Garðshorni einu sinni, verður þar í sumar. Anna mín ætlaði að verða þar í sumar en hún veiktist í vor og lá þar í mánuð svo það þorði ekki annað en að fá sér aðra stúlku. Anna er komin til mín og verður hér í sumar. Hún er alltaf að frískast og vona ég að hún fái heilsu svo hún geti unnið. Læknir sagði það vera „bronkítis“ sem að henni gekk.
Það gengur vel í Garðshorni víst. Litli drengurinn hans Manna4 var tekinn heim í vor en Magga fór í vist inn á Akureyri og sagt er að hún sé að dalla þar við strák. Allir héldu að Steindór ætti barnið en það var ekki. Mikið þótti þeim þetta leiðinlegt í Garðshorni. Það var ekki með sjálfu sér. Þau hafa bæði sagt mér það hjónin að þau hafi ekki notið svefns eftir að þau vissu hvernig komið var en mest fékk það á aumingja Manna. Hann var alveg eyðilagður um langan tíma en nú er hann að ná sér aftur og er nú venjulega glaðlyndur eins og áður en ekkert held ég honum þyki gaman af að vera með son sinn.
Ég sá að mamma hans fékk honum drenginn einu sinni er ég kom þar og sýndist mér hann verða æði undirleitur og ekkert reyna til að láta hann þegja þó hann væri að skæla. Barnið er líkt í hennar ætt, ekkert líkt í hans ætt. Mér þykir hann ekki fríður en hann er skynugur og heldur skemmtilegt barn og ég er viss um að afa og ömmu þykir vænt um hann.
Ég er búin að láta setja legstein á leiðið hans Frímanns sáluga og setja stakketi í kringum leiðið hans og mömmu þinnar sálugu5. Steindór í Garðshorni gerði það fyrir mig. Steinninn kostaði með áletrun 75 kr.
Guji minn er alltaf í París6 og hefir nú 185 kr. um mánuðinn. Bogga er kaupakona á Vöglum hjá Sigmundi og líkar ágætlega. Vilborg gamla er í Garðshorni.
Ég má til að hætta því Þorsteinn gamli er að fara. Hann ætlar vestur að Silfrastöðum. Ég vona að þú fáir þetta bréf. Góða fyrirgefðu þetta flýtisklór og Anna mín biður að heilsa. Vertu svo blessuð og sæl og líði þér og þínum ætíð vel.
Þess óskar þín einlæg vina,
Margrét Jónsdóttir
1 Benedikt Einarssyni söðlasmið, f. 4.1.1879, sem bjó á Ytri-Bægisá á móti prestinum frá 1916 og síðan í Kirkjubæ eða Bægisá II frá 1938 til dauðadags 4.1.1959.
Fyrst eftir að Ytri-Bægisárjörðinni var skipt og þar rekin tvö bú, var talað um þrjá bæi, Ytri-Bægisá, Kirkjubæ og Húsá. Ytri-Bægisá var aðsetur prestsins í timburhúsi sem byggt var rétt vestan við kirkjuna þar sem bílastæðið við kirkjuna er núna. Kirkjubær kölluðu menn gamla íbúðarhúsið á prestsetrinu en það stóð 50-100 m norðan við nýja húsið. Húsá kölluðu menn svo nýbýlið sem síðan hefur staðið niður við þjóðveginn áður en hann færðist niður á Hörgárbakka. Síðar hófust opinber afskipti af bæjarnöfnum og eftir það skyldu bæirnir heita Ytri-Bægisá I og II. Benedikt söðlasmiður bjó fyrst í Kirkjubæ en fluttist síðar niður í Húsá/Bægisá II (Eftir Sigurði Sigmarssyni frá Hamri).
2 Sigmundur Jónsson f. í Fornhaga 1903 og Snjólaug Benediktsdóttir f. á Moldhaugum 1904. Þau bjuggu á Vöglum 1927 – 1934.
3 Jórunn gamla hefur ekki komist á skrá í Garðshorni. Ekki hefur reynst auðvelt að greina um hvaða konu var að ræða. Hvenær gæti sú kona hafa verið fædd sem var kölluð Jórunn „gamla“ árið 1929? Helst berast böndin að Jórunni Jóhannsdóttur sem var vinnukona hjá Friðbirni í Staðartungu 1920. Hún fæddist 1868 samkvæmt manntalinu og var því rúmlega sextug 1929 en Íslendingabók segir hana fædda 1864. En Jórunn kemur ekkert meira við sögu svo að þetta skiptir ekki máli.
4 Kristján Frímannsson f. 30. 11. 1928 á Sjávarbakka. Magga var móðir hans, Margrét Sigurrós Sigfúsdóttir (1896-1972) frá Sjávarbakka í Arnarneshreppi. Hún tók síðar saman við Guðjón Manasesson, föður Kristfinns, eftir að hann skildi við Rósu, móður hans.
5 Frímann var jarðaður á Bægisá og þar er steinn á leiði hans. Margrét lét hins vegar jarða sig á Möðruvöllum enda kunni hún aldrei vel við sig þar frammi í dalnum. Lengi vel var steinrammi kringum leiði Steinunnar og Frímanns í Bægisárkirkjugarði en nú hafa afkomendur þeirra sett legstein á leiðið með nöfnum Steinunnar, Guðmundar og Frímanns.
6 Guðmundur Frímannsson hefur greinilega unnið í versluninni París þar sem nú er kaffihúsið Bláa kannan.
Neðri Rauðalæk 30. nóvember 1929
Elskulegi vinur1!
Ég býst frekar við að þú sért orðinn úrkula vonar um að ég muni skrifa þér. Þar sem nú er á annað ár komið síðan þú sendir mér bréf og sem ég þakka þér kærlega. Ætla ég ekki að afsaka drátt þann en get að einhverju þess sem á daga mína hefir drifið nú síðustu tíma um leið og þú sérð að ég er þó lifandi, þrátt fyrir allt.
1. apríl sl. vorum við tveir félagar af sjúkrahúsinu hér sendir suður í Landakotssjúkrahús í Reykjavík. Gekk okkur ferðin vel suður þó sjósótt væri dálítil og komumst við heilu og höldnu til hins fyrirheitna staðar. Lentum við þarna á Landakoti meðal heilagra nunna („systra“) og undum allvel hag okkar, þrátt fyrir íhald og afturhald sem þar er ríkjandi meðal hinna ströngu, öldruðu systra. Vil ég geta sem dæmi um hinar fornu venjur sem þar ríkja að skammtað er í skálum sem í gamla daga og er t.d. kjöt, kartöflur, sósa og súpa allt borið í sömu skálinni og verður hver að færa upp úr sjálfur á disk sem þó fylgdi. Þótti okkur það kátleg framreiðsla á sjúkrahúsi í höfuðstað landsins.
Ég fór suður til að vera í rafurmagni hjá Jóni Kristjánssyni nuddlækni sem hefir sérstakt áhald sem nefnt er Diatermi og hvergi er til annarstaðar á landinu (eign ríkissjóðs). Var mér ekið til Jóns um hálfan mánuð fyrst en að þeim tíma liðnum fór ég að labba. Var skammur vegur frá sjúkrahúsinu til Jóns. Er skemmst frá því að segja að hjá Jóni var ég nærri sex mánuði og hafði þá fengið töluverða bót á hryggveiki minni þó hvergi væri ég góður og þyldi engar misfellur. En sérfræðingar álitu að ekki hefði þýðingu að vera lengur að svo stöddu en sögðu að ég þyrfti að koma aftur í vor. En ekki veit ég hvort það getur orðið því kostnaður er geysimikill, nær 10 kr. á dag.
Er ég fór að hressast, reyndi ég að sjá hið markverðasta sem var að sjá. Kom ég í þingsali og hlustaði á þingmenn tala en fremur fannst mér þeir vera daufir og áhugalausir, persónulegir í ræðum og fjarri málefnunum og fannst mér ærið lítil helgi hvíla yfir störfum þeirra. Vildi sækja svefn á suma undir umræðum og sá ég einn velta út af (Héðin). Á öll söfn fór ég (landsbókasafn, náttúrugripasafn, fornminjasafn, listasafn Einars og málverkasafn ríkisins). Var það bæði skemmtilegt og fróðlegt og gæti maður töluvert um það sagt ef ekki yrði of langt mál. Út úr Reykjavík fór ég töluvert, t.d. tvisvar til Hafnarfjarðar. Einkennilegur, ævintýralegur bær, byggður í hrauni, skipulagslaus og eru húsin hér og þar eins og tilviljun hafi ráðið og ná sumstaðar hraundrangar hærra húsþökum. Að Vífilsstöðum kom ég þrisvar. Myndarbragur er þar á öllu, vel ræktað land og byggingar prýðilegar og sést þar best hvað má gera landi til góðs ef nægilegt fé er fyrir hendi. Á Vífilsstöðum kunna flestir vel við sig og kemur sér vel því margir verða þar að dvelja. Sá ég þar Ingveldi frá Þorleifsstöðum. Liggur hún alltaf rúmföst og sjálfsagt ekki um bata að ræða. Sömuleiðis sá ég þar Þórnýju frá Uppsölum fyrst er ég kom þar en var dáin er ég kom þar næst.
Að Kleppi kom ég tvisvar. Fannst mér sá staður ömurlegur með öllum þeim fjölda geðveikra sem þar búa innan luktra dyra en fagurt var að sjá yfir að Viðey. Langaði mig þangað út en varð aldrei af.
Lengi hafði vakað fyrir mér að komast til Þingvalla áður en ég færi norður og varð af þeirri för í ágúst. Fórum við 3 sjúklingar af Landakoti. Fengum við fagurt veður og góða bifreið og vorum í léttu skapi er við ókum niður í Almannagjá eftir 1 ¾ kltm. akstur úr Reykjavík. Stigum við hið bráðasta úr bifreiðinni er til Þingvalla kom og lögðum af stað með nesti og gamla skó yfir hraunið með Flosa- og Nikulásargjá og upp að Öxarárfossi þar sem etið var og drukkið. Síðan var haldið á Lögberg. Viðstaða á Þingvöllum voru 6 kltm. og nutum við hins fagra veðurs og útsýnis í ríkum mæli. Streymdu minningarnar um hinn fornfræga stað fram í hugum okkar. Andar hinna horfnu hetja sveimuðu yfir vötnunum. Heim fórum við eftir að hafa drukkið kaffi í Valhöll með fagrar endurminningar frá þessum degi. Verða þær ógleymanlegar.
Umrót var mikið á Þingvöllum vegna hinnar væntanlegu þjóðhátíðar næsta ár. Á ekkert til að spara að mannfagnaður geti orðið þar sem bestur en trúað gæti ég að þar yrði gleðinni misskipt sem víðar. Ég hef heyrt að Húnvetningar og Skagfirðingar ætluðu ríðandi á Þingvöll. Þá verður tekið í nefið og kveðið. Ætlið þið ekki að fara frá Bólu?
Myndir tók ég af ýmsu fyrir sunnan, bæði á Þingvöllum, Hafnarfirði, Vífilstöðum, Kleppi og mörgu í Reykjavík, bæði einstökum húsum, landslagi, fólki og ýmsu öðru svo sem kardinála, sauðnautum, biskupsvígslu og kirkju o.fl. Seldi ég mjög mikið af myndum og hafði töluvert fyrir, t.d. seldi ég 400 myndir af Matthíasi Einarssyni aðallækni Landakoti. Á ég heilmikið myndasafn sem ég gæti sýnt þér ef þú heimsækir mig.
Er ég hafði dvalið nær sex mánuði í Reykjavík kvaddi ég þann góða stað. Hafði mér liðið þar vel og kynnst mörgu góðu fólki sem gott er að minnast. Fór ég með „Dr. Alexandrine“ og varð mér samskipa til Ísafjarðar Frímann Jónasson frá Kotum sem nú er kennari á Akranesi. Var hann að flytja Þóreyju móður sína til Rögnu2 og Guðna Bjarnasonar „snikkara“. Eru þau gift og búa í myndarlegu húsi á Ísafirði (sem þau eiga sjálf) (Ragna er systir Frímanns). Ég dvaldi heilan dag hjá Guðna og Rögnu í sóma og yfirlæti. Létu þau mig hafa bílferð fram í skóg sem er nokkuð fyrir innan kaupstaðinn og fóru þau með mér, Ragna og Frímann. Þetta fólk bað mig bera kveðju til Skagafjarðar.
Er til Akureyrar kom þóttist konan og kunningjarnir mig úr helju heimt hafa. Varð ég nú að útvega mér herbergi þar sem að ég var útskrifaður af sjúkrahúsi. Fékk ég að síðustu stofu hjá Soffíu Sigurjónsdóttur nuddkonu og kostar það kr. 15.00 á mánuði með ljósi. Fæði hefi ég að mestu á sjúkrahúsinu. Ætlaði ég að komast að við myndagerð hjá einhverjum myndasmiðanna en gat ekki því nóg fólk höfðu þeir en lítið að gera á þessum tíma árs. Hafði ég verið á myndaverkstæði fyrir sunnan síðustu 2 mánuðina 3 – 4 kltm. á dag. Er ég komst ekki að við myndagerðina, fór ég fram á Þelamörk að finna Steindór og í þeirri för réði ég mig fyrir barnakennara á Neðri-Rauðalæk og Garðshorni og er ég búinn að vera á Rauðalæk um 3 vikur en er á förum upp í Garðshorn og verð þar til jóla. Hefir Steindór gengið ofan eftir og ganga svo stúlkurnar héðan uppeftir. Verð ég janúarmánuð á Neðri-Rauðalæk og febrúar – mars á Syðri-Bægisá ef heilsan leyfir. Lengra sé ég ekki fram í tímann. Er ég Guði þakklátur að geta unnið fyrir fæði, hættur að fara fram á meira.
Jæja, kæri vinur, þarna sérðu hvernig sakir standa. Heilsa okkar Kristínar er sæmileg eins og er en hvað framtíðin felur í skauti sínu er manni hulið. Ég bið þig fyrirgefa klórið, skrifa það er ég er háttaður og s... á efninu. Bið ég þig skila kærri kveðju til allra hjá þér og segðu Munda að ég skrifi honum næst. Óska ég svo ykkur öllum gleðilegra jóla, þinn einlægur vinur
Kristfinnur.
1 Þetta bréf er líklega til Gunnars í Bólu.
2 Ragna hét reyndar Ragnheiður Jónasdóttir (1904-1991). Hún fæddist á Fremri-Kotum, var systir Ólínu Kristrúnar sem skrifaði æskuminningar sínar í bækurnar „Ég vitja þín æska“ og „Ef hátt lét í straumnið Hérðasvatna“. Bræður Ragnheiðar voru m.a. rithöfundarnir Hallgrímur og Frímann.
Laugalandi 28. desember 1935
Kæra góða Arnbjörg mín!
Það er langt síðan að ég hugsaði mér að skrifa þér nokkrar línur, þó að mig minni að ég eigi bréf hjá þér en ég býst við að þig langi til að frétta eitthvað úr gömlu átthögunum en vandinn er að vita hvað þú vildir helst heyra. Ég ætla að byrja á mér og mínum, þar er ég kunnugust. Ég hef bærilega heilsu, þó er ég farin að verða hálfónýt að vinna erfiða vinnu. Ég er alltaf á sumrin hjá Einari1 frá Krossmessu og fram yfir veturnætur og er við bæjarstörfin og hef 200 kr. fyrir allan tímann og þykir sumum það lítið kaup en Einar er mér og mínum vænn og ég er ekki neitt óánægð við hann. Verst þótti mér að þurfa að bera allt vatn í bæinn en nú er komin vatnsleiðsla og það er mikill munur. Ég fékk vatn inn til mín líka og kostaði það 50 kr.
Þorleifur2 og Bogga mín eru hér hjá mér í húsinu núna, komu hingað í fyrrahaust. Þau eiga 2 börn, stúlku á sjötta ári og dreng sem verður ársgamall 10. febrúar í vetur. Stúlkan heitir Áslaug en hann Einir Bjarklind. Bogga mín lá nærri 3 vikur í vetur í brjósthimnubólgu en er nú að hressast aftur, þó finnur hún til þrautar enn. Þau eru nú fátæk, Þorleifur hafði litla atvinnu í sumar og er svo heima í vetur.
Guðmundur minn er á kennaraskólanum. Þetta er 3. veturinn og síðasti, ég verð fegin þegar hann er laus við skólann því það hefur oft verið örðugur fjárhagur hans. Hann hefur verið á sjónum á sumrin en hann hefur brugðist og aflinn orðið lítill, t.d. í sumar var hann á síldarskipi og hafði 240 kr. frítt yfir sumarið og höfðu þó margir miklu minna og sumir ekki neitt. Ég hef reynt að hjálpa honum það sem ég hef getað en hann hefur samt þurft að taka lán. Það er dýrt að lifa í Reykjavík þó reynt sé að lifa sparlega og farið margs á mis. En nú er um að gera að fá svo eitthvað að gera sem gefur eitthvað í aðra hönd þegar hann er búinn en ég held að hann sé ekki nógu duglegur að bera sig eftir atvinnu og svo eru ótal margir um hverja stöðu sem losnar. Það eru 70 nemendur á skólanum í vetur. Anna mín er fyrir sunnan líka, fór suður í haust í vetrarvist. Hún hefur það ágætt þar, hefur 30 kr. á mánuði og frítt sérherbergi og frían kvöldmat því hún vinnur bara hálfan daginn. Hún sagði mér að hún væri að læra að sníða og taka mál á verkstæði þar sem það er kennt, seinnipart dagsins. Það er kaupmaður3 sem hún er hjá og hann er giftur Sigríði dóttur Margrétar afasystur minnar sem enn lifir fjörug og ern þó hún sé komin hátt á níræðisaldur. Guji minn skrifaði mér að það líkaði ágætlega við Önnu enda er hún orðin fær í sér.
Ásta mín var fermd í vor, hún er nú á Möðruvöllum hjá presthjónunum en er heima 3. hverja viku. Ég tímdi ekki að lána hana í burtu í allan vetur því mér leiðist þegar hún er ekki heima. Hún hefur verið mér sólargeisli á raunastundum mínum. Hún er með litla drenginn presthjónanna en annars er hún hér hjá Einari á sumrin. Hún sendir þér mynd af sér í fermingarkjólnum ef þú hefðir gaman af að eiga hana. Hér er alltaf sama fólkið, Kristján gamli og Dísa hans sem er nú ráðskonan á veturna. Þú kannast við þau og svo er Svava4 hálfvitinn. Karitas er á spítalanum síðan í vor að hún lærbrotnaði, valt af stól í eldhúsinu ofan á steingólfið, hún er á níræðisaldri og er alltaf síðan hálfgerður ræfill, getur víst aldrei framar gengið neitt. Það er ekkert spaug að fást við Svövu því ekki fer hún batnandi. Svo er Siggi gamli snari, sem kallaður er, hér fjármaður í vetur en Sláni er fjósamaður og ráðsmaður (ég hef Einar og þá bræður í þjónustu og Svövu).
Einar er við kennslu eins og vant er. Þeir bræður mínir eru hér til heimilis en eru hingað og þangað við smíðar. Árni hefur verið í Steinkoti að smíða steinhús á bænum og svo fara bændurnir á höfuðin á eftir og mega hrökklast frá jörðunum. Þú hefur víst ekki komið í Garðshorn síðan byggt var þar, það er nú myndarlegt hús og þú þarft ekki að vera hrædd um að frændur þínir fari um koll þó þeir hafi byggt stórt steinhús – það eru nú piltar í krapinu og Helga gamla er alltaf eins, síhlaupandi um húsið og sívinnandi eins og ævinlega. Það er verið að byggja á Hamri, Guðrún kona Rósants er nýdáin en þau búa systkinin. Þeim líður víst bærilega á Bryta, Jóhanna er betri að heilsu nú en áður.
Mér þykir verst að vita ekki af hverjum þú vildir helst frétta hér um slóðir. Þú gætir nú sem best skrifað mér línu og sagt mér það og þá reyndi ég að fræða þig. Þú kemur aldrei norður þó þú eigir son sem er bílstjóri og er stundum á ferðum hér. Það er orðið svo óttalega langt síðan að við höfum sést. Haraldur frændi þinn í Ameríku og ég höfum til margra ára skrifast á, alltaf síðan mamma þín sáluga var hjá mér því þá skrifaði ég honum fyrir hana en hann er nú blindur og skrifar sonur hans fyrir hann og biður mig að skrifa pabba sínum meðan hann lifir því honum þykir vænt um að fá bréf að heiman. Hann er hjá Fríðu dóttur sinni. Hún er gift og á tvær stúlkur. Ég er nýbúin að fá bréf og sendi hann mér litla mynd af sér og litlu stúlkunum. Hann situr á tröppunum á húsinu á milli þeirra, blessaður gamli maðurinn. Hann segist alltaf spinna og prjóna. Hann sendi Ástu minni 5 dollara í vor sem gerði 21 kr. hér og sagði að hún ætti að kaupa sér eitthvað til fermingarinnar.
Jæja, kæra vinkona, ég fer að slá botninn í þetta bréf og bið þig að fyrirgefa hvað það er ómerkilegt. Þú verður að taka viljann fyrir verkið.
Ég bið kærlega að heilsa þeim feðgum og óska ég ykkur gleðilegs nýárs. Vertu svo ævinlega blessuð og góður guð annist þig og þína. Það mælir þín einlæg
Margrét Jónsdóttir
1 Einari G. Jónassyni kennara og hreppstjóra á Laugalandi.
2 Þorleifur var bróðir Herberts Sigurbjörnssonar, föður Unnar á Bægisá.
3 Margrét Einarsdóttir afasystir Margrétar fæddist 4.4.1849 á Laugalandi og dó 22.3.1950 í Reykjavík og átti því talsvert eftir enn.
4 Svava Þorsteinsdóttir (1886-1968) skráð fáráður í kirkjubækur.
Laugalandi 30. apríl 1936
Kæra Arnbjörg mín.
Ég þakka þér innilega fyrir bréfið þitt sem ég fékk mð góðum skilum. Árni bróðir bað mig að skila til ykkar að hann sagðist ekki búast við að geta komið vestur fyrir tímaleysi fyrr en þá seinna í vor að bílar færu að ganga. Hann er nú inná Sólborgarhóli að mála þar húsið sem byggt var í fyrrasumar.
Héðan er ekkert að frétta að ég man. Pálmi bróðir þinn kom hér nýlega, hann kom bara að gamni sínu og fór upp í Grjótgarð1 líka. Hann fer sjaldan langt, sagðist tvisvar hafa komið út í Bryta í vetur.
Gamli Sigurgeir á Grjótgarði liggur alltaf í rúminu, blindur og holdsveikur, og svo er nú Leonharð heilsulaus eða getur lítið gert og Ólöf2 gamla er orðin bjálfi til heilsunnar.
Steini er búinn að kaupa ósköpin öll af heyi í vor. Hann varð heylaus svo snemma og svo missti hann annað hrossið sitt ofan í hér í vor, fylfulla hryssu, svo að það leikur ekki lánið við fyrir því. Halldór á Tréstöðum hættir að búa í vor en Steindór Pétursson3 í Samtúni fer í Tréstaði. Heyrt hef ég að Karl í Myrkárdal fari að Vöglum, ég veit ekki fyrir víst hvert Hermann fer, hann er nú alveg kominn um, á ekkert nema skuldir. Það þykir hér með tíðindum að Ragnhildur á Skjaldarstöðum4 er í þann veginn að verða móðir og að faðirinn er Ragnar á Hallfríðarstaðakoti. Hann er bóndinn þar, það hefur verið vingott með þeim undanfarið.
Ég held að þú ættir að fara til læknis með brjóstið á þér5 ef þér batnar ekki í því, áður en það er orðið um seinan. Anna mín kemur ekki að sunnan í vor en ég á von á Guja bráðum, hann er búinn að taka próf með 1. einkunn.
Þau Þorleifur og Bogga verða líklega hér, Þorleifur hefur verið nú um 8 vikur hjá Einari við skepnuhirðingu (fjósið og hestana) og nú líka við féð síðan Siggi gamli fór. Kristján gamli hefur verið ræfill nú lengi og gerir heldur ekki nema það sem honum gott þykir. Ég býst við að við Ásta förum til Einars um Krossmessu.
Ég held ég fari nú að slá botninn í þetta ómerkilega bréf og bið þig að taka viljann fyrir verkið. Ég bið að heilsa þeim feðgum. Svo kveð ég þig, góða vina mín, og bið Guð að annast þig og þína, það mælir þín einlæg
Margrét Jónsdóttir
1 Fór Pálmi að hitta Aðalstein Sigurgeirsson bónda þar eða Sigurgeir föður hans eða fór hann bara til að líta á æskustöðvarnar? Sigurgeir var giftur Ólöfu Manasesdóttur.
2 Ólöf Rósa Manasesdóttir (1866-1937), kona Sigurgeirs, var föðursystir Kristfinns Guðjónssonar. Sigurgeir var holdsveikur og dvaldi um tíma fyrir sunnan á sjúkrahúsi og þá bjó Ólöf ein á Vöglum á meðan. Aðalsteinn sonur þeirra (1900-1966) bjó á Grjótgarði 1930-1946. Hann bjó einnig síðar í bretakofa í Skógum. „Steini fíni“ kom oft í Garðshorn síðustu árin og var þá orðinn mjög boginn í baki og skjálfhentur. Hann var ókvæntur og barnlaus. Leonard var bróðir hans.
3 Steindór var afi Úlfars Haukssonar framkvæmdastjóra Kaffibrennslu Akureyrar, fjármálastjóra Háskólans á Akureyri og formanns Rauða krossins
4 Ragnhildur (1898-1952) var systir Aðalheiðar ljósmóður á Barká. Hún tók Steindór Valberg Kristfinnsson í fóstur eftir að hann fór frá Garðshorni. Ragnhildur fæddi sveinbarn sem var Baldur Ragnarsson bílstjóri á Akureyri.
5 Hér er Bogga komin með krabbamein í brjóst. Arnbjörg Guðmundsdóttir í Bólu lést 19. nóv. 1938 57 ára að aldri.