Karítas Skarphéðinsdóttir
Karítas Skarphéðinsdóttir fæddist í Æðey eins og eldri systur hennar en þar voru foreldrar hennar í húsmennsku. Þegar manntalið var tekið síðla árs 1890 voru Skarphéðinn og Petrína komin í Laugaból með Friðgerði og Karítas hjá sér og það staðfestir prestþjónustubókin í Ögurþingaprestakalli í skrá yfir innflutta í sóknina. Petrína Ásgeirsdóttir, móðir Karítasar, lést þegar Karítas var 10 mánaða gömul. Því hefur líka verið haldið fram að Petrína hafi látist af barnsförum en hún dó meira en 10 mánuðum eftir að Karítas fæddist þannig að það getur varla staðist. Karitas hefur líklega verið fóstruð á Laugabóli eða á næstu bæjum – en ekki í Æðey eins og haldið hefur verið fram. Hvorki Karitas né Friðgerður, systir hennar, eru í sóknarmannatali Ögursóknar í árslok 1890 og Friðgerður er ekki heldur skráð í sóknarmannatali hjá afa sínum á Látrum í Vatnsfjarðarsókn en þó er vitað að hún fór þangað í fóstur og þar er hún skráð í árslok 1891. En í sóknarmannatalinu 1891 er Karítas skráð til heimilis hjá föður sínum á Laugabóli.
Skarphéðinn giftist fljótlega á ný Pálínu Árnadóttur frá Hænuvík í Barðastrandarsýslu og hjá þeim var Karítas alin upp fram að fermingu ásamt Petrínu systur sinni og síðar yngri bræðrum og Önnu, alsystur Karítasar. Fyrst voru þau í húsmennsku í Hagakoti í Ögursveit en fluttust að Laugabóli í Laugardal 1893 þar sem þau voru til 1898. Árið 1898 flutti fjölskyldan í Efstadal í Laugardal og þar bjuggu þau til 1904. Flutningur á milli staða átti eftir að einkenna allt lífshlaup Karítasar upp frá þessu eins og glöggt kemur fram í ritgerð Karítasar Skarphéðinsdóttur Neff um ömmu sína en ritgerðin birtist í safni sem gefið var út á vegum Háskóla Íslands ásamt sex öðrum ritgerðum undir nafninu „Lífshættir íslenskra kvenna“ og var síðan birt í Árbók Sögufélags Ísfirðinga 2010. Eftirfarandi frásögn er fyrst og fremst endursögn á þeirri ritgerð ásamt upptíningi úr sóknarmannatali Ögurkirkju.
Frá Efstadal fluttu Skarphéðinn og Pálína á Eyri 1904, voru síðan í Garði 1905 og í Hvítanesi þangað til þau fluttu að Eyri í Skötufirði 1908 þar sem Skarphéðinn fór fyrst í húsmennsku. Næstu ár eftir að þau fluttu frá Efstadal var Karítas í Skötufirði, fyrst á Eyri 1904, á Markeyri 1905 og árið eftir á Kleifum. Árið 1907 var hún skráð á Skarði en þá hafði hún hafið sambúð með Magnúsi Guðmundssyni (1869-1959) frá Kaldbak í Steingrímsfirði. Árið áður hafði hann verið hjú í Hvítanesi þar sem Skarphéðinn var í húsmennsku. Segir nú frá Magnúsi.
Um aldamótin 1900 voru 5 bændur á Folafótarnesi, 1 á Hesti (sunnarlega, austan á nesinu), 2 í Folakoti og 2 á Fæti/Folafæti (norðarlega, vestan á nesinu). Auk þeirra var húsmennskufólk í þurrabúðum á nesinu sem hétu Grjóthlað, Fornabúð, Fótarbúð, Tjaldtangi (yst á nesinu), Fótartraðir og Salómonshús. Kolbeinseyri var utarlega austan á nesinu en þaðan var útræði. Folakot hefur líklega verið eitt af þessum kotum í landi Folafótar en erfitt er að átta sig á hvar á nesinu hvert kotið var. .
Magnús hafði verið húsmaður á nokkrum kotunum á Folafótarnesi ásamt konu sinni, Júlíönu Þorvaldsdóttur (1874-1904). Þau eignuðust fyrst fjögur börn sem öll komust upp og eignuðust afkomendur, Sófus Salómon sem fæddist í Folakoti 1893, Þorvald Mattías á Folafæti 1895, Óskar í Fjarðarhorni (í botni Seyðisfjarðarins) 1896 og Guðmundu í Fornubúð 1900 en hún fékk nafni sínu breytt 1953 og hét síðan Hildur. Þrjú þeirra, sem komust á legg, urðu háöldruð og afkomendur þeirra eru auðvitað náskyldir afkomendum Karítasar.
Eftir að þessi fjögur börn fæddust eignuðust Magnús og Júlíana tvö börn sem dóu mjög ung, það fyrra 9 mánaða gamalt (Kristveig) fæddist á Folafæti. Júlíana dó 9 dögum eftir að seinna barnið fæddist í Fornubúð, það var stúlka sem var skírð Júlíana (skemmri skírn) og dó í september sama ár.
Eftir lát Júlíönu var heimilið leyst upp og börnunum fjórum, sem þá lifðu, komið fyrir hjá vandalausum. Í árslok 1904 er ekkillinn Magnús Guðmundsson húsmaður á Hesti og hefur Guðmundu hjá sér en hún fékk nafni sínu breytt 1953 og hét eftir það Hildur. Strax árið eftir var Guðmunda/Hildur tekin í fóstur af eldri húsmennskuhjónum um sextugt, Guðmundi Egilssyni og Margréti Jónsdóttur, sem bjuggu oftast á Folafæti, þó árið 1907 á Hjöllum í Skötufirði.
Magnús var skráður húsmaður á Eyri í Seyðisfirði 1905 en þar bjuggu hjón um fertugt, Jón Jakobsson bóndi og Kristjana Kristjánsdóttir sem tóku Óskar Magnússon í fóstur og ólu upp síðan. Sófus Salómon og Þorvaldur Matthías fóru strax árið sem móðir þeirra dó yfir í Bjarnarfjörð á Ströndum þar sem Sófus var á Kaldrananesi 1910 og í Bjarnanesi 1920. Þorvaldur var á Skarði í Bjarnarfirði 1909 þegar hann sneri til baka í Skötufjörðinn og bjó hjá föður sínum og Karítas á Eyri í Skötufirði og árið eftir hjá þeim í Hvítanesi.
Magnús var lausamaður á Folafæti árið 1906 en árið 1907 var hann giftur Karítas Skarphéðinsdóttur og þau voru þá húshjón á Borg í Skötufirði. Árið eftir voru þau húshjón á Skarði, þar sem frumburðurinn Svanberg fæddist, en árið 1909 voru þau komin inn á Eyri við Skötufjörð. 1910 til 1911 voru þau í Hvítanesi þar sem Petrína Sigríður fæddist og þau voru í Kálfavík við Skötufjörð 1913 þegar Þorsteinn fæddist.
Búskap Skarphéðins Elíassonar og Pálínu Árnadóttur í Efstadal lauk 1904 og þá fluttu þau á Eyri í Skötufirði, árið eftir voru þau í Garði en síðan í Hvítanesi til 1909. Þá fluttu þau í lítið timburhús sem Magnús, tengdasonur Skarphéðins, var búinn að byggja handa þeim á Gunnarseyri, nokkrum metrum utan við Eyri þar sem Magnús og Karítas bjuggu þá. Þarna bjuggu Skarphéðinn og Pálína til 1914 með syni sína Sigmund Viktor og Sigurjón (síðar Sigurjón Svanberg) og á Gunnarseyri bættist Bergþóra í hópinn. Petrína, frumburður Skarphéðins og Pálínu, var hinsvegar vinnukona á Garðstöðum, Skarði og víðar í Ögursveit. Karítas sem fylgt hafði föður sínum nánast frá fæðingu og flust með honum úr Efstadal á Eyri fluttist nú að heiman og var vinnukona á Markeyri 1905 og á Kleifum 1906 en tók þá saman við Magnús Guðmundsson og hóf sambúð sína með honum í Borg eins og áður segir.
Þeirri sögu var komið á kreik að Magnús hafi samið um það við Skarphéðin að Magnús skyldi byggja hús handa Skarphéðni þar sem kallað var Gunnarseyri og fá Karítas sem eiginkonu í staðinn. Á Magnús að hafa komið til Karítasar með hring og sagt: „Nú erum við trúlofuð, vina mín“. Þá var hún 16 ára en hann 37. Og það er ljóst að Karítas var opinberlega skráð í sambúð með honum rúmu ári seinna.
Magnús var þúsundþjalasmiður, fékkst við vefnað og smíðar auk þess sem hann var forsöngvari í Eyrarkirkju í Seyðisfirði, kallaður Magnús „fori“. Og hvað svo sem hæft er í sögunni um kaupmálann um Karítas þá er það víst að Skarphéðinn fékk skika úr landi Eyrar og kallaði Gunnarseyri. Þar byggði Magnús húsið og Skarphéðinn flutti inn árið 1909. Það er hinsvegar sannfæring þess sem tekur saman þennan pistil að hér hafi ekki verið um viðskipti að ræða. Karítas var farin að heiman frá föður sínum og stjúpu einum þremur árum áður en hún fór að búa með Magnúsi. Þess vegna hafði Skarphéðinn ekkert yfir henni að segja þótt eflaust hafi hann getað ætlast til eins og annars af henni eins og títt er um foreldra. Karítas var ekki þekkt fyrir það á lífsleiðinni að láta ráðskast með sig. Hún hefur eflaust orðið eitthvað skotin í Magnúsi og svo hefur eitt leitt af öðru, þetta er vel þekkt úr Íslandssögunni og jafnvel víðar. Hitt er svo annað mál að hún hefur áttað sig á því síðar að þessi ákvörðun hennar að leggja lag sitt við Magnús var tekin í óvitaskap. Það er ekki heldur rétt sem segir í ritgerðinni um Karítas að Magnús hafi lokið við að byggja húsið handa Skarphéðni þegar Karítas og Magnús giftust í nóvember 1907. Það hús var ekki tilbúið fyrr en 1909, eins og að framan segir, og það hús hefur Magnús byggt af greiðasemi við tengdaföður sinn. Hins vegar hefði Skarphéðni verið trúandi til að koma sögunni um konukaupin á kreik og svo hefur hann hlegið að.
Búskap Skarphéðins Elíassonar og Pálínu Árnadóttur í Efstadal lauk 1904 og þá fluttu þau á Eyri í Skötufirði, árið eftir voru þau í Garði en síðan í Hvítanesi til 1909. Þá fluttu þau í timburhúsið sem Magnús var búinn að byggja handa þeim á Gunnarseyri, nokkrum metrum utan við Eyri þar sem Magnús og Karítas bjuggu þá. Þarna bjuggu Skarphéðinn og Pálína til 1914 með syni sína Sigmund Viktor og Sigurjón (síðar Sigurjón Svanberg) og á Gunnarseyri bættist Bergþóra í hópinn. Petrína, frumburður Skarphéðins og Pálínu, var hinsvegar vinnukona á Garðstöðum, Skarði og víðar í Ögursveit.
Þegar Skarphéðinn og Pálína fluttu út í Fell í Hnífsdal 1914 fluttu Magnús og Karítas inn í húsið á Gunnarseyri og þar fæddist Aðalheiður 1915. Þar bjuggu þau aðeins 1 til 2 ár og þá var húsið rifið og endurbyggt á Hrafnabjörgum í Ögursveit. Magnús og Karítas fluttu á eftir föður hennar í Hnífsdal og þar fæddust tvíburarnir Anna og Guðmundur 1917 en þau dóu tveggja daga gömul. Í Hnífsdal fæddist líka Halldóra 1918 og Skarphéðinn 1921. Árið 1922 fluttu þau inn á Ísafjörð þar sem Einar fæddist 1924 og Pálína 1926.
Karítas og Magnús fluttust fljótlega frá Skarði að Eyri í Skötufirði, þar sem frumburðurinn Svanberg fæddist, en árið 1910 fluttu þau að Hvítanesi þar sem þau voru til 1913 en fóru þá í Kálfavík. Árið 1914 flutti Skarphéðinn út í Hnífsdal en Karítas og Magnús fóru í húskofann á Gunnarseyri. Árið 1916 fluttu þau líka út í Hnífsdal og þaðan á Ísafjörð 1922. Þar bjuggu þau Magnús fyrst í timburhúsi sem áður hafði verið sláturhús og var kallað „Hjallurinn“. Nokkrum árum síðar fluttu þau í litla kjallaraíbúð og bjuggu þar þangað til Karítas sagði skilið við Magnús 1936. Karítas Skarphéðinsdóttir Neff gerir ágæta grein fyrir aðdraganda skilnaðarins í framangreindri ritgerð en auk þeirra skýringa, sem þar eru gefnar, hefur verið bent á að það hafi verið fjárhagslega hagkvæmt fyrir þau að vera skilin því að þannig hafi Magnús átt rétt á bótum frá hinu opinbera sem hann átti ekki ef hann var á framfæri konu sinnar.
Tveimur árum eftir skilnaðinn missti Sigurjón Svanberg, hálfbróðir Karítasar sem bjó í Reykjavík, konu sína við barnsburð og bað Karítas að koma og aðstoða sig um stundarsakir. Þá flutti Karítas suður og var hjá honum um sumarið og flutti ekki norður aftur. Hún bjó víða í Reykjavík, Mosfellssveit, Hafnarfirði, á Vatnsleysuströnd og hún reyndi fyrir sér við búskap í Tröð á Álftanesi. Síðustu árin var hún á Hrafnistu í Reykjavík.
Um tíma bjó Skarphéðinn faðir hennar hjá henni bæði í Tröð og á Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd þar sem Skarphéðinn lést. Skarphéðinn hefur eflaust reynt að hjálpa til við búskapinn þó að hann væri orðinn giktveikur og hrumur síðustu árin. Hann hefur þá fengið einhvern ellistyrk en ekki er við því að búast að Karítas hafi fengið mikinn fjárhagslegan stuðning frá Sigurjóni hálfbróður sínum, þótt hann hafi á þessum tíma búið við allgóð efni, því að þau Karítas voru mjög á öndverðum meiði í pólitíkinni, hann hallur undir nasisma en hún kommúnisti.
Karítas fór að stunda alla almenna verkamannavinnu utan heimilis þegar hún hafði tök á, við fiskverkun, í sláturhúsi og á sumrin og haustin var hún á síld á Siglufirði og Raufarhöfn. Hún var virk í baráttu verkafólks fyrir bættum kjörum og lét til sín taka í stjórnmálum en sá þáttur í sögu hennar verður ekki rakinn hér heldur vísað til ágætrar umfjöllunar í fyrrnefndri ritgerð alnöfnu hennar og barnabarns. Þar er líka prýðileg lýsing á lífskjörum hennar og lífsbaráttu. Það er líka ástæða til að benda á grein Sverris Kristjánssonar sagnfræðings um Karítas sem birtist í Þjóðviljanum 21. janúar 1973, Karítas þá nýlátin.
Karítas eignaðist 10 börn með Magnúsi, það fyrsta á Skarði en þau síðustu á Ísafirði. Börnin voru Svanberg (1909-1974), skipstjóri á Ísafirði, Petrína (1910-1943), húsfreyja á Ísafirði og í Reykjavík, Þorsteinn (1913-1941), skipstjóri á Þingeyri, fórst með línuveiðaranum Pétursey, Aðalheiður (1915-1978), húsfreyja, síðast í Reykjavík, Anna (1917-1917), Guðmundur (1917-1917), Halldóra (1918-1931), lést ung, Skarphéðinn (1921-1984), stýrimaður, síðar verkamaður hjá Eimskip, Einar (1924-2009) og Pálína (1926-2011), verslunar- og skrifstofumaður í Reykjavík, tók saman bók um Pálsætt á Ströndum.
Karítas var heldur smávaxin, grönn, snör í snúningum og bráðskörp, hamhleypa við störf. Hún hafði mikinn áhuga á velferðar- og baráttumálum verkalýðsstéttarinnar og var róttækur sósíalisti. Hún var áhuga- og baráttukona fyrir bættum hag láglaunafólks á Íslandi. Þegar hún var verkakona á Ísafirði var ort um hana:
Ein er gálan gjörn á þras,
gulli og silki búin,
Kaffiskála Karítas,
kommúnistafrúin.
Líklega vísar kaffiskálaeinkunnin til þess að Karítas hafði fengið því framgengt að fiskverkunarkonur fengju að drekka kaffið sitt innanhúss eins og karlarnir en það þótti ekki sjálfsagður hlutur á þeim tíma, öðru nær.
Sverrir Kristjánsson sagnfræðingur segir um hana í fyrrnefndri grein í Þjóðviljanum en hann sá hana fyrst á framboðsfundi í Bjarnastaðaskóla á Álftanesi 1946: „Á aftasta bekk við austurenda skólastofunnar sat kona ein. Hún rís á fætur og biður um orðið. Fundarstjórinn, sem auðsjáanlega bar ekki kennsl á konu þessa, bað hana að segja til nafns síns. Hún svaraði: „Ég heiti Karítas Skarphéðinsdóttir“. Mér varð starsýnt á konuna. Hún var klædd í skart. Skúfur skotthúfunnar féll með þokka fram á aðra öxlina, fyrir ofan skúfinn var gullhólkur. Svört silkitreyja, upphluturinn féll þétt að grönnu mittinu, silfurmillurnar glitruðu í birtunni sem lagði inn um gluggana. Hún var tæplega meðalkona á hæð, miðað við vöxt íslenskra kvenna af hennar kynslóð, en mér virtist hún vera einhvers staðar milli fimmtugs og sextugs. Andlitið frítt, hárið mikið og vel snyrt í fléttum, hnarreist var hún og upplitsdjörf. Hún leit rétt í svip yfir kjósendahjörðina, síðan nokkuð fastar á okkur sakborningana á frambjóðendabekknum og mér sýndist ekki betur en það brygði fyrir léttri fyrirlitningu í augnaráðinu þegar hún horfði á okkur.
Hún beitti listrænni þögn um stund eins og æfð leikkona. Síðan hóf hún mál sitt. Það duldist engum að hér talaði enginn viðvaningur. Orðin spruttu óhikað af vörum hennar, setningarnar felldar í fast mót, tungutakið eins og þegar íslenskan er tærust, með ilm af innbornu blómgresi.“
Karítas Skarphéðinsdóttir Neff lýsir skapgerð ömmu sinnar svo í framangreindri ritgerð: „Karítas var ákaflega létt í lund og söngelsk og þótti mikill grínisti og enginn vafi er á því að skapgerð hennar hjálpaði henni í mótlæti. Þá er ótalinn sá eiginleiki hennar að kunna ekki að reiðast. Enginn sá hana nokkurn tíma rífast eða æsa sig“. Og hún segir ennfremur: „Amma varð ekki rík og skildi ekki eftir sig veraldleg auðæfi en sá arfur sem hún skildi eftir sig er dýrmætari en nokkuð annað. Hún sýndi frumkvæði, sjálfstæði og styrk. Þetta eru eiginleikar sem hingað til hafa verið taldir „karllegir“. En hún átti líka alla „kvenlegu“ eiginleikana eins og fórnfýsi, þolinmæði, umhyggju og blíðu“.
Til eru upptökur af söng Karítasar á ismus.is (https://www.ismus.is/i/person/uid-7ef5e1d9-7428-49fe-8d84-13fc79b8dd7a) þar sem hún kveður stemmur og segir stuttlega frá uppruna sínum. Hallfreður Örn Eiríksson spyr hana um æsku hennar en hún er greinilega farin að gleyma mörgu en viðtölin eru frá árunum 1966 og 1969, hún þá komin undir áttrætt. Hún heldur því fram að öll börn hennar hafi fæðst á Ísafirði en þrjú þau elstu fæddust í Skötufirðinum og næstu fimm í Hnífsdal. Hún getur ekki rifjað upp á hvaða bæjum hún ólst upp en hún kemur því að, sem lengi hefur verið haldið fram, að Skarphéðinn faðir hennar hafi verið rangfeðraður.