Sigurlaug Sigfúsdóttir

Sigurlaug Sigfúsdóttir

Sigfús Benediktsson (1805-1863) fæddist á Ásgerðarstöðum í Hörgárdal en ólst upp hjá foreldrum sínum í Flöguseli þar skammt framar í dalnum. Þeir hétu Benedikt Sigfússon (1778-1847) og Rósa Oddsdóttir (1777-1843), bæði fædd á Þelamörk af bláfátækum foreldrum sem fóru illa út úr Móðuharðindunum á 9. áratug 18. aldar eins og fleiri. Fyrir hjónaband hafði Rósa eignast son sem varð skammlífur í umsjá föður síns en þau Benedikt eignuðust 18 börn. Af þeim komust 11 upp og átta þeirra ólust upp í foreldrahúsum. Lilja Benediktsdóttir fór til móðursystur sinar um eða innan við tveggja ára aldur og Björn Benediktsson ólst upp hjá barnlausum hjónum á næsta bæ við Flögusel. Tvö þeirra átta sem ólust upp í Flöguseli voru þroskaskert, Stutta-Sigga þekktari en Friðfinnur, en þau sex sem ótalin eru náðu háum aldri. Það gerði Stutta-Sigga reyndar líka. Börn Flöguselshjónanna bjuggu lengst í Hörgárdal og þar eru enn margir afkomendur þeirra.

Benedikt og Rósa báru þess merki að vera alin upp í sárri fátækt. Þau lærðu lítt að lesa og prestinum á Myrká þótti þekking þeirra á sögu æðri máttarvalda lítilfjörleg. Satt best að segja gaf sr. Gamalíel þeim hinar verstu einkunnir. Undir lokin sagði þó eftirmaður Gamalíels um Benedikt að hann læsi reyndar aumlega og þekking hans væri lítil en hann væri þó ekki afleitur kall. Lítil lestrarkunnátta og vanþekking á helgiritum skilaði sér til barna Flöguselshjónanna sem voru líka illa læs og fákunnandi um himnafeðgana. Þau fermdust seint og sum aldrei, Sigfús t.d. ekki fyrr en tvítugur. Öll þóttu þau þó dugleg til verka og heiðarleg. Miklar sögur fóru af harðneskju Flöguselshjónanna í garð barna sinna en þau virðast þó ekki hafa erft hana við foreldra sína, skírðu börn sín eftir þeim og fólu þeim börn sín til fósturs þegar á þurfti að halda.

Sigfús var fimmti í röðinni. Hann var í foreldrahúsum fram yfir tvítugt, sem sagt fram yfir fermingu, en 23 ára var hann vinnumaður á Ásgerðarstöðum, frómur en fávís eins og foreldrar hans. Ári síðar var hann þar enn en þangað var þá komin vinnukona frá Bási, handan við Hörgána, Salvör Gísladóttir. Með henni eignaðist Sigfús son í ágúst 1829, Jónatan, en hann lést mánaðargamall. Ekkert varð meira úr sambandi Sigfúsar og Salvarar en Jón bróðir hans giftist henni seinna og átti með henni þrjú börn en af þeim komst aðeins Jónatan Jónsson upp.

Sigfús var áfram vinnumaður á Ásgerðarstöðum 1830, ekki er vitað hvar hann var 1831 því að gat er í færslur í kirkjubók Myrkársóknar en 1832 var hann kominn niður í Auðbrekku sem vinnumaður og þaðan fór hann út í Hof 1834 til Ólafs Thorarensen læknis og var þar tvö ár. Vorið 1836 fór hann aftur í Auðbrekku og í júní 1837 eignaðist hann þar dóttur, Sigurlaugu (1837-1890) þá sem hér er fjallað um, með Ingveldi Benjamínsdóttur (1800-1846) sem þar var þá vinnukona. Foreldrar Ingveldar höfðu flust utan úr Grýtubakkahreppi inn í Ystuvík á Svalbarðsströnd þar sem Ingveldur fæddist en um fermingu fluttist hún með þeim inn í Hörgárdal þar sem þau bjuggu á Djúpárbakka og Svíra.

Sigurlaugu var fljótlega komið í fóstur fram í Flögusel til foreldra og systkina Sigfúsar og þar var hún til 1844 og var þá byrjuð að stauta enda var þá komin á heimilið kona Odds, bróður Sigfúsar, vestan úr Skagafirði en hún var vel læs og aflögufær með þá kunnáttu. Ingveldur móðir hennar var í vinnumennsku þangað til hún giftist ekkjumanni á Miðlandi í Öxnadal og tók þá dóttur sína til sín. Samvistir þeirra mæðgnanna urðu þó skammar því að Ingveldur lést í ágúst 1846.

Ekki er vitað hvar Sigfús var næstu ár eftir fæðingu Sigurlaugar nema 1839 var hann í Fornhaga og 1840 var hann vinnumaður í Sörlatungu og þar var hann til 1843. Árið 1841 gerðist Guðrún sú Friðfinnsdóttir (1808-1846), sem nefnd var í inngangi, vinnukona á Féeggstöðum, næsta bæ framan við Sörlatungu, og hafði þar með sér Jóhann Sigurðsson, son sinn. Árið eftir var hún komin í Sörlatungu og á þessum árum stofnuðu þau Sigfús til kynna sem entust til æviloka Guðrúnar.

Guðrún var úr stórum systkinahópi frá Stóragerði í Myrkárdal, dóttir Friðfinns Loftssonar og Herdísar Jónsdóttur. Þau eignuðust 14 börn en 10 þeirra komust til fullorðinsára, Guðrún áttunda í röðinni. Öll systkinin í Stóragerði uxu upp í foreldrahúsum nema Guðrún sem fór innan við tveggja ára aldur til Jóns móðurbróður síns sem giftist aldrei en bjó nokkur ár þokkalegu búi á Grjótgarði með Ragnheiði Bjarnadóttur sem ráðskonu en hún hafði Svein son sinn með sér. Þau fluttust síðan öll fram í Lönguhlíð þar sem Jón var fyrst bóndi með sömu ráðskonu og fyrr en síðan í húsmennsku. Húsmennskan þýddi að Jón bjó inni á heimili annars fólks en með eigið heimilishald. Hann hafði ráðskonu og hefur haft einhverjar skepnur og fengið að heyja handa þeim á jörð bóndans. Eftir húsmennskuna í Lönguhlíð fóru þau Guðrún milli bæja, hann áfram húsmaður en hún vinnukona, þar til Jón dó 1832 í Stóragerði hjá systurbörnum sínum.

Guðrún giftist árið eftir Sveini Ólafssyni, syni Ragnheiðar ráðskonu Jóns, og þau hófu búskap á Sólborgarhóli í Kræklingahlíð. Þau Guðrún höfðu alist upp saman nokkurt árabil, hann þó 7 árum eldri. Þessi fornu kynni þeirra reyndust þó ekki nægilega góður grunnur fyrir hjónabandið því að Guðrún, þessi siðsama og afburða vel gefna kona sem hún var samkvæmt kirkjubókum, skildi við Svein tveimur árum síðar, fór sem vinnukona á næsta bæ og eignaðist þar stúlkubarn með vinnumanni en það dó ári síðar. Guðrún var áfram vinnukona í Kræklingahlíð og varð þar ófrísk að öðru barni eftir annan vinnumann sem hún hafði ekki frekari samskipti við en barnið var fyrrnefndur Jóhann Sigurðsson. Guðrún fór fram í Stóragerði til að eiga Jóhann og var þar næstu tvö árin hjá Lilju systur sinni og Bjarna Gunnlaugssyni, manni hennar, en þau höfðu tekið við búi forelda hennar. Lilja og Bjarni fluttu vestur í Reyki í Hjaltadal en Guðrún fór í vinnumennsku á bæi þar í Hörgárdal, síðast í Sörlatungu þar sem þau Sigfús efnuðu í fyrsta barn sitt, Guðmund.

Ekki er fullljóst hvar Guðmundur fæddist en líklega átti a.m.k. Guðrún þá heima í Lönguhlíð þar sem hún hafði áður verið hjá Guðmundi Þorsteinssyni, „bónda og fjölhæfum smið“ og líklega fékk barnið nafn sitt frá honum. Þar í Lönguhlíð voru þau Sigfús í húsmennsku til 1846. Guðmundur Sigfússon fæddist í október 1843, Guðjón fæddist rúmu ári síðar og María í apríl 1846. Hún dó fáum dögum síðar og í september sama ár dó Guðrún af afleiðingum sýkingar sem hún fékk við fæðinguna, þ.e.a.s. af barnsfararsótt. Þá voru þau Sigfús flutt í Barká þar sem þau höfðu hafið búskap í tvíbýli en líklega á minni hluta jarðarinnar.

Tæpum mánuði áður en Guðrún dó hafði Ingveldur, barnsmóðir Sigfúsar, látist frá Sigurlaugu dóttur þeirra á Miðlandi. Sigfús stóð nú frammi fyrir því að hafa fjögur börn á framfæri sínu því að hann kærði sig ekkert um – frekar en faðir hans – að láta hreppinn sjá um börn sín. Hann fékk fyrst Rósu systur sína til sín sem ráðskonu í hjáleiguna frá Barká þar sem hann var með syni sína fram á vor 1847 og þá tók hann Sigurlaugu til sín en Jóhanni var komið í fóstur til Lilju móðursystur sinnar á Reykjum í Hjaltadal. Þar ólst hann upp til fullorðinsára en fór að heiman í vinnumennsku, síðan húsmennsku, gerðist þrívegis bóndi sem stóð alltaf stutt, og endaði ævina þar vestra í skjóli sonar síns. Hann giftist, eignaðist nokkur börn og af þeim lifðu fimm til fullorðinsára. Þrjú þeirra fluttu til Kanada en fjölmargir afkomendur hans eru þó á Íslandi.

Sigfús fór frá Barká inn í Kræklingahlíð 1847 með börn sín þrjú og bjó þar í Tittlingi, síðar Hlíðarenda, ofan Akureyrar til æviloka. Hann giftist aftur og nú Helgu Þorsteinsdóttur, ekkju vestan úr Skagafirði. Hún átti fjórar dætur og ein þeirra giftist Hansen-Jensen beyki og veitingamanni á Akureyri en önnur, Ingibjörg Bjarnadóttir, var með þeim Sigfúsi í Tittlingi fyrstu árin. Börnin fóru fljótlega öll að heiman í fóstur og vinnumennsku, ekkert á framfæri sveitarinnar. Fyrst fór Ingibjörg fram í Nes í Saurbæjarhreppi 1849 en þar bjó Páll Hallsson föðurbróðir hennar. Hún kom aftur í Tittling en eftir að móðir hennar dó 1852 fór hún aftur fram í Fjörð og nú í Miklagarð en Guðrún húsfreyja þar og Sigurbjörg húsfreyja í Nesi voru systkinadætur. Ári síðar fór Ingibjörg til Helgu systur sinnar sem var gift Hansen-Jensen beyki á Akureyri. Þangað til Helgu fór líka Guðjón Sigfússon 1854 (skv. prestþjónustubókinni 1855) og þar var hann langt fram yfir tvítugt, lærði beykisiðn og starfaði lengst á Akureyri. Sigurlaug fór 1851 fram í Nes eins og stjúpsystir hennar og var þar næstu ár. Guðmundur fór síðastur að heiman 1856, 13 ára gamall, sem léttadrengur til sr. Daníels í Glæsibæ. Með prestinum fluttist hann fram í Hrafnagil en fór um tvítugt í vinnumennsku að Möðrufelli, síðan fram í Ánastaði og náði sér þar í konu frá Æsustöðum, Steinunni Önnu Sigurðardóttur. Þau bjuggu á Einarsstöðum í Kræklingahlíð til 1886, fluttu þá í Grjótgarð á Þelamörk og þaðan í Garðshorn á Þelamörk 1899.

Það fór að halla undan fæti hjá Sigfúsi Benediktssyni þegar leið á 6. áratuginn, heilsunni hrakaði og börnin voru öll farin að heiman. Hann bjó fyrst áfram í Tittlingi með bústýru en var síðan í húsmennsku hjá nýjum ábúendum til 1860 en eftir það var hann á framfæri sveitarinnar, tvö síðustu árin til heimilis í Lögmannshlíð, farinn að heilsu. Síðasta árið segir um hann í hreppsbókinni: „Getur enga björg sér veitt sakir brjóstveiki, er orðinn öldungis félaus.“

En nú er mál til komið að athyglin beinist óskipt að Sigurlaugu Sigfúsdóttur. Engar heimildir eru til um Sigurlaugu nema í manntölum og kirkjubókum, prestþjónustubókum og sóknarmanna­tölum, og þess vegna verða lesendur að geta í eyður þessarar sögu með skrásetjara. Fram hefur komið að hún ólst upp hjá föðurfólki sínu í Flöguseli til 7 ára aldurs og fór þá til móður sinnar þegar hún giftist ekkjumanninum Ólafi Bjarnasyni á Miðlandi. Móðir hennar lést í ágúst 1846 og í sóknarmannatal fyrir Bakkasókn, sem gert var í nóvember það ár, er skráð um Sigurlaugu að hún kveði vel að en í dálkinn sem ætlaður var fyrir lýsingu á hegðun segir að hún sé „aumingi“, hvað svo sem það átti að merkja. Aðeins leið rúmur mánuður milli andláts Ingveldar Benjamínsdóttur og andláts Guðrúnar Friðfinnsdóttur en vorið eftir – og líklega fyrr – var Sigurlaug aftur komin á framfæri föður síns sem flutti með öll börn sín frá Barká í Tittling í Kræklingahlíð. Þar var Sigurlaug í 4 ár eða til 1851 en fór þá 14 ára gömul til mágs stjúpu sinnar að Nesi í Saurbæjarhreppi, eins og áður segir, en þar var hún a.m.k. þrjú ár.

Sóknarmannatal var ekki gert á hverju ári í Saurbæjarsókn á þessum árum þannig að ekki er hægt að rekja feril Sigurlaugar nákvæmlega en næst er það vitað um hana að hún var vinnukona í Saurbæ 1858-1862. Vel má vera að hún hafi verið vinnukona á öðrum bæjum þar fremra á árunum 1855 til 1858 en þarna var hafinn þrjátíu ára þvælingur milli bæja þar sem hún var aldrei meira en 1-2 ár í senn á hverjum stað. Hún fluttist frá Saurbæ árið 1862 í fæðingarsveit sína og var eitt ár í Lönguhlíð í Hörgárdal hjá Jóni Bergssyni „ríka“, áður bónda í Garðshorni á Þelamörk. Hann hafði oft vinnuhjú frá Flöguseli og eignaðist meira að segja barn með Hólmfríði Oddsdóttur Benediktssonar en hún var þó ekki komin til Jóns þegar Sigurlaug var þar. Úr Lönguhlíð fór Sigurlaug út í Skriðu í sömu sveit til Jóns Pálssonar hreppstjóra en frá Skriðu fór hún að Möðrufelli í Eyjafirði sem vinnukona enda vissi hún af Guðmundi hálfbróður sínum þar í vinnumennsku. Þetta var tíundi dvalarstaður Sigurlaugar og nú var hún vinnukona hjá Páli „ríka“ Gíslasyni eins og hann er nefndur á einum stað og Maríu, konu hans, Friðfinnsdóttur. Verður nú gerður nokkur útúrdúr til að gera grein fyrir því fólki sem Sigurlaug átti eftir að tengjast.

Flöguselsfólkið var alls ekki ótengt Möðrufellsfólkinu því að Páll Gíslason Möðrufellsbóndi var fæddur í Þríhyrningi en fór þaðan með foreldrum sínum, Gísla Gunnarssyni pósts og Guðrúnu Pálsdóttur, fram í Bás í Hörgárdal. Þar fékk Gísli viðurnefnið „bóndanefna“ hjá sr. Gamalíel rétt eins og Benedikt í Flöguseli. Guðrún Pálsdóttir, móðir Páls, var seinni kona Gísla en dóttir hans af fyrra hjónabandi var Salvör sú er var fyrsta barnsmóðir Sigfúsar frá Flöguseli og síðar mágkona. Páll Gíslason var ein 8 ár vinnumaður hjá séra Gamalíel á Myrká en 1836 lagðist hann í ævintýri en aðallega vinnumennsku og barst fram í Nes í Saurbæjarhreppi. Þar var hann árið 1845 giftur heimasætunni Maríu Friðfinns­dóttur.

Frá Nesi fluttu Páll og María í Moldhauga í Kræklingahlíð og voru þá komin með fóstursoninn Pál Pálsson, systurson Páls. Á Moldhaugum bjuggu þau eitt ár en árið 1846 hófu þau búskap í Brakanda í Hörgárdal. Þar hefur þeim búnast vel þangað til þau fluttu í Möðrufell 1855. Páli og Maríu varð ekki barna auðið en þau ólu upp tvo drengi, áðurnefndan Pál Pálsson og Pál Gunnarsson sem fluttust með þeim frá Brakanda í Möðrufell.

Páll Pálsson (1841-1923) var systursonur Páls í Möðrufelli eins og áður segir, sonur Guðrúnar Gísladóttur frá Bási. Guðrún hafði þvælst austur í Eyjólfsstaði á Völlum á Fljótsdalshéraði árið 1840 á eftir Jóni bróður sínum sem þar starfaði sem landpóstur, kallaður Jón Austfirðingapóstur. Á Eyjólfsstöðum varð Guðrún ólétt eftir Pál bóndason, síðar nefndan Pál „silfursmið“ sem þá var 17 ára að aldri, 14 árum yngri en Guðrún. Guðrún hrökklaðist aftur norður í Eyjafjörð og kom syni sínum í fóstur til Páls bróður síns. Guðrún var ein þessara kvenna sem gekk illa að festa ráð sitt en eignaðist fjögur lausaleiksbörn með jafnmörgum mönnum, Páll þriðja barnið í röðinni hjá henni. En það er önnur saga.

Páll Gunnarsson var hinsvegar hálfbróðursonur Páls í Möðrufelli, sonur Gunnars Gíslasonar frá Bási, bónda á Espihóli og Merkigili, en hann kemur ekki við þessa sögu.

Ári eftir að Sigurlaug kom í Möðrufell eignaðist hún óskilgetna dóttur, Maríu (1866-1933), með Páli Pálssyni, fyrrnefndum fóstursyni Möðrufells­hjónanna, og tveimur árum síðar bættu þau öðru barni við, Guðjóni (1868-1924), en þá var Sigurlaug vinnukona á Gilsbakka, næsta bæ framan við Möðrufell. Páll var þá enn vinnumaður í Möðrufelli hjá fóstur­foreldrum sínum en hafði þremur árum fyrir fæðingu Maríu eignast barn með Sigríði Ívarsdóttur, vinnukonu á Espihóli. Þetta ráðslag Páls hefur ekki fallið í kramið hjá fósturforeldrum hans sem hafa ætlað honum meiri frama en þessar barneignir. Sigríður var ekki hátt skrifuð í samfélaginu og galt þar e.t.v. Markúsar bróður síns, sem var óreiðu- og afbrotamaður, og líklega þótti Sigurlaug ekki gott gjaforð heldur. Páli var því fengin önnur kona, Ingibjörg Jónsdóttir, sem var 11 árum eldri en hann en hefur átt eitthvað í handraðanum. 

Með henni eignaðist hann dótturina Hansínu en ekki önnur börn enda Ingibjörg komin talsvert á fimmtugsaldurinn þegar Hansína fæddist. 

María Pálsdóttir og Sigur­laugar var fóstruð fyrstu árin hjá fósturforeldrum Páls, Páli og Maríu í Möðrufelli, en þegar María eldri féll frá og Páll brá búi fluttist hún til föður síns og ólst eftir það upp með Guðjóni bróður sínum og Hansínu hálfsystur sinni, fyrst á Ánastöðum í Sölvadal en síðan á Æsustöðum og loks í Æsu­staða­gerði.

Það þurfti eitthvað mikið að koma til svo að vinnufólk gæti haft óskilgetin börn sín hjá sér á þessum tíma. Sigurlaug Sigfúsdóttir átti sveitfesti í Skriðuhreppi og þess vegna var það Skriðuhrepps að sjá um framfærslu barnsins sem fór ekki strax í forsjá föður síns. Sigurlaug fór með Guðjón út í Hörgárdal skömmu eftir fæðingu hans og var fyrst með hann í Hátúni en Guðjón var síðan settur niður í Baugasel í Barkárdal þar sem hann var niðursetningur til fimm ára aldurs. Eflaust var hann þar við þokkalegt atlæti enda var Guðrún föðursystir Sigurlaugar vinnukona í Baugaseli á meðan hann var þar og hefur verið góð við hann, hefur jafnvel sýnt honum betra viðmót en hún átti sjálf að venjast úr sinni eigin æsku í Flöguseli. En svo þegar Guðjón var fimm ára fór hann til föður síns og systur í Ánastaði og ólst upp með þeim til fullorðinsaldurs.

Sigurlaug fluttist sem sagt með Guðjón í heimasveitina en þó ekki lengra en í Hátún eða Hjátún eins og bærinn var nefndur á þessum tíma. En nú eru gloppur í kirkjubækur Möðruvalla­klaustursprestakalls enda brann þar kirkja 1865 og amtmannshúsið Friðriksgáfa 1874 og einhver skjöl geta þá hafa glatast, ekki síst ef prestar sem þjónuðu Möðruvöllum hafa haft sama hátt á og presturinn á Bægisá síðar sem sagður var hafa geymt frumgögn til skráningar í kirkjubækur á miðum í frakkavösum. Sigurlaug gæti því hafa verið á fleiri bæjum en Hátúni áður en hún fór út í Friðriksgáfu á Möðruvöllum í Hörgárdal árið 1872 til Péturs Havsteen, sem hafði látið af störfum amtmanns 1870, og með honum, fjölskyldu hans og vinnuhjúum flutti hún í Ytri-Skjaldarvík í Kræklingahlíð. Meðal barna amtmannshjónanna var Hannes Pétur sem átti eftir að verða þjóðskáld og fyrsti íslenski ráðherrann. Það er aldrei að vita nema Sigurlaug hafi getað leiðbeint honum eitthvað með stuðlasetningu en engum sögum fer reyndar af brageyra hennar.

Þegar þarna var komið sögu var farið að halla mjög undan fæti hjá Pétri fyrrum amtmanni, hann lést 1875, og vorið 1873 fór hún frá honum að Blómstur­völlum og enn ári síðar í Skipalón til dannebrogsmannsins Þorsteins Daníelssonar þannig að á þessum árum var hún á heldur betri bæjum ef svo má segja. Hún hélt sig enn í Kræklingahlíðinni um tíma og fór frá Skipalóni í Þinghól 1875. Á Þinghóli var þá eingöngu húsfólk og þar var Sigurlaug sögð húskona sem gefur til kynna ákveðið sjálfstæði því að húsfólk átti yfirleitt einhverjar kindur og lifði af afurðum þeirra auk þess sem það tók þátt í heimilis- og bústörfum eða jafnvel eldaði ofan í sig sjálft. Frá Þinghóli fór Sigurlaug í annað sinn í Blómsturvelli 1876 og síðan í Efri Glerá 1877. Tuttugasti dvalarstaður hennar var hinsvegar út úr korti, ef svo má segja, því að hún fór alla leið út í Ytra-Kálfsskinn á Árskógs­­strönd 1878 og var á Selárbakka þar í grennd árið eftir. Árið 1880 var hún komin í Blómstur­velli í Kræklinga­hlíð í þriðja sinn en þar var sami bóndinn allan þennan áratug, Ólafur Jónsson sem síðar gerðist veitingamaður á Akureyri. Frá Blómsturvöllum fór hún að Hömrum ofan við Akur­eyri árið eftir og fóstraði þar Einar Árnason síðar alþingismann, fjármálaráðherra og formanns Sambands íslenskra samvinnufélaga. Frá Hömrum fór hún að Naustum til Ragnheiðar Stefánsdóttur sem þá var nýlega orðin ekkja eftir Jakob Thorarensen bónda og söðlasmið en þau voru bæði barnabörn Stefáns Þórarinssonar amtmanns á Möðruvöllum sem átti 18 börn með Ragnheiði konu sinni. Frá þessu heldra fólki fór Sigurlaug árið 1883 sem vinnukona til cand.theol. Jóhannesar Halldórssonar og konu hans á Akureyri en hann var bróðir sr. Daníels í Glæsibæ og á Hrafnagili sem fóstrað hafði Guðmund hálfbróður hennar frá fermingaraldri. Jóhannes var titlaður skólakennari, guðfræðingur og bæjarfulltrúi í manntalinu 1880. Þess má til gamans geta að Jakobína prest- og prófastfrú í Glæsibæ og Hrafnagili, kona Daníels, var barnabarn Stefáns amtmanns eins og bæði Ragnheiður fyrri kona Jóhannesar og Ragnheiður seinni kona hans. Með það í huga að Stefán amtmaður átti 18 börn gæti einhverjum dottið í hug að flestar konur þar um slóðir og á reki við þá bræður hafi heitið Ragnheiður og verið barnabörn Stefáns. Svo var þó ekki. Þessi greinargerð fyrir húsbændum Sigurlaugar á þessum árum þjónar þeim tilgangi að gefa í skyn að hún þótti gjaldgeng á heimilum heldra fólksins sem gat valið úr vinnufólki. Þegar þarna var komið sögu var Sigurlaug greinilega enginn aumingi eins og þegar presturinn á Bægisá lýsti hegðun hennar þegar hún hafði misst móður sína á Miðlandi.

Nú virðist Sigurlaug hafa verið farin að huga að því að hressa upp á tengslin við börnin sín tvö sem hún hafði haft lítið af að segja fram að þessu. Árið 1884 fór hún fram í Espihól og 1885 í Þrúgsá (Strjúgsá) í Saurbæjar­hreppi. Þaðan fór hún til Páls barnsföður síns og konu hans í Æsu­staðagerði og var þar húskona árið 1886. Varla hefur það verið eftirsóknarvert fyrir hana að vera í svo nánu sambýli við konuna sem var tekin fram yfir hana á sínum tíma. Líklega deildu þær eldhúsi en þetta veit þó enginn lengur. Þegar þarna var komið sögu var María, dóttir Sigurlaugar, reyndar farin að heiman, komin með mann og farin að búa en Guðjón, sonur hennar, var enn hjá föður sínum. Árið eftir var Sigurlaug vinnukona í Leyningi, ranglega skráð Sigurbjörg í sóknarmannatalið. Hún hefur þá getað skroppið í heimsókn til Maríu, dóttur sinnar, sem þá var í húsmennsku með Friðriki bónda sínum á Halldórsstöðum, nokkrum bæjarleiðum framar í dalnum, og Guðjón sonur hennar var heldur ekki langt undan í Æsustaðagerði. Árið 1888 var Sigur­laug vinnukona á Jórunnar­stöðum, skammt utar í dalnum, og var því enn í nágrenni við börn sín bæði því að María var þá komin í Ytri-Villingadal og Guðjón var enn í heimahúsum. Sigurlaug sagði eftir þetta skilið við Eyjafjarðardali en ekki við alla sína nánustu því að hún fór frá Jórunnarstöðum í Grjótgarð á Þelamörk til Guðmundar bróður síns 1889 en það var þrítugasta og fyrsta heimili hennar sem vitað er um með vissu. Hálfu öðru ári síðar lést hún á Grjótgarði, 53 ára að aldri. Um bana­mein hennar er ekki getið.

Aumingja­nafnbótin sem Sigurlaug fékk á Miðlandi hlýtur að vekja upp ýmsar spurningar um hana því að oft var það viðurnefni notað til að gefa til kynna andlega eða líkamlega fötlun. Ekkert bendir þó til að hún hafi verið andlega eða líkam­lega skert. Hún var læs í Tittlingi 11 ára gömul þrátt fyrir uppeldið í Flöguseli þar sem bóklestur hafði lítt verið stundaður þangað til Jóhanna, kona Odds Benediktssonar, kom inn á heimilið. Lestrar­geta hennar var þó e.t.v. ekki mikil því að Glæsibæjar­klerkur, sem þjónaði Lögmannshlíðarsókn, flokkaði fólk aðeins í tvo flokka, læsa og ólæsa. En þess er ekki heldur getið nokkru sinni að hún hafi verið líkamlega fötluð og það að hún skyldi af og til vera húskona á bæjum bendir ekki til annars en að hún hafi verið sæmilega sjálfbjarga, andlega og líkamlega. Hún var í vistum á mörgum efnaheimilum, sem gátu valið úr vinnufólki, og það styður tilgátuna um að Sigurlaug hafi haft fullt líkamlegt, andlegt og siðferðilegt atgervi.

Á bernskuárunum var Sigurlaug vissulega nokkur ár í senn í Flöguseli, Tittlingi, Nesi og Saurbæ. Seinni hluta ævinnar þvældist hún hins vegar bæ frá bæ, eirði hvergi lengi, sjaldnast meira en eitt ár í senn. Hún kom ótrúlega víða við og skipti a.m.k. þrjátíu sinnum um heimili á þeim 53 árum sem hún lifði. Lengst af var hún vinnuhjú en þó einstöku sinnum í húsmennsku þegar hún kom fram á miðjan aldur. Lítið hafði hún af ættingjum sínum að segja eftir að hún komst yfir fermingaraldurinn en var þó til heimilis með Guðjóni syni sínum í Æsustaðagerði eitt ár þegar hann var kominn undir tvítugt og það segir þó sína sögu að hún skyldi leita athvarfs hjá Guðmundi bróður sínum þegar heilsuna þraut. Þau hálfsystkinin, Guðmundur og Sigurlaug, höfðu verið saman um fjögurra ára skeið í Tittlingi, hann fjögurra ára en hún 11, síðan eitt ár á Möðrufelli, þar sem bæði voru vinnuhjú, og lengur í nábýli þegar hún var á Gilsbakka en hann á Möðrufelli. Guðmundur bjó á Einarsstöðum frá 1876 þegar Sigurlaug var mest í nágrenni við Akureyri og þá hefur hún efalítið litið við öðru hverju hjá þessum yngra bróður sínum. Og hjá Guðmundi og Steinunni á Grjótgarði fékk hún athvarf í hálft annað ár til að ljúka ævinni.

Að lokum er rétt að gera börnum Sigurlaugar nokkur skil. Eins og áður hefur komið fram ólst María fyrst upp hjá nöfnu sinni og fóstru föður hennar í Möðrufelli en eftir fráfall hennar fór hún til föður síns sem þá bjó á Ánastöðum í Sölvadal en flutti síðar í Æsustaðagerði. Árið 1884 voru María Pálsdóttir og Friðrik Jósefsson (1862-1905) vinnuhjú á Tjörnum. Þann 8. október 1885 voru þau gefin saman í hjónaband, hún þá vinnukona á Tjörnum en hann vinnu­maður á Halldórsstöðum. Árið eftir voru þau gift vinnuhjú á Vatnsenda ásamt elsta syninum, Pálma Júlíusi f. 31. júlí 1886.

María Pálsdóttir

Sögusagnir fóru af stað um að réttur faðir Pálma Júlíusar hafi verið Pálmi Pálsson yfirkennari í Reykjavík, sonur Páls Steinssonar bónda á Tjörnum, enda hafi Pálmi Júlíus verið ólíkur systkinum sínum í útliti og fasi. Samkvæmt sögunni á Pálmi Pálsson eða jafnvel móðir hans að hafa fengið Friðrik Jósefsson til að gangast við barninu. Rúmri öld síðar virðist þessi kenning ótrúverðug í ljósi skráðra dagsetninga í kirkjubókum. Enginn vafi leikur á að vingott hafi verið með Pálma bóndasyni á Tjörnum og Maríu vinnukonu á meðan þau voru þar samtíða því að annars hefði sagan ekki farið af stað. Tæplega hefur það þó verið eftir að María og Friðrik giftust, þótt auðvitað sé allt til í því. Hafi barnið hins vegar verið komið undir áður en þau giftust og bóndasonur (eða móðir hans) gripið til ráðstafana til að fá Friðrik til að ganga í málið, þá hefur giftinguna borið afar brátt að. Auk þess hefur þá verið um einhverja lengstu meðgöngu Íslandssögunnar að ræða eða ekki skemmri en 10-11 mánuði en líklegasti getnaðartími Pálma Júlíusar er svo sem þrem vikum eftir giftinguna m.v. fæðingardag hans. Enn má nefna að Pálmi Pálsson hafði þá lokið prófi í norrænum fræðum frá Kaupmannahafnarháskóla og var stundakennari við Menntaskólann í Reykjavík á þessum tíma og hefur ekki skroppið norður í helgarfríum til að hitta Maríu. Eða er hér um að ræða sögu um ástir í meinum og óðalsbónda/húsfreyju sem stíaði elskendum í sundur til að erfinginn tæki ekki niður fyrir sig og giftist fátækri vinnukonu? Og til að bíta hausinn af skömminni barnaði svo bónda­sonurinn nýgifta konu vinnumannsins sem lét barnið heita í höfuðið á friðlinum. Sagan er ekki sem verst en eins og áður segir er erfitt að trúa henni núna.

Sonarsonur Maríu, Ingólfur Pálmason, skrifaði afar fallegan og hlýlegan skólastíl um ömmu sína þegar hann var í Menntaskólanum á Akureyri. Þar segir hann eftir henni frá hrifningu hennar af Pálma á Tjörnum þegar hann sem skólapiltur dvaldi í foreldrahúsum sumarlangt en hún var þar vinnu­kona. Þar segir Ingólfur í lokin: „Það er engin þörf fleiri orða. Hér gerðist saga heitra ásta en engra fíflskapar­mála. En örlögin vörnuðu þeim að njótast. Foreldrar hans voru mótfallin þessum ráðahag, einkum móðir hans. Fékk hún því ráðið að María giftist vinnumanni á Tjörnum, Friðriki að nafni, duglegum manni en lítt efnuðum.“ (Úr fórum Guðrúnar Ingólfsdóttur Pálmasonar).

Hvernig svo sem til hjónabands Maríu og Friðriks var stofnað virðist það hafa verið farsælt á meðan það varði. Þau eignuðust 6 börn auk Pálma Júlíusar, Margréti Sigríði f. 1887, Jósef f. 1891, Guðrúnu f. 1896, Guðlaugu Þóru f. 1899, Níels f. 1902 og Pál Svein f. 1904. Þau bjuggu lengst af í Hólsgerði eða þangað til Friðrik lést árið 1905 en eftir það bjó María með og hjá börnum sínum, t.d. var hún ásamt Jósef í Hleiðargarði 1910, síðan á Torfum og loks hjá Pálma í Gullbrekku frá 1916 til dauðadags 1933. Út af þessu fólki er talsverður ættbogi kominn í Eyjafirði og á Akureyri (Eyfirskar ættir I bls. 10-14).

Pálmi Júlíus Friðriksson eignaðist 5 börn. Á meðal afkomenda hans er Guðrún Ingólfsdóttir bókmennta­fræðingur.

Margrét Sigríður Friðriksdóttir átti þrjár dætur með þremur mönnum og er mikill ættbogi út af henni kominn. Meðal afkomenda hennar var Árdís Guðlaugs­dóttir sem átti 12 börn með Henry Stefáni Henriksen, norskættuðum manni. Þau bjuggu á Akureyri. Þekktastur barna þeirra er líklega Aðalsteinn Bergdal leikari.

Guðrún Hansína Friðriksdóttir átti tvö börn, Friðrik Stefánsson f. 1924 sem fluttist til Siglufjarðar og Þórunni Hallgríms­dóttur sem bjó á Akureyri. Þórunn var móðir Sigurðar J. Sigurðs­sonar sem var lengst allra bæjarfulltrúi á Akureyri.

Guðlaug Þóra Friðriksdóttir giftist Sigurvin Jóhannessyni f. 1891 í Möðru­felli en þau bjuggu á Völlum í Djúpadal í Eyjafirði 1939-1969 og eignuðust 10 börn. Dætur þeirra hafa búið þar ásamt þeim, Jakobína f. 1932 bjó þar 1952-1953 og Margrét Lilja f. 1930 bjó þar 1958-1966 en eftir að Guðlaug lét af búskap á Völlum hefur Kristín Friðrika búið þar, gift Leif Lykke Mikkelsen.

Þessi dæmi um afkomendur Maríu Pálsdóttur eru handahófskennd og val þeirra ræðst mest af því sem söguritari þekkir og heldur að sem flestir lesendur þekki en ekki af mati á verðleikum.

Guðjón Pálsson og Sigurlaugar ólst upp hjá föður sínum á Ánastöðum og í Æsustaðagerðum ef undan eru skilin allra fyrstu fimm árin sem hann var niðursetningur í Baugaseli í Barkárdal. Af honum ganga margar sögur meðal eldri Eyfirðinga en hann virðist hafa verið einstakur hrakfallabálkur. Hann hjó af sér þumalfingur. Annað sinn var hann að girða og búinn að velta út gaddavír úr rúllu upp bratta brekku þegar hann datt með rúlluna sem valt með hann til baka, kyrfilega undinn innan í gaddavírinn. Og Hannes nokkur á að hafa fengið Carnegie-verðlaun fyrir björgunarafrek þegar hann bjargaði Guðjóni frá drukknun. Guðjón var víða í vinnumennsku. Hann dó á Akureyri 1924 en hafði þá verið vinnumaður í Gröf. Banameinið var krabbi.