Guðjón Sigfússon

Guðjón Sigfússon

 

Guðjón Sigfússon fór frá föður sínum í Tittlingi til Akureyrar árið 1854, þá 10 ára. Hann var tökudrengur hjá Laurits Hansen Jensen beyki og veitingamanni og Helgu Bjarnadóttur, konu hans, sem þá voru tæplega þrítug, en Helga var dóttir Helgu Þorsteinsdóttur stjúpu Guðjóns. Hjá Laurits lærði hann beykisiðn þegar hann hafði aldur til. Jensen var víst ekki eini beykirinn á Akureyri sem rak greiðasölu og fyrir vikið voru gistiheimili á Akureyri kölluð „baukar“ á þessum tíma. Guðjón var hjá þeim hjónum fram undir þrítugt, lengst af í húsi nr. 33 sem var næsta hús innan við Gudmans Minde, gamla spítalann við Aðalstræti.

Aðalbjörg Þorkelsdóttir. Þessi mynd er líklega af Aðalbjörgu. Aftan á frummyndinni stendur „Frá ömmu til Píu“ en Þórdís barnabarn hennar var jafnan kölluð Pía. Hins vegar má líka efast um þetta því að konan á myndinni er varla meira en fertug og ljósmyndun hófst ekki að marki á Akureyri fyrr en um og eftir 1880. Ef þessi mynd er af Aðalbjörgu er hún með allra fyrstu myndum sem teknar hafa verið á þessum slóðum.

Á meðan Guðjón bjó hjá Hansen-Jensen-hjónunum kom þangað vinnukona austan úr Þing­eyjarsýslu. Þetta var Aðalbjörg Þorkels­dóttir sem hafði alist upp hjá foreldrum sín­um, Þor­katli Jóns­syni og Þór­dísi Helga­dóttur, í Garðs­horni í Köldu­kinn. Hún var yngst þeirra 6 barna Garðs­­horns­hjón­anna sem upp kom­ust. Helgi sonur þeirra Þorkelsson (1831-1911) flutti í Hól á Tjörnesi 1866 og hóf þar búskap og út af honum og Hólmfríði Andrésdóttur (1838-1929) konu hans er stór og merkur ætt­bogi kominn. Björn Frímann sonur þeirra var t.d. faðir Jóhönnu Hólmfríðar móður Birnu Ketils­dóttur frá Ytra-Fjalli og Líneyjar móður Indriða Úlfssonar rithöfundar og skóla­stjóra. Sonur Björns Þorkels­sonar var líka Jóhannes faðir Ásbjörns verkfræðings, Snjólaugar náms­ráðgjafa og Hrefnu leikskólakennara.

Aðalbjörg, örverpið í Garðshorni, fór í vinnumennsku í Nes í Höfðahverfi 1866 en þaðan fluttist hún til Akureyrar árið eftir og gerðist vinnukona hjá Hansen Jensen-hjónunum og bjó þá undir sama þaki og Guðjón beykir. Engar sögur eru til um samvistir þeirra – þær verða lesendur að ímynda sér hver um sig – en sumarið 1868 fór Guðjón til Kaup­mannahafnar en Aðalbjörg austur í Fnjóskadal. Þaðan fór hún austur á Hól í Tjörneshreppi til Helga bróður síns þar sem hún eignaðist Pálínu Ragnheiði Sesselju í febrúar 1869 og kenndi Guðjóni og hann gekkst við. Guðjón kom aftur frá Kaup­mannahöfn sumarið 1869.

Allt bendir til að samband þeirra Guðjóns og Aðalbjargar hafi staðið stutt þótt eitthvað hafi hún verið viðloða Akureyri fyrst eftir fæðingu Pálínu. Árið 1872 fluttist hún frá Akureyri með dóttur sína austur í Stórutungu í Bárðardal. Næstu árin fóru þær mæðgur milli bæja í vistum, oftast í Suður-Þingeyjarsýslu en til þeirra spurðist líka í Öxnadal, á Þelamörk og í Arnarneshreppi. Árið 1896 fluttu þær báðar til Akureyrar, Aðalbjörg frá Gautlöndum í Mývatns­sveit en Pálína frá Bjarnastöðum í Bárðardal. Árið 1901 bjuggu þær báðar í Lækjar­götu 13 en í Lækjargötu 7 á árunum 1902 – 1904 og þar í Búðargilinu bjuggu þær lengst af eftir þetta.

Árin sem Pálína Ragnheiður Sesselja var í Þingeyjarsýslu var hún oft ekki skráð Pálína heldur Ragnheiður og einu sinni Ragnheiður Soffía. Á Akureyri var hún ein­ungis skráð Pálína þangað til í manntalinu 1930 þegar öll nöfnin voru skráð.

Nú er nefndur til sögunnar Sumarliði Ólafsson (1845-1920) sjómaður frá Akurhúsum í Útskála­sókn í Garði. Hann flutti norður til Akureyrar árið 1899 og á næstu tveimur árum komu kona hans, Guðríður Þorsteins­dóttir (1847-1907), og fjögur uppkomin börn þeirra. Um börn Sumarliða og Guðríðar og afkom­endur þeirra mætti skrifa langt mál þótt það verði ekki gert hér. Sumarliði og Guðríður höfðu áður búið í Garðinum en á Akureyri bjuggu þau aðeins saman fyrstu 1 – 2 árin en virðast svo hafa skilið að borði og sæng. Guðríður bjó í Lækjargötu 13 ásamt börnum þeirra Sumarliða en Sumarliði sjálfur á ýmsum stöðum, m.a. í Lækjargötu 8 og Lækjargötu 16.

Óvíst er um þátt Pálínu í þessu skilnaðarmáli, hvort hún komst upp á milli þeirra nágrannahjónanna, en svo mikið er víst að þau Sumarliði fluttu saman vestur á Ísafjörð 1904, hún orðin ólétt að Alfreð sem fæddist þar í ágúst sama ár. Guðríður bjó áfram í Lækjargötu 13 ásamt börnum þeirra Sumarliða þangað til hún lést 1907. Sama ár fluttu þau Sumarliði og Pálína í Lækjargötu 11a og árið eftir fæddist Þórdís. Þau Sumarliði daglaunamaður, 68 ára, og Pálína „yngismær“, eins og hún var þá skráð í kirkjubók, 41 árs, gengu svo í hjónaband árið 1912 og árið 1914 fæddist Helgi Eyfjörð, Pálína þá orðin 45 ára gömul.

Árið 1920 féll Sumarliði frá, 79 ára að aldri. Aðalbjörg Þorkelsdóttir bjó hjá Pálínu dóttur sinni í Lækjargötu 11a þangað til skömmu áður en hún dó á níræðisaldri 1921 en þá var hún „þurfalingur í Kjarna“. Pálína bjó áfram í Lækjar­götu 11a ásamt börnum sínum þangað til hún flutti til Reykjavíkur 1955. Alfreð var sjómaður hjá Sigurði hálfbróður sínum og drukknaði út af Siglunesi af m/b Dan frá Höephners­verslun árið 1934, barnlaus. Helgi Eyfjörð var verkamaður og sjómaður á meðan hann bjó á Akureyri en hann flutti til Reykjavíkur 1955 og bjó þar með systur sinni á meðan hún lifði en síðustu árin bjó hann á Hrafnistu. Í Reykjavík stundaði hann bygginga­vinnu og starfaði í Kassagerð Reykja­víkur. Hann var ógiftur alla tíð og dó barnlaus.

Pálína Guðjónsdóttir

Þórdís var í Laugaskóla veturinn 1930-31 en gerði síðan mikla ferð til Reykjavíkur um miðjan 4. áratuginn. Þar eignaðist hún soninn Hörð Steinþórsson 1936 með Steinþóri Steinssyni starfsmanni Land­símans þar í bæ og skömmu eftir komuna norður aftur eignaðist hún Má Jensson með Jens Jenssyni járnsmið í Reykjavík. Þau Helgi seldu hús sitt í Lækjargötu 11a árið 1955 og fluttust til Reykja­víkur ásamt sonum hennar og þar lést Þórdís Guðjónsdóttir árið 1981.

Þórdís Sumarliðadóttir

Snúum okkur nú aftur að Guðjóni Sigfússyni bryta en við skildum við hann þegar hann var að leggja sitt af mörkum til að Flöguselsættin dæi ekki út. Árið 1873 sigldi hann í annað sinn og varð nú samferða einni dóttur Laurits og Helgu Hansen-Jensen til Kaupmanna­­hafnar, Amalíu Margréti sem þá var 14 ára. Viðdvöl hans þar varð þó stutt sem fyrr því að hann kom til Akureyrar árið eftir, þá orðinn þrítugur, og fór nú að lifa sjálfstæðara lífi en fyrr. Eitthvert los kom á hann upp úr þessu því að hann er sagður flytja til Raufarhafnar 1881, þótt kirkjubækur Presthólahrepps geti þess ekki að hann hafi verið þar búsettur, en síðan fluttist hann að Munka­þverá og þaðan að Hóli í Höfðahverfi 1883 og var þá sem oftar titlaður laggari (beykir). Þaðan flutti hann til Hjalteyrar 1885 en árið eftir fluttist hann aftur til Akureyrar eða Oddeyrar, sem á þeim tíma var alls ekki sami staðurinn. Hann var þó hvorki skráður á Akureyri né Oddeyri 1886-1888 en á Oddeyri bjó hann 1889 og 1890. Allt er á huldu um búsetu Guðjóns síðustu árin. Hann sést ekki í sóknamannatali á Akureyri eftir 1890 en var þó á skrá yfir útsvarsgreiðendur þar 1892 og 1894. Líklega stóð hann skil á útsvarinu og seinna árið gerði hann það örugglega en þá lést hann. Í kirkjubókinni segir um andlát hans: „Varð sér að skaða (skar sig á háls).“

Þegar dánarbú Guðjóns var gert upp stóðust á uppboðsandvirðið og peningaeign annarsvegar og útfarar­kostnaður og skuldir, m.a. útsvarsskuld, hins vegar. Síðan segir Klemens sýslumaður: „Auk þessara eigna eru nokkur léleg föt sem Guðjón sálugi átti svo sem frakkagarmur, skyrta, nærbuxur, vettlingar og hattgarmur og er allt þetta afhent albróður hins látna, Guðmundi bónda Sigfússyni á Grjótgarði.“

Guðjón hafði fyrir sér einum að sjá þótt eitthvert meðlag hafi hann e.t.v. greitt með dóttur sinni. En þó að hart væri í ári hefði iðnaðarmaður eins og hann átt að geta safnað einhverjum skildingum í handraðann með góðum vilja. Því verður líklega seint svarað, úr því sem komið er, hvern mann Guðjón Sigfússon hafði að geyma en líklega var hann enginn ráðdeildar- og reglumaður þegar á leið.

Helgi Eyfjörð Sumarliðason