Arnbjörg og Valdemar á Rauðalæk, Kotum og Bólu

Arnbjörg og Valdemar á Rauðalæk, Kotum og Bólu

Hér segir frá Arnbjörgu dóttur Guðmundar og Steinunnar. Ýmsar frásagnir eru til um Valdemar mann hennar og ættingja hans en færra er vitað um Arnbjörgu sjálfa.

Arnbjörg Guðmundsdóttir húsfreyja á Efri-Rauðalæk, Fremri-Kotum og Bólu

Arnbjörg Guðmundsdóttir (1880-1936) giftist 7. júní 1905 Valdemar Guðmundssyni sem þá var 27 ára en hún var 25. Þau hófu búskap á Efri-Rauðalæk sama ár, tóku við jörðinni af Kristínu systur Valdemars og Friðfinni sem síðar bjuggu á Egilsá, foreldrum Guðmundar rithöfundar. Þau Friðfinnur höfðu þá búið á Rauðalæk í meira en áratug. Þegar Arnbjörg flutti í Rauðalæk, fluttu Steinunn og Kristfinnur með henni frá Garðshorni og þangað flutti Steinunn ekki aftur fyrr en 1915. Á Rauðalæk bjuggu Arnbjörg og Valdemar þangað til þau fluttu vestur að Fremri-Kotum í Norðurárdal árið 1910 ásamt Gunnari syni þeirra sem fæddist 1907 og Krist­finni Guðjóns­syni. Yngri sonurinn, Guðmundur, fæddist ekki fyrr en þau voru komin vestur eða 1911.

Eftir að Arnbjörg fluttist vestur í Fremri-Kot var notaður samskiptamáti þess tíma til að viðhalda tengslum milli hennar og ættingjanna á Þelamörk og í Öxnadal. Hún fékk bréf sem hún varðveitti og voru varðveitt eftir hennar dag og eru birt hér á vefnum. Bréfin til Boggu gefa vissulega nokkra innsýn í líf Steinunnar og afkomenda hennar sem urðu eftir á Þelamörkinni og Öxnadalnum en segja þó færra um viðtakandann, Arnbjörgu á Kotum og í Bólu og hennar fólk. Þess vegna eru hér tíundaðar frásagnir af þeim úr Skagfirskum æviskrám enda sam­bæri­legar lýsingar á bræðrum hennar ekki til svo vitað sé.

Guðrún Helgadóttir alþingis­maður og rithöfundur sagði eitt sinn á Alþingi sögu af þeim hjónum í Bólu án þess þó að nafngreina þau. Valdemar var samkvæmt sögunni svo naumur við Arnbjörgu að hann skammtaði henni mat úr læstu búrinu og geymdi sjálfur lykilinn. Einhvern tíma á Arnbjörg að hafa verið heilsu­laus og þurfti að fara á sjúkrahús en Valdemar hafði efasemdir um að það borgaði sig með konu sem komin væri á þennan aldur. Lengra sagði Guðrún ekki söguna en samkvæmt öðrum heimildum á Valdemar að hafa verið spurður þegar Arnbjörg kom heim af sjúkra­húsinu, hvort það hefði nú ekki borgað sig að senda hana á sjúkrahúsið. Jú, Valdemar hélt það nú, hún væri nú komin heim og væri búin að vinna heilmikið síðan. Þessi saga kemur engan veginn heim og saman við lýsingar á þeim hjónum í Skagfirskum æviskrám. En góð saga má aldrei líða fyrir sannleikann.

Frá Guðmundi Jónssyni (1843-1937) föður Valdemars segir í Skagfirskum æviskrám að hann hafi verið fæddur í Fagranesi í Öxnadal og dáinn á Syðstu-Grund í Blönduhlíð, 94 ára að aldri. Kona Guðmundar var Lilja Gunnlaugsdóttir (1850-1923) frá Nýjabæ í Hörgárdal. Eiður á Þúfnavöllum segir líka frá „Sláttu-Gvendi“ og frá „Myrkár-Helgu“ Gísladóttur móður hans og Guðmundur L. Friðfinnsson segir frá þessu fólki í „Örlögum og ævintýrum II“. Í Skagfirskum æviskrám er Guðmundi lýst sem talsvert litríkum persónuleika, atorkumanni sem var þó alla tíð ósýnt um fjármál og eftir honum eru höfð hin fleygu orð að „aldrei væri að vita hvort entist lengur, líf eða litlir aurar“. Lilja er hins vegar sögð hafa verið fésýslukona og mannkostakona um flest. Þau bjuggu í Nýjabæ í Hörgárdal 1872-73, Myrká 1873-76, í Nýjabæ aftur 1876-80 og Bási 1880-1888. Eftir það voru þau í húsmennsku víða uns þau fluttu til dóttur sinnar Kristínar á Egilsá sem gift var Friðfinni Jóhannssyni. Síðar voru þau í skjóli dóttur sinnar, Jónínu á Syðstu-Grund, og Hjartar Jónassonar.

Valdemar Guðmundsson (1878-1966) fæddist á Myrká í Hörgárdal. Í Skagfirskum æviskrám er hann sagður hafa farið ungur úr föðurhúsum til móður­bróður síns, Jóhanns í Flöguseli, þar sem hann var fram yfir fermingu. „Stundaði svo vinnumennsku í nokkur ár. Hóf búskap á Bessahlöðum í Öxnadal [en var á Geirhildar­görðum þegar hann eignaðist barn, Héðin, með Jónínu Jóhannsdóttur bóndadóttur. Barnið varð skammlíft. Innskot G.Fr.]. Fluttist að Efra-Rauðalæk á Þelamörk 1905. Kvæntist það ár. Frá Rauðalæk fluttust þau hjón að Fremri-Kotum vorið 1910 og bjuggu þar til 1924 er þau fóru að Bólu en þá jörð keypti Valdemar með húsmannsbýlinu Fossi 1923.

Valdemar í Bólu

Valdemar var tæpur maðal­maður á hæð en mjög þrekvaxinn, gráeygur með yfirskegg. Rammur að afli og liðlegur glímumaður framan af ævi en varð ungur heilsutæpur, einkum gigtveikur. Hann var greindur maður og gerhugull, hygginn búmaður sem stofnaði lítt til tvísýnu í einu né öðru. Á Fremri-Kotum byggði hann upp, bæði bæ og gripahús, en fékk jörðina ekki keypta. Komst brátt í tölu efnabænda. Hafði yndi af skepnum, átti fallega góðhesta og fóðraði þá vel, enda einkar laginn með hesta að fara. Bókhneigður var hann og fróðleiksfús þótt engrar skólamenntunar nyti í æsku. Mátti segja að hann lærði lestur og skrift án tilsagnar.

Valdemar var mikill kjark­maður og kunni vart að hræðast. Sem dæmi má geta þess, að dráttarvél byrjaði hann að aka 1950, þá kominn yfir sjötugt, og ók henni á meðan hann hafði fótaferð, þótt hjálpa þyrfti honum upp í sætið.

Á yngri árum fékkst hann alllengi við nautgripakaup fyrir Kaupfélag Eyfirðinga. Eitt vorið rak hann í einni ferð um 30 naut, mörg fullorðin og mannýg, norður yfir heiði til Akureyrar. Hafði aðeins með sér Guðmund son sinn, þá innan við fermingu. – Valdemar var félags­lyndur maður, hafði ánægju af gestakomu, naut sín vel á mannafundum, söngmaður ágætur. Gestum veitti hann gjarnan vín og neytti þess sjálfur í hófi. Hann var mikill verkmaður, t.d. með allra bestu sláttumönnum. Traustur var hann í öllum viðskiptum. Þrifa- og snyrtimenni.“

Arnbjörg fær styttri umfjöllun í Skagfirskum æviskrám: „Arnbjörg var meðalkona á hæð, fríð sýnum, með móleit augu og mikið skollitað hár. Hún var greind í meðallagi, mikil dugnaðar- og búsýslukona. Hafði fagra og mikla söngrödd, góð eiginkona og móðir, greiðug og gjöful. Átti vart til óvin né óvildarmann. Þótti öllum, er henni kynntust, vænt um hana.“

Varðveist hefur líkræða sr. Lárusar Arnórssonar á Miklabæ sem hann flutti við útför Arnbjargar 9. des. 1938. Þar segir svo m.a.:

„Og reynið þá líka, kæru syrgjandi ástvinir, að láta samúð vora fylla að einhverju leyti hið tóma rúm hjartna ykkar er hinn ágæti förunautur og móðir er horfinn. Látið ykkur skiljast að við finnum hve mikið þið hafið misst. Látið ykkur skiljast að vér eigum öll mynd af hinni horfnu vinu ykkar, - ég held mynd eins og hún í sannleika var: sviphrein og björt, atorkusöm, vingjarnleg og rösk. Hún var húsmóðir af lífi og sál. Ég tel ekki ofmælt að fullyrða að Arnbjörg hafi verið einhver myndarlegasta og duglegasta húsmóðir þessarar sveitar. Heimili hennar var alla tíð snoturt og einkar hreinlegt; hún átti víst aldrei neinum stofum í nútímamerkingu yfir að ráða til að sópa og prýða en gömlu baðstofurnar sem hún bjó í sýndu að hún hefði verðskuldað að eiga prýðilegustu híbýlum yfir að ráða. Ég veit að margur Blöndhlíð­ingur á þessar minningar um Arnbjörgu, - ekki síst frá því 14 ára skeiði er hún var húsmóðir á Fremri-Kotum og átti á hverju ári á vissum tímum fjölda hreppsbúa fyrir gesti sína. Það var gott til hennar að koma þreyttum og oft köldum rekstrar- og gangna­manni. Þar var gengið um beina ekki aðeins með dugnaði og rausn, einnig veitt af örlátu hjarta. Arnbjörg var gestrisin kona og henni var það fyrst og fremst ánægja að fá heimsókn aðkomumanna.

Þessi þáttur í fari Arnbjargar mun vafalaust hafa átt að nokkru rót sína í því að hún var í sannleika félagslynd kona og vafalaust hneigð til glaðværðar. Vinnuþörfin heima fyrir samfara hinni frábæru skyldurækt er var sem annað eðli Arnbjargar, megnaði aldrei að kefja löngun hennar til félagslífs. Hún var – þetta roskin kona – komin nær sextugu – stöðugt meðlimur í kvenfélagi sveitarinnar og tók – þrátt fyrir erfiða búsetu – þátt í félagslífi og félagsstörfum eftir fyllstu vonum. – Og fyrir minni vitund vakir hún sem upplögð gleðimanneskja ef hún hefði átt kost á að rækja þann þátt eðlis síns enda var hún sönghneigð og söngelsk – en sönglist er hin besta leið mannssálarinnar til sannrar og falslausrar gleði.“

Og enn segir sr. Lárus:

„En í þeirri sorg lýsir þá líka minningin – hin ljúfa minning. Og ykkar ljúfa minning verður annað atriðið sem fylla á upp tóm hjartans er sorgin veldur. Og þær minningar eru ekki aðeins um hinn ötula og ósérhlífna samverkamann – svo framúr­skarandi í óhlífni sinni við sjálfa sig að jafnvel síðasta sumar ævinnar, eftir ítrekað stríð við banameinið og undir áhrifum þess, reis hún fyrst heimafólksins úr rekkju. Þetta er að liggja ekki á liði sínu heldur berjast til þrautar. Þarna lýsir einnig minningin um hina ástríkustu móður. Mér er persónulega kunnugt um að þið, synir þessarar góðu konu, berið til hennar sérstaklega hlýjan sonarhug því þið finnið að þið hafið í henni átt það sem skáldið góða telur meira en „ástar- og hróðrardís“ – já, meira en „engil úr Paradís“: „góða og göfuga móður“. Og hið sama ástríka móðurhjarta átti líka fósturdóttirin að þar sem hjarta hennar bærðist svo og öll þau börn er voru á heimili hennar.“

 

Gunnar Valdemarsson (1907-1975), „Nunni“, „ólst upp hjá foreldrum sínum og fluttist með þeim frá Fremri-Kotum að Bólu árið 1924. Hann var við nám í yngri deild Hvítár­bakka­skóla í Borgarfirði veturinn 1928-29, tók ökupróf 1930 og keypti vörubíl sama vor, stundaði mjólkur- og vöruflutninga í Akrahreppi um árabil. Hann hóf búskap á Fremri-Kotum 1937, keypti þá jörð og bjó til æviloka.

Gunnar Valdemarsson á Fremri-Kotum

Gunnar var maður í lægra meðallagi en saman rekinn, enda karlmenni að burðum, skolhærður og fékk snemma skalla. Hann var grábláeygur, nokkuð holdugur, dálítið kringlu­leitur en vel farinn í andliti. Hann var mannskapsmaður, hrein­skiptinn og áreiðanlegur. Hann var hjálpsamur, glaðvær og góður félagi. Nokkuð var hann örlyndur en sáttfús, átti til stríðni. Gunnar var verkmaður góður, hagur á tré, batt bækur og gerði tíðum við bíla sína við óhægar aðstæður. Hann annaðist heimili sitt eins vel og kostur var þrátt fyrir tíða fjarveru, var nærgætinn eiginmaður og faðir. Gunnar var talsverður fram­kvæmda­maður, reisti steinsteypt íbúðarhús á jörð sinni og ræktaði stór tún. Hann var fremur frjálslyndur í skoðunum en stefnufastur og hélt á hlut sínum“ (Þessi og aðrar tilvitnanir hér eru úr Skagfirskum æviskrám).

Kona Gunnars var Sigurlaug Stefánsdóttir (1919-1982) fæddist á Geirmundar­stöðum í Sæmundarhlíð. Foreldrar hennar voru Stefán Jónsson og María Steinunn Pétursdóttir, Skagfirðingar. Fyrstu árin var Sigurlaug á Dúki með móður sinni, síðan nokkur ár í Geitagerði. Níu ára gömul fór hún til föður síns að Grundar­­gerði. Stefán faðir hennar bjó um tíma á Reynistað í Skagafirði og síðan í Kúskerpi ásamt Steinunni Jóns­dóttur konu sinni sem hann giftist 1927 en þau fluttu til Bolungarvíkur árið 1934. Stefán og Steinunn fluttu til Reykjavíkur þar sem hann var fyrst húsvörður en síðan hús- og safnvörður við Árbæjarsafn frá stofnun þess. Þau Steinunn áttu 10 börn en af þeim komust 7 á fullorðinsár. María móðir Sigurlaugar mun hafa flust til Sauðárkróks og búið þar til æviloka.

Sigur­laug fór sem unglingur í vinnu­mennsku að Bólu til foreldra Gunnars en fór með honum að Fremri-Kotum 1937, fyrst sem bústýra. „Sigur­laug var smávaxin kona og fínbyggð, fremur fríð sýnum en feimin og hlédræg, hæglát í fasi, dag­fars­prúð og yfirlætislaus. Hún var greind og las bækur eins og tími vannst til. Hún var hög í höndum, mikil hannyrðakona og félagslynd. Á öllum sviðum var hún meiri en hún sýndist. Sigurlaug var manni sínum samhent og hlaut oft að sinna útistörfum vegna fjarveru Gunnars. Eftir að hún missti mann sinn, bjó hún áfram á sama stað með sonum sínum, Valdemar og Jóni Steinari.

Þau hjón byrjuðu búskap við lítil efni en sökum ráðdeildar vænkaðist efna­hagurinn og á síðari árum bjuggu þau meðalbúi.

Kjarkur og þrautseigja hjónanna á Fremri-Kotum sannaðist aldrei betur en þegar skriðurnar miklu féllu á öndverðum degi 6. júlí 1954. Kalla má að talsverðar spildur Kotaheiðar hlypu fram á lítilli stundu með vatnsflaumi, leir- og grjótburði. Öll fjárhús sópuðust burt ásamt hlöðu. Meiri hluti túns og engja fór undir aur og grjót auk hluta beitilands. Eitthvað af sauðfé fórst. Aurskriða féll á íbúðarhúsið og tók nokkuð upp á vegg. Bíll sem skilinn hafði verið eftir á Norðulandsvegi grófst nær á kaf. Eru til af því myndir. Þessu fylgdi ægilegt flóð í fallvötnum. Tók af steinsteypta brú á Valagilsá og lá hún í brotum á Norðuráreyrum. Svo stóð á að bóndi var ekki heima, húsfreyja því ein með börnin, flest ung. Við þvílíkar aðstæður mátti eins búast við að húsið færi eða græfist í skriðu. En af fumleysi gerði Sigurlaug það eina rétta, fór með börnin í herbergi sem fjærst var fjallinu og lokaði hurð. Gunnar komst heim um kvöldið við harðræði, gekk á skíðum yfir skriðurnar sem víða voru þykkar.“

Þegar þessir atburðir gerðust tók Frímann í Garðshorni leigubíl vestur að Kotum til að skoða aðstæður hjá frænda sínum. Leigubíllinn var reyndar mjólkurbíllinn í sveitinni sem Baldur Þorsteinsson átti og ók og rúmaði hjónin í Garðshorni, 3 elstu börnin og Pétur á Rauðalæk. Ferðin varð eftirminnileg og aðkoman þar vesturfrá óhugnanleg.

„Ekki tóku hjónin þann kostinn sem ætla mátti hægastan, að hopa af hólmi, jafnvel þó ekki hefðu dusilmenni verið. Þau hófust þegar handa að hreinsa til, rækta og græða sár, keyptu Ytri-Kot og fengu aðstoð frá Landnámi ríkisins í formi vélavinnu og uppgræðslu. Ást og trú Fremri-Kotahjóna á landið og gróandann entist þeim báðum til endadægurs.“ (Skagfirskar æviskrár)

Gunnar lést 1975 úr krabbameini en Sigurlaug 1982. Þau eru bæði jörðuð á Bægisá. Gunnar lét jarða sig á Bægisá, m.a. til að fá að hvíla sem næst fæðingarstaðnum. Sagan segir að hann hafi ekki viljað láta jarða sig á Miklabæ því að honum þótti nýja kirkjan svo ljót og ekki heldur á Silfrastöðum því að þar bjuggu aðeins framsóknarmenn. Börn þeirra eru/voru Arnbjörg Steinunn, Valdemar Helgi, Guðmundur Kári, Reynald Smári og Jón Steinar.

 

Guðmundur Valdemarsson (1911-1976) fæddist á Fremri-Kotum, var bóndi í Bólu 1953-1976. Honum er þannig lýst í Skagfirskum æviskrám: „Guðmundur ólst upp hjá foreldrum sínum á Fremri-Kotum og fór með þeim að Bólu 1924. Valdemar missti konu sína 19. 11. 1938 en feðgarnir bjuggu áfram á sama stað. Valdemar lést 25. 11. 1966 en Guðmundur bjó í Bólu til æviloka, oftast einn. Nokkur síðustu árin var hjá honum piltur, Gunnar Sigurðsson að nafni, kom til hans ellefu eða tólf ára. Reyndist Guðmundur honum sem besti faðir, enda góðviljaður og hlýr maður.

Guðmundur Valdemarsson bóndi í Bólu

Bú Guðmundar var aldrei stórt, en honum þótti vænt um skepnur sínar, leit á þær sem vini og félaga og annaðist í samræmi við það.

Guðmundur var í hærra meðallagi á vöxt og svaraði sér vel, bláeygur, ljósskolhærður, fékk ekki skalla. Hann var beinvaxinn, rauðleitur í andliti, fullur að vöngum, ekki fríður maður en vandist vel vegna mannkosta. Hann var vel í meðallagi að burðum og farsæll verkmaður. Hann var hæglátur hversdagslega, prúður og einarður í framkomu, orðheppinn og hagmæltur, traustur maður og vinfastur. Hann var trúmaður, sönghneigður og hafði ágæta söngrödd. Hann vann af alhug að málefnum Silfrastaðakirkju enda lengi formaður sóknarnefndar.

Guðmundur var sæmilega í efnum, enda sparsamur án þess þó að geta talist nískur. Hann var varfærinn í fjármálum, bjó að heimafengnu og kostaði ekki til framyfir þarfir. Þó var hann gestrisinn og svo hjálpfús að ekki varð annað séð en honum þætti betur ef hann gat veitt lið á einu eða öðru sviði. Guðmundur var vel greindur, reiknings­maður og hafði glæsilega rithönd, naut ekki skólamenntunar utan hefðbundinnar barnafræðslu og vetrartíma á unglingaskóla. Hann var minnugur og hneigður til fræðistarfa. Nokkuð var hann sér um hætti og ekki mikill framkvæmda­maður. Þó ræktaði hann nokkuð enda náttúruunnandi og náttúrubarn. Hann keypti hús lítið, er enn stendur í Bólu, og flutti í heilu lagi frá Akureyri. Guðmundur var ókvæntur og barnlaus.“

Guðmundur dó á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri 1976.

Það mun hafa verið sumarið 1975 sem Frímann Pálmason, Gunnar sonur hans og Júlía tengdadóttir svo og Una Sigurliða­dóttir fóru í hringferð norður í Fljót og Siglufjörð og inn Viðvíkursveit og Blöndu­hlíð til baka, báðar konurnar óléttar. Frímann lagði mikið upp úr því að heimsækja Guðmund bónda og frænda sinn í Bólu og verður sú heimsókn ferðalöngunum ógleymanleg. Húsið var lítið og innanstokks­munir einfaldir eins og verða vill hjá piparsveinum. Guðmundur bar fram kaffi og meðlæti úr frysti­kistunni en konunum fannst hann ekki vera smámuna­samur með hreinlæti. En systkina­sonunum fannst gaman að hittast og skiptast á fréttum þótt stundin væri ekki löng. Ættarsvipur var með Frímanni og Guðmundi. Gunnar á Kotum lá þá fyrir dauðanum og fimm árum síðar voru þeir frændur allir komnir undir græna torfu.

„Heimur dals og heiða“ eftir Hallgrím Jónasson, Rvk. 1973, bls. 35. Hallgrímur lýsir bænum á Kotum eins og hann hefur verið þegar Arnbjörg og Valdemar fluttu þangað 1910.

Gamli bærinn á Fremri-Kotum í Norðurárdal

„Bærinn á Fremri-Kotum, bernskuheimili mínu, var hvorki háreistur né stór um sig. Tvö stofuþil sneru fram á hlaðið til suðurs. Stétt var fyrir dyrum og hlað framan við hana. Á minni stafninum voru bæjardyrnar. Hinn var skálaþil, hærra og breiðara. Þegar inn kom í bæjardyrnar var gengið inn í skálann til vinstri handar, en beint áfram lágu göngin til baðstofu. Út úr þeim á hægri hönd voru lágar dyr til eldhússins. Á því man ég ekki til að væri neinn gluggi. Birtan kom ofan um strompinn, sem var víður, beint yfir hlóða­bálkinum. Hlóðir voru tvær, aðrar stórar fyrir potta og stærri ílát, en hinar litlar, þar sem katlar og lítil suðuílát voru skorðuð. Til þess þurfti hæfilega steina, er felldir skyldu milli ílátsins og hliðar­steinanna. Þeir skyldu vera þynnri í aðra röndina svo ílátin skorðuðust betur. Gamalt vind­auga var á framstafni eldhússins en fyllt hafði verið upp í það.

Þegar lygnt var vildi reykur oft safnast fyrir í eld­húsinu. Helsta ráðið til þess að losna við hann var að „skýla hjá“. Til þess þurfti þó að vera nokkur and­vari. Tekin var bæjar­dyrahurðin af hjörunum og lögð á rönd út úr dyrunum, þvert fyrir andvarann eða goluna. Barst þá loftstraumur inn göngin og um eldhúsið. Við það blés reyknum upp um strompinn. Annars súrnaði þeim sjáldur í auga er vinna þurftu í eldhúsinu í reykjarsvælu, svo sem við eldamennsku eða við að þurrka föt ferðafólks er kom meira eða minna hrakið og leitaði gistingar í illviðrum eða ef dagur var á þrotum.“