Efnahagsmál
Valt er gengið í veröld hér,
(vissu það margir á undan mér
þó að menn þegðu yfir).
Heimurinn þungan heyrði skell,
hér var það pundið sem niður féll,
laskaðist mjög en lifir.
Ríkisstjórn Íslands brá í brún,
„bölvaður tjallinn,“ sagði hún,
„bara að ég gæt‘ann barið.“
Efnahagsfrumvörp öll um koll
ultu í næsta drullupoll
(fé hefur betra farið).
Gylfi hefur, þess geta ber,
gengisráðherra verið hér
alltof andskoti lengi.
Löng er hans reikningslist og mennt,
hann lækkaði um 25%
okkar íslenska gengi.
Þjóðin hún beið við þetta tjón,
það náði yfir gjörvallt Frón
en stærst varð hjá stórkaupmönnum.
Nú blasti við þeim neyðin hrein,
nú mátti heyra grát og kvein
og gnístur í gervitönnum.
(Nóvember 1966)