Ingimundur Jónsson

Ingimundur Jónsson[1]

ólst upp í föðurhúsum en var skráður léttadrengur á Tröð í Bolungarvík 1880, þá 14 ára gamall, og árið 1890 var hann vinnumaður á Ósi. Hann gekk að eiga Valdísi Sigríði Sigurðardóttur[2] frá Gilsbrekku í Súgandafirði 1891, hann þá 25 ára gamall en hún þrítug. Þau eign­uðust dótturina Jónínu Elísabetu[3] en líklega ekki fleiri börn, a.m.k. engin sem komust á legg. 

Frá Bolungarvík. Litla húsið innan hringsins er Ingimundarbúð. Stóra húsið, nær á myndinni, er Bjarnabúð, hús Bjarna Eiríkssonar sem rak þar verslun. Bjarni var tengdafaðir Gunnu frænku í Bolungarvík.

Ingimundur mun hafa stundað sjó­mennsku lengst af því að þau bjuggu í sjóbúðum á svonefndum Mölum í Bolungarvík, neðst í landi Ytribúða eða jafnvel neðan við land Ytribúða því að líklega tilheyrðu Mal­irnar landi Meirihlíðar. Árið 1910 og til 1912 bjuggu þau í húsi á Mölunum sem kallað var Bær Ingi­mundar Jónssonar eða Ingimundar­búð en þá voru þar einnig til heimilis Elísabet dóttir þeirra, Jón, faðir Ingimundar, og Matt­hildur Guðbjörg, systur­­dóttir Ingimundar.

Árið 1913 tók Ingi­mundur við búi á jarðar­skika föður síns á Breiða­bóli – Neðribæ – og þar bjuggu Elísabet og Jón faðir Ingimundar hjá þeim þar til hann lést 1914. Á þessum tíma var fríkirkja í Bolungar­vík og sóknar­mannatalið tvífært en gallinn sá að þessum skrám kirknanna bar ekki alltaf saman. Í annarri skránni er gamli Jón skráður niður­setningur á Hóli 1914 og það gæti hann hafa verið um skamman tíma.

Árið 1915 hófu Elísabet og Þorsteinn Arnór Arnórsson sambúð á Möl­unum í Bolungarvík en Ingimundur og Valdís bjuggu áfram á Breiðabóli. Árið 1918 fluttu þau til Bolungarvíkur og bjuggu þar á Bolungarvíkurmölum ásamt dóttur sinni, tengdasyni og elsta syni þeirra. 

Þessi stórfjölskylda bjó lengst af saman til æviloka Ingimundar og Valdísar. Árið 1930 fluttu Ingimundur og Valdís inn á Ísafjörð en þangað höfðu Elísabet og Þorsteinn flust á undan þeim. Á Ísafirði bjó fjölskyldan saman sem fyrr.

Elísabet Ingimundardóttir og Þorsteinn Arnór Arnórsson

Ingimundur þótti ekki mikill fyrir sér sem sést m.a. á því að hann virðist aldrei hafa náð að hefja sig upp úr fátæktinni sem tilheyrði því að búa í sjóbúðum á Mölunum í Bolungarvík. Vissulega átti hann eigið húsnæði þar eða í landi Ytribúða, sem nefndist Ingimundarbúð, en hún var ekki tilkomumikil eins og meðfylgjandi mynd sýnir. Í þessu samhengi má hafa í huga að Sigurður yngri bróðir hans var hálfþrítugur orðinn formaður á bát en þeim frama hefur Ingimundur líklega aldrei náð. Hinsvegar hefur Ingimundur og heimili hans verið miðpunktur fjölskyldunnar þegar halla fór undan fæti fyrir foreldrum hans, hann tók Matthildi systurdóttur sína í fóstur fyrstu 10 árin eftir að móðir hennar lést og hann hafði föður sinn á heimili sínu síðustu ár ævi hans. Engar nánari lýsingar hef ég fundið á Ingimundi en Gunnfinna, dótturdóttir hans, segir að Valdís amma hennar hafi verið lágvaxin kona, fáskiptin og dul.

Elísabet giftist Þorsteini Arnórssyni[4], eins og áður segir, en hann var sammæðra Gunnari á Hóli, föður Högna og Halldórs sem var skipstjóri á djúpbátnum Fagranesi, sjá kafla um Bjarna Bjarnason. 

Valmundur Jón Þorsteinsson

Þorsteinn var líka skipstjóri á Fagranesinu en þegar Elísabet veiktist af brjóstakrabbameini árið 1935 flutti hún með tvær yngstu dæturnar til Reykjavíkur til að leita sér lækninga. Ingimundur og Valdís fluttu með þeim og bjuggu hjá þeim á Bræðraborgarstíg 38. Elstu þrjú börnin voru þá farin að heiman og þegar Þorsteinn var laus úr skipstjórastarfinu vorið 1936 flutti hann til þeirra. Ingimundur lést í ársbyrjun 1936 en Elísabet lá mest á Bláa bandinu eftir að hún kom suður og þangað til hún lést árið 1940.

Í Reykjavík starfaði Þorsteinn sem næturvörður í Búnaðarbankanum við Lækjartorg. Hann flutti með tengdamóður sína og dæturnar í kjallara á Laufásvegi og þær gengu í Miðbæjarskólann. Kennari þeirra þar var Helga Soffía Þorgilsdóttir frá Knarrarhöfn í Dalasýslu, síðar yfirkennari við Melaskóla, skáldmælt vel. Þau Þorsteinn og Helga giftu sig 1946 og Helga gekk yngstu systrunum í móðurstað og barnabörnum Þorsteins og Elísabetar var hún sem hin besta amma.

 

Elísabet og Þorsteinn áttu 5 börn. Valmundur Jón[5] var sjómaður á meðan hann var fyrir vestan og eftir að hann fluttist til Reykjavíkur lærði hann til matsveins. 

Þórður A.S. Þorsteinsson

Eftir það var hann matsveinn á togurum frá Reykjavík. Kona hans var Friðrikka Magnea Jónsdóttir[6], þau áttu Elísabetu Þorsteinu og Rannveigu Jónu en Friðrikka átti eina dóttur fyrir. Valmundur átti líka fyrir Margréti Einarsdóttur[7] með Guðlaugu Sveinsdóttur[8] en Einars­nafnið er úr móðurætt hennar.

Þórður Arnór Salómon[9] var óreglumaður og dó ungur. Hann reyndi fyrir sér í blaðamennsku, vann á Keflavíkurflugvelli og var í Bandaríkjunum um tíma. Hann eignaðist Valdísi Önnu Dúfu[10] með Sigríði Fjólu Guðmundsdóttur[11].

 

 

Hulda Valdís Þorsteinsdóttir

Hulda Valdís[12] vann fyrst þjónustustörf í Reykjavík og eignaðist á þeim tíma Elísabetu Guðbjörgu Margréti[13] með Guðmundi Hjaltasyni. Elísabet var ættleidd af Páli Einarssyni f. 1907 og Aldísi Ólafsdóttur f. 1917. Hulda giftist Þorsteini Erlingssyni og skildi við hann. Hún fluttist 1953 til Valgerðar systur sinnar sem þá bjó í Leirhöfn á Melrakkasléttu. Þar kynntist hún Gunnari Páli Björnssyni[14] frá Grjótnesi og þar í Grjótnesi bjuggu þau og bræður hans tveir fram til 1966 er þau brugðu búi og fluttust til Raufarhafnar þar sem þau höfðu byggt sér hús. Á báðum stöðum fór orð af myndarskap Huldu. Hulda og Gunnar voru barnlaus.

 

Valgerður Þorsteinsdóttir

Valgerður Guðrún Margrét[15] lauk miðskólaprófi og vann fyrst ýmis þjónustustörf í Reykjavík. Hún hóf þar flugnám og lauk prófi en Valgerður var fyrsta konan sem fékk íslenskt flug­skírteini. Hún hafði fengið inngöngu í CAL-Areo flugskóla í Bandaríkjunum en gjaldeyrishöft og almenn fátækt komu í veg fyrir frekari nám. Hún giftist Jóni Helgasyni tæknifræðingi frá Leirhöfn á Melrakkasléttu og fluttist með honum til Noregs og síðar til Leirhafnar þar sem þau stunduðu búskap um tíma. Þau bjuggu síðan nokkur ár á Raufarhöfn og Egilsstöðum, þar sem Jón var rafveitustjóri, og á þeim tíma og eftir að þau fluttu til Reykjavíkur aftur starfaði Valgerður sem verslunarmaður, bókavörður og bankastarfsmaður. Þau Jón eignuðust Þorstein Arnór skrifstofustjóra Hæsta­réttar, Helga raffræðing hjá RARIK á Akureyri og Þórð flugvirkja sem býr í Danmörku.

Kona Helga Jónssonar er Jónína Sturludóttir sem er fjórði liður frá Brynjólfi Jónssyni, bróður Barna-Betu sem nefnd er í inngangsorðum hér fremst. Fyrir kom að Guðfinna Bjarnadóttir, sem þá var í fóstri í Botni í Mjóafirði, færi í vist sem heimilishjálp um skemmri tíma til Svanfríðar Albertsdóttur og Halldórs Sigurðssonar skipstjóra á Ísafirði en þau áttu mörg börn, m.a. Sturlu föður Jónínu en hann var stundum vikastrákur og smali í Hörgshlíð í Mjóafirði. 

Brynjólfur Albertsson, bróðir Svanfríðar, var fóstursonur Guðmundar og Sigríðar í Hörgshlíð en Sigríður og Albert, faðir Svanfríðar og Brynjólfs, voru systkinabörn. Sigríður var afasystir Guðfinnu Bjarnadóttur, móður greinarhöfundar.

Gunnfinna S Þorsteinsdóttir

Loks áttu Elísabet og Þorsteinn Gunnfinnu Sesselju[16] sem lauk miðskólaprófi og stundaði mikið íþróttir á yngri árum. Hún flutti til Bandaríkjanna 1955 og starfaði þar hjá tryggingafélagi og á þeim vinnustað kynntist hún Harry W. Green, giftist honum og eignaðist með honum dótturina Helgu Soffíu Green. Harry lærði síðar bakaraiðn og þau stofnuðu bakarí á Long Island sem þau ráku alla tíð, hann sá um framleiðsluna en hún um bókhaldið. Þau hafa búið þar vestra síðan.

 

 

 

[1] Ingimundur Jónsson f. 12. 9. 1866, d. 13. 1. 1936
[2] Valdís Sigríður Sigurðardóttir f. 8. 5. 1861, d. 29. 1. 1942
[3] Jónína Elísabet Ingimundardóttir f. 16. 2. 1897, d. 30. 8. 1940
[4] Þorsteinn Arnór Arnórsson f. 20. 2. 1893, d. 2. 1. 1962
[5] Valmundur Jón Þorsteinsson f. 16. 8. 1915, d. 18. 9. 1998
[6] Friðrikka Magnóea Jónsdóttir f. 15. 10. 1907, d. 25. 2. 1994
[7] Margrét Einarsdóttir (Valmundardóttir) f. 6. 12. 1941
[8] Guðlaug Sveinsdttir f. 12. 2. 1916, d. 14. 6. 2003
[9] Þórður Arnór Salómon Þorsteinsson f. 21. 6. 1921, d. 5. 2. 1949
[10] Valdís Anna Dúfa Þórðardóttir f. 7. 2. 1942
[11] Sigríður Fjóla Guðmundsdóttir f. 6. 9. 1920, fluttist til Bretlands
[12] Hulda Valdís Þorsteinsdóttir f. 12. 8. 1924, d. 4. 8. 1974
[13] Elísabet Guðbjörg Margrét Pálsdóttir (Guðmundsdóttir) f. 20. 2. 1944
[14] Gunnar Páll Björnsson f. 30. 1. 1905, d. 5. 1. 2005
[15] Valgerður Guðrún Margrét Þorsteinsdóttir f. 23. 12. 1927, d. 19. 6. 2009
[16] Gunnfinna Sesselja Þorsteinsdóttir f. 30. 11. 1932