Nýjustu ábúendur í Garðshorni

Nýjustu ábúendur í Garðshorni

Börn Frímanns og Guðfinnu seldu Garðshorn 1981 í von um að jörðin færi ekki í eyði eins og svo margar aðrar jarðir á Þelamörkinni. Sú von hefur ekki brugðist því að dugandi fólk hefur búið í Garðshorni síðustu áratugi en því fólki verða þó ekki gerð skil hér eins og fyrri ábúendum.

Kaupendur af Garðshornssystkinum voru þau Guðmundur Víkingsson og Sóley Jóhannsdóttir sem bjuggu í Garðshorni til 2014. Fram að 1980 höfðu Garðshorns­bændur búið bæði með kýr og sauðfé en hross voru yfirleitt fá og engin síðustu árin. Guðmundur og Sóley bjuggu ekki með kýr en þau byggðu nýtt fjárhús og hlöðu og fjölguðu fénu úr 120-150 í nær 500. Þau lyftu þakinu á íbúðarhúsinu þannig að þar fékkst meira húsrými auk þess sem þau klæddu húsið utan og einangruðu en steypu­möl hefur greini­lega ekki verið svo hrein sem skyldi sem notuð var á 4. ára­tugnum við húsbygg­ingar í Garðshorni, tekin úr melhólum í landareigninni.

Sóley Jóhannsdóttir og Guðmundur Víkingsson bjuggu í Garðshorni 1981 til 2014

Agnar Þór Magnússon og Birna Tryggvadóttir Thorlacius hafa búið í Garðshorni síðan 2014

Guðmundur og Sóley hættu búskap 2014 og seldu jörðina Agnari Þór Magnússyni og Birnu Thorlacius Tryggva­dóttur sem hafa haldið áfram með sauðfjárbúskapinn en bætt við hrossarækt og tamningum þar sem þau eru í fremstu röð á landsvísu. Þau hafa endurnýjað byggingar og byggt veglega reið­skemmu. Það er fyrst með núverandi ábúendum í Garðshorni að við systkinin og afkomendur okkar getum sagt hvaðan við erum þannig að einhver kannist við bæinn með því að segja að við séum frá sama bæ og verðlaunahestarnir Sirkus og Adrian.