Úr „Konan í dalnum og dæturnar sjö“
eftir Guðmund G. Hagalín
Dag einn, fyrra sumarið sem Moníka var á Silfrastöðum, var fólkið við heyskap niður undan bænum. Kvísl úr Norðurá fellur fram hjá engjateignum. Hylur er þarna í kvíslinni og að honum er gróinn bakki. Hann er mjór en upp frá honum rís allhátt barð. Það var kuldanæðingur af norðri og þá er fólkinu var fært miðaftanskaffið, settist það á árbakkann í skjóli við barðið. Fljótlega varð einhver til að hefja glens og brátt flugu á milli gamanyrði og glettnar vísur. Síðan tóku karlmennirnir að hrifsa eða ýta í kvenfólkið og kváðu við hlátrar og hróp. Einn af vinnumönnunum hét Kristfinnur Guðjónsson. Hann ýtti við Moníku sem sat mjög framarlega á árbakkanum.
„Ætlar þú að steypa mér í ána, bannsettur fanturinn?“ sagði Moníka og leit hvatlega við Kristfinni.
„Það væri frekar ónotalegt að fá bað í henni Norðurá núna“ sagði einn af kaupamönnunum.
„Varla skil ég í að það dræpi neinn!“ mælti ein vinnukonan.
„Það held ég hreint ekki!“ sagði Moníka.
„Ætli þið hikuðuð ekki við það að stinga ykkur í hylinn, þó eitthvað væri í boði?“ mælti sami kaupamaðurinn.
„Við skulum bara láta skorið úr um það,“ sagði Kristfinnur. „Við heitum hverri þeirri sem stingur sér í hylinn sinni krónunni hver og hér erum við fimm fyrir utan húsbóndann. Eruð þið með í því, piltar?“
„Já, já, já!“ kvað við frá hinum.
Moníka spratt á fætur og í hylinn stakk hún sér. Hún fór á bólakaf en fljótlega skaut henni upp. Og brátt stóð hún gegndrepa á bakkanum og jafnt karlar sem konur gláptu á hana.
Hún vatt sér síðan við og hugðist ganga að hrífunni sinni en nú kom Jóhannes, húsbóndi hennar, til skjalanna. Hann stóð upp, gekk á eftir henni og kallaði:
„Moníka! Nú ferð þú heim, telpa mín – og það strax – og hefur fataskipti.“
Moníka fór síðan heim. Hún hljóp við fót og þegar heim kom hafði hún hraðann á um fataskiptin. En þá er hún varð þess albúin að fara aftur á engjarnar, aftók húsfreyja að hún færi.
„Þú getur verið hérna og hjálpað mér og rabbað við mig, mér til skemmtunar, það sem eftir er dagsins,“ sagði hún hressilega. „Ég held það sé jafngott þó að ég sé hér ekki alla daga alein að dunda.“
Moníka hafði ekki gert það í gróðaskyni að stökkva í hylinn heldur af galsa og til þess að sýna karlmönnunum að konur bæði þyrðu og þyldu að vökna þó að svölu gustaði en um kvöldið þyrptust karlmennirnir að henni – fimm krónum varð hún að taka við sem var síst minni upphæð í þennan tíma en hundrað krónurnar eru nú.
„Þú hefur víst fyrir þeim unnið og við þeim skaltu taka“ sagði Kristfinnur Guðjónsson.
(Guðmundur G. Hagalín: Konan í dalnum og dæturnar sjö, 1954. Bls. 68-69).