Mikael Þorláksson[1]
fæddist á Borg í Skötufirði en átti nánast alla ævi heima í Dýrafirði, var fyrstu tvö árin niðursetningur á Bakka í Brekkudal en ólst síðan upp í Meðaldal. Hann var vinnumaður á Skálará 1890 og eflaust víðar áður en hann giftist Unni Arnbjörnsdóttur[2] sem var 16 árum eldri en hann. Árið 1901 voru þau þurrabúðarfólk á grasbýlinu Móum, hann titlaður fjármaður og sjómaður, háseti á skipi Ásgeirs Ásgeirssonar.
Hann var lika kokkur á hvalveiðistöð Norðmanna við Dýrafjörð, þótti gera góðan mat og vera nýtinn á hráefni. Þess voru jafnvel dæmi að hann laumaðist til að nýta sjálfdauðan búfénað ef honum sýndist það skaðlaust. Á Móum fæddist eina barn þeirra Unnar, dóttirin Sigríður Guðrún[3], en fyrir átti Unnur soninn Kristján.
Mikael og Unnur bjuggu áfram á Móum næstu áratugi. Síðustu árin var Mikael hjá Unni dótturdóttur sinni á Miðbæ.
Sigríður Mikaelsdóttir giftist Þórarni Vagnssyni[4] bátsútgerðarmanni. Þau voru fyrst á Kirkjubóli í Dýrafirði en bjuggu síðar á Hrauni í Keldudal og í Miðbæ í Haukadal í Dýrafirði og þar við sunnan- og utanverðan fjörðinn eyddu fjögur börn þeirra ævi sinni. Eftir að þau fluttu til Þingeyrar bjuggu þau í húsi sem nefndist Laufás sem leikskólinn á staðnum er nefndur eftir. Börnin sem upp komust voru þessi:
Unnur[5] giftist Gunnari Einarssyni (1905-1984) frá Tálknafirði 1937. Þau bjuggu á Stekkjarbakka í Tálknafirði frá 1936 til ársins 1952 er þau fluttu til Dýrafjarðar en þar höfðu þau keypt jörðina Miðbæ í Haukadal og þar átti Unnur heima eftir dauða Gunnars þar til hún flutti á Dvalarheimilið Tjörn á Þingeyri. Unnur vann í fiskvinnslu á Þingeyri og í sláturhúsi staðarins á haustin eftir að flest börnin voru komin upp en þau voru 13.
Valdemar[6] stundaði ýmis störf til lands og sjávar frá unglingsárum og þangað til hann gerðist bóndi á Húsatúni í Haukadal frá árinu 1955 ásamt sambýliskonu sinni, Unni Hjörleifsdóttur (1928-). Þeim varð ekki barna auðið en mörg ungmenni dvöldust á heimili þeirra við gott atlæti. Uppeldissonur þeirra er Hafsteinn Aðalsteinsson[7]. Til þeirra kom hann átta ára gamall og ólst upp hjá þeim til fullorðinsára.
Kristinn Pétur[8] fór ungur í fóstur hjá föðurbróður sínum, Gísla Vagnssyni, sem bjó fyrst í Arnarfirði og síðan á Mýrum í Dýrafirði. Pétur lauk prófi sem vélstjóri og starfaði fyrst sem vélstjóri á fiskiskipum. Hann var síðan bóndi á Kambshóli í Svínadal í Hvalfirði 1950 til 1964. Þá fór hann að starfa við gervilimasmíðar hjá Arnóri Halldórssyni. Pétur öðlaðist meistararéttindi í söðlasmíði og starfaði við þá iðn í 20 ár til dauðadags. Kona hans var Halldóra Jónsdóttir (1925-2014), þau skildu eftir að hafa eignast 6 börn.
Aðalheiður Guðmunda[9] fæddist í Hrauni í Keldudal. Hún giftist Sölva Sigurðssyni (1921-1990) frá Brautarholti á Reyðarfirði. Hann starfaði sem bókari, fyrst í Reykjavík og síðan á Reyðarfirði þar sem þau bjuggu á seinni árum sínum. Aðalheiður og Sölvi eignuðust tvær dætur.
Elías Mikael Vagn[10] varð snemma fyrirvinna yngri systkina sinni með því að vinna á búi foreldra sinna og sjálfur hóf hann búskap í Hrauni 1951 ásamt eiginkonu sinni, Kristjönu Vagnsdóttur (1931-).
Árið 1956 fluttu þau að Arnarnúpi og bjuggu þar til 1967. Arnarnúpur var þá eina býlið sem eftir var í byggð í Keldudal. Frá Arnarnúpi fluttu þau til Sveinseyrar í Dýrafirði til að hægara væri að koma börnunum í skóla. Elías var hagmæltur, sumir segja skáld. Eftir hann liggur ritsafn í fjórum bindum sem nefnist Andbyr og hefur ekki aðeins að geyma kvæði, vísur og gamanmál, sem hann var væntanlega þekktastur fyrir, heldur einnig smásögur og leikrit, viðtöl og eftirmæli. Elías og Kristjana eignuðust 7 börn.
Vilborg Jórunn[11] ólst upp hjá foreldrum sínum en bjó lengst af í Reykjavík. Hún giftist Kristjáni Sigurjónssyni (1925-1979) húsgagnabólstrara og átti með honum dreng[12] og stúlku[13].
Þau skildu. Jórunn giftist síðan Hreiðari Jóhanni Gísla Hálfdanarsyni (1927-2010) frá Svalvogum, þau eignuðust ekki börn en ólu upp fóstursoninn Mikael Hreiðarsson[14] frá fæðingu og gáfu honum nafn afa síns.
Kristján Rafn Vignir[15] kvæntist Huldu Friðbertsdóttur (1933-) frá Suðureyri og eignuðust þau 7 börn auk þess sem þau ólu upp dreng sem Hulda átti fyrir. Kristján ólst upp í Hrauni, fór ungur að vinna og var mest við sjómennsku á bátum frá Þingeyri, meðal annars á Guðmundi, Júní, Flosa, Fjölni og síðast á togaranum Framnesi. Einnig var Kristján í vegavinnu á sumrin, ók vörubíl og olíubíl fyrir Kaupfélag Dýrfirðinga, var umboðsmaður flugfélagsins Vængja og Brunabótafélags Íslands. Síðasta starf Kristjáns fólst í afleysingum við flugvallagæslu, ýmist á Þingeyrarflugvelli, Holtsflugvelli eða Patreksfjarðarflugvelli. Kristján og Hulda stofnuðu heimili á Húsatúni í Haukadal haustið 1955 og bjuggu þar til haustsins 1966 en fluttu þá inn á Þingeyri í hús sem þau höfðu byggt þar.
Ingólfur Garðar[16] var yngstur og sá eini þessara systkina sem ég hef hitt en hann hefur lengi átt heima í Hafnarfirði. Hann ólst upp í Hrauni til 16 ára aldurs, lauk landsprófi og gagnfræðaprófi frá Reykholti og var skiptinemi í Noregi einn vetur. Á sumrin var hann í brúarvinnu á Vestfjörðum. Eftir skóla var hann á sjó, m.a. á togara frá Reykjavík. Ingólfur starfaði sem kennari og skólastjóri á ýmsum stöðum í 20 ár, bæði á Þingeyri, Hvammstanga og Grundarfirði. Á Grundarfirði var hann kennari og skólastjóri í 5 ár og þar var hann í sveitarstjórn í 16 ár. Eftir 1985 og til starfsloka starfaði Ingólfur sem deildarstjóri staðgreiðsludeildar á Skattstofunni í Hafnarfirði. Kona hans var Auðbjörg Árnadóttir (1944-) frá Bíldudal. Þau skildu. Þau áttu 3 börn saman en auk þess hafði Ingólfur eignast son fyrir hjónaband með Þórgunni Rögnvaldsdóttur (1936-) frá Ólafsfirði.
Auk þessara 8 barna áttu Sigríður Mikaelsdóttir og Þórarinn 3 börn sem urðu skammlíf, Jóhann f. 1920 og tvíbura sem fæddust 1930.
Sigríður Mikaelsdóttir og Þórarinn Vagnsson ásamt börnum sínum: Jórunni, Aðalheiði, Unni, Kristjáni, Valdemar, Pétri, Elíasi og Ingólfi
[1] Mikael Þorláksson f. 29. 9. 1868, d. 25. 11. 1954
[2] Unnur Arnbjörnsdóttir f. 4. 7. 1852, d. 6. 9. 1938
[3] Sigríður Guðrún Mikaelsdóttir f. 18. 9. 1893, d. 5. 12. 1971
[4] Þórarinn Vagnsson bátsútgerðarmaður f. 29. 7. 1893, d. 27. 12. 1976
[5] Unnur Þórarinsdóttir f. 13. maí 1919, d. 27. 2. 2003
[6] Valdimar Þórarinsson f. 5. 9. 1921, d. 14. 1. 2003
[7] Hafsteinn Aðalsteinsson f. 13. 3. 1947
[8] Kristinn Pétur Þórarinsson f. 16. 11. 1922, d. 7. 5. 1999
[9] Aðalheiður Guðmunda Þórarinsdóttir f. 29. 10. 1923, d. 5. 5. 1999
[10] Elías Mikael Vagn Þórarinsson f. 2. 5. 1926, d. 6. 7. 1988
[11] Vilborg Jórunn Þórarinsdóttir f. 8. 6. 1928, d. 16. 5. 1988
[12] Sigurjón Kristjánsson f. 18. 6. 1945
[13] Una Auður Kristjánsdóttir f. 10. 1. 1948
[14] Mikael Hreiðarsson f. 30. 3. 1960
[15] Kristján Rafn Vignir Þórarinsson f. 6. 5. 1931, d. 12. 1. 2007
[16] Ingólfur Garðar Þórarinsson f. 30. 3. 1933