Föðurættin

Helga S Gunnarsdóttir og Pálmi Guðmundsson

Hér er grafist fyrir um foreldra Frímanns Pálmasonar, Helgu Sigríði Gunnarsdóttur og Pálma Guðmundsson, og forfeðra og formæðra hans. Sagan er rakin aftur á 18. öld en megináherslan lögð á fólk sem lifði á 19. öldinni, flest í Eyjafjarðarbyggðum. Frímann átti heima í Garðshorni fyrstu 69 árin en síðustu 6 árin bjó hann á Akureyri. 38 ára gamall kvæntist hann Guðfinnu Bjarnadóttur og eignaðist með henni 8 börn en áður hafði hann eignast son sem hann ól upp með móður sinni. Foreldrar hans áttu nánast alla ævi heima í Glæsibæjarhreppi, lengst í Garðshorni á Þelamörk en síðustu 11 árin átti móðir hans heima á Akureyri.

Helga var ættuð frá Arnarnesi á Galmaströnd og Gásum í Kræklingahlíð svo og frá Kjarna í Eyjafirði og Syðri-Bægisá í Öxnadal. 

Pálmi átti ættir að rekja í Flögusel í Hörgárdal, Stóragerði í Myrkárdal, Æsustaði í Eyjafirði og Kambhól á Galmaströnd.