Hæsti foss í Eyjafirði
Sumarið 2012 var Sæludagur í Hörgársveit og mikið um dýrðir eins og svo oft gerist í þeirri góðu sveit. Meðal auglýstra viðburða var ganga að Geirufossi í Myrká og þar var „þjóðsagan um þennan hæsta foss héraðsins“ sögð eins og fram kom í auglýsingu um Sæludaginn. Tilefni göngunnar var að Leikfélag Hörgdæla hafði áformað að setja á svið leikverk um einn sögufrægasta Hörgdæling fyrr og síðar – og er þá langt til jafnað – djáknann á Myrká sem talinn er hafa verið uppi á 14. öld. Leikverkið var kynnt þar uppi við Geirufoss og síðan var leiklesið úr verkinu í kirkjugarðinum á Myrká. Í kynningunni var minnt á aðra fossa í Myrká, Kálfafoss sem er skammt fyrir neðan Geirufoss og Byrgisfoss sem er þeirra neðstur. Þjóðsagan um tröllkonuna Geiru var sögð en hún hafði lagt það í vana sinn að fara gandreið á támeyrum bændum þar í dalnum forðum tíð. Örnefnið Kálfafoss var skýrt með tilgátu um að kálfar hefðu farið sér þar að voða eftir að þeir höfðu verið leystir út frá Myrká einhvern vordaginn. Trúlegra er að þeir hafi verið frá Myrkárdal. Byrgisfoss var að fáu getið.
Í gagnmerku riti sínu „Fossar á Íslandi“ (Fjölrit nr. 2, Reykjavík, apríl 1978, útg. Náttúruverndarráð) birtir Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur drög að fossaskrá fyrir allt Ísland. Fossunum er raðað eftir sýslum. Í viðauka voru svo nokkur fossanöfn sem Jón E. Ísdal skipasmiður og Helgi Hallgrímsson náttúrufræðingur höfðu gaukað að Sigurði og í viðaukanum voru einnig nokkrir fossar sem Sigurður hafði sjálfur rekist á. Sigurður tók skýrt fram að hér væri aðeins um drög að fossaskrá að ræða og að hann teldi að fjölmarga fossa vantaði á skrána.
Fossarnir í Myrká eru ekki á upprunalegri skrá Sigurðar en svo er hinsvegar í viðbótarskránni. Þar eru tilgreindir „Fossar í Myrká“ en enginn þeirra er nefndur á nafn. Á skrá Sigurðar er hinsvegar nafngreindur fossinn Mígandi (=Mígandifoss) í Ólafsfjarðarmúla – „Alþekkt og mikið notað mið sjómanna á utanverðum Eyjafirði“ eins og segir í Árbók Ferðafélagsins 1973.
Í seinni tíð hafa sést staðhæfingar og getgátur um að Geirufoss í Myrká sé „hæsti foss héraðsins“, „hæsti foss í Eyjafirði“ eða „hæsti og glæsilegasti foss sýslunnar og þótt víðar væri leitað“ (http://svavaralfred.blog.is/blog/svavaralfred/entry/999977/) svo vitnað sé í sr. Svavar Alfreð Jónsson sem hefur lagt sitt af mörkum til að vekja athygli á Geirufossi og félögum hans í Myrká, m.a. með skemmtilegum ljósmyndum. Þessi ummæli vekja ýmsar spurningar, bæði um fossa og um héraðið.
Byrjum á hinu síðarnefnda.
Það er eðlilegt að á vef Hörgárbyggðar sé talað um Hörgárbyggð sem hérað, nú eftir að gömlu hrepparnir Glæsibæjar-, Skriðu-, Öxnadals- og Arnarneshreppur voru sameinaðir í eitt sveitarfélag. Engu að síður er ekki ljóst hvað átt er við með því að Geirufoss sé hæsti foss héraðsins því að vel má vera að átt sé við Eyjafjörð sem hérað og jafnvel alla sýsluna sem einu sinni var eins og kemur fram í orðum sr. Svavars.
Til að villa um fyrir lesanda er rétt að skjóta því hér inn að það er málvenja margra að tala um Eyjafjörð sem sveitina inn af botni fjarðarins, núverandi Eyjafjarðarsveit. Mörgum Hörgdælingum er líklega ekki tamt að kalla sig Eyfirðinga fyrr en þeir eru komnir suður, vestur eða austur á land. Í heimasveit minni kalla menn sig Hörgdælinga til aðgreiningar frá Eyfirðingum sem nú búa í Eyjafjarðarsveit. Og svo rammt kveður að þörfinni fyrir að greina sig frá öðrum að okkur Þelmerkingum fannst alls ekki sjálfgefið að kalla okkur Hörgdælinga heldur voru þeir í öðru sveitarfélagi. Þelamörk er þó ótvírætt í Hörgárdal.
Staðhæfingin um að Geirufoss sé „hæsti foss í Eyjafirði“ verður þó varla misskilin því að Geirufoss er ekki í Eyjafirði samkvæmt fyrrgreindri málvenju en sr. Svavar áréttar skilninginn með því að segja á öðrum stað að Geirufoss sé „hæsti og glæsilegasti foss sýslunnar“. Það leysir skilgreiningarvandann þó svo að Eyjafjarðarsýsla sé ekki lengur til sem stjórnsýslueining, aðeins þarf að huga að fornum sýslumörkum. Mörkin gagnvart Skagafjarðarsýslu hafa reyndar verið nokkuð á reiki en frá því snemma á 19. öld voru þau vestan Siglufjarðar í Dalaskriðum sem verða fremur að teljast til Skagafjarðar en Eyjafjarðar. Reyndar reynir á austurmörk Eyjafjarðar líka eins og vikið verður að hér á eftir.
Því má svo skjóta hér inn í að í fyrrnefndri Árbók Ferðafélagsins segir Hjörtur Þórarinsson um Holárfoss í Skíðadal að hann sé „hár og bráðmyndarlegur“ og bætir við að ekki séu „aðrir fossar myndarlegri í Eyjafjarðarsýslu“. Hjörtur fullyrðir reyndar ekkert um hæð Holárfoss í samanburði við aðra fossa og vissulega má taka undir orð hans um glæsileika þess foss en Holárfoss er alltént ekki meðal hæstu fossa við Eyjafjörð.
Og þá er aftur komið að staðhæfingunni um hæsta foss í Eyjafirði. Líklega hafa þeir sem komið hafa að Geirufossi litið svo á að sá foss sé óumdeilanlega hæsti fossinn og aðrir fossar „í héraðinu“ svo miklu lægri að ekki þurfi að mæla. Engu að síður fékk greinarhöfundur til liðs við sig Odd Sigurðsson jarðfræðing og ljósmyndara m.m. en hann hafði með sér þar til gerðan sjónauka og mældi hæð Geirufoss. Þá komum við að spurningunni um hvað er foss.
Í framangreindri ritgerð skilgreinir Sigurður Þórarinsson foss sem „fall vatns fram af stalli sem er þverhníptur eða hallinn meiri en 35° þannig að vatnið fellur lóðrétt eða bratt“. Hvað Geirufoss varðar stendur þó eftir sá vandi að fossinn fellur af tveimur eða jafnvel þremur stöllum eins og myndin ber með sér, er í rauninni a.m.k. tveir fossar en efri hlutinn reyndist vera 6 metrar en sá neðri 24 metrar. Nú liggur ekkert fyrir um það hvað heimamenn í Hörgárdal kalla Geirufoss, hvort átt er einungis við neðsta hlutann eða hvort nafnið er einnig notað um fossinn/fossana fyrir ofan. Engan vanda leysir heldur að vísa í sjálfan Gullfoss í Hvítá sem fólk talar um sem einn foss en um hann segir Sigurður Þórarinssson:
„Neðri foss hans, 18 m hár, er á sprungu með ASA-lægri stefnu en sprungan sem myndar efri fossinn, 14 m háan, hefur NNA-læga stefnu“. Þó svo að Gullfoss sé einn foss í daglegu tali er hann þó óumdeilanlega tveir fossar misháir. Hvor foss uppfyllir skilgreiningu Sigurðar á fossi en Gullfoss í heild gerir það ekki og það gerir ekki heldur Geirufoss ef vísað er til alls fallsins.
Eins og áður segir nefnir Sigurður Þórarinsson fossinn Míganda í Ólafsfjarðarmúla í fossaskrárdrögum sínum. Sá foss hefur ekki verið mældur svo mér sé kunnugt en mér sýnist þó að hann sé mjög skæður keppinautur við Geirufoss þar sem hann blasir við augum frá þjóðveginum milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar. Mætti raunar segja mér að hann væri töluvert hærri en Geirufoss, vatnsmagnið vissulega sáralítið en það er ekki til umræðu í þessu samhengi. Frekar gæti einhver efast um að Mígandi sé foss þar sem hann er ekki alveg lóðréttur en hann uppfyllir örugglega skilyrðið um 35° hallann ekki síður en t.d. Fjallfoss í Dynjandi og enginn efast um að Fjallfoss sé foss.
Gegnt Míganda í Ólafsfjarðarmúla í Látrakleifum á Látraströnd eru myndarlegir fossar sem falla af hömrum í sjó fram, rétt eins og Mígandi. Þeir eru reyndar ekki í Eyjafjarðarsýslu hinni fornu en óumdeilanlega eru þeir í Eyjafirði. Sama máli gegnir um þessa fossa og bróður þeirra handan fjarðar, þá þarf að mæla áður en skorið er úr um hver sé hæsti foss í Eyjafirði. Mynd er af fossinum í Eilífsá í Árbók Ferðafélags Íslands 2000 á bls. 145.
En nú er komið að rúsínunni í pylsuendanum. Eins og fyrr segir vantar fjölmarga fossa á fossaskrá Sigurðar Þórarinssonar en þeirra á meðal eru allmargir fossar í Fossá á Þelamörk en einnig fossar í Húsárgilinu ofan við Ytri-Bægisá í sömu sveit.
Fossarnir neðantil í Fossá eiga sér nöfn sumir hverjir en enginn þeirra keppir þó við Geirufoss eða Míganda um titilinn hæsti foss í Eyjafirði. Það gerir hinsvegar foss í Húsá sem hefur þó ekkert nafn svo vitað sé en Húsárfossarnir blasa þó við augum frá þjóðveginum um Hörgárdal og frá Ytri Bægisá. Nú má auðvitað segja eins og Tómas um árið að „landslag væri lítils virði ef það héti ekki neitt“ en virði hæsta fossins í Húsá er þó alltént það að hann er gjaldgengur í keppninni um að vera hæsti foss í Eyjafirði. Sama dag og Oddur Sigurðsson mældi hæð Geirufoss lagði hann leið sína upp að Húsárgilinu og gerði tilraun til að mæla hæsta fossinn. Sá hængur var reyndar á að ekki var hægt að sjá fossinn allan í einu vegna þess hve þröngt gljúfrið er en engu að síður gat Oddur mælt 26 metra af fossinum og áætlaði að einn til tveir metrar hefðu ekki verið sýnilegir. Hæsti fossinn í Húsárgilinu er því 27 til 28 metra hár og þess vegna talsvert hærri en Geirufoss í Myrká.
Nú vill e.t.v. einhver halda því fram að telja beri báða eða alla fossana í Myrká sem einn Geirufoss með tilvísun til Gullfoss og benda á að stallurinn milli efri og neðri fossins í Gullfossi sé mun breiðari en meginstallurinn í Geirufossi. En þá er líka með góðum vilja hægt að benda á að stallar á milli fossa í Húsárgilinu eru líka mjórri en stallurinn í Gullfossi og þá er öllum vafa eytt um hver sé hæstur fossa við Eyjafjörð. Þar koma jafnvel Mígandi og fossarnir á Látraströndinni ekki til álita.
Niðurstaða mín er sú að ekki sé tímabært að skera úr um hvaða foss við Eyjafjörð sé hæstur. Áður en það verður gert þarf að mæla þá fossa sem til greina koma á því svæði sem telja má til Eyjafjarðar.
(Greinin birtist í Súlum, 53. hefti 2014)