Kári Larsen
Auk eigin barna ólu Pálmi og Helga upp frá fæðingu Kára Angantý Larsen sem fæddist 1913. Hann var hjá þeim fram á fullorðinsár. Hér segir frá honum og ættmennum hans.
Foreldrar Kára Larsen (1913-1994) voru Pálína Magnúsdóttir (1887-1966) „ógipt og einhver Larsen í Noregi“ var skráð í prestþjónustubók Bægisárkirkju þegar Kári var skírður. Jóhanna prestfrú var skírnarvottur en auk hennar þeir bræður báðir, Pálmi í Garðshorni og Frímann á Hamri. Það var siður í Bægisárkirkju á þessum tíma að maddamma Jóhanna hélt börnum undir skírn og var skírnarvottur en þegar börn Pálma og Frímanns voru skírð voru þeir bræður skírnarvottar hvor hjá öðrum auk hennar.
Pálína var dóttir Magnúsar Gunnarssonar frá Tjörn á Skagaströnd, bónda á Kvíabekk sem var hjáleiga í túnjaðrinum norðan við Gásir. Magnús var sonur Helgu Andrésdóttur frá Syðri-Bægisá, móðursystur Helgu Sigríðar. Garðshornssystkinin og Kári voru því skyld í 3. og 4. lið. Magnús eignaðist Pálínu með Sigríði Sigurðardóttur sem fædd var um 1860. Síðar giftist hann Sigurjónu Jónsdóttur Borgfirðings, hálfsystur Klemenzar ráðherra, missti hana, giftist aftur og nú Steinunni Gunnlaugsdóttur, sem var 35 árum yngri, og eignaðist með henni tvö börn.
Pálínu var komið í fóstur hjá afa sínum og ömmu, Gunnari Magnússyni (1834-1915) og Helgu Andrésdóttur (1834-1891) sem bjuggu í Hraukbæjarkoti, ásamt dætrum sínum fjórum. Þau höfðu áður búið í Hraukbæ, Efstalandskoti og á Syðri-Bægisá 1864-1884 og áttu mörg börn. Meðal þeirra var Daníel Tómas sem kemur víða við ættarsögu Garðshyrninga með því alast upp hjá móðursystkinum og ömmu á Syðri-Bægisá, Efstalandskoti og Þverá og giftast Maríu Valgerði dóttur Guðrúnar Grímsdóttur, systur Gunnars föður Helgu Sigríðar í Garðshorni.
Helga Andrésdóttir lést raunar skömmu eftir að Pálína kom til þeirra hjóna í fóstur en Pálína var áfram á heimilinu og 1901 var hún enn heimilisföst þar. Ekki er vitað hvar hún var þegar Kári fæddist en hún hefur þó ekki verið langt frá föður sínum á Kvíabekk.
Allténd segir sagan að Magnús hafi reitt Kára, nokkurra vikna gamlan, fyrir framan sig á hnakknefinu vestur í Garðshorn til að koma honum í fóstur hjá frændfólki sínu.
Pálína var síðan mörg ár hjá Jóhönnu frá Þrastararhóli inni á Akureyri. Pálína hafði eignast dóttu áður en hún átti Kára. Sú hét Alfa (1911-1987) og fæddist um borð í bræðsluskipinu „Alfa“. Faðirinn, Halldór Ísfeld, var sagður ættaður frá Esbjerg í Danmörku en búsettur á Akureyri. Alfa var ættleidd af Páli Jónssyni og Hólmfríði Sigurgeirsdóttur í Lindarbrekku á Siglufirði. Hún giftist Helga Ásgrímssyni úr Fljótum og eignaðist með honum einn son, Pál sem lengst af hefur verið kennari á Siglufirði.
Pálína eignaðist aðra dóttur með Hannesi Ólafi Magnússyni Bergland á Akureyri. Sú hét Jóhanna Áslaug Hjördís Bergland Hannesdóttir (1919-1995) og bjó á Akureyri og síðar í Reykjavík.
Kári hafði alltaf samband við móður sína og systur og í bréfunum til Boggu kemur fram að hann hefur fengið að fara með fósturforeldrum sínum sínum í kaupstað 1921 til að hitta móður sína.
Kári var hins vegar alltaf nánast talinn einn af systkinum Jóhönnu, Steindórs og Frímanns í Garðshorni, allt til æviloka, en síðustu árin bjuggu þau öll á Akureyri, Frímann fluttur frá Garðshorni og Kári frá Sigríðarstöðum í Ljósavatnsskarði þar sem hann bjó lengst af eða til 1959. Þrír sona hans bera nöfn úr Garðshorni, Steindór sem heitir eftir Steinunni (eins og Steindór Pálmason og Steindór Kristfinnsson), Helgi og Pálmi.
Frímann í Garðshorni, þá 11 – 12 ára gamall, var látinn gæta Kára sem ungbarns og hafði miðlungi gaman af á stundum. Hann hafði það ráð að aka Kára fram og aftur um baðstofugólfið í kassa þangað til hann sofnaði og svaf því Kári oft vel yfir daginn. Hins vegar var Helga ekki alltaf ánægð með þetta tiltæki því að Kári var þá þeim mun brattari á nóttunni. Og ekki hefur gæslan alltaf gengið sem skyldi því að aldur stofuklukkunnar sem Helga átti til æviloka og gengur enn í ættinni, er miðaður við fæðingu Kára því að þegar hann hafði burði til, eyðilagði hann klukkuna sem hún átti á undan.