Apríl 1921

Apríl

  1. Kristmundur kom og fékk sleða til að flytja inneftir svörð og fleira.
  2. Ég fór út að Rauðalækjarhúsunum til að finna Árna Jónsson, hann var að sækja heyið sitt. Haraldur kom til að skoða, sagði töðuna 40 hesta og 92 hesta úthey.
  3. Steini fór út að Neðri-Vindheimum. Kristmundur kom.
  4. Kristmundur kom me 89 pund af útheyi. Stungið út úr hesthúsi
  5. Jóhanna fór fram að Efstalandi og kom ekki heim fyrr en einhvern tíma. Frændi kom og fékk 1 hest af taði. Steini hafði vindgang[1].
  6. Friðbjörn kom. Steindór kom með póstinn frá Bægisá.
  7. Steindór fór út að Neðri-Vindheimum.
  8. Jóhann Ó kom.
  9. Það var rakað ofan af húsum og heyjum. Svafa og Laufey gengu um.
  10. Jón Hólm kom
  11. Kristmundur flutti sig alfarinn inneftir með sitt fólk og farangur. Pabbi fór ofan að Krossastöðum til að fylgja honum. Steindór fór ofan að Hamri með fundarboð.
  12. Brynjólfur[2] á Steinsstöðum kom og fékk 1 hest af taði og 1 hest af sverði. Rósant kom og fékk kerrukassann. Ég fór ofan að Hamri og sótti 35 pund baunir, 25 pund hveiti sem Þorleifur flutti innanað
  13. Jón á Skjaldarstöðum kom innan úr kaupstað með hest og sleða. Laufey kom.
  14. Kristmundur kom og Hreggviður og tóku tvær kindurnar en ein er eftir. Katrín kom. Mamma fór út í Rauðalæk.
  15. Sveinn[3] á Steinsstöðum kom og Þorlákur sótti svörð. Þorleifur kom og fékk sleða og aktygi og skilaði því aftur. Laufey og Svafa komu. Pabbi fór í kaupstað ríðandi á Skjóna. Jón Hólm kom.
  16. Jón á Skjaldarstöðum kom. Pabbi kom heim úr kaupstaðnum og gaf mér beisli.
  17. Féð var látið út á milli gjafa. Gísli á N-Vindheimum kom.
  18. Sumardagurinn fyrsti. Enginn kom og enginn fór neitt nema Steindór, hann fór eins og hann var vanur suður að Bægisá til að hirða skepnurnar prestsins. Hann fór með mjólk til frúarinnar og fékk hjá henni kaffi og lummur í staðinn. Hún bað kærlega að heilsa. Allir fengu sætt kaffi og kakó og hengiket, magál og bringukolla svo enginn kláraði. Sumarið er komið og þá getur maður átt von á góðu veðri á hverjum degi, það færi betur að tíðin yrði góð, þá gengur allt betur og allir verða ánægðir.
  19. Laufey kom með fundarboð. Pabbi og Jóhanna fóru í kaupstað, fóru með Stjórnu ofan að Grjótgarði en Skjóna alla leið. Pabbi kom heim eftir háttatíma en Jóhanna varð eftir innfrá.
  20. Kári fór tvisvar ofan að Hamri. Við Steini ókum á nokkrum hjólbörum af skít. Móra og geldingnum hans Kristmundar var hleypt út í fyrsta sinn, týndust, ég leitaði að þeim og fann þá suður á Bægisá. Ég lagði svo af stað með þá heim. Þeir stukku út af vallargarðinum og Móri datt og stóð ekki upp aftur svo ég varð að bera hann með Steindóri heim.
  21. Frændi kom. Ég og Steindór fórum á fund út í Ás, fórum í fótboltaleik á eftir og komum heim eftir háttatíma.
  22. Jón Hólm kom og Árni[4] kom og fór að gera við skítavélina.
  23. Árni var að smíða vélina. Mundi á Steðja kom með vefinn. Jóhanna kom heim úr kaupstaðnum. Lóan er komin.
  24. Ég fór ofan að Hamri og sótti 1 skífu og Árni setti botn í bala úr henni. Svo fór ég út að Ási til að sækja húsfans? Svo fór ég suður að Bægisá og fékk botn úr olíufati í kláruhausa og Árni bjó til 3 klárur. Pabbi þæfði vaðmál.
  25. Pabbi þæfði vaðmál. Fríða á Bryta kom. Við Steini ókum á völl í hjólbörum.
  26. Steini barði sléttuna og ég muldi niður sauðatað. Ég fór ofan að Hamri. Stúlkurnar gerðu hreint í baðstofunni.
  27. Stúlkurnar gerðu hreint. Rósant kom og járnaði Bleik og Rauðku. Pabbi herfaði dálítið af hreytitaði. Sigvaldi á N-Rauðalæk kom og var að spyrja eftir gemlingum. Nú er aprílmánuður liðinn og sumarið er komið og algerður bati vonandi. Kindurnar eru farnar að taka úti og hrossin farin að létta mikið á fóðrum. Mikið til öríst[5] í byggð en talsverður snjór í fjöllum.

 

 

 

 

[1] Þessi setning gæti sagt meira um gamansemi dagbókarritara en um heilsufar Steina. Nú geri ég mér grein fyrir hvert synir mínir sækjar sína kímnigáfu sem oft tengist hlýnun jarðar.
[2] Brynjólfur Sveinsson (1888-1980), síðar bóndi í Efstalandskoti. Soffía móðir hans og Guðmundur Sigfússon í Garðshorni voru bræðrabörn.
[3] Sveinn Björnsson (1852-1922), faðir Brynjólfs á Steinsstöðum. Sveinn þessi var vestan úr Skagafirði.
[4] Árni Halldór Jónsson (1885-1963), bróðir Steina. Skítavélin mun hafa verið það sem aðrir kölluðu taðkvörn.
[5] enginn ís eða snjór