Jón ríki og ættmenni hans
Frá árinu 1790 bjuggu á Stóra-Rauðalæk eða Efri-Rauðalæk hjónin Bergur Þórarinsson (1746-1811) og Broteva Ólafsdóttir (1761-1823) ásamt börnum sínum Brotevu (1787-1877), Bergi (1789-1852) og Jóni (1800-1892). Bergur á Efri-Rauðalæk var uppnefndur Smér-Bergur. Eiður á Þúfnavöllum segir að hann hafi verið „gróðamaður“ og uppnefnið hafi hann fengið af því að hann seldi sveitungum sínum smjör á okurverði í Móðuharðindunum og mældi það í kúskeljum. Í minningargrein um Bernharð Stefánsson í Degi 3.12.1968 segir Björn Jónsson söguna þannig: „... viðurnefni sitt hlaut hann af efnum sínum og þeirri venju að gera förumönnum þann beina minnstan að bera þeim brauðhleif stóran með smjörlagi svo þykku að jafnaðist við hleifina. Þetta var á móðuharðindum og flokkar hungraðra manna fóru um sveitir í bjargarleit en fáir aflögufærir. Fáir hafa því sneitt hjá garði Bergs bónda.“
Bergur keypti Efri-Rauðalæk þegar hann flutti þangað og þegar allar stóljarðir á Íslandi voru seldar einstaklingum árið 1802 hefur hann eignast Garðshorn. Eftir dauða Bergs fékk Broteva, kona hans, Garðshorn í sinn hlut og síðan Jón sonur þeirra eftir hana. Afkomendur Bergs og náin skyldmenni þeirra bjuggu á Efri-Rauðalæk og Garðshorni lungann af 19. öldinni og á Neðri-Rauðalæk og Hamri í skemmri tíma en lengst bjuggu nánir afkomendur hans í Lönguhlíð.
Broteva Bergsdóttir giftist Þorsteini Jónssyni (1790-1877) en þau bjuggu á Miðlandi, Þverbrekku, Varmavatnshólum og Gili í Öxnadal og út af þeim voru komnir margir Öxndælingar sem reyndar eru flestir eða allir fluttir úr dalnum núna.
Bergur Bergsson (1789-1852) tók við búi af Smér-Bergi föður sínum á Efri-Rauðalæk ásamt konu sinni Guðrúnu Oddsdóttur (1790-1831). Bergur (1713-1879) sonur þeirra bjó á Efri-Rauðalæk eftir þau þar til hann lést en þá tók sonur hans við búinu, Stefán Bergsson (1854-1938) sem bjó nokkur ár á Efri-Rauðalæk áður en hann flutti fram í Steinsstaði í Öxnadal 1883 og þaðan í Þverá 1887 þar sem þau Þorbjörg Friðriksdóttir bjuggu til 1912 og raunar lengur með hléum. Sonur þeirra var Bernharð kennari, bóndi á Þverá, bankaútibússtjóri, framsóknarmaður og alþingismaður.
Smér-Bergur lést 1811 og fáum árum síðar flutti Broteva ekkja hans í Garðshorn ásamt Jóni syni þeirra. Fyrstu árin þar hafði hún fyrirvinnu eða ráðsmann en Jón, sem síðar var nefndur Jón ríki, tók við búsforráðum í Garðshorni upp úr 1816 og bjó þar með móður sinni þar til hún lést 1823 og síðan áfram til 1854. „Ekki kvæntist Jón að svo stöddu en bjó með ráðskonum fyrst um sinn og barnaði þær allar. Átti hann fjögur börn með ráðskonunum og voru mæðurnar jafnmargar og börnin,“ segir Eiður. Þetta virðist þó ekki vera alls kostar rétt hjá Eiði. Jón barnaði vissulega 6 konur um ævina en aðeins þrjár þeirra fengu bústýrunafnbót í sóknarmannatalinu. Ein ráðskonan giftist honum og það áður en fyrsta barn þeirra fæddist og með henni eignaðist hann 6 börn.
Sóknarmannatalið ber það raunar ekki með sér að Jón hafi haft margar ráðskonur til að byrja með. Anna Oddsdóttir var skráð bústýra 1822-1824 en svo var engin önnur bústýra hjá Jóni í Garðshorni fyrr en Þórunn kona hans kom þangað 1831. Vissulega átti hann börn með báðum þessum konum auk þess sem hann eignaðist barn árið 1925 með vinnukonu á Efri-Rauðalæk og 1831 með stúlku frá Hamri sem hafði verið vinnukona hjá honum nokkrum árum áður. Vera má að þessar vinnukonur hafi verið bústýrur hjá Jóni part úr ári án þess að komast í kirkjubókina með það starfsheiti. En fyrsta bústýra Jóns var sem sagt Anna Oddsdóttir sem var systir Guðrúnar konu Bergs bróður hans á Efri-Rauðalæk. Með Önnu eignaðist Jón soninn Sigurð (1822-1892) sem ólst að miklu leyti upp hjá föður sínum en Anna fór árið 1824 fram í Engimýri sem vinnukona og var eftir það vinnukona á ýmsum bæjum í Öxnadal. Hún var um tvo áratugi gift vinnukona í Stóra-Dunhaga og átti þar þrjú börn önnur en Sigurð.
Næstu ár eftir fæðingu Sigurðar bjó Jón ráðskonulaus á móti öðru fólki, t.d. voru Gissur Gunnarsson og Elín Sigurðardóttir þar búandi 1822-1824 ásamt börnum sínum. Þau bjuggu síðan lengi á Bryta, „hann var talinn ónytjungur,“ segir Eiður. Á árunum 1824-1828 bjó Hólmfríður Jónsdóttir húskona hátt á fertugsaldri á móti Jóni í Garðshorni og 1825-1828 bjuggu Jónas Sveinsson og Guðrún Tómasdóttir á móti Jóni en þau voru barnlaus til að byrja með. Guðrún var systir Andrésar á Syðri-Bægisá, afa fyrrnefndrar Helgu Sigríðar Gunnarsdóttur móður Frímanns í Garðshorni. Árið 1826 fæddist Jónasi og Guðrúnu dóttirin Guðrún en hún giftist í fyllingu tímans Rósant Berthold Ólafssyni sem var sonur Skáld-Rósu og sagður sonur Natans Ketilssonar og því til sönnunar er gjarnan tilgreind vísa sem Rósa orti til Natans:
Seinna nafnið sonar míns
sífellt þig á minni
að oft var fáklædd eyja líns
uppi í rekkju þinni.
Eins og áður segir eignaðist Jón barn með vinnukonu á Efri-Rauðalæk. Sigríður hét barnið sem dó eins og hálfs árs og hefur líklega verið í umsjá föður síns því að þegar hún dó var hún sögð bóndabarn frá Garðshorni. Móðirin hét Sigríður Þorleifsdóttir og var utan úr Ólafsfirði og endaði þar sem húsfreyja á Reykjum eftir þvæling hér um dali og vestur í Húnavatnssýslu, var t.d. nokkur ár vinnukona á Vöglum á Þelamörk.
Þriðja barnsmóðir Jóns Bergssonar var Þorgerður Matthíasdóttir sem var vinnukona í Garðshorni. Hún eignaðist andvana dreng í ársbyrjun 1830 en hún lést skömmu eftir fæðingu drengsins.
Árið 1827 var hjá Jóni í Garðshorni 19 ára vinnukona að nafni Guðrún Jónsdóttir en foreldrar hennar bjuggu á Hamri. Hún var ekki skráð til heimilis í Garðshorni nema þetta eina ár en engu að síður eignaðist Jón barn með þessari Guðrúnu árið 1831, eins og áður segir, dreng að nafni Jón (1831-1902). Guðrún var fyrst með drenginn á heimili foreldra sinna á Hamri en 1840 var hún gift út í Svarfaðardal og bjó þar á Hreiðarsstöðum. Jón Jónsson Bergssonar var lengi bóndi á Brautarhóli í Svarfaðardal, var þrígiftur og átti börn með tveimur eiginkonum og einni ógiftri að auki.
Með Jóni Bergssyni í heimili, fyrst á Rauðalæk og síðan í Garðshorni, hafði lengi verið Geirlaug Sigurðardóttir (1752-1830), í kirkjubókum ýmist nefnd „kjelling“, „tökukona“ eða „tökukelling“ og sagt að hún „fylgi fénu“, hvað svo sem það merkti. Geirlaug þessi lést árið 1830 og var það ár eini skráði einstaklingurinn í Garðshorni fyrir utan Jón og Sigurð son hans. Árin á undan hafði hann þó haft 1-2 vinnukonur sem hann barnaði ekki svo vitað sé. Sóknarmannatalið er þó ekki með öllu áreiðanlegt um heimilisfólk í Garðshorni því að auk þeirra þriggja sem voru skráð í Garðshorni 1830 er vitað eftir öðrum leiðum að þetta ár voru í Garðshorni Jón nokkur Þorsteinsson og Ingibjörg dóttir Ólafs þess Einarssonar sem var bóndi í Garðshorni í lok 18. aldarinnar, Ingibjörg reyndar fædd í Garðshorni. Þau eignuðust þar frumburðinn Þorstein sem varð skammlífur en þau fluttust vestur í Krákugerði, réttara sagt Krókárgerði, í Norðurárdal 1832.
Árið 1832 er enn þrennt í heimili í Garðshorni, feðgarnir Jón og Sigurður en nú er Þórunn Jónsdóttir komin þangað sem bústýra. Þórunn (1799-1861) var dóttir Helgu Egilsdóttur sem var föðursystir Andrésar bónda á Syðri-Bægisá og Guðrúnar sem bjó í Garðshorni 1825-1826. Í sóknarmannatalinu á þessum árum er Jón Bergsson sagður lesa allvel, er skikkanlegur og kunnátta sæmileg og með kunnáttu var þá átt við kunnáttu í kristnum fræðum. Sigurður kann þónokkuð að lesa og Þórunn er lesandi, skikkanleg og kunnátta í meðallagi. Og nú var aftur komið að Jóni að barna ráðskonu og það gerði hann svikalaust nema hvað Þórunn var ekki lengi bústýra. Árið 1833 höfðu þau Jón og Þórunn gift sig og eignast dótturina Helgu (1833-1863). Sigurður sonur Jóns var á heimilinu og léttastúlkan Ásdýs (skrifað svo eins og títt var á þessum tíma). Árið eftir höfðu Jón og Þórunn eignast tvíbura, Guðjón (1834-1863) og Guðnýju sem dó mánaðargömul.
En nú er rétt að lífga svolítið upp á þessa frásögn af Jóni bónda í Garðshorni með glefsum í skrif Eiðs á Þúfnavöllum. Eiður skrifar:
„Er Jón Bergsson þroskaðist kom fljótt í ljós að hugur hans hneigðist mjög að fjársöfnun. Var hann þegar í æsku sparsamari, atorkumeiri og ráðsnjallari en almennt gerðist. Tæplega var sá hlutur til, hversu ómerkilegur sem var, að Jón hirti ekki um hann og hagnýtti sér eftir því sem föng voru á. Í arf eftir móður sína hlaut hann hálft Garðshorn og kvígu eina rauða. Sagði hann svo síðar að hún væri ættmóðir allra kúa þeirra er hann átti um dagana. Fjármunir Jóns uxu ár frá ári enda mælti hann svo um að vandalítið væri að græða svo á hverju ári að það næmi verði tíuhundraða kots. Fljótlega tók Jón að kaupa jarðir sem háttur var annarra gróðamanna á þeim tíma. Setti hann sig þar aldrei úr færi ef verði var í hóf stillt. Hverja jörð greiddi hann að fullu, er kaup voru gerð, enda hafði hann það fyrir fasta reglu að skulda aldrei nokkrum manni. Harður var hann í viðskiptum en svo áreiðanlegur að loforð hans brugðust aldrei.“
Síðan telur Eiður upp jarðir og jarðarparta sem Jón lét eftir sig:
Efstaland, Hólar, hálf Engimýri, Varmavatnshólar, Auðnir, Hraunshöfði, Háls, tvö hundruð úr Lönguhlíð (sem hann átti alla um tíma), Stóri-Dunhagi, hálfir Hallfríðarstaðir, Hallfríðarstaðakot, Hof í Arnarneshreppi, Skjaldarvík syðri og ytri, Ás á Þelamörk, Bryti, tveir þriðju hlutar Efri-Rauðalækjar og Jórunnarstaðir og Hólsgerði í Saurbæjarhreppi. Auk þessara eigna hafði hann átt alla Lönguhlíð, sem fyrr segir, alla Engimýri og Garðshorn en var búinn að afhenda erfingjum sínum síðastnefndu eignirnar. En 19 jarðir átti Jón að hluta eða öllu leyti þegar best lét.
Fleira segir Eiður um Jón Bergsson:
„Ekki þótti Jón vera góður landsdrottinn þó að ekki væri hann kröfuharður um meðferð jarðanna og léti sig litlu skipta jarðabætur eða þess háttar en hins krafðist hann að leigur og eftirgjöld væru skilvíslega greidd. ... Jón [var] flestum öðrum nýtnari. Þannig safnaði hann öllu mannshári sem féll til á heimilinu. ... fór ekki orð á því að hann væri vinnuharðari við hjú sín en almennt gerðist. Sparsemi hans svaraði að fullu til nýtninnar. Sjaldan lét hann nokkurn pening af hendi til annars en gagnlegra hluta og nauðsynlegra og gjafmildur var hann ekki. ... Jafnan var Jón fátæklega til fara, bæði heima og af bæ. ... Eitt einkenni Jóns var frábært hugrekki, sem honum brást aldrei. ... Vissi enginn til þess að Jóni brygðist áræði, hvorki fyrr né síðar. ... Að vallarsýn var Jón ekki mikill fyrir mann að sjá. Hann var lágur meðalmaður á hæð og fremur grannur, rauðhærður og rauðskeggjaður, skeggvöxtur lítill og skeggið rytjulegt, var rakaður um varir en hafði kraga á kjálkum og neðan á höku. Andlitið var lítið, grett og fremur ófrítt.“ Gera má ráð fyrir að þessi lýsing Eiðs á Jóni hafi átt við hann á gamals aldri og að andlitið hafi verið fríðara á yngri árum eins og algengt er enn í dag.
Á árunum 1833-1854 bjuggu Jón og Þórunn í Garðshorni en fluttu þá yfir í Lönguhlíð. Þau höfðu vinnukonur framan af, m.a. tvívegis Rósu Benediktsdóttur frá Flöguseli. Börnin urðu 4 sem komust á legg, fyrrnefnd Helga og Guðjón en auk þeirra Rósa (1839-1912) og Jón (1842-1861). Ennfremur fæddist þeim fyrrnefnd Guðný 1834 og Þorsteinn 1835 en hann dó þriggja mánaða gamall. Þrjú börn Jóns og Þórunnar létust með fárra ára millibili upp úr 1860 og þá lést Þórunn líka. „Hafði hún verið honum mjög samhent og hjónaband þeirra farsælt“, skrifar Eiður.
Öll börn Jóns og Þórunnar fengu góða umsögn í kirkjubók. Árið áður en þau fluttu úr Garðshorni var Helga sögð dável að sér og efnileg stúlka, Guðjón var allvel lesandi og kunni vel, Rósa var dável læs og siðleg og Jón las sæmilega og var sagður efnilegur. Síðar fékk Guðjón reyndar þá umsögn í kirkjubók að hann væri daufur og jafnvel treggáfaður.
Fyrstu tvö árin eftir að Jón og Þórunn fluttu í Lönguhlíð bjuggu Árni Einarsson og Guðrún Jóhannesdóttir í Garðshorni ásamt börnum sínum og vinnufólki. Þau voru að sjálfsögðu tengd Bergs-fjölskyldunni því að Sigurður afi Guðrúnar var bróðir Brotevu húsfreyju á Efri-Rauðalæk og Garðshorni á fyrstu áratugum 19. aldar.
Þegar Árni og Guðrún fluttu frá Garðshorni var ekki útlit fyrir annað en að blómaskeið Bergsættar í Garðshorni héldi áfram. Árið 1856 tóku Helga, dóttir Jóns og Þórunnar, og Jóhannes Jóhannesson (1830-1861) maður hennar við búi í Garðshorni og áttu þá einn son, fyrst skráður Jón Jóhannes í kirkjubók en Jón Hannes síðar, prestinn hefur líklega misminnt eitthvað þegar hann færði skírnina til bókar, en yfirleitt var drengurinn skráður Jón Jóhannesson. Jóhannes var úr stórum systkinahópi framan úr Eyjafirði, foreldrar hans höfðu búið þar í Leyningi og Torfufelli. Fyrsta búskaparárið þeirra Helgu og Jóhannesar var tvíbýlt í Garðshorni því að á móti þeim bjuggu Oddur Bergsson og Þóra Sveinsdóttir ásamt þremur börnum sínum en Oddur var bróðir Bergs þáorðins bónda á Efri-Rauðalæk og bróðursonur Jóns Bergssonar. Þóra var Skagfirðingur og þau Oddur höfðu fyrir Garðshornsdvölina búið á nokkrum bæjum vestur í Skagafirði. Frá Garðshorni fóru þau austur á Langanes en 1870 voru þau komin til baka, Oddur sem vinnumaður á Syðri-Bægisá og síðan voru þau hjá Bergi bróður Odds á Efri-Rauðalæk. Símon sonur þeirra og kona hans áttu eftir að búa sem húsfólk í Garðshorni 1883-1889 en eftir það hefur ekkert ættmenni Smjör-Bergs og Brotevu átt þar heima.
Á skammri stundu skipast veður í lofti, segir máltækið. Helga og Jóhannes urðu bæði skammlíf, hann dó úr taugaveiki 1861 en hún lést 1863, dánarorsök ekki tilgreind í kirkjubók. Þá áttu þau tvö börn, fyrrnefndan Jón Hannes (1856-1936) og Jóhönnu (1861-1866) sem fóru bæði í fóstur til afa síns og móðursystur í Lönguhlíð þegar foreldrar þeirra létust og hjá Jóni Bergssyni ólst Jón Hannes upp í Lönguhlíð og síðar á Auðnum. Um svipað leyti og Helga og Jóhannes dóu varð Guðjón bróðir Helgu úti í vonskuveðri á ferð milli Skriðu og Lönguhlíðar og Jón bróðir þeirra dó úr taugaveiki sama ár og Jóhannes. Sama ár dó Þórunn en dánarorsök er ekki tilgreind í prestþjónustubókinni. Ekki er ósennilegt að taugaveiki hafi einnig orðið henni að aldurtila. Loks dó Jóhanna 1866, fimm ára gömul.
Nú er ekki hægt að skiljast svo við Jón Bergsson ríka, sem svo lengi bjó í Garðshorni og afkomendur hans á eftir honum, að honum sé ekki fylgt eftir til æviloka, ekki síst vegna þess að ættingjar hans voru viðloða Garðshorn nánast ævi hans á enda. Um búskap Jóns Bergssonar í Lönguhlíð segir Eiður: „Eftir að Jón hóf búskap í Lönguhlíð jók hann bú sitt því að Langahlíð var þá með bestu jörðum sveitarinnar. Bú hafði hann þó ekki stórt en þokkalegt. Lagði hann jafnan meiri stund á að bæta við jarðeignir sínar en að hafa mikil búskaparumsvif.“ Heimilisfólkið í Lönguhlíð var heldur ekki margt sem bendir til að búskapurinn hafi ekki verið umsvifamikill. Yfirleitt hafði Jón þó vinnukonur, m.a. var Sigurlaug Sigfúsdóttir Benediktssonar frá Flöguseli eitt ár í Lönguhlíð og meðal sveitarómaga sem Jón tók að sér var Sveinn Björnsson Benediktssonar frá Flöguseli sem ólst upp hjá Jóni Bergssyni í Lönguhlíð og á Auðnum. Fyrstu árin hafði Sveinn verið niðursetningur á Efri-Rauðalæk en hann tók síðar slíku ástfóstri við Auðnir að hann bjó þar sem húsmaður eftir dauða Jóns ásamt Geirþrúði konu sinni áður en þau fluttu vestur í Húnavatnssýslu til ættmenna sinna. Björn faðir Sveins hafði áður flust þangað vestur og bjó þar síðast í skjóli barna sinna en hann var alltaf fátækur þrátt fyrir greindina sem hann hafði svo mjög fram yfir systkini sín flest að sögn Eiðs sagnaritara. Líklega var hann heilsuveill lengi. En hvað um það, Sveinn og Geirþrúður eignuðust ekki börn.
Eftir að Þórunn lést tók Rósa, dóttir þeirra Jóns, við búsforráðum í Lönguhlíð og árið 1869 var Rósa búin að ná sér í mann, Stefán Jóhann Ólafsson Thorarensen (1832-1904), læknisson frá Hofi í Arnarneshreppi. Stefán var þá orðinn ekkjumaður og lagði tvo stálpaða syni sína með sér í búið, Ólaf 12 ára og Þórð 11 ára. Er skemmst frá því að segja að þau Rósa eignuðust saman sjö börn, fimm þeirra komust upp og bjuggu í Hörgárdal og áttu afkomendur þar. Meðal þeirra var Stefán Lárus Jónsson Thorarensen, sonarsonur Rósu og Stefáns, en hann bjó síðastur Thorarensenanna í Lönguhlíð 1951-1958. Og eins og fram kemur á öðrum stöðum í þessum pistli tók Rósa í Lönguhlíð að sér fósturdóttur, Rósu Kristjánsdóttur (1865-1955) frænku sína frá Hamri. Amma hennar var Guðrún Bergsdóttir á Neðri-Rauðalæk en þær Rósa í Lönguhlíð voru bræðrabörn.
Rósa dóttir Jóns Bergssonar fór fljótlega að reka eigið bú og þegar Rósa og Stefán Thorarensen giftust eftirlét Jón þeim mestan hluta jarðarinnar en bjó sjálfur á litlum skika og hafði ráðskonur. Hólmfríður Jónsdóttir, 57 ára, var hjá honum 1868 en síðan gekk Hólmfríður Oddsdóttir inn í það starf en var þá reyndar búin að vera vinnukona hjá Jóni nokkur ár. Eiður orðar þetta svo: „Eftir það bjó hann með ráðskonum. Hefir hann þá, sem að líkum lætur, verið fjörminni orðinn en áður var því að ekki barnaði hann nema eina þeirra, þá sem lengst var hjá honum og síðast. Var það Hólmfríður Oddsdóttir Benediktssonar frá Flöguseli. Áttu þau dreng árið 1870. Var sá heitinn Jón og varð vesalingur að öllu. Hann drukknaði í bæjarlæk á Auðnum tæplega tvítugur að aldri.“ Kirkjubókin segir reyndar að Jón hafi slasast til dauðs milli Bakka og Auðna í maí 1891 en þá var Jón rúmlega tvítugur. En þegar Jón fæddist var Jón Bergsson sjötugur en Hólmfríður 27 ára.
Raunar var ekki við því að búast að Jón barnaði aðrar ráðskonur en hana, þegar þarna var komið sögu, hvað svo sem fjöri hans leið, því að hann hafði aðeins tvær ráðskonur á þessum árum auk Hólmfríðar og var önnur dóttir hans og hin löngu komin úr barneign.
Árið 1871 hætti Jón Bergsson búskap í Lönguhlíð og Stefán Thorarensen og Rósa tóku við allri jörðinni. Jón fluttist fram í Auðnir og bjó þar nánast til dauðadags. Hann hafði með sér Hólmfríði Oddsdóttur, barnsmóður sína, sem ráðskonu og Jón, son þeirra. Með þeim í heimili voru Jón Hannes dóttursonur Jóns og niðursetningurinn Sveinn Björnsson, þá titlaður vikapiltur enda orðinn fjórtán ára. Á árunum 1873-1879 var Sólrún systir Hólmfríðar vinnukona hjá þeim á Auðnum og að því kom að Jón Hannes og Sólrún eignuðust barn, Jóhannes f. 1879. Ári síðar voru þau gift og Jón Bergsson hafði séð þeim fyrir bújörðinni Garðshorni á Þelamörk.
Síðustu æviárin bjó Jón Bergsson á Auðnum á móti Hólmfríði sem taldist sjálf búandi þegar fram í sótti. Árið 1887-1888 var Jón reyndar í Lönguhlíð hjá Rósu dóttur sinni en fór strax aftur í Auðnir. Ekki liggur alveg ljóst fyrir hvar hann var árið áður en hann dó né heldur hvar hann dó því að það kemur ekki fram í kirkjubókunum. Hann var hvorki skráður á Auðnum né í Lönguhlíð 1891. Jón sonur þeirra Hólmfríðar var alla tíð á Auðnum en auk þess hafði Jón Bergsson stundum vinnumann og 1889 var hann með bústýru.
Á búi Hólmfríðar á Auðnum var Stefán Sigurbjarnarson (1869-1897) vinnupiltur árið 1888. Árið eftir voru þau Hólmfríður gift, hann tvítugur en hún 45 ára. Hjónaband þeirra var barnlaust, sem vænta mátti, og stutt því að Stefán drukknaði af hákarlaskipi 1897. Þóra Björnsdóttir Benediktssonar frá Flöguseli, móðir Stefáns og systir fyrrnefnds Sveins, og Hólmfríður voru bræðrabörn, Stefán og Hólmfríður því skyld að öðrum og þriðja. Sigríður Benediktsdóttir, 74 ára, var líka á Auðnum hjá Hólmfríði, í kirkjubók ranglega sögð móðir konu því að móðir Hólmfríðar hét Jóhanna Jónsdóttir. Hér var líklega komin sjálf Stutta-Sigga, föðursystir Hólmfríðar sem Bensi í Flöguseli fór svo illa með að sögn Eiðs. Hjá Hólmfríði og Stefáni var líka Þóroddur Magnússon, titlaður fóstursonur, en hann var bróðursonur Hólmfríðar, bjó síðar á nokkrum bæjum í fram-Hörgárdal og í Vallholti í Glerárþorpi áður en hann flutti til Reykjavíkur.