Aftur í Garðshorn

Aftur í Garðshorn

Víkur nú sögunni aftur að Garðshorni og við tökum upp þráðinn þegar Helga, dóttir Jóns Bergssonar, lést þar árið 1863. Árið eftir hefur Jón í Lönguhlíð sett ráðsmann og ráðskonu yfir búið en árin 1864-1866 var hinsvegar ný fjölskylda komin í Garðshorn, Jón Jónsson, Borgfirðingur, og Steinunn Helga Friðfinnsdóttir frá Skriðu. Börn þeirra voru fjögur á aldrinum 1-7 ára en auk þess höfðu Jón og Steinunn tvær til þrjár vinnukonur og vinnumann, Hans Sigurjón Guðmundsson síðar bónda á Myrká. Móðir hans var Ingibjörg Bergs­dóttir, bróðurdóttir Jóns Bergssonar ríka, en börn hans voru m.a. Marselína móðir mjólkurbíl­stjóranna Baldurs og Steinþórs Þorsteinssona og Ármann bóndi á Myrká.

En nú kemur aftur til sögunnar Sigurður sonur Jóns ríka en Eiður á Þúfnavöllum lýsir Sigurði svo: „Hann þótti lítils háttar og smámuna­samur nirfill.“ Hann var alltént enginn Þúfnavellingur. Hann ólst mest upp hjá föður sínum í Garðshorni en var vinnumaður hér og þar eftir að hann fór að heiman frá föður sínum og áður en hann giftist. Hann var t.d. í Stóra-Dunhaga 1844-1848 þar sem móðir hans og stjúpfaðir voru mjög lengi vinnuhjú með dætur sínar tvær. Hann var á Laugalandi 1850-1852 og í Auðbrekku var hann 1854-56.

Guðrún nokkur Sigurðardóttir hafði búið í Bitru í Kræklingahlíð með Pétri Guðmundssyni frá 1845 eða lengur og þangað til hann lést 1856. Guðrún bjó áfram í Bitru án fyrirvinnu en árið 1860 kom Sigurður Jónsson þangað sem vinnumaður og ári síðar voru þau gift, Guðrún þá orðin 45 ára. Þau bjuggu í Bitru þangað til þau fluttu í Garðshorn 1866 en þar bjuggu þau til 1876. Höfundur þessa pistils veit ekki hvert Sigurður og Guðrún fluttu frá Garðshorni en 1879 voru þau komin í Svíra í Möðruvallasókn og síðar fluttu þau í Bitrugerði í Kræklingahlíð. Þau munu ekki hafa eignast börn saman en Guðrún átti a.m.k. tvö börn áður.

Þegar Sigurður og Guðrún fluttu frá Garðshorni komu þangað Tómas Jóhannsson og Guðrún Árna­dóttir ásamt fimm börnum sínum og bjuggu til 1880. Tómas var systursonur Andrésar á Syðri-Bægisá, sonur Katrínar Tómasdóttur. Jóhann bróðir Tómasar var faðir Katrínar móður Haralds­barnanna frá Efri-Rauðalæk (Árna á Hallfríðarstöðum, Elísabetar á Öxnhóli, Jóhanns Ó. tónskálds o.fl.). Guðrún Árnadóttir var hinsvegar dóttir Sigurbjargar Þórðardóttur frá Kjarna, systur Ingibjargar húsfreyju á Syðri-Bægisá, konu Andrésar bónda þar. Frá Garðshorni hafa Tómas og Guðrún líklega flutt að Þúfnavöllum þar sem þau voru 1880-1888 en þau fluttu þaðan til Elfros í Saskatchewan í Kanada.

Næstu tvö ár, 1880-1882, voru enn afkomendur Jóns Bergssonar í Garðshorni, Jón Hannes Jóhannes­son og Sólrún Oddsdóttir. Jón var sonur Helgu Jónsdóttur, eins og fyrr segir, og hafði alist upp hjá Jóni Bergssyni, afa sínum, fyrst í Lönguhlíð eftir að móðir hans féll frá 1863 en síðan á Auðnum frá 1871 en þangað hafði Sólrún komið 1873 sem vinnukona hjá Hólmfríði systur sinni. Jón og Sólrún hafa væntan­lega fengið Garðshorn til ábúðar frá Jóni gamla Bergssyni og jafnvel fengið jörðina til eignar en þau bjuggu þar aðeins til 1882 og svo mikið er víst að Jón og Sólrún seldu sr. Arnljóti Ólafssyni á Bægisá jörðina árið 1884. Frá Garðshorni fluttu þau út í Efri-Rauðalæk eftir að Stefán Bergsson, frændi Jóns, flutti þaðan. Þangað fór líka með þeim Oddur Benediktsson (1809-1891), faðir Sólrúnar 74 ára, en Jóhanna móðir hennar hafði verið hjá þeim fyrsta árið þeirra í Garðshorni. Jón og Sólrún voru farin frá Efri-Rauðalæk 1887 út í Neðri-Vindheima og bjuggu nú ekki lengur á jörð í eigu Jóns Bergssonar. Þar á Neðri-Vindheimum var Oddur enn hjá þeim og þar dó hann 1891. Þá var Jóhanna vinnukona í Varmavatnshólum hjá Þóru Rósu dóttur þeirra Odds, ömmu Þóru Júníusdóttur á Myrká. Jón og Sólrún voru í Ási 1901 og í Ytri-Skjaldarvík 1910 en 1920 voru þau flutt til Akureyrar. Sonur þeirra var Stefán klæðskeri sem stofnaði Elliheimilið í Skjaldarvík og gaf Akureyringum en annar sonur þeirra var Jón Bergvin sem bjó í Ytri-Skjaldarvík.