Pálmi Frímannsson fékkst nokkuð við það á yngri árum, líklega aðallega á námsárum í Menntaskólanum á Akureyri og í læknanáminu í Háskóla Íslands, að setja saman kvæði og vísur og var stundum fenginn til að semja eitthvað til að flytja á skemmtunum. Mest var þetta í gamansömum tón en stundum með skírskotunum í atburði og ástand líðandi stundar. Viðreisnarstjórnin var við völd á 7. áratugnum með Bjarna Benediktsson og Gylfa Þ. Gíslason í forystu, Kanasjónvarpið sást á höfuðborgarsvæðinu en það íslenska ekki komið á koppinn fyrr en 1966. Hvorki Viðreisnarstjórnin né Kanasjónvarpið var hátt skrifað hjá Pálma.
Þessi kvæði sem birtast hér sendi Pálmi til vinar síns sem hafði vit á að varðveita þau. Heiti þeirra eru tilbúningur vefhafa.