Kristín Guðríður Jónsdóttir[1]
ólst upp í foreldrahúsum í Ytribúðum og á Breiðabóli og var ráðskona hjá föður sínum á Breiðabóli um og eftir lát Margrétar móður sinnar. Árið 1905 eignaðist hún soninn Guðmund[2] með Torfa Guðmundssyni[3] sjómanni á Ísafirði en flutti síðar til Suðureyrar og giftist þar Magnúsi Helgasyni[4] og eignaðist 5 börn með honum. Þau voru Ólöf[5] sem dó barnlaus á þrítugsaldri, Helga[6] sem bjó á Ísafirði en síðast í Keflavík, Elín Margrét[7] sem dó innan við tvítugt, Jón Hafliði[8] sem bjó á Fornusöndum í V-Eyjafjallahreppi og Elías Guðmund Sigurvin[9] sem var bifreiðastjóri í Reykjavík.
Magnús fórst með vélbátnum Agli frá Bolungarvík. „ ... fórst báturinn á landleið fram undan Hvassaleiti 7. nóvember 1923 í ekki mjög slæmu veðri. Talið var að báturinn hefði sprungið á báru og sökk hann þegar. Á bátnum voru sex menn og fórust fimm þeirra.“[10]
Eftir að Magnús fórst var Kristín verkakona í Bolungarvík, m.a. ráðskona hjá sr. Páli Sigurðssyni, og síðan var hún á Ísafirði en fluttist síðar til Reykjavíkur þar sem hún dó á Hrafnistu. Ekki hafa varðveist, svo vitað sé, myndir af öðrum alsystkinum Kristínar en henni. Að sögn Sigþóru Jónsdóttur, tengdadóttur hennar, var hún lágvaxin en afar kvik á fæti. „Lítil og fíngerð, snyrtileg og hreinleg“, sagði Jón Ólafur Bjarnason. Þeir feðgar heimsóttu Kristínu eftir að hún flutti suður og Bjarni var orðinn blindur.
Guðmundur Torfason var hjá móður sinni og afa í Neðribæ á Breiðabóli þegar snjóflóðið féll þar 1910. Hann fluttist skömmu síðar með móður sinni til Suðureyrar þar sem hann varð fyrir slysi 9 ára gamall með þeim afleiðingum að taka þurfti af honum handlegg ofan við olnboga. Hann fékk sem fullorðinn maður útbúnað á handlegginn sem auðveldaði honum alla vinnu. Hann vann fyrst öll almenn störf, var m.a. vinnumaður á Hamri á Langadalsströnd og einnig var hann í byggingarvinnu þar sem hann þótti ekki gefa öðrum neitt eftir í afköstum þrátt fyrir fötlunina. Síðar gerðist hann loftskeytamaður á bátum og skipum fram yfir stríðsárin en var eftir það innheimtumaður hjá Mjólkurfélaginu í Reykjavík og síðar Ellingsen.
Guðmundur eignaðist fyrst tvo syni með Hallberu Jónínu Hannesdóttur[11] úr Furufirði, Halldór Sigurð[12] og Viggó[13]. Guðmundur og Hallbera voru þá á Hamri á Langadalsströnd og þar var Hallbera áfram ráðskona eftir að slitnaði upp úr sambandi þeirra og þar ólust drengirnir upp.
Halldór starfaði sem járnabindingamaður við húsbyggingar, giftist fyrst Arnheiði Höskuldsdóttur[14] frá Vopnafirði. Hún bjó á Akureyri. Seinni kona Halldórs var Hulda Þórarinsdóttir[15] frá Ánastöðum á Mýrum, þau áttu Höllu Ósk.
Viggó var sendibifreiðastjóri í Reykjavík. Kona hans var Hulda Jóhannesdóttir[16] úr Álftaveri, þau áttu þrjá syni, Þorstein Vigni, Jóhannes og Lárus Kristin.
Eftir sambúðartilraunina með Hallberu kvæntist Guðmundur Torfason Sigríði Jakobsdóttur[17] saumakonu. Sonur þeirra, Kristinn Magnús[18], starfaði við bókasafnið við Bústaðaveg í Reykjavík.
Eftir fráfall Magnúsar var Ólöfu dóttur þeirra Kristínar komið í fóstur á Flateyri en Jóni Hafliða og Elíasi var komið fyrir á bæjum inni í Djúpi, Elíasi á Bæjum á Snæfjallaströnd en Jóni á Hamri á Langadalsströnd. Helga var hjá móður sinni í Bolungarvík þangað til hún kynntist og giftist Jóni Ingibjartssyni[19] frá Ísafirði og flutti þangað. Þau bjuggu lengi á Ísafirði þar sem Jón var sjómaður. Þau eignuðust eina dóttur, Elínu Ólöfu.[20] Á 6. áratugnum fluttu þau til Keflavíkur þar sem Jón stundaði sjóinn en vann líka á Keflavíkurflugvelli.
Bærinn Hamar kemur víða við þessa sögu af fjölskyldu Jónu Jónsdóttur því að Ágústi Jónssyni, hálfbróður þeirra systkina, var komið þangað í fóstur á meðan móðir hans kom sér fyrir á nýjum samastað í Bolungarvík eftir dvölina á Breiðabóli og þar ólst hann upp að einhverju leyti frá 8 ára aldri. Sigurða, hálfsystir hans sammæðra, ól þar fyrsta barn sitt, Hjörleif. Guðmundur, sonur Kristínar, var þar vinnumaður um tíma, eins og að framan segir, og Halldór sonur hans einnig og synir Halldórs báðir fæddust þar og ólust upp. Loks fór Hjörtur, sonur Elísabetar og Gísla skálda, í vist á Hamri 15 ára gamall.
Ekki liggur fyrir hvers eðlis þessi tengsl ættmenna Jónu Jónsdóttur voru við heimilið á Hamri en ekki verður séð í fljótu bragði að um skyldleika við hjónin þar, Hávarð Guðmundsson[21] og Sigríði Guðmundsdóttur[22], hafi verið að ræða.
Afar ósennilegt er að þar hafi ráðið nokkru að Sigríður og Bjarni Þorláksson, eiginmaður Jónu, voru fjórmenningar. Líklegast er að í upphafi hafi kunningsskapur ráðið því að Ágúst var sendur í fóstur að Hamri og síðan hafi eitt leitt af öðru.
Þarna við norðanvert Djúpið ólust upp til fullorðinsaldurs þeir bræður, Jón Hafliði og Elías, synir Kristínar Guðríðar og Magnúsar. Jón fluttist til Reykjavíkur og stundaði þar sjómennsku og verkamannavinnu þangað til hann keypti ásamt konu sinni, Guðrúnu Ingólfsdóttur[23] frá Hnífsdal, jörðina Fornusanda í V-Eyjafjallahreppi sem hafði þá verið eyðibýli um hríð. Þau byggðu upp jörðina og bjuggu þar til æviloka Jóns. Þau eignuðust ekki börn en tóku í fóstur Ingvar Sigurjónsson.
Elías fluttist 17 ára gamall til Reykjavíkur og gerðist fyrst vinnumaður hjá Thor Jensen á Korpúlfsstöðum en réð sig síðan sem bílstjóra hjá Ora hf. Árið 1953 hóf hann störf hjá Sláturfélagi Suðurlands og starfaði þar til sjötugs, fyrst sem bílstjóri á útkeyrslubílum félagsins en síðan rak hann erindi fyrir skrifstofu félagsins ásamt því að vera einkabílstjóri forstjórans. Hann giftist Sigþóru Jónsdóttur[24], sem fæddist í Vestmannaeyjum en ólst upp í Höfnum á Reykjanesi, og átti með henni Guðnýju Elínu[25] sem hefur starfað hjá Sláturfélagi Suðurlands í meira en hálfa öld, m.a. sem sölumaður og bókari. Elín eignaðist tvo syni með Magnúsi Helgasyni Arndal[26], Elías Guðmund stjórnmálafræðing hjá VR og Einar Þór framkvæmdastjóra Ormsson ehf.
[1] Kristín Guðríður Jónsdóttir f. 30. 11. 1878, d. 26. 12. 1966
[2] Guðmundur Torfason f. 8. 12. 1905, d. 23. 3. 1994
[3] Torfi Guðmundsson f. 7. 9. 1877, d. 20. 11. 1927
[4] Magnús Helgason f. 6. 9. 1887, d. 6. 11. 1923, drukknaði á mb. Agli frá Bolungarvík
[5] Ólöf Magnúsdóttir f. 6. 3. 1911, d. 20. 1. 1937
[6] Helga Guðfinna Sigurlaug Magnúsdóttir f. 24. 1. 1913, d. 30. 6. 2008
[7] Elín Margrét Magnúsdóttir f. 17. 8. 1914, d. 4. 10. 1930
[8] Jón Hafliði Magnússon f. 20. 5. 1916, d. 7. 7. 1991
[9] Elías Guðmundur Sigurvin Magnússon f. 31. 7. 1922, d. 5. 2. 2009
[10] Eyjólfur Jónsson: Vestfirskir slysadagar 1880 – 1940, síðara bindi bls. 230
[11] Hallbera Jónína Hannesdóttir f. 31. 7. 1895, d. 20. 5. 1982
[12] Halldór Sigurður Guðmundsson f. 12. 7. 1925
[13] Viggó Guðmundsson f. 12. 5. 1927, d. 2. 1. 1998
[14] Arnheiður Elín Höskuldsdóttir f. 21. 11. 1925, d. 3. 5. 1992
[15] 2 Hulda Þórarinsdóttir f. 24. 4. 1931, d. 15. 3. 2011
[16] Hulda Jóhannesdóttir f. 23. 8. 1931, d. 7. 11. 1996
[17] Sigríður Jakobsdóttir f. 7. 8. 1906, d. 17. 4. 1989
[18] Kristinn Magnús Guðmundsson f. 2. 6. 1934, d. 9. 6. 2006
[19] Jón Ingibjartsson f. 19. 11. 1909, d. 12. 1. 2004
[20] Elín Ólöf Jónsdóttir f. 9. 11. 1936, d. 12. 7. 2009
[21] Hávarður Guðmundsson f. 26. 6. 1878, d. 8. 2. 1945
[22] Sigríður Guðmundsdóttur f. 6. 4. 1872, d. 10. 2. 1948
[23] Guðrún Ingólfsdóttir f. 31. 12. 1925, d. 3. 5. 1999
[24] Sigþóra Jónsdóttir f. 22. 6. 1925, 19. 4. 2017
[25] Guðný Elín Elíasdóttir f. 19. 10. 1945
[26] Magnús Helgason Arndal f. 20. 12. 1944