Útúrdúr um Otta Sveinsson

Útúrdúr um Otta Sveinsson

Víkjum nú aftur að Elísabetu Jónsdóttur. Árið 1858 var hún vinnukona í Vigur hjá Sigmundi Erlingssyni með Jón son sinn hjá sér og var þar til 1861. Því hefur verið haldið fram að Elísabet hafi verið meira en vinnukona hjá Sigmundi heldur hafi samband þeirra verið töluvert nánara en svo að samrýmdist hjúskapar­stöðu Sigmundar og vegna þessa ósamræmis hafi Sigmundur vikið sér undan því að gangast við sonum þeirra Elísabetar. Árið 1859 fæddist henni sonur sem nefndur var Skarphéðinn (1859-1861) og var skráður sonur Otta Sveinssonar (1834-um 1872), Skagfirðings sem var um tíma (1860) vinnumaður í Vigur og á Eyri í Seyðisfirði vestra. Otti er aðalsöguhetjan í bókinni Rauða­myrkri eftir Hannes Pétursson þar sem Hannes segir um Otta: „ ... en árið 1858 stingur hann upp höfði vestur í Vigur án þess þó að geta framvísað tilskildum attestum og hefur þar ársdvöl. Í Vigur fór hann undir föt hjá ógiftri vinnukonu og eignaðist sveinbarn með henni, en það dó niðursett á bæ þar í Ögurþingum áður en það yrði tveggja ára gamalt. Þessi drengur var skírður Skarphéðinn, og er ekki vitað að Otti Sveinsson eignaðist aðra afkomendur. Þeir feðgar voru samvistum á Eyri í Seyðisfirði, þar sem Otti var heimilismaður 1860 en þaðan lá leið hans til Ísafjarðar ...“ (Hannes Pétursson: Rauðamyrkur, Mál og menning, Reykjavík 2000, bls. 23 - 24).

Í Rauðamyrkri segir frá því að Otti og tveir félagar hans hafi brotist inn í skemmu á bænum Reykjum í Hjaltadal í Skagafirði og stolið þaðan peningum, mat, tóbaki og fleiru. Sýslumanni tókst ekki að upplýsa þjófnaðinn en grunur féll á Otta sem var yfirheyrður en neitaði sök. Þá var á Hólum í Hjaltadal Þóra Gunnarsdóttir frá Laufási, tengdamóðir prestsonarins á Hólum og móðursystir Otta, en til hennar er sagt að Jónas Hallgríms­son hafi ort kvæðið Ferðalok. Þóra faldi Otta í fjárhúskofa þar í túninu - tóttirnar síðar nefndar Ottakofi - og hélt hann þar með vistir. Félagar Otta óttuðust hinsvegar að hann væri að meyrna og mundi nú segja til þeirra svo að þeir fóru að honum að næturþeli, helltu í hann brennivíni, drápu hann og komu líkinu fyrir í nýorpinni barnsgröf í Hólakirkju­garði. Morðið sannaðist hinsvegar aldrei á þá félaga, sem fluttu til Vesturheims og gumuðu þar af morðinu svo til heyrðist, en líkið fannst ekki fyrr en alllöngu síðar þannig að dánardægur Otta er óljóst. Þessi saga af Otta er einn af útúrdúrunum úr sögu Elísabetar Jónsdóttur en menn hafa getið sér þess til að Sigmundur í Vigur hafi fengið Otta til að gangast við Skarphéðni sem náði varla tveggja ára aldri. Fyrir þessu er þó enginn flugufótur í skráðum heimildum.