Piparsveinalíf

Piparsveinalíf

Ég þekki eitt í heiminum sem öðru betra er
þótt ýmsir fylgi gallar sem reyndar flestu hér.
Það er okkar skjöldur og það er okkar hlíf
og þetta er hið margrómaða piparsveinalíf.

Nú vilja sumir losna við eldhússtörf og stúss
og stúlku vilja hafa til að vinna innanhúss.
En það er bara eiginmaður en ekki piparsveinn
sem á að þvo upp tvo diska í staðinn fyrir einn.

Þótt leiðinlegur skyrtuþvottur þyki, vinur minn,
er hann þúsund sinnum skárri en bleyjuþvotturinn.
Menn vita líka að kökukeflið vont í höndum er
en verra er þó að fá það í höfuðið á sér.

Eitt augnablik af því er sem ár í Paradís
og öllum sem það stunda er sæla og friður vís.
Hið sanna frelsi einstaklingsins er það dæmigert
og allir eru jafnir líka og það er mest um vert.

Því eiginmanni ber víst að elska heitt sitt víf
en öðruvísi verður með piparsveinsins líf.
Hann verður bara að gæta þess að elska allar jafnt
en ekki bara tíu eða svo og svo lítinn skammt. 

(Nóvember 1966)