Heimagerðar lífsreynslubögur
Það angrar að æðrast og kveina
og annarra þreyta geð.
Best er böli að leyna
og bera það hógværð með
Til einskis að láta sig langa
en lifa í sannri dyggð,
brjótast svo fast til fanga
þá flestra gæfa er tryggð.
Hvar bætir það bölið að muna
jafnt bernsku- sem fullorðinsár
ef að helst engan má gruna
allt það harmskuggafár.
Að laga mig að lífi nýju
er lítið vandamál
hjá því að rækta ást og hlýju
í minni þjóðar sál.
Ýmsra skiptir oft um hag,
óviss gæfu rausnin.
Skriftin var mitt versta fag
en varð nú besta lausnin.
Þar af eigum mennt og mál
og margar sagnir lifa
að þáttur snar í þjóðarsál
er þörfin til að skrifa.
Útþrá fyrrum átti völd
ung og hress að vori
en heimþrá síðar heimti gjöld
haustleg, þung í spori.
Óska sér hin ungu víf
ást við karlmann rækja
en eiga síðan allt sitt líf
undir högg að sækja.