Laugalandsfólkið

Laugalandsfólkið

Tvö systkinanna frá Laugalandi á Þelamörk, Margrét og Kristján Steinstrup, börn Jóns J. Árnasonar ljósmyndara og Sigurbjargar Jónsdóttur, giftust afkomendum Guðmundar og Steinunnar. Margrét giftist Frímanni Guðmundssyni en Kristján Steinstrup giftist Jóhönnu Pálmadóttur. Hér segir frá Laugalandsfólkinu.

Jón Einarsson (1830-1915) bjó á Laugalandi og Heiðarhúsum ásamt Guðrúnu Hallgrímsdóttur konu sinni, Árnasonar á Skútum. Eiður á Þúfnavöllum lýsir Jóni svo í Búskaparsögu sinni: „[Jón] var hreppstjóri í Glæsibæjarhreppi um 40 ára skeið. Jón var greindarmaður og vel látinn. Hann var lítill maður vexti og kviklegur. Á yngri árum var hann hið mesta snarmenni.“ Þau áttu nokkur börn en hér verður aðeins getið Sigurbjargar (1857-1934) og barna hennar.

Sigurbjörg Jónsdóttir og Jón Júlíus Árnasons

„Hún átti Jón [Júlíus] Árnason (1853-1927) frá Staðartungu Kristjánssonar. Jón var völundur að hagleik og smíðaviti en lítið fyrir fésýslu og var fátækur jafnan.“ Börn þeirra voru Margrét Egedía (1876-1956), Sigurjóna Kristjana (1878-1957), Árni Júlíus (1879-1879), Sigurbjörg Júlíana (1882-1976), Árni Halldór (1885-1963), Guðrún Sigurrós (1889-1966), Kristján Steinstrup (1891-1984), Jón Franklín (1893-1969) og loks María (1897-1928). Jón þúsundþjalasmiður „var við smíða- og ljósmyndanám í Danmörku 1878-79 og 1880. Bóndi og ljósmyndari á Þórshöfn, Sauðaneshr. 1900-1906 og 1908-dd., í Jörfa á Húsavík 1906-1908. Hann stundaði smíðar jafnhliða búskap á Laugalandi. Smíðaði m.a. klukkur, mjólkurstrokka, þvottavél, kornmyllur, lýrukassa, taðkvarnir og jafnvel orgel. Hann var talinn bæði hagur og hugmyndaríkur maður“ (Niðjatal, 1993 bls. 16). Jón var ekki hneigður til búskapar en hafði áhuga á smíðum og ljósmyndun og á Þórshöfn var hann ýmist titlaður smiður, ljósmyndari eða úrsmiður. Jón átti raunar ekki langt að sækja hagleikinn því að Eiður á Þúfnavöllum segir svo um föður hans: 

„Smiður var Árni mikill. Hann byggði Bægisárkirkju á fyrstu árum sínum í Staðartungu“ en Árni bjó þar 1856–1867. Áður bjó hann alllengi á Krossastöðum (Búskaparsaga II, bls. 75).

Jón og Sigurbjörg munu hafa verið í húsmennsku á Laugalandi fyrst eftir að þau giftust 1876 en tóku síðan við góðu búi á Laugalandi 1885 af Jóni Einarssyni hreppstjóra, föður Sigurbjargar. Það lenti hins vegar mest á Sigurbjörgu að sjá um búreksturinn því að Jón sinnti frekar smíðum og ljósmyndun. Búinu hrakaði ár frá ári, einkum eftir 1890, og samkomulag hjónanna fór sömu leið. Árið 1898 afhentu þau Jóni stórbónda á Krossastöðum Laugaland en voru þar þó áfram í húsmennsku. Aldamótaárið skildi Jón Sigurbjörgu eftir eina með börnin og fluttist austur á Þórshöfn. Hann hafði smíðað gripi fyrir sr. Arnljót Ólafsson á Bægisá, sem þá var nýfluttur í Sauðanes, og hafa þau kynni orðið til þess að Jón Júlíus leitaði þangað og hafði von um vinnu. 

Sigurbjörg Jónsdóttir og yngri börn hennar: Árni Halldór, Guðrún, Kristján Steinstrup, Jón Franklín og María

Þar stundaði hann smíðar og ljósmyndun, byggði sér hús, „húsið við lækinn“, og tók þar saman við aðra konu, Elísabetu Jóhannesardóttur (1876-1958), sem var 24 árum yngri en hann. Þau eignuðust dóttur, Aðalbjörgu, árið 1907 og aðra dóttur 1909 sem lést óskírð á fyrsta ári. Aðalbjörg lést þegar hún var á áttunda ári.

Jón Júlíus og Sigurbjörg hittust aldrei aftur en Jón skrifaðist eitthvað á við Sigurjónu dóttur sína. María, yngsta dóttir þeirra Sigurbjargar, fór í heimsókn til hans skömmu áður en hann dó og kom á sáttum milli þeirra Jóns og Sigurbjargar. Árni sonur hans fór austur eftir dauða hans og fékk mikið af myndasafni hans og er sumt af því á Minjasafninu á Akureyri. Árni J. Haraldsson frá Hallfríðarstöðum skrifaði ágæta grein um Jón Júlíus Árnason í Súlur 1978, fyrra hefti, bls. 75-95 en þaðan er mest af þessum fróðleik um hann komið.

Þrátt fyrir brotthvarf Jóns og mikla fátækt virðist Sigurbjörgu hafa tekist að halda barna­hópnum saman að mestu leyti. Reyndar voru elstu börnin þá komin nokkuð á þrítugsaldur og aðeins 4 sem voru ekki farin að geta unnið fyrir sér.

Margrét, elsta dóttir Jóns og Sigurbjargar, var vinnukona á Akureyri 1905 þegar hún giftist Frímanni Guðmundssyni og fluttist með honum í Garðshorn þar sem þau voru ábúendur á móti Pálma og Helgu 1905-1908 en lungann af þessum tíma lá Pálmi rúmfastur með berkla. Síðan fluttu þau í Hamar þar sem þau bjuggu þau til 1917 en höfðu þá makaskipti á Hamri og Efstalandi í Öxnadal. Þegar Frímann lést árið 1926 fluttist Margrét í Grjótgarð, var á Bægisá (Húsá) 1929-1930 og síðan á Laugalandi þar sem hún var a.m.k. til 1947 en síðustu ár ævinnar bjó hún á Hjalteyri hjá Guðmundi syni sínum. Á Hjalteyri lést hún 1956, áttræð að aldri. Sigurbjörg dóttir þeirra Frímanns bjó þá á Akureyri, Guðmundur var kennari og skólastjóri á Hjalteyri, Anna bjó í Reykjavík og Ásta á Húsavík.

Kristján Steinstrup, Steini, fór um 10 ára aldur til vandalausra á Krossa­stöðum og ólst þar upp hjá Jóni stórbónda Guðmundssyni. Steini kunni ýmsar sögur um það hvernig Jón gat nýtt sér fátækt leiguliða sinna og skuldunauta en lét samt vel af vistinni á Krossa­stöðum. Þar hefði fólkið verið gott við hann, Jón ekki síður en aðrir. Steini reyndi síðan fyrir sér með búskap á ýmsum kotum í Öxnadal og á Þelamörkinni. Þeir Árni bróðir hans bjuggu fyrst á Auðnum 1914-1915 en fóru þaðan í Efri-Rauðalæk og bjuggu þar saman 1915-1917 og síðan Steini einn 1917-1919 en á móti öðrum sér óskyldum. Hann var í Garðshorni 1920-21 og 1921-1923 er hann sagður búa á Neðri-Rauða­læk, framan af vinnumaður í Garðshorni. Um þessar mundir giftust þau Steini og Jóhanna Guðrún Pálmadóttir, heimasæta í Garðshorni, og hófu búskap sinn á Laugalandi 1923-1925. Þau fluttu í Garðshorn 1925 með það fyrir augum að taka þar við búi og þau bjuggu þar 1925-1927. Líklega hefur þeim þótt þröngt um sig þar með foreldra hennar og bræður til heimilis svo og Steinunni ömmu hennar en svo mikið er víst að þau fluttu út í Bryta þar sem þau bjuggu 1927-1944. 

Kristján Steinstrup Jónsson og Jóhanna Guðrún Pálmadóttir á ungum aldri

Þar ólu þau upp Reyni, son sinn, auk þess sem þau höfðu hjá sér eftir fermingu Júlíus Hjálmar Sigurð Helgason f. á Svíra í Hörgárdal 1915, einn fjölmargra afkomenda Hólmfríðar Benediktsdóttur frá Flöguseli.

Þegar Steini bjó í Öxnadal, kynntist hann starfi ungmennafélagsins þar sem Bernharð Stefánsson, síðar alþingismaður, Brynjólfur Sveinsson, síðar hreppstjóri, og eflaust fleiri munu hafa haft forgöngu um að stofna. Þegar Steini fluttist niður á Þelamörkina gerðist hann aðalhvatamaðurinn að stofnun ungmennafélagsins Vorhvatar og fékk í lið með sér Marinó L. Stefánsson í Skógum og fleira gott fólk. Starf félagsins var blómlegt fyrstu árin, það byggði félagsheimili í Ási, steinhús sem notað var sem skóli um tíma. Félagið sofnaði síðan frekar skyndilega um 1930 en Eiríkur Stefánsson hefur skrifað skemmtilega grein um félagið í Súlur og þar hefur líka birst kvæði Þorleifs á Hamri þar sem hann hvetur ungmennafélaga til töðugjalda eitt sumarið.

Jóhanna og Steini á efri árum

Þau Jóhanna og Steini voru síðan í Garðshorni 1944–1947 en þá um haustið fluttu þau til Akureyrar í Hafnarstræti 86a ásamt foreldrum Jóhönnu, Helgu og Pálma, og leigðu hjá Steindóri, bróður hennar, á miðhæðinni. Pálmi dó fáum dögum eftir komuna til Akureyrar. Í Hafnarstræti 86a hafði Steindór sjálfur eitt herbergi. Helga Sigríður, móðir Steindórs og Jóhönnu, bjó á neðstu hæðinni. Á efstu hæðinni í Hafnarstræti 86a bjuggu Reynir, sonur Steina og Jóhönnu, og Þóra Gunnarsdóttir kona hans svo og Rögnvaldur sonur þeirra. Allt þetta fólk flutti svo 1957 í Hvannavelli 4 þar sem þeir Steindór og Reynir byggðu saman hús. Þau bjuggu þar þegar Helga dó 1958 og þegar Steini dó 1984 og Steindór 1986. Eftir það var húsið selt og Jóhanna fór á Dvalarheimilið Hlíð þar sem hún dó 1989. Steindór ánafnaði Náttúru­lækningafélaginu á Akureyri mestan hluta eigna sinna til uppbygg­ingar heilsuhælis í Kjarnalundi.

Eftir að Steini og Jóhanna fluttu til Akur­eyrar starfaði hann sem verkamaður og mest við uppskipun og önnur störf á Torfunefsbryggju. Steini var ekki stór maður en snaggaralegur. Hann var eggsköllóttur eins og sonur hans og sonarsonur. Hann var gamansamur og hafði gaman af smá­hrekkjum við vinnufélaga og smáfólkið sem laðaðist að honum. Til er saga um það þegar hann sagði einhverjum vinnu­félaganum að nú væri fjölgað hjá þeim hjónum (Jóhanna þá komin hátt á sextugsaldurinn) sem kallaði á viðeigandi viðbrögð og hamingjuóskir frá vinnufélögunum. Aðrir hrekkir voru eftir þessu og aldrei á kostnað annarra. Líklega átti lýsing Ingimars Baldvinssonar á Jóni Júlíusi, föður Steina, vel við hann líka en hann segir „að Jón hafi verið einstaklega skemmtilegur félagi, spaugsamur og glettinn og einnig hafi hann haft mjög gaman af smáhrekkjum en jafnan hafi þeir verið meinlausir“ (Árni J. Haraldsson: „Óvenjulegur hagleiksmaður“ í Súlum 1978, fyrra hefti).

Árni og Jón Franklín unnu sem smiðir alla tíð nema hvað Árni reyndi eitthvað að fást við búskap framan af. Þeir unnu við að byggja hús út um sveitir, eins og fram kemur í síðustu bréfum Margrétar systur þeirra, og Árni var yfirsmiður þegar íbúðarhúsið í Garðshorni var byggt. Til eru ýmsir smáhlutir sem þeir smíðuðu. Árni var afar lágvaxinn maður en kvikur. Hann vann lengi fyrir Verslunina Eyjafjörð á Akureyri og bjó í litlu húsi á Grjótgarði eftir að Gunnar Kristjánsson verslunar­stjóri eignaðist jörðina. Húsið brann skömmu fyrir 1960 og Árni hefur líklega búið á Akureyri eftir það. Franklín átti lengst af heima á Laugalandi.