Lofgjörð til Reykjavíkur
Í Reykjavíkurþorpi oss verður margt til meins
því magnaður er leiðindanna draugur.
Og mér finnst eins og Tímanum Esjan vera eins
og illa sléttur gamall mykjuhaugur.
Og Bændahöllin alkunna blasir sjónum við
þar brennivínið flóir alla daga.
En hún skal efla og styrkja og auka dreifbýlið
og af því ber hún nafnið Hótel Saga.
Í stjórnmálunum ráða hér öllu íhaldsmenn
og alstaðar er fyllerí og sollur.
Og Tjörnin, já, hvað skyldi hún vera annað en
úldinn, ljótur, gamall drullupollur.
Í úthverfunum blasir við mér brotajárn og slor.
Af bensínþef er troðfullur minn kjaftur.
Ó hvað ég óska heitt að það væri komið vor,
þá væri ég á förum norður aftur.
(Október 1965)