Nágrannabæirnir
Af framangreindu má glögglega ráða að fjölskyldutengsl voru sterk, bæði meðal afkomenda Benedikts og Rósu í Flöguseli en einnig í fjölskyldu Jóns ríka Bergssonar. Þetta sést m.a. af eftirfarandi yfirliti yfir heimilisfólk á næstu bæjum við Garðshorn á þessum tíma.
Á Efri-Rauðalæk bjó Bergur lungann af 19. öldinni, mann fram af manni eins og að framan segir. Fyrst bjó þar Smér-Bergur, faðir Jóns í Garðshorni og þeirra systkina, síðan Bergur bróðir Jóns og síðast Bergur sonur hans, bróðursonur Jóns ríka bónda í Garðshorni, Lönguhlíð og Auðnum. Þessi yngsti Bergur var tvígiftur, fyrri kona hans var Ástríður Jónsdóttir, skagfirsk, og sonur þeirra var framangreindur Stefán. Seinni kona Bergs var Sigríður Pálsdóttir, líka skagfirsk, sem hafði misst mann sinn, Jóhannes Ásmundsson bónda í Þríhyrningi, um svipað leyti og Bergur missti Ástríði. Sigríður átti þrjú börn frá fyrra hjónabandi en þau Bergur og Sigríður eignuðust saman Pál (1859-1919) sem fór til Vesturheims 1887 en mun hafa komið aftur og gerst kaupmaður í Reykjavík þar sem hann var sektaður fyrir að selja 6 ölflöskur árið 1913. Á heimilinu á Efri-Rauðalæk var líka Guðrún Bergrós (1850-1897) dóttir Odds Bergssonar, bróður Bergs bónda, titluð tökustúlka og síðar fósturdóttir.
Sömu vinnuhjú voru hjá þeim Rauðalækjarhjónum ár eftir ár, m.a. var Lilja Benediktsdóttir frá Flöguseli þar vinnukona í nokkur ár og síðast húskona. Þegar Bergur féll frá 1879 tók Stefán sonur hans við búinu, eins og áður segir, og bjó þar fá ár áður en hann flutti fram í Steinsstaði og síðan Þverá. Áður en hann flutti fram í Öxnadalinn hafði hann byggt þar timburhús sem enn stendur en er orðið hrörlegt. Þar var eldhús, stofa og svefnloft en stofan var notuð sem skólastofa á fyrstu áratugum 20. aldar auk þess sem Haraldur organisti og bóndi á Efri-Rauðalæk fékk fólk úr sveitinni til að koma þar saman og syngja á meðan hann bjó þar 1917-1928.
Á Neðri-Rauðalæk bjuggu um og upp úr 1860 Kristján Hallgrímsson og Guðrún Bergsdóttir, systir mið-Bergs á Efri-Rauðalæk, ásamt börnum sínum Kristjáni og Guðrúnu. Um eða eftir 1860 giftist Kristján Kristjánsson Guðfinnu Jónsdóttur sem fæddist í Tittlingi í Kræklingahlíð en ólst upp á Hamri hjá Randíði Árnadóttur, móður sinni, og Jóni Björnssyni stjúpföður. Kristján og Guðfinna bjuggu fyrst í Gloppu 1863-1864 en fluttu þá í Hamar og tóku þar við búskap af Jóni og Randíði. Börn þeirra voru Jón Ágúst, Randíður og Rósa en Rósa í Lönguhlíð tók þessa Rósu frænku sína í fóstur þegar hún var fjögurra ára og þar ólst hún upp til fullorðinsaldurs eins og fyrr segir. Rósa Kristjánsdóttir giftist síðar Guðjóni Einari Manasessyni og eignaðist með honum mörg börn, þ.á.m. Manases bónda á Barká og Kristfinn ljósmyndara á Siglufirði, sem í nokkur ár var á sveitarframfæri í Garðshorni.
Þannig voru náin skyldmenni á þessum fimm bæjum, Garðshorni, Hamri, Neðri-Rauðalæk, Efri-Rauðalæk og Lönguhlíð og greinilega mikil frændrækni á milli ábúenda.