Húsið í skóginum 2015

Húsið í skóginum 2015

 

 

 

 

 

 

 

 

Upphófst sumar sem aldrei varð
svo undir því nafni stæði
en sumarleysið það gekk í garð
í Garðshorni og Horni[1] bæði.
Helsta lífsmark ef lambasparð
í lerkiskóginum næði
að gefa til kynna greiðfært skarð
í girðingu og rolluflæði.

[1] Horn er auðvitað stytting fyrir Garðshornshornshorn sem er ekki eins þjált.
Betri tillaga um nafn á húsið er Garður sem skýrir nafnið á hjáleigunni, Garðshorni.

 

Hart var brugðist við háska þeim,
hugarvíl brýnt að róa.
Staurum, neti og nóg af seym
nú skyldi dreift um móa,
girðingin efld af görpum tveim
og Guðmundi[2] um mel og flóa.
Aðeins er boðið í hólfið heim
hrossagauk, rjúpu og spóa.

[2] Guðmundur fyrrum Garðshornsbóndi sem lagði lið við girðingarvinnu.

Eins og þar hefðu aðhafst tveir
Egill sterki og Grettir
voru á hálftíma og heldur meir
hliðstaurar báðir réttir,
grindin hönnuð og greypt í leir,
garpar í innkaup settir
en stórvirki hálfgert stundum deyr.
Stólparnir bíða nettir.

Kofanum var til góða gert,
geysimargt enn þó bíði.
Þakið einangrað upp í stert,
alklæddur geimurinn víði.
Svefnloftsgólf þess nú bíður bert
í ból þar að einhver skríði.
Enginn fær nú af ótta snert
að þar um gáttir hríði.

 

Á köldu sumri oft kom sér vel
kamínan íðilsnjalla
þegar kraphríð og kuldaél
kraumuðu um dali alla.
Hitar hún jafnvel hugarþel
harðsvíruðustu karla
og nýtist einnig sem eldavél,
oft má sjá grautinn malla.

Fágaður kofinn úti er[3],
innanvert neðan sperra.
Ekki frá því skal greint hér ger
að geðheilsa tók að þverra
er margur naglinn gekk nærri sér
við nuddið, svo hörð var snerra.
Olíuborinn er bjálki hver
en birtustig þykir verra.

[3] Myndin til hliðar er tekin áður en byrjað var að pússa veggina að innanverðu.

Hörgdælir munu sumir senn
sjá þar í Horni rjúka
en efalaust líða árin þrenn
uns kofann megi brúka.
Furðu langt er í framtíð enn
að framkvæmdum megi ljúka.
Þó fagna því bæði fljóð og menn
að fá undir þaki að kúka.

 

Umhverfis nokkuð aðhafst var,
endurnýjað og stagað.
Einhver lúpínu latur skar
en lítt var af greinum sagað.
Hugað að slóðum hér og þar,
höfðu þær ýmsa plagað.
Stórgrip ei lengur brúin bar,
byggt var þar nýtt og lagað.

Í júlí var æst í ættarmót,
á það var stefnan lengi.
Þarna var fjölmörg falleg snót
og fátt var um ljóta drengi
sem voru í leit að sinni rót
úr sameiginlegu mengi.
Var þar hver með sitt viðlegudót,
vistir og nýja þvengi.

Gengið var upp á Stórastein,
steðjað um mó og hóla,
svolitla stund þá sólin skein,
samt var mest kuldagjóla.
Í íþróttum keppt í ýmsri grein,
á atgervi sást þá bóla.
Næst var svo grillað naut á tein
og nóg var um pylsudrjóla.

Minnisvert þótti mót og gott
mörgum sem komu þarna.
Ýmsir sýndu þar ættarvott
eftir Friðgerði og Bjarna.
Úr Flöguseli var borinn brott
blendingur svips og kvarna[4].
Ekki síst þótti firna flott
fólkið af ætt frá Kjarna[5].

[4] Flöguselsfólkið hefur alltaf þótt skera sig úr öðru fólki hvað varðar útlit og vitsmuni.
[5] Engum þurfti að koma á óvart að bæði Katrín kona Jóns Ólafs Gestssonar og Svanhildur kona Ívars Arnar Benediktssonar reyndust vera af Kjarnaættinni eins og Garðshornssystkinin og Stefán Vilhjálmsson.

 

Er nú í vetur aftur kyrr
ættarreiturinn forni.
Ólæstar standa alltaf dyr.
Ættmaður til þess borni
alltaf má þar sem aldrei fyrr
upplifa blund að morgni
og naumast framar ei nokkur spyr
hvort nátta megi í Horni.