Ólafur Þorláksson[1]
mun hafa fæðst í Hattardal í Álftafirði þar sem Guðríður móðursystir hans bjó frá því að hún giftist og þangað til hún fluttist til Vesturheims. Hann var settur í fóstur hjá Sigríði móðursystur sinni sem giftist suður að Grenjum á Mýrum í Borgarfirði. Hann var vinnumaður á ýmsum bæjum í Borgarfirði þegar hann komst á legg. Hann var nokkur ár bóndi á Smiðjuhólsveggjum í Borgarfirði og bjó þar með Árnýju Ólöfu Ingibjörgu Jóhannesdóttur[2] (1875-1944) en þau slitu samvistum. Með henni eignaðist hann Jóhannes[3] og Gest[4].
Jóhannes ólst upp með móður sinni sem var vinnukona á Hofsstöðum á Mýrum, sagður fóstursonur húsbænda hennar þar í manntalinu 1920. Hann brautskráðist frá Samvinnuskólanum á Bifröst 1926 og var bókhaldari í Reykjavík 1930 og síðar skrifstofustjóri Viðtækjaverslunar ríkisins. Hann bjó síðast á Seltjarnarnesi. Hann var listhneigður, áhugamaður um sígilda tónlist og myndlist og sagður góður málari sjálfur. Hann giftist Steinunni Finnbogadóttur[5] verslunarmanni, sem var fædd og uppalin í Litlabæ í Skötufirði, og átti með henni þrjú börn.
Gestur var fóstursonur hjónanna í Ánabrekku á Mýrum í Mýrasýslu sem fluttu með hann ungan að Þrándarstöðum í Kjós. Um tvítugt gerðist hann bifreiðastjóri og ferðaðist víða en 1941 fékk hann starf sem bifreiðaeftirlitsmaður í Reykjavík og Suðurlandsumdæmi og varð fulltrúi við Bifreiðaeftirlitið 1956. Hann var skipaður forstöðumaður Bifreiðaeftirlits ríkisins 1962 og gegndi því starfi til dauðadags 1971. Fyrri kona hans var Steinunn Sigurðardóttir (1904–1992) frá Harastöðum í Vesturhópi og þau áttu einn son og fósturdóttur. Seinni kona hans var Ragnhildur Þórarinsdóttir Stolzenwald (1908-1993) frá Vestmannaeyjum.
Ólafur Þorláksson eignaðist Rögnu[6] með Jónínu Jóhannsdóttur[7] frá Skíðsholti í Mýrasýslu. Ragna ólst upp sem tökubarn í Þverholtum á Mýrum og sem uppkomin var hún þar bústýra og húsfreyja Jóns Úlfarssonar[8], síðar bifreiðarstjóra í Borgarnesi, og eignaðist með honum soninn Úlfar Gunnar húsasmíðameistara í Reykjavík. Þau skildu. Seinni maður Rögnu var Olgeir Þorsteinsson bóndi á Hólmlátri á Skógaströnd, Gautsstöðum og Hamraendum í Dölum en hún bjó með honum á tveimur síðasttöldu bæjunum. Þau skildu einnig og Ragna flutti til Reykjavíkur.
Ólafur Þorláksson var kominn á fimmtugsaldur þegar hann giftist Ingiríði Guðjónsdóttur[9] frá Uppsölum í Norðurárdal í Borgarfirði en hún hafði áður eignast Núma Þorbergsson dægurlagatextahöfund. Ólafur og Ingiríður voru vinnuhjú á Ölvaldsstöðum á Mýrum 1920 en voru komin vestur á Ísafjörð 1925 og þar hafa þau líklega verið til æviloka Ólafs sem lést á Elliheimilinu á Ísafirði. Þau Ólafur og Ingiríður eignuðust þrjár dætur, Þórunni, Guðrúnu og Maríu.
Þórunn[10] var tökubarn á Hóli í Önundarfirði 1930. Hún fluttist til Reykjavíkur þar sem hún vann við ræstingar og var starfsstúlka á Vífilsstöðum. Þórunn eignaðist fyrst Hafdísi Gerd Paulsen[11] en giftist síðar Samúel Kristni Sigurðssyni frá Berjadalsá á Snæfjallaströnd sem var sjómaður, starfaði í Hampiðjunni og á Keflavíkurflugvelli. Með honum eignaðist hún Ólaf Þorstein[12], Sigurð Jakob[13] (skráður Magnússon eftir kjörföður), Inga Gunnar[14] og loks Óskar Rúnar[15] sem ólst upp hjá Maríu systur Þórunnar frá þriggja ára aldri.
Guðrún[16] fæddist á Álftárbakka á Mýrum en var á Ísafirði 1930. Hún flutti til Reykjavíkur. Fyrri maður hennar var Hilmar Jón Hlíðar Lútersson[17], vélstjóri og pípulagningamaður í Reykjavík, og með honum átti hún tvíburana Hildi Ingu[18] og Steinunni[19]. Seinni maður hennar var Óskar Vigfús Markússon[20] vélstjóri í Reykjavík en börn þeirra eru Ólafur Ingi[21] og Ásdís[22].
María[23] fæddist á Ísafirði. Hún giftist Guðmundi Finnboga Halldórssyni[24] vélstjóra og sjómanni á Ísafirði, lengst af á Djúpbátnum Fagranesinu. Þau bjuggu í Garðshorni á Ísafirði. Fóstursynir þeirra voru Páll Arnór Sigurðsson f. 1953 og Óskar Rúnar Samúelsson, sonur Þórunnar systur Maríu.
Þessi tvístringur, fyrst það að Ólafur ólst upp fjarri foreldrum og systkinum og síðan það að börn hans áttu þrjár mæður, fæddust á rúmum tveimur áratugum og ólust að hluta upp í ólíkum landshornum og þau fyrstu fjögur a.m.k. sem fósturbörn vandalauss fólks, hefur líklega orðið til þess að fjölskyldubönd virðast ekki sterk milli afkomenda Ólafs frekar en við er að búast.
[1] Ólafur Þorláksson f. 26. 8. 1872, d. 29. 8. 1950
[2] Árný Ólöf Ingibjörg Jóhannesdóttir f. 30. 8. 1875, d. 28. 11. 1944
[3] Jóhannes Ólafsson f. 17. 5. 1903, d. 25. 6. 1976
[4] Gestur Ólafsson f. 10. 6. 1906, d. 23. 9. 1971
[5] Steinunn Finnbogadóttir f. 16. 2. 1907, d. 27. 2. 1999
[6] Ragna Ólafsdóttir f. 2. 12. 1916, d. 2. 7. 1999
[7] Jónína Jóhannsdóttir f. 8. 11. 1888, d. 20. 12. 1936
[8] Jón Úlfarsson f. 20. 8. 1912, d. 12. 9. 1981
[9] Ingiríður Guðjónsdóttir f. 30. 6. 1884, d. 3. 9. 1958
[10] Þórunn Ólafsdóttir f. 21. 11. 1918, d. 28. 10. 2001
[11] Hafdís Gerd Paulsen f. 23. 4. 1949, d. 6. 2. 1980
[12] Ólafur Þorsteinn Samúelsson f. 7. 12. 1950
[13] Sigurður Jakob Magnússon f. 14. 1. 1955, d. 13. 7. 2000
[14] Ingi Gunnar Samúelsson f. 9. 4. 1958, d. 24. 10. 1969
[15] Óskar Rúnar Samúelsson f. 10. 4. 1960, d. 21. 9. 2007
[16] Guðrún Ólafsdóttir f. 15. 5. 1921, d. 3. 3. 1997
[17] Hilmar Jón Hlíðar Lútersson f. 3. 1. 1921, d. 18. 6. 1979
[18] Hildur Inga Jónsdóttir f. 4. 11. 1941
[19] Steinunn Hilmarsdóttir f. 4. 11. 1941
[20] Óskar Vigfús Markússon f. 3. 5. 1925,
[21] Ólafur Ingi Óskarsson f. 25. 6. 1958
[22] Ásdís Óskarsdóttir f. 12. 6. 1964
[23] María Ólafsdóttir f. 30. 8. 1925, d. 9. 7. 1993
[24] Guðmundur Finnbogi Halldórsson f. 14. 3. 1926, d. 29. 1. 2005